Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 31. október 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Eins og auðvitað hefur margsinnis verið vikið að eru lánsfjárlög í eðli sínu hluti fjárlaga. Ég held að það hafi verið mistök á sínum tíma að skilja þessa löggjöf frá fjárlögunum sjálfum og fela tveim nefndum að fjalla um meira og minna sömu málin því að erfitt er að meta fjárlögin öðruvísi en að hafa hliðsjón af lánsfjárlögunum og fjalla um þau samtímis. Þetta held ég að við hæstv. fjmrh. séum kannski meira sammála um en margt annað og þess vegna væri það mjög ánægjulegt að reynt yrði að vinna að því við endurbætur á fjárlagagerð að sameina þetta verk, sem annars vegar er unnið af fjvn. og hins vegar af fjh.- og viðskn., þessari deild til heiðurs venjulega flutt í henni vegna þess að hún er vinnusöm og reynir að greiða fram úr flækjum og þær eru æðimargar núna sýnist mér, kannski fleiri en oft áður. Þar sem ég á sæti í nefndinni mun ég að sjálfsögðu leitast við að starfa þar að því að brjóta þessi mál til mergjar eftir því sem kostur er.
    Hæstv. ráðherra var hér eðlilega kannski með langan talnalestur. Ýmislegt þótti mér nú stangast þar hvað á annað en látum það vera. Það má kalla það orðhengilshátt. En hitt er þó a.m.k. í öllu falli alveg áreiðanlegt að fólkið í landinu skilur það ekki að núna sé fram undan einhver voðalega mikil batnandi tíð fyrir ríkissjóð, fyrir atvinnuvegina, fyrir fólkið sjálft. Fólk á Íslandi er svo nautheimskt að það skilur ekki þá fullyrðingu hæstv. fjmrh. að kjör lægst launaða fólksins hafi batnað eins og hann margítrekaði, m.a. í sjónvarpsumræðum. Ég held að fólkið með 50--60 þús. kr. laun hafi bara alveg orðið steinhissa. Það fór að telja aftur í buddunni sinni og ég held að það hafi ekki komist að raun um að kjörin hafi mikið batnað það ár sem hæstv. ráðherra hefur verið í þessum virðulega stól sínum.
    Ég sé hér varaformann Verkamannasambandsins kímileitan og mig langar að spyrja hann: Heldur hann að kjör lægst launaða fólksins hafi batnað á síðasta ári? Hann svarar því ekki. Ég veit hvað hann hugsar. (Gripið fram í.) Hann svarar á eftir, gott.
    Skattahækkanir sem dynja yfir eru gífurlegar. Það er enginn fær um það, hvorki ég né hæstv. ráðherra, að meta hve miklar þær verða. Það er nefnilega alveg rétt sem hann vék að hér áðan, sagði að vísu ekki berum orðum en það fólst í orðum hans, að hallinn á fjárlögum þessa árs væri kominn til af því að tekjurnar hafa hækkað minna en gert var ráð fyrir og útgjöld ríkisins meira. Þetta er nákvæmlega það sama og fyrirrennari hans sagði hér fyrir rúmu ári þegar hann var að lýsa því að það yrði 7 milljarða halli á fjárlögunum eftir þær miklu skattahækkanir sem urðu árið 1987. Hann var þá að lýsa því að gatið, sem hann ætlaði að fylla upp í með 3 eða 4 milljörðum og loka því þannig, og hafa svo borð fyrir báru með því að hafa skattana svolítið hærri en þetta, yrði meira en nokkurn hefði órað fyrir. Í árslokin var hallinn svo orðinn yfir 7 milljarðar. Það var talið að hann gæti orðið einn milljarður í fyrrasumar, það var talið af

þessum embættismönnum sem allt geta reiknað og allt vita með allar tölvurnar sínar og sem eru að reikna ofan í fólkið og reyna að reikna ofan í okkur þm. sem skiljum nú ekkert af þessu náttúrlega. Fólkið hlustar mátulega þannig að það skilur rótina, en við erum að velta tölunum hérna á milli okkar og botnum auðvitað ekkert í því hvernig þetta allt saman getur gerst. Svo koma þeir bljúgir, hæstv. fjmrh. var í aðra röndina núna mjög bljúgur þegar hann var að rekja það að þetta væri nú æðimiklu betra sem stefnt væri að á næsta ári heldur en hefði verið hjá þeim hæstv. fjmrh. sem var við völd í eitt ár. Þetta ætti nú allt að verða nokkuð mikið betra. Það væri verið að bæta úr þessu og bæta úr hinu og menn horfðu fram á batnandi tíð.
