Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 31. október 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1990 og er frv. 69. mál þessa þings.
    Frv. til lánsfjárlaga er nú sem fyrr mótað af niðurstöðu fjárlagafrv. og þeirri efnahagsstefnu stjórnvalda sem markar það hverju sinni. Að þessu sinni eru helstu einkenni frv. til fjárlaga sem snerta lánsfjármál eftirfarandi:
    1. Þrátt fyrir samdrátt útflutningstekna og tæplega 3 milljarða halla á fjárlögum munu erlendar skuldir ríkissjóðs ekki aukast. Lánsfjárþörf ríkissjóðs, sem er áætluð lægri en um árabil, verður alfarið brúuð með innlendri lántöku.
    2. Hrein innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs og opinberra lánastofnana mun lækka um 4 milljarða kr. á árinu 1990, og góðar líkur eru á að henni verði náð án hækkunar á vöxtum.
    3. Þenslumyndandi áhrif ríkissjóðs og opinberra lánastofnana á lánsfjár- og peningamörkuðum á árinu 1990 verða hverfandi eða nema aðeins fáeinum hundruðum millj. kr. og lækka um 8 milljarða kr. frá því sem verður í ár.
    Ég vil vekja sérstaka athygli hv. deildar á þessari staðreynd, að þenslumyndandi áhrif ríkissjóðs og opinberra lánastofnana á peningamarkaðnum á árinu 1990 munu lækka um 8 milljarða kr. og nánast hverfa alveg. Um þetta efnisatriði er að finna sérstaka töflu í frv. til fjárlaga þar sem þessi þróun er skýrð í sögulegu samhengi.
    Aðstæður á innlendum lánamarkaði hafa mjög þróast í átt til aukins jafnvægis á árinu 1989. Dregið hefur úr eftirspurn eftir lánsfé og betra jafnvægi komist á milli aukningar innlána og útlána lánastofnana. Gætir þar áhrifa af samdrætti í einkaneyslu og fjárfestingu, auk þess sem birgðir útflutningsvara eru með allra minnsta móti um þessar mundir. Í kjölfar þessa hafa raunvextir lækkað og lausafjárstaða innlánsstofnana hefur farið batnandi. Útlit er nú fyrir að hún batni um tæplega 6,3 milljarða kr. á árinu 1989.
    Helstu niðurstöður peningamálaáætlunar vegna ársins 1990 benda til lítils háttar rýrnunar á lausafjárstöðu innlánsstofnana og horfur eru á að lán og endurlán innlánsstofnana aukist um 15,3%. Samkvæmt lánsfjáráætlun og frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1990 eru heildarlántökur opinberra aðila, opinberra fjárfestingarlánasjóða og atvinnufyrirtækja áætlaðar um 39,7 milljarðar kr. Í lánsfjáráætlun og lánsfjárlögum 1989 voru heildarlántökur þessara aðila áætlaðar 36,8 milljarðar en endurskoðuð áætlun bendir til þess að lántökurnar verði í reynd um 48 milljarðar kr.
    Heildarlántökur á árinu 1990 eru því áætlaðar um 8 milljörðum kr. lægri en í ár og borið saman á meðalverðlagi ársins 1989 nemur lækkunin um 13 milljörðum kr. Mestu munar að lántökur ríkissjóðs eru taldar lækka um rúma 9 milljarða kr., annars vegar vegna minni halla í rekstri ríkissjóðs og hins vegar

vegna minni innlausnar spariskírteina, auk þess sem ríkissjóður tók 5 milljarða erlent lán á árinu 1989 eingöngu til að fjármagna greiðsluhalla ársins 1988.
    Áætlað er að innlendar lántökur opinberra aðila og lánastofnana nemi um 18,3 milljörðum kr. samanborið við 22,7 milljarða í ár. Innlendar afborganir þessara aðila eru áætlaðar um 8,8 milljarðar kr. Hrein lánsfjáröflun ríkissjóðs og opinberra lánastofnana er því áætluð um 9,5 milljarðar kr. á árinu 1990 sem er um 4 milljörðum kr. lægri fjárhæð en hrein lánsfjáröflun þessara aðila í ár. Að raungildi er lækkunin enn meiri þar sem gert er ráð fyrir 15--16% hækkun verðlags milli ára. Þess má og geta að hrein lánveiting lífeyrissjóða til byggingarsjóðanna er áætluð um 9,8 milljarðar á árinu 1990 og þá ber að hafa í huga að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna umfram það sem umsamið er til húsnæðiskerfisins er áætlað tæpir 11 milljarðar kr. Með þetta tvennt í huga verða að teljast mjög góðar líkur á því að innlendri lánsfjárþörf opinberra aðila og sjóða verði fullnægt án hækkunar á vöxtum á árinu 1990.
    Hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs á árinu 1990, það er lántökuþörf ríkissjóðs umfram það sem hann greiðir í afborganir af áður teknum lánum, er áætluð 1 milljarður 645 millj. kr. sem er um 1,2 milljörðum kr. lægri fjárhæð en áætlaður fjárlagahalli, og vek ég sérstaka athygli hv. deildarmanna á þeirri staðreynd. Sú fjárhæð svarar til 0,5% af vergri landsframleiðslu. Í ár er þetta hlutfall áætlað 1,6% en var hins vegar á góðærisárinu 1987 2,7% og á árinu 1988 3,2%. Lántökuþörf ríkissjóðs mun því minnka umtalsvert frá því sem hún var á árunum 1987 og 1988. Enda má segja að það hafi verið ein af grundvallarskekkjum efnahagsstjórnar ársins 1987 að vera á þenslutímum með gífurlega lántökuþörf ríkissjóðs.
    Eins og nú er ástatt í þjóðarbúskap okkar Íslendinga er ekki talið ráðlegt að ríkissjóður greiði niður erlendar skuldir sínar, en hins vegar eru heldur ekki nein áform um að auka þær. Ríkissjóður mun því eingöngu taka ný erlend lán á árinu 1990 fyrir sem nemur afborgunum af erlendum lánum, en þær eru áætlaðar um 1 milljarður 370 millj. kr. Lánsfjárþörf ríkissjóðs verður því
alfarið brúuð með innlendri lántöku í formi sölu á spariskírteinum ríkissjóðs að fjárhæð 6 milljarðar kr. og innlendar afborganir ríkissjóðs af teknum lánum eru áætlaðar 3 milljarðar 330 millj. kr.
    Innlend lántaka umfram afborganir nemur því 2 milljörðum 670 millj. kr. Þar sem lánsfjárþörfin er hins vegar einungis 1 milljarður 645 millj. kr. verður, og ég vek sérstaklega athygli einnig á því, um 1 milljarður greiddur inn í Seðlabankann til að bæta stöðu ríkissjóðs þar. Það er von að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson brosi að þessari staðreynd vegna þess að hún endurspeglar auðvitað mjög vel muninn á þeirri efnahagsstefnu sem fylgt er nú og þeirri sem fylgt var fyrir nokkrum árum síðan. Jafnvel þótt þessi upphæð væri ekki greidd inn í Seðlabankann endurspeglar hún það svigrúm sem er í áætlununum upp á 1 milljarð kr.

    Verulega mun draga úr innlausn spariskírteina á næsta ári. Áætlað er að innlausn á árinu 1990 verði um 2 milljarðar, en áætluð innlausn á árinu 1989 er 3,8 milljarðar. Innlausnin verður því um helmingi minni á næsta ári en á árinu í ár. Hrein lánsfjárþörf í formi spariskírteina á næsta ári er því áætluð um 4 milljarðar kr. samanborið við 2,2 milljarða á árinu 1989.
    Stærstur hluti innlenda fjármagnsins á eins og venjulega uppruna sinn að rekja til lífeyrissjóðanna. Áætlað er að ráðstöfunarfé þeirra verði um 24,1 milljarður kr. á áætluðu meðalverðlagi næsta árs og mun það aukast að raungildi, og vek ég einnig athygli á þeirri staðreynd, um 18% frá því sem áætlað er á yfirstandandi ári. Skýrist sú aukning einkum af tvennu: Í fyrsta lagi lokaáfanga í breikkun iðgjaldsstofns lífeyrissjóðanna sem kemur til framkvæmda í byrjun næsta árs og í öðru lagi af stækkun eignastofns lífeyrissjóðanna sem leiðir til mjög vaxandi vaxtatekna og afborgana. Reiknað er með að lífeyrissjóðirnir kaupi skuldabréf af byggingarsjóðunum fyrir 45% af ráðstöfunarfé sínu, þ.e. fyrir 10 milljarða 855 millj. kr. og er þá miðað við að kauphlutfallið lækki úr 55% í 45% af ráðstöfunarfé. Þessi lækkun er í samræmi við þau fyrirheit sem gefin voru í tengslum við lagasetningu um húsbréfaviðskipti, en þar er gert ráð fyrir að um 10% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna renni til kaupa á húsbréfum.
