Ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1989
Mánudaginn 30. október 1989


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Það ber að fagna því að þessi mál skuli rædd nú hér í Sþ. Ástæðan til þess að ég kvaddi mér hér hljóðs var sú að ég átti um þriggja ára skeið sæti í Vestnorræna þingmannaráðinu og flutti þar ýmsar tillögur sem voru samþykktar. Ég minnist sérstaklega tveggja um samskipti og samvinnu á sviði útvarps og sjónvarps og hins vegar um kynningu á málstað þjóðanna hér á norðurhjara í baráttunni við fulltrúa ýmissa umhverfisverndarsamtaka sem m.a. leiddi til þess að selveiðar Grænlendinga og skinnaverkun hrundi vegna aðgerða Greenpeace eða Grænfriðunga. Það var samþykkt tillaga um samvinnu þessara þriggja þjóða til að kynna málstað sinn.
    Nú er það svo að þessar þrjár þjóðir, Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar, eiga auðvitað ákaflega margt sameiginlegt og þó að við störfum saman og innan Norðurlandaráðs á vettvangi norrænnar samvinnu, þá eru ýmis atriði sem okkur varða og varða mjög miklu sem eru bara sameiginleg þessum þremur þjóðum sem eru hér á vesturjaðri svæðisins og skipta verulega miklu. Þess vegna held ég að þetta samstarf sé mjög mikilvægt. Hins vegar hafa það orðið mikil vonbrigði hve ríkisstjórn Íslands og raunar landsstjórn Færeyja og landsstjórnin í Grænlandi hafa sýnt þessum þingmannasamtökum og þeim tillögum sem þar hafa verið samþykktar mikið tómlæti. Það gildir ekkert sérstaklega um þessa ríkisstjórn. Það gildir alveg eins um ríkisstjórnina, og ekki síður, sem sat þar á undan og þar á undan. Ríkisstjórnir hafa sýnt þessu samstarfi fullkomið tómlæti. Það hefur ekkert verið gert með þær tillögur sem þingmenn þessara þriggja landa hafa samþykkt á sínum þingum, nákvæmlega ekki neitt. Og ég vona svo sannarlega að þar verði breyting á frá því sem verið hefur vegna þess að annars fellur þetta samstarf niður. Það er ekki til neins fyrir þingmenn frá þessum þremur þjóðum að koma saman einu sinni á ári í nokkra daga, samþykkja þar tillögur sem síðan er nákvæmlega ekkert gert með, en sú hefur verið raunin fram að þessu. Það er auðvitað ekki aðeins brýnt, heldur nauðsynlegt að þarna verði breyting á því að annars verður þetta samstarf úr sögunni og það má að mínu mati ekki gerast.