Landgræðsla
Mánudaginn 30. október 1989


     Flm. (Egill Jónsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um landgræðslu. Auk mín eru sjö aðrir hv. þm. flm. að þessari till. Það eru þeir Jón Helgason, Geir Gunnarsson, Árni Gunnarsson, Ingi Björn Albertsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Guðmundur Ágústsson og Halldór Blöndal. Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér tillgr. sem er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að hlutast til um að gerð verði markviss áætlun um aðgerðir til að stöðva eyðingu jarðvegs og gróðurs á Íslandi þar sem þess er kostur. Sérstök áhersla verði lögð á að afmarka þau landsvæði þar sem sandfok á sér enn stað svo að unnt sé að hefja þar skipulagt ræktunarstarf. Kannað verði hvort Áburðarverksmiðju ríkisins muni fært að lækka verð á áburði til landgræðslustarfa sem einkum væri ráðstafað til brýnna verkefna. Miðað verði við að um næstu aldamót verði uppblástur þessara svæða stöðvaður.``
    Nú eru um það bil 80 ár liðin frá því að skipulagt landgræðslustarf á vegum Landgræðslu ríkisins hófst hér á þessu landi og vissulega hefur náðst mjög mikilvægur árangur á þessu árabili og því meiri sem tímar hafa liðið. Það má segja að nýr áfangi eða þáttur þessa starfs hæfist árið 1974 þegar tekin var ákvörðun um það að hefja hér til vegs landgræðsluáætlun, fimm ára áætlun í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Það verður þó að segjast eins og er að í þeirri tillögugerð og þeim skýringum sem henni fylgdu gætti nokkuð mikillar bjartsýni þannig að hún ein dugði ekki til þess að ná þeim árangri sem að var stefnt. Enda reyndist það því miður þannig að það fjármagn sem ákveðið var á þingfundi, sem haldinn var á Þingvöllum þetta sama ár og í þessu sérstaka tilviki, að skyldi koma til þessara verkefna barst því miður aldrei til þessara verkefna og er að sjálfsögðu sárt til þess að vita.
    Það hefur hins vegar verið stöðug og góð þróun í þessum verkefnum og mjög mikilvægur árangur hefur náðst. Helstu og viðkvæmustu landsvæðin sem nú er við að fást og þar sem landeyðing á sér enn stað í nokkrum mæli eru um ofanverðar Þingeyjarsýslur frá Bárðardal í vestri og til Hólsfjalla í austri. Má segja að einnig sé svipað ástatt með efri hluta byggða hér sunnan lands, afréttina frá Biskupstungum og til Rangárvalla í austri. Það er þó ekki fyrir það að synja að á öllum þessum svæðum hefur mjög verðmætt starf verið unnið þó að þar sé enn þá fyrir höndum mikil barátta, sérstaklega norðan jökla. Svo eru auk þess landsvæði þar sem enginn gróður er eða í mjög takmörkuðum mæli, eins og t.d. á Mýrdalssandi, sem mikil þörf er á að græða upp m.a. vegna nauðsynlegrar umferðar þar um sandinn. Má segja að það starf sé nú þegar hafið í dálitlum mæli.
    Þegar vel er að gáð þá er hægt að ákvarða einmitt þessi svæði og afmarka þau svæði þar sem landeyðing á sér enn stað í umtalsverðum mæli og beina sérstaklega aðgerðum að þeim. Þetta er afar mikilvæg staðreynd því að þessi aðferð er miklu fljótvirkari en

sú sem menn hafa gjarnan verið að leitast við að beita, að afmarka gróðursvæðin og síðan að ákvarða aðgerðirnar út frá þeim niðurstöðum sem þannig fást.
    Ég sagði frá því áðan að í þessum efnum hefðu orðið miklar framfarir á síðustu árum og í því sambandi þykir mér vert að benda sérstaklega á að flugvélakostur Landgræðslu ríkisins, áburðarflugvélakostur, hefur núna verið bættur þannig að nú mun afkastageta þeirra flugvéla vera næg til þess að hægt sé að dreifa 4--5 þúsund tonnum af áburði og með því að þessi afkastageta er fyrir hendi, þá gefur það auga leið að hér er um mikla hagkvæmni að ræða að geta nýtt þennan tækjakost.
    Annar mjög mikilvægur áfangi hefur náðst núna á allra síðustu árum. Það er bygging fræræktarstöðvarinnar í Gunnarsholti sem gerir mögulegt að sá fræi úr flugvélum með miklu betri árangri en áður var, bæði með tilliti til nýtingar á sáðvörum og eins með tilliti til spírunar fræsins. Þetta er mjög verðmætur árangur og stórauðveldar þetta mikilvæga ræktunarstarf.
    Í tillögunni er sérstaklega á það minnst að kannað verði hvort unnt sé að fá áburð frá Áburðarverksmiðju ríkisins með hagkvæmari kjörum ef um stærri verkefni er að ræða og jafnframt er á það bent í tillögugreininni að ef til slíks kæmi, þá yrði þeim viðbótaráburði sem þannig fengist beint til sérstakra stórra verkefna. Á þetta er minnst hér m.a. vegna þess að á síðustu árum hefur dregið úr áburðarkaupum af augljósum ástæðum og afkastageta Áburðarverksmiðjunnar er ekki nándar nærri fullnýtt. Þess vegna er lögð á það áhersla að hagkvæmni þess að framleiða meira sé sérstaklega könnuð og að sú hagkvæmni muni verða notuð til þess að auka áburðarkaup og þá um leið stórbæta skilyrði Landgræðslu ríkisins í þessu mikilvæga starfi.
    Ég ætla svo að lokum, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér niðurlag greinargerðarinnar sem skýrir þetta mál enn betur en hér hefur komið fram í mínu máli, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eins og kunnugt er ákvað Alþingi að minnast ellefu alda byggðar með þjóðarátaki í græðslu landsins. Þessari ákvörðun var svo fylgt eftir með fimm ára landgræðsluáætlun áranna 1974--1978. Síðan hafa verið gerðar tvær landgræðsluáætlanir, þ.e. 1982--1986 og 1987--1991. Þetta skipulagða landgræðslustarf, sem nálgast hálfan annan áratug, rennir traustum stoðum undir nýjar ákvarðanir sem sérstaklega beindust að þeim landsvæðum þar sem eyðingaröflin skapa mesta hættu. Eðlilegt er að miða við að sú áætlun um græðslu landsins, sem hér er lagt til að gerð verði, komi í framhaldi af þeirri landgræðsluáætlun sem nú er í gildi. Hér má því engan tíma missa.
    Það er að sjálfsögðu grundvallaratriði að nú sem fyrr setjist menn niður og gangi frá nýrri landgræðsluáætlun með það markmið að leiðarljósi sem hér hefur sérstaklega verið skýrt og tillagan fjallar um, þ.e. að landeyðing verði stöðvuð um næstu aldamót. Það er vissulega óhætt að fullyrða að tæpast

væri hægt að skila betri niðurstöðu í meðferð landsins og græðslu þess til næstu aldar en að ná því mikilvæga markmiði.
    Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til atvmn. sameinaðs Alþingis.