    Það er líka rétt hjá honum að það er ekki hægt að reikna það í prósentum hvað skuldir ríkisins eru miklu hærri þetta árið heldur en hitt. Það er aldeilis laukrétt þegar hæstv. ráðherra segir að breyting á skuldastöðunni miðað við landsframleiðslu sé ekki marktæk. Þegar landsframleiðslan dregst saman, segir hann, fer minnkandi, þá verður prósenttala erlendu skuldanna auðvitað hærri en ella hefði orðið og hann segir að þetta muni nú hvorki meira né minna en 70%. Ég skil ekki hvernig sú prósenta er fundin, þessi 70%. Hitt liggur auðvitað í hlutarins eðli. ( Fjmrh.: Ásamt gengisbreytingunni.) Ásamt
gengisbreytingunni? ( Fjmrh.: Já.) 70%, ég skil ekki hvernig það er reiknað. Mig varðar ekkert um það hvernig menn reyna að reikna það þarna í ráðuneytunum, ég tek lítið mark á þessum reiknikúnstum þeirra. En efni málsins liggur auðvitað í hlutarins eðli, þetta skilur hvert mannsbarn.
    Þegar það tekst, sem er stefna þessarar ríkisstjórnar, að stöðva þensluna eins og þeir kalla það, þ.e. minnka atvinnuna, draga saman bæði launakjör og framkvæmdir í landinu, rýra kaupmátt launanna, skerða hag eins og allra í þjóðfélaginu, þegar það tekst minnkar auðvitað landsframleiðsla. Hún hét nú einu sinni þjóðarframleiðsla, og er kannski rétt að rifja upp að það gerðist þannig að þáv. hæstv. fjmrh. hafði lýst því yfir að ef erlendar skuldir færu yfir 60% minnir mig af þjóðarframleiðslu, þá mundi hann segja af sér. Svo læddust skuldirnar upp fyrir þessi 60% og þá kom forstjóri Þjóðhagsstofnunar
þáv., hæstv. núv. viðskrh., með frétt um það að þetta væri nú í lagi vegna þess að það væri búið að reikna nýjan grunn. Nú héti þetta landsframleiðsla, það væri búið að taka aðra liði inn í þannig að þetta hefði lækkað í 54% sem var áður komið yfir 60% og ráðherrann gæti þess vegna setið áfram svo að það er enginn vandi fyrir þennan hæstv. ráðherra alveg eins og þáv. fjmrh., flokksbróður minn þá, Albert Guðmundsson, að sitja áfram með allra handanna reiknikúnstum. Það er hægt að reikna og það er hægt að sanna allt með tölum, jafnvel tölvurnar geta þetta ef þær eru mataðar rétt. Það er meira að segja hægt að setja vírusa í þær sem koma fram þeim veikindum sem óskað er eftir. (Gripið fram í.) Já, gæti verið það.