    Reiknað er með því að lífeyrissjóðirnir kaupi húsbréf fyrir a.m.k. tæplega 2,5 milljarða kr. Ráðgert er að afla innan lands alls 1 milljarðs 340 millj. kr. með öðrum hætti en sölu spariskírteina og verðbréfakaupum lífeyrissjóðanna. Er það um 300 millj. kr. lægri fjárhæð en endurskoðuð lánsfjáráætlun fyrir 1989 gerir ráð fyrir. Ekki er sett fram nákvæm áætlun um hvaðan eigi að afla þess fjár en benda má m.a. á óbundið ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna.
    Virðulegi forseti. Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1990 er reiknað með að viðskiptahallinn verði um 10 milljarðar kr. eða um 3% af áætlaðri landsframleiðslu. Það er svipað og reiknað er með í ár. Slíkt verður að teljast einstakur árangur, að viðskiptahalli aukist ekki þrátt fyrir þriðja samdráttarárið í röð og umtalsverðan samdrátt útflutningstekna. Ég held að það sé varla hægt að finna dæmi um slíkt, að tekist hafi með samræmdum aðgerðum í efnahagsmálum, ríkisfjármálum og peningamálum að koma í veg fyrir að viðskiptahalli aukist á samdráttartímum. Þessi árangur er síðan í reynd enn meiri ef það er haft í huga að af þessum 10 milljörðum kr. nema flugvélakaup Flugleiða tæpum 8 milljörðum kr. á næsta ári og það sjá allir hv. alþm. að slíkt er ekki aðgerð sem réttlætanlegt er að taka inn í samanburð milli ára því að slík umfangsmikil flugvélakaup okkar stærsta flugfélags gerast mjög sjaldan.
    Erlendar lántökur til lengri tíma eru áætlaðar rúmur 21 milljarður kr. Greiðslur þjóðarbúsins af löngum erlendum lánum eru áætlaðar um 2,4 milljarðar kr. á árinu 1990. Þar af eru afborganir 10,4 milljarðar og

vextir 14 milljarðar. Hreinar erlendar lántökur til langs tíma nema því um 11 milljörðum kr. eða um 900 millj. kr. umfram áætlaðan viðskiptahalla. Af þeirri fjárhæð nema hreinar erlendar lántökur ríkissjóðs og opinberra lánastofnana einungis 1,6 milljörðum kr. af þeim 11 milljörðum kr. sem hér um ræðir.
    Erlendar skuldir þjóðarinnar til langs tíma eru taldar aukast um 12% á árinu 1989 í erlendri mynt. Að raungildi nemur sú hækkun hins vegar aðeins 8%. Á sama tíma dregst landsframleiðslan saman um 2,8%. Hlutfall langra erlendra lána af landsframleiðslu hækkar um tæp 9%, úr 41,3% árið 1988 í 50,4% á árinu 1989. Í forsendum lánsfjáráætlunar 1990 er gert ráð fyrir um 13% hækkun á meðalgengi erlendra gjaldmiðla og um 6% aukningu erlendra lána. Skuldahlutfallið í árslok 1990 er áætlað 53,1% af vergri landsframleiðslu ársins og er þar tekið tillit til 0,9% samdráttar í vergri landsframleiðslu næsta árs.
