Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 31. október 1989


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir því að fá að bíða með að taka hér til máls öðru sinni þangað til hæstv. fjmrh. hefði svarað þeim fyrirspurnum sem beint var til hans hér í umræðunni fyrr á fundinum, m.a. þeirri litlu fyrirspurn sem ég beindi til hans ásamt fyrirspurn til hæstv. heilbrrh., en ég varð nú ekki vör við að hann svaraði fyrirspurn minni. ( Fjmrh.: Ég taldi að heilbrrh. hefði svarað því.) Það lýsir kannski best viðhorfum hæstv. ráðherra til málefna aldraðra að honum þótti það ekki svara vert sem ég spurði um. Hins vegar vil ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir hans svör, fyrir það að hann kom hér inn á fundinn, taldi það ómaksins vert að koma hér og hlusta á það sem þingmaður vildi við hann tala um málefni aldraðra og svara því. Ég verð hins vegar að lýsa vonbrigðum mínum með svar hans vegna þess að mér fannst það í raun og veru ekki vera neitt svar. Hann svaraði þessu á þá leið að í lögum um málefni aldraðra, sem voru samþykkt á sl. vori, væri heimild til að auka verksvið sjóðsins eða rýmka hlutverk hans til þess að gæta samræmis annars vegar varðandi hlutverk sjóðsins og hins vegar fyrirhugaðrar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hann upplýsti það að í athugun væri að þessi sjóður tæki að sér að taka þátt í rekstrarkostnaði þeirra stofnana sem heyra undir þennan sjóð. Þess vegna olli það mér vonbrigðum og ég vænti að það séu fleiri sama sinnis og telji að það séu nú ekki sterk rök fyrir því að skerða sjóðinn ef það á að auka hutverk hans. Ef sjóðurinn á að fara að taka þátt í rekstrarkostnaði heimila sem eru reist samkvæmt þeim ákvæðum sem falla undir Framkvæmdasjóð aldraðra þá get ég ekki séð hvernig það á að takast með því að skerða tekjur sjóðsins.
    Ég gat ekki látið hjá líða að gera þessa athugasemd þó hæstv. ráðherra sé ekki hér staddur. Ég ætla ekki að fara fram á það að hann verði kallaður hingað til að hlusta á þessa athugasemd mína. Hann fær væntanlega þau skilaboð þó ekki sé öðru vísi en í gegnum þingtíðindi.
    En hæstv. fjmrh. lét sig hafa það að koma með þá smekklegu, eða hitt þó heldur, athugasemd um myndbirtingu frambjóðenda Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar af því þeir voguðu sér að láta taka af sér mynd þegar þeir voru á ferðinni á Suðurnesjum með flugstöðina í baksýn. Af því að þetta hefur nú komið oftar hér til orða á hv. Alþingi, svona smásendingar frá ýmsum varðandi þessa annars ágætu mynd --- ég tel að þetta sé bara nokkuð falleg mynd og góð --- þá vil ég láta það koma fram að það var nefnilega þannig (Gripið fram í.) að frambjóðendur Sjálfstfl. sátu ekki í fílabeinsturni fyrir kosningar frekar en þingmenn hans reyna að gera milli kosninga. Við ferðumst vítt og breitt um kjördæmið, við förum í hin ýmsu byggðarlög og fyrir kosningar er það ekki síður við hæfi hjá okkur en öðrum frambjóðendum að það séu teknar af okkur myndir, ýmist af heimamönnum eða við gerum þær ráðstafanir sjálf. Það m.a.

endurspeglast í því að við vorum á ferðinni á Suðurnesjum eins og öðrum byggðarlögum í kjördæminu fyrir kosningarnar eins og ýmsar myndir sem teknar voru geta staðfest. Ég ætlast ekki til að þingmenn eða frambjóðendur verði steyptir í brons af þeim sökum. Við höfum ekki unnið til slíks heiðurs. Við látum verkin tala.