    En ráðherrann hefur gripið til þess ráðs að tilkynna

nú að fjárlög næsta árs verði með um það bil þriggja milljarða halla. Á þessu ári verða þau, eftir upplýsingum í því plaggi sem dreift er sem næsta máli hér á dagskrá, með 4,7 milljarða gjöld umfram tekjur. Þetta er matið núna. Miðað við matið í fyrra á þessu ætti þetta eftir að tvöfaldast eða svo til áramóta, verða kannski 5 milljarðar eða eitthvað í þá áttina. Við fáum að sjá það allt saman. En þetta var nú innskot. Hann hefur sem sagt gripið til þeirra ráða að gefa út mikið aukið magn skuldabréfa, þ.e. að afla innlends lánsfjár til þess að geta sýnt fjárlög með halla. Og talar um að hann geti orðið 3 millj. Ég spái í að hann verði nú a.m.k. 13 vegna þess að 13 gera það auðvitað að verkum að rauntekjur hæstv. ráðherra fara minnkandi á hverjum degi, vegna þess að kaupmátturinn fer minnkandi á hverjum degi. Atvinnuvegirnir eru að stöðvast og flestir eru reknir með tapi þannig að tekjur hans verða miklu, miklu minni en hann áætlar. Og hallinn verður auðvitað miklu, miklu meiri en nokkurn tíma áður. Og hver á að borga skattana sem eru nú mest neysluskattar þegar fólkið getur ekki keypt brýnustu nauðsynjar, hvað þá einhverjar lúxusvörur þegar atvinnuvegirnir eru reknir með tapi? Hvar ætlar þá hæstv. ráðherra að fá þessar tekjur? Og hver á að geta lánað honum íslenska peninga þegar enginn getur lagt fram sparifé?
    Hann gat þessa á blaðamannafundi sem eru nú tíðum haldnir. Það er venjulega ekki verið að skýra Alþingi frá meginatriðum þess sem er að gerast í ríkisstjórn eins og í siðuðum þjóðfélögum þar sem þjóðþingin fá yfirleitt fyrst að vita um stórtíðindi. Þau eru flutt þar og mælt fyrir þeim þar. Hér er það allt saman auglýsingastarfsemi upp úr og niður úr, með mismunandi hárgreiðslum og sminki og uppstillingum. En látum það vera. Þá fór hann að líkja þessu eitthvað við mínar hugmyndir, sem ég hef raunar ritað um í áratug, um að það væri engin hætta á ferðum þó að ríkissjóður yrði einhvern tíma rekinn með halla ef fjárins væri aflað með innlendri skuldabréfaútgáfu. Hæstv. ráðherra játaði því hér í fyrravetur, alveg berum orðum, að mínar skoðanir og það sem ég hef sagt um það í 10 ár væri rétt. ( Fjmrh.: Aprílgabb.) Rétt, ég held að ég muni nákvæmlega hvernig þetta orðalag var. Ég spurði hæstv. ráðherra að því ( Fjmrh.: Hvað varðaði mig, játa ummæli mín hvort ... ) Ég held að ég muni þetta nokkurn veginn orðrétt. Ég spurði hæstv. fjmrh. þáv. og núv. úr ræðustól í SÞ., alla vega var það úr hinum ræðustólnum, að því hver væri kröfuhafi á hendur ríkissjóði ef ríkissjóður skuldaði borgurunum einhverja fallega upphæð eins og 100 milljarða. Í fyrsta umgangi svaraði ráðherrann ekki. Í öðrum umgangi svaraði hann eitthvað á þann veg: Þú veist þetta, eitthvað svoleiðis. Í þriðja umgangi held ég: Það vita það allir. Í fjórða umgangi þegar ég endurtók: Hver er kröfuhafinn? svaraði hann orðrétt: Það er þjóðin sjálf. Hann hafði þá öðlast þennan skilning eftir þessa 10 ára lesningu mína yfir honum og það er þakkarvert að hann læri. En hann ætti þá líka að læra fleira.
    En nú leyfi ég mér í framhaldi af þessu sem síðast

var sagt að benda á það að ég hef alltaf sagt að halla á fjárlögum sem fjármagnaður væri með innlendu fjármagni ætti að nota til þess að stórlækka skatta, og þá ekki síst neysluskatta, þannig að verðbólgan stöðvaðist af sjálfu sér. Og ég hef bent á það að t.d. hefði söluskattur ekki átt að vera 25% heldur t.d. 20% og afnema hefði átt matarskattinn. Það eitt hefði nægt til þess að verðbólgan hefði gufað upp og fólk hefði sætt sig við óbreytt kjör og gengið hefði verið stöðugt. Í þessum tilgangi, að lækna sjúkan mann, er þetta heimilt. En að fara með skattana lengra upp en nokkru sinni áður, beita öllum úrræðum til þess að klekkja á fólki og fyrirtækjum með skattlagningu, eignaupptöku, eignamissi, fyrirtækjadauða og gjaldþrotum einstaklinga og heimila og segja svo: En elskurnar mínar, komið þið nú og lánið mér það litla sem eftir er af peningunum ykkar í ofanálag á alla skattana, það er engin lækning. Það er að fara aftan að hlutunum. Og það gerir enga bót að því er verðbólgu varðar.