    Hreinar skuldir þjóðarbúsins námu 41,6% af vergri landsframleiðslu á árinu 1988 og eru taldar verða um 48,3% í árslok 1989. Er það hagstæðari þróun en hlutfall langra erlendra lána sýndi hér að framan. Frávikin skýrast af því að löngu lánin sýna aðeins hluta af fjármögnun viðskiptahallans. Hrein staða
þjóðarbúsins tekur til allra þátta til að mæta viðskiptahallanum, þ.e. langra lána, skammtímalántöku og rýrnandi gjaldeyrisstöðu. Lækkun skammtímaskulda á árinu 1989 og bætt gjaldeyrisstaða skýrir minni hækkun hreinna skulda þjóðarinnar samanborið við erlendar skuldir til langs tíma. Í forsendum áætlunar fyrir árið 1990 er gert ráð fyrir að þetta hlutfall hækki nokkuð til jafns við hlutfall langra erlendra lána á árinu 1990 og nemi 50,7% af vergri landsframleiðslu.
    Það hefur nokkuð verið vikið að því í umræðum hér á Alþingi síðustu daga að erlendar skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu séu vaxandi og hafa menn þar vitnað í ákveðnar töflur frá Seðlabankanum máli sínu til staðfestingar. Það er hins vegar villandi að taka þær töflur eins og þær birtast einar og sér vegna þess að í reynd verður auðvitað líka að taka mið af breyttu gengi krónunnar og breytingum á landsframleiðslunni til þess að sjá hvort um einhverja raunverulega breytingu er að ræða eða eingöngu um breytt prósenthlutfall án þess að sú stærð sem um er að ræða hafi í eðli sínu breyst.
    Þau hlutföll skulda af landsframleiðslu sem ég rakti hér að framan hækka því ekki eingöngu vegna þess að skuldirnar séu að vaxa heldur, og ekki síður, --- og reyndar er það stærsti hluti þessara breytinga --- vegna lækkunar raungengis krónunnar og minnkandi landsframleiðslu. Þannig má rekja um 70% af þessum breytingum til þessara þátta ef borin eru saman árin 1989 og 1990. Þess vegna er það í raun og veru mjög varhugavert að draga miklar efnislegar ályktanir af þessum breyttu hlutföllum varðandi skuldasöfnun þjóðarbúsins út á við nema menn telji að samdrátturinn í landsframleiðslu muni vera viðvarandi um langa framtíð. Viðskiptahallinn er í raun miklu betri mælikvarði á skuldasöfnun þjóðarbúsins heldur en fyrrgreindar prósenttölur sem ég hef hér rakið.

    Greiðslubyrði erlendra lána eykst á yfirstandandi ári og því næsta. Ástæður þessa eru auknar erlendar skuldir og hækkun á meðalvöxtum af erlendum lánum í um 8,5%. Greiðslubyrði erlendra lána er áætluð um 19,7% af útflutningstekjum ársins 1989 og 20,1% á árinu 1990.
    Á allra síðustu árum hafa innlendar stofnanir með ríkisábyrgð í vaxandi mæli leitað á erlendan lánamarkað í stað þess að taka erlend lán fyrir milligöngu Framkvæmdasjóðs Íslands, ríkissjóðs og annarra. Allar þessar stofnanir taka lán í skjóli ríkisábyrgðar og eru kynntar sem slíkar á alþjóðlegum markaði. Hins vegar tel ég nauðsynlegt að vekja athygli á því hér að í mjög takmörkuðum mæli hefur verið fylgst með lántökustarfsemi þeirra enda þótt miklir hagsmunir séu í húfi fyrir ríkissjóð og mikilvægt sé að samræmi sé á milli þeirra lánskjara og skilmála sem stofnanir með ríkisábyrgð og ríkissjóður sjálfur njóta á alþjóðlegum mörkuðum. Það nýmæli er því tekið upp í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1990 að gera lánasjóðum og öðrum aðilum sem njóta ríkisábyrgðar á skuldbindingum sínum skylt að kynna Seðlabanka Íslands í umboði fjmrn. fyrir fram um áform sín um erlendar lántökur og leita eftir samþykki hans á þeim kjörum og skilmálum sem í boði eru hverju sinni. Þetta ákvæði er tekið upp til þess að tryggja að samræmi sé á milli þeirra lánskjara sem stofnanir með ríkisábyrgð og ríkissjóður sjálfur njóta á alþjóðlegum lánamörkuðum.