    Ég held því fram að stórkostleg lækkun skatta við núverandi aðstæður mundu geta bætt hag ríkissjóðs. Það mundi koma að því að hjólin færu að snúast ef verðbólgan stöðvaðist, t.d. ef virðisaukinn hefði verið ákveðinn 20% í staðinn fyrir 26% og matarskattur afnuminn, eitthvað slíkt, þannig að verðbólgan hefði stöðvast og það væri hægt að stöðva gengissig og hafa frjálsan peningamarkað, þá held ég að það hefði ekki tekið mjög marga mánuði að hjól atvinnulífsins hefðu farið að snúast og farið að rætast úr bæði hjá einstaklingum og
atvinnufyrirtækjum. Ég held því sem sagt fram, og ég er aldeilis ekkert einn um það, það gera meira að segja hagfræðingar út um víða veröld nú, að það sé brýn nauðsyn að stórlækka skatta ef það eigi að örva atvinnurekstur og bæta hag fólksins, lækka þá í prósentum að sjálfsögðu og þá mundi ríkið fá meira í krónutölu eða fleiri dollara eða fleiri pund. Krónan er nú víst að verða sjálfdauð blessunin, hún er lengi að veslast upp svo að það er kannski ekki beint gott að miða við hana í þessu tilfelli.
    En mín skoðun er sú að það hefði átt og ætti nú að fara nákvæmlega þveröfugar leiðir við það sem verið er að gera. Það ætti að stórlækka skatta í prósentutölum og þar með að hækka þá að raungildi þegar fram í sækti vegna þess að menn gætu þá borgað skatta sem þeir geta auðvitað ekki með því áframhaldi sem nú er þegar verðbólgan er keyrð áfram með nákvæmlega sama hraða og gert var 1980 og fram á 1981 þegar hún rauk upp í 130%. Þá var nú hæstv. ráðherra að vísu ekki ráðherra en mikill áhrifamaður, hvort hann var ekki formaður fjh.- og viðskn. Ed., og hafði mjög gaman af þessu öllu saman. Þetta var ábyggilega ævintýri í hans huga, að sjá hvernig hægt væri að fara með eitt þjóðfélag. Nú er hann að gera nákvæmlega það sama. Þetta stefnir auðvitað í minnkandi þjóðarframleiðslu með minnkandi kaupgetu, minnkandi skatta, nýjar og nýjar gengisfellingar, verðbólgu, verðbólgusprengingu sem verður einmitt eftir rúmlega ár þessarar stjórnar, eitt

og hálft ár eða eitthvað svoleiðis. Hæstv. ráðherra sagði t.d. hér í Alþingi í nóvembermánuði í fyrra að Samband ísl. samvinnufélaga mundi verða orðið gjaldþrota eftir 10--14 mánuði. Ég veit ekki hvort hann hefur fengið upplýsingar um það hvort það sé orðið að raunveruleika núna, svo sé að hann hafi ýmiss konar svona nýjar upplýsingar líka. Hann gat þess hér í ræðustól að ég hefði brosað þegar hann nefndi það að einn milljarð kr. ætti að borga inn í Seðlabankann. Það endurspegli svigrúmið í fjármálum ríkisins, endurspeglar svigrúmið að borga þennan eina milljarð. Er það kannski til þess að auðvelda það að Samvinnubankinn geti keypt Landsbankann eins og þeir eru að reyna? Er Samvinnubankinn ekki að kaupa Landsbankann eða Sambandið úr því að það gat ekki keypt Útvegsbankann? Við skulum sjá hvað úr því kemur. Það er talað um að parkera einum milljarði í Seðlabanka. Eru þetta ekki ,,parkerings"peningar? (Gripið fram í.) Það er gott að það er ekki. Það er gott að það er alla vega ekki.
    Sjóðaframlögin, það er auðvitað alveg á gamla móðinn sem þar er tekið fram í ýmiss konar liðum. Þrátt fyrir ákvæði, þrátt fyrir ákvæði, þrátt fyrir ákvæði. Það er ekki búið til af hæstv. ráðherra, það er miklu, miklu eldra, að þá skuli skerða þetta og þá skuli skerða hitt. Hins vegar er náttúrlega dálítið harkarleg skerðingin á fjármunum Háskólans gagnvart Þjóðarbókhlöðu o.s.frv. Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði í þessari umræðu, við gerum það seinna, það er auðvitað af mörgu að taka þar. Mig langar nefnilega miklu meira að tala svolítið við hæstv. ráðherra um peningamálin.
    Hann var hér að miklast yfir því hvað allt væri nú blessunarlegt þar, gat þess sérstaklega, eins og stendur hér raunar líka í athugasemdum við þetta frv., að aðstæður á innlendum lánamarkaði hefðu þróast í átt til aukins jafnvægis á árinu 1989. Dregið hefur úr eftirspurn eftir lánsfé og betra jafnvægi komist á milli aukningar inn- og útlánsvaxta lánastofnana. Ég hef nú ekki séð þetta mikla jafnvægi. Ég veit ekki hvort atvinnuvegirnir hafa séð það, húsbyggjendur eða aðrir, hvaða jafnvægi er komið á peningamarkaðinn. Er ekki sama skömmtunin í peningum á Íslandi og hefur verið, kannski harðvítugri og harðsnúnari en nokkru sinni áður, einmitt í samræmi við peningamagnskenninguna, þá kenningu að sverfa að fólkinu með því að þrýsta á fjármuni þjóðfélagsins, neita að gefa út ávísanir á þjóðarauð? Þetta er eldgömul kenning sem hæstv. ráðherra hefur aðhyllst og gerir enn þann dag í dag, sem er einhver vitlausasta hagfræðikenning sem til er. Peningar eru auðvitað ekkert annað en ávísanir á auð, þjóðarauðlegðina. Erlendir peningar eru náttúrlega ávísanir á auð viðkomandi þjóðar sem gefur þá út þannig að peningar eru í hverju landi fyrir sig. Hitt er allt annað mál að það stefnir allt í það núna að peningaflutningarnir verði allir saman meira og minna í gegnum fjarskipti og að eiginlegir peningar eins og við, þessir eldri, þekkjum þá séu að hverfa meira og minna. Þeir eru í tölvusendingum og kreditkortum og

öðru slíku og það stjórnar auðvitað enginn peningamagni alheimsins. Samt er enn þá á Íslandi verið að tala um að það sé hægt að deyða þensluna með því að stjórna peningamagninu. Það er náttúrlega hægt hér á meðan ekki er frjáls aðgangur að erlendu fé og meðan útvegurinn má ekki selja fyrir erlenda peninga, fyrir þá raunpeninga sem hann er að afla, þá er auðvitað hægt að gera þetta.