    Virðulegur forseti. Heildarfjárfesting er áætluð um 62 milljarðar kr. á árinu 1990 sem að magni til þýðir um 1% samdrátt frá yfirstandandi ári. Hér verður aftur að víkja að endurnýjun flugflotans en að honum frádregnum má ætla að fjárfestingin dragist saman um 9% að magni. Opinberar framkvæmdir eru taldar munu aukast um tæp 4% milli ára reiknað á föstu verðlagi og er þar eingöngu um að ræða aukningu í framkvæmdum við rafvirkjanir, sérstaklega við Blönduvirkjun, en þær eru taldar aukast um 47%. Aðrar opinberar framkvæmdir munu hins vegar dragast saman um 5%. Fjárfesting atvinnuvega önnur en flugvélakaup er talin dragast saman um fimmtung en það verður að skoðast í ljósi þess að hún jókst um meira en 70% á árunum 1984--1987.
    Fjárfesting í íbúðarhúsnæði er áætluð 13,5 milljarðar kr. á árinu 1990 og er þá gert ráð fyrir jafnmiklum framkvæmdum og í ár. Lánveitingar byggingarsjóðanna að viðbættum kaupum lífeyrissjóða á húsbréfum eru áætlaðar tæpir 14 milljarðar kr. Er þá rétt að vekja athygli á því að lánveitingar þessara sjóða verða ríflega það sem þarf til að fjármagna nýfjárfestingar í íbúðarhúsnæði. Er það mjög ríflegt miðað við það sem verið hefur á undanförnum árum og var af þeim sökum ekki talin þörf á nema 150 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði til Byggingarsjóðs ríkisins á næsta ári.
    Virðulegi forseti. Fjárfestingarlánasjóðir gegna þýðingarmiklu hlutverki í fjármögnun fjárfestinga á Íslandi, ekki hvað síst sökum þess hve áhættufjármagn í atvinnurekstri er í reynd óverulegt í okkar landi. Í

lánsfjáráætlun fyrir árið 1990 eru ný útlán fjárfestingarlánasjóða áætluð um 20 milljarðar kr. Er það svipuð fjárhæð og áætluð var fyrir þetta ár, en í lánsfjáráætlun 1989 voru heildarútlán áætluð 20,4 milljarðar kr. Endurskoðuð áætlun fyrir þetta ár telur hins vegar að útlán þeirra verði nálægt 25,7
milljörðum kr. Ný útlán fyrir árið 1990 eru því um fjórðungi lægri en á yfirstandandi ári. Stafar þessi lækkun fyrst og fremst af minnkandi umsvifum Atvinnutryggingarsjóðs og Framkvæmdasjóðs.
    Fjármögnun fjárfestingarlánasjóða, sem útlánastarfsemi þeirra byggist á, gerist sem kunnugt er með þrennum hætti:
    1. Eigin fjármögnun af fé sem losnar úr rekstri.
    2. Framlögum frá hinu opinbera og skatttekjum eins og lög ákveða.
    3. Lánsfé eins og ákveðið er í lánsfjárlögum.
    Til að standa undir framangreindum heildarútlánum, 20 milljörðum kr., þurfa sjóðirnir að taka að láni 16,6 milljarða kr. Framlög og skatttekjur nema tæpum 3 milljörðum en eigið ráðstöfunarfé nemur aðeins um hálfum milljarði kr. eða 2,4% af heildarútlánum.
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í ræðu minni einkennist frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1990 af miklu aðhaldi á lánsfjármarkaði. Dregið er allverulega úr lánsfjárþörf ríkisins og sama gildir um opinberar lánastofnanir. Er þetta gert í því skyni að tryggja jafnvægi á peningamarkaði svo að vextir geti haldið áfram að lækka. Einnig eru í frv. mikilvæg nýmæli varðandi skyldur þeirra aðila sem njóta ríkisábyrgða á erlendum lántökum sínum. Mikilvægt er jafnan að staðið sé þannig að þeim málum að lánskjör íslenskra aðila með ríkisábyrgð á erlendum lánamörkuðum séu sem best því að lánskjörin hafa afgerandi áhrif á þjóðartekjur okkar Íslendinga. Ég tel því að sú breyting sem hér er lögð til á meðferð þeirra mála sé mikið efnahagslegt hagsmunamál auk þess sem hún leiðir til skynsamlegri vinnubragða í lántökum Íslendinga á erlendum mörkuðum.
    Virðulegi forseti. Að svo mæltu legg ég til að frv. þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.