    En svona til gamans, bara af því að hæstv. ráðherra var að víkja að þessu, langar mig að fá að lesa hérna svolítið á 11. síðu þessa plaggs sem hér er til umræðu. Þar segir og ég veit að allir hér inni skilja þetta og ráðherra skilur það náttúrlega, enda flytur hann málið. Og spekingarnir, þeir skilja þetta allt saman meira og minna. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Til að fá gleggri mynd af umsvifum ríkisins á lánamarkaði er ástæða til að
líta á lánsfjárþörf ríkissjóðs og opinberra lánastofnana og kanna hvort hún sé líkleg til að stuðla að peningalegri þenslu í hagkerfinu á árinu 1990.``
    ,,Peningalegri þenslu``. Hvaða þembingur er það nú eiginlega? Eru peningarnir orðnir einhver uppþemba? Peningalegri þenslu ríkissjóðs. Og svo kemur:
    ,,Frá hreinni lánsfjárþörf þarf þá að draga vaxtagreiðslur ríkissjóðs til útlanda og til Seðlabanka og bæta við arðgreiðslur Seðlabanka og þann hluta refsivaxta sem rennur í ríkissjóð. Greiðslur til eða frá Seðlabanka hafa sömu áhrif á peningamagn og greiðslur til eða frá útlöndum. Yfirlitið sýnir að áhrif ríkissjóðs og opinberra lánastofnana á peningalega þenslu á árinu 1990 eru hverfandi og lækka um 8 milljarða [hann endurtók þessa 8 milljarða hér áðan, hæstv. ráðherra. Hann hefur áreiðanlega ekkert skilið í þessu frekar en ég] lækka um tæpa 8 milljarða frá því sem verður í ár. Þann fyrirvara verður þó að gera að erfitt er að mæla þessi áhrif með einum mælikvarða og umdeilt er hvernig fara skuli með innlendar afborganir í þessu sambandi.``
    Hvaða lifandi maður skilur þessa grein? Og svo er hæstv. ráðherra að lesa þetta upp. Ég veit ekki hver getur hafa samið þessi ósköp. ( KP: Það er ekki ætlast til þess að fólk skilji það.) Nei, að sjálfsögðu. Allur leikurinn er nefnilega gerður til þess, hv. þingmaður Karvel, þú nefnilega skilur þetta allt, hv. þingmaður. Allur leikurinn er gerður til þess að rugla um fyrir fólki og telja því trú um að það hafi aldrei haft það betra og nú sé sæluríkið í höfn og sælutímarnir að renna upp því að næsta ár verður svo miklu, miklu, miklu betra, eins og hæstv. ráðherra var að lýsa hérna fyrir okkur áðan. Nú væri fyrst að koma á jafnvægið sem beðið hefði verið eftir. Nú væri búið að ráða við þensluna. Nú væri ekki þetta peningamagn í umferð sem gerði það að verkum að fólk legði út í atvinnurekstur og léti sér jafnvel detta það í hug að byggja hús, svo ég tali nú ekki um að það færi nú að kaupa bíl eða eitthvað svoleiðis. Þetta var allt saman það sem var að renna upp að dómi hæstv. ráðherra hér rétt áðan.
    Já, lausafjárstaða innlánsstofnana hefur batnað. Og

vextirnir hafa lækkað víst ein lifandis ósköp. Hafa þeir lækkað svo mikið á ríkisskuldabréfunum núna síðustu mánuðina? Hver auglýsir mest eftir fé? Er það núna þessi svokallaði grái markaður sem er með allar heilsíðuauglýsingarnar í blöðunum? ( Gripið fram í: Nei.) Nei, það er ríkissjóður. Nú, við höldum áfram almennt að ræða um þetta. Ég held að það sé alveg ljóst að það stefnir í áframhaldandi halla á ríkissjóði og hann mjög vaxandi. Það stefnir í versnandi hag fyrirtækja og almennings. Það stefnir í það að þessi ríkisstjórn eigi eftir að verða miklu verri heldur en hún nú er og held ég að það fari ekkert á milli mála að a.m.k. 3 / 4 hlutar þjóðarinnar telja hana þá verstu sem við nokkurn tímann höfum haft. Og ég held að það álit eigi ekki eftir að breytast.
    Hvað varðar skatttekjurnar, skattheimtuna, þá eru skattar auðvitað í eðli sínu, hverjir sem þeir eru, hvort sem það er til ríkis eða sveitarfélaga, ekkert annað en eignaupptaka. Þeir eru millifærsla á eignum frá borgurum og atvinnufyrirtækjum til opinberra aðila. Það er auðvitað viðurkennt að þetta er nauðsynlegt í vissum mæli og þarf að gera. En eins og ég sagði áðan þá geta opinberir aðilar kannski náð meiri tekjum þegar fram í sækir með því að fara hófsamlega í skattlagningu þannig að atvinnuvegir geti gengið og þjóðlífið blómstrað. En nú á sem sagt að moka meira fé en nokkru sinni áður yfir í ríkishítina þar sem peningarnir eru notaðir til góðra hluta að miklu leyti en að mjög miklu leyti líka til slæmra hluta.
    Sannleikurinn er sá, mér dettur það stundum í hug, að eina leiðin til þess að koma í veg fyrir sukk í fjármálum, opinberum fjármálum, sé sú að fá stjórnmálamönnum ekki í hendur peninga nema í mjög takmörkuðum mæli. Því við erum öll með því markinu brennd að við eigum okkar sérstöku áhugamál og við berjumst fyrir fjárútlátum til þessa eða hins. Og stjórnmálamenn eyða líklega alltaf þeim peningum sem þeir geta komist yfir með svona sæmilega heiðarlegum hætti. Ef þjóðþing samþykkja til þeirra ákveðnar fjárveitingar eða ákveðnar heimildir til lántöku þá er það allt notað og venjulega er farið fram úr markinu. Þess vegna er auðvitað freisting hjá þessari ríkisstjórn eins og öðrum að gera hitt og gera þetta. En það er svo illa búið að auðsköpuninni, þeim sem skapa auðinn, þ.e. borgurunum og einkafyrirtækjunum, að peningarnir verða miklu minni að raungildi. Þess vegna þarf, þrátt fyrir þessa gífurlega auknu skattlagningu, að minnka allar framkvæmdir á vegum ríkisins. Þannig er Ísland kannski orðið það land þar sem minnstar opinberar framkvæmdir eru, beinar framkvæmdir, t.d. til vegamála og annars slíks. Það er auðvitað áhyggjuefni út af fyrir sig. Menn getur greint á um það hvort vegir megi kannski vera í einkaeigu eins og þeir eru sums staðar, tollvegir o.s.frv., eða flugvellir. En það verður ekki um það deilt að á meðan það er á ríkisins vegum að gera slíka hluti þá er það auðvitað ekki framför heldur afturför að þurfa að draga verulega úr þessum framkvæmdum til þess að koma í veg fyrir þensluna svokölluðu, til þess að koma á atvinnuleysi,

til þess að hafa stjórn á lýðnum með því að láta hann ekki hafa of mikla peninga, þá er það auðvitað afturför. Og það getur ekki verið framsækin stjórn sem beinlínis stefnir að þessu, ekki
bara vísvitandi heldur marg-, margyfirlýst að nú sé þó aðeins að rofa til því að þenslunni sé lokið.
    Nú á að fara að hætta við millifærslu peninga úr sjóðunum, stendur hér einhvers staðar, og færa þá fjármuni til bankakerfisins o.s.frv., vegna þess að það sé búið að bjarga öllum atvinnuvegunum. Ég ætla nú að spyrja þá sem eru t.d. að tala við atvinnurekendur hér í Reykjavík, ekkert síður en úti á landi, hvort búið sé að bjarga öllum atvinnuvegum.
    Ég þekki erfiðleika úti á landi, ég var þar lengi þingmaður. Það er bara komið hér alveg það sama á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Hér eru atvinnufyrirtæki að fara á hausinn í stórum stíl. Það eru allir atvinnuvegir aðþrengdir, allir. Það eina sem er heilagt í þjóðfélagi sósíalismans, sem ég vænti að hæstv. fjmrh. viðurkenni af því að sósíalisti segist hann vera, hefur alla tíð verið. Og í þessu sæluríki sósíalismans þá eru allir orðnir jafnir.
    Reykjavík er auðvitað moldrík borg og hún heldur áfram sínum framkvæmdum. Reykjavík er með einhverjum ríkustu borgum heimsins. Hún gæti auðvitað tekið lán hjá borgurunum, innlenda peninga, og leyft þeim að fjármagna eitthvað af útgjöldunum með lánsfé og halda eignarráðum yfir því, ég veit að borgarstjóri hefur oft hugsað um að gera það. Það er út af fyrir sig ekkert athugavert við það ef menn eru að fara í stór verkefni að taka peninga að láni hjá borgurunum þegar borgararnir fá þá aftur endurgreidda, þegar menn eru að taka lán hjá sjálfum sér eins og allir viðurkenna að er staðreyndin þegar um innlendar lántökur er að ræða. Hitt er annað mál að nú eru bara þær svokölluðu innlendu lántökur, sérstaklega til atvinnuveganna, allar orðnar erlendar. Það eru öll afurðalán til útflutningsframleiðslunnar erlendir peningar. Krónan er dauð á þeim vettvangi, hún er dauð í þessum viðskiptum útgerðarinnar, iðnaðarins, útflutningsiðnaðarins og annarra útflutningsgreina, þar er krónan fyrir lifandi, lifandi löngu dauð nema sem einhver viðmiðun þegar peningarnir eru teknir út úr bankanum. Þeir eru erlendir og það kann vel að vera ástæða þess sem kemur fram í skoðanakönnunum að ungt fólk er jafnvel mjög áfjáð í það að við förum að sækja um einhverja inngöngu í Evrópubandalagið, sem náttúrlega kemur ekki til greina að mínu áliti, á þessu stigi í öllu falli. Það verður mikið vatn að renna til sjávar áður en slíkt gæti hent að það sé eina leiðin út úr þessum ógöngum, að við getum ekki stjórnað okkur sjálf. Vonandi er það ekki af þessari ástæðu heldur hinni að fólk hafi ekki kynnt sér nægilega mikið málavöxtu til þess að geta tekið afstöðu. Við eigum kannski að saka sjálf okkur fyrir það að hafa ekki nægilega mikið rætt þau mál og mér fyrirgefst þó ég víki aðeins að þessu hér, því það tengist auðvitað lánsfjárlögum.
    Það er ljóst hvað sem um tengsl okkar við

Evrópubandalagið verður að það er að verða til alheimsfjármagnsmarkaður. Það stöðvar það enginn. Menn fara ekkert dult með það í Evrópubandalaginu, ráðamenn þar, að það verður enginn sérstakur Evrópubandalagspeningamarkaður, það er heldur ekki Evrópumarkaður, ekki sameinaðrar Evrópu ef EFTA og EBE semdu um einhverja frjálsa fjármagnsflutninga sem eflaust verður. Það er ekki bara þetta eða New York markaður eða Tókíómarkaður, heldur alheimsmarkaður í peningamálum, glóbalmarkaður. Ég held menn séu sammála um að það sé það sem kemur og verði um allan heim, nema hjá þeim sem ætla að loka sig inni og ekki fylgjast með neinni þróun.
    Peningamarkaður á eftir að breytast á Íslandi eins og annars staðar og þá verður náttúrlega miklu erfiðara að vera með svona hundakúnstareikninga og orðskrípi sem hafa ýmist verið á ferðinni í nokkur ár eða eru nýtilkomin þegar þarf að villa meira um fyrir mönnum, eins og þetta litla dæmi um breytinguna í landsframleiðslu frá þjóðarframleiðslu sem gat breytt lífi eða dauða eins ráðherra með að reikna þetta á hinn veginn en ekki þennan. Þetta er stundað í stórum stíl og birtist hér á annarri hverri síðu í öllum fjárlögunum. Við eigum eftir að sjá það að fjárlögin núv. sem þessi hæstv. ráðherra fékk samþykkt hér í fyrra þau verða með miklu meiri halla heldur en einhverjum 3, 4, 5 milljörðum, þegar upp verður staðið. Og þessi lánsfjárlög sem nú er fjallað um verða auðvitað keyrð hér í gegn ef stjórnin heldur velli fram að jólum, ef fólkið verður ekki búið að kollvarpa henni. Þar verða tölur auðvitað allar brenglaðar og vitlausar og hallinn meiri en nokkurn sinni áður í sögunni, það er algjörlega ljóst. Einhverjum fjárlögum verður að hnoða saman. En hvort ráðherrann verður jafndrjúgur með sjálfan sig eins og hann hefur verið undanfarnar vikur þegar hinar raunverulegu tölur fara að koma í ljós, það efast ég um. Raunverulegu tölurnar eru aurarnir í pyngjunum hjá fólkinu. Og þegar það er að telja aurana sína í buddunni og vita hvort þeir hafa vaxið, þá hugsar það ekki hlýtt til núv. ríkisstjórnar.