Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 31. október 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er til umræðu fjallar um breytingar á lánsfjárlögum fyrir árið 1989. Í frv. er gert ráð fyrir heimild ríkissjóðs til þess að auka innlendar lántökur um 6 milljarða kr. og erlendar lántökur um 900 millj. Gert er ráð fyrir að erlenda lántakan til viðbótar verði notuð til endurlána til Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina, en aukin innlend lántaka verði notuð til að fjármagna halla ríkissjóðs á árinu 1989.
    Hér er því leitað heimilda, til viðbótar við þá heimild sem er í lánsfjárlögum yfirstandandi árs, til þess að fjármagna halla ríkissjóðs að mestu eða öllu leyti innan lands. Áætlað er að 11,3 milljarða kr. innlendri lánsfjárþörf á árinu verði mætt með þeim hætti að spariskírteini verði seld fyrir 6 milljarða, ríkisvíxlar verði seldir fyrir 3,8 milljarða umfram innlausn og önnur innlend lántaka nemi um 1 1 / 2 milljarði kr. Varðandi þann þáttinn kemur helst til álita sérstök lántaka hjá lífeyrissjóðunum en viðræður við þá um innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs munu eiga sér stað á næstu vikum.
    Í lok september höfðu spariskírteini verið seld fyrir 3,2 milljarða kr. en auk þess hefur almenningur skráð sig í áskrift fyrir rúmum 200 millj. kr. til viðbótar fram til áramóta. Í lok september höfðu verið seldir ríkisvíxlar fyrir um 4,1 milljarð kr. umfram innlausn frá áramótum. Innlausn spariskírteina frá áramótum til loka september nam um 1,3 milljörðum kr. Samtals
höfðu því verið seld spariskírteini og ríkisvíxlar umfram innlausn fyrir um 6 milljarða kr. en nú er stefnt að því að sala þeirra umfram innlausn verði 6,3 milljarðar kr.
    Í lánsfjárlögum fyrir árið 1989, eins og þau voru samþykkt í upphafi þessa árs, var veitt heimild til innlendrar lántöku fyrir 5,3 milljarða kr. Enn fremur var almennt ákvæði í lögunum um að heimilt sé að selja ríkisvíxla til endurgreiðslu áður útgefinna ríkisvíxla til að bæta stöðu ríkissjóðs á aðalviðskiptareikningi í Seðlabankanum. Innlend lántaka ríkissjóðs er enn innan þessara heimilda, aðallega sakir þess hve almennar heimildir eru til sölu ríkisvíxla. Hins vegar líður nú óðum að því að þessar heimildir séu á þrotum hvað snertir sölu spariskírteina og þess vegna er mjög brýnt að fá fljótlega frá Alþingi heimildir til viðbótarsölu spariskírteina ríkissjóðs. Þess vegna eru það tilmæli mín til hv. deildar að reynt sé að hraða afgreiðslu þessa máls eftir föngum.
    Að því er varðar Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina hefur verið ákveðið að hann hætti að taka við lánsumsóknum um áramótin og stefnt sé að því að hann ljúki afgreiðslu umsókna á fyrstu mánuðum næsta árs. Í framhaldi af því mun sjóðurinn hætta störfum og verður honum þá komið í vörslu hjá banka eða lánastofnun. Til þess að Atvinnutryggingarsjóður geti lokið lánveitingum og skuldbreytingum er nauðsynlegt að honum verði tryggt sem fyrst viðbótarfjármagn. Ekki þykir þó rétt að auka

við framlag ríkissjóðs frá því sem ákveðið var við stofnun sjóðsins þar sem starfsemi hans felst fyrst og fremst í lánveitingum og skuldbreytingum til atvinnufyrirtækjanna. Þess vegna er farin sú leið hér að heimila viðbótarlán fyrir starfsemi sjóðsins.
    Varðandi aukna lántökuheimild fyrir Byggðastofnun er þess að geta að sl. vor heimilaði ríkisstjórnin Byggðastofnun erlendar lántökur að fjárhæð 100 millj. kr. til að endurlána eigendum smábáta sem lent höfðu í greiðsluerfiðleikum. Hér er leitað staðfestingar Alþingis á þeirri heimild.
    Ég tel ekki, hæstv. forseti, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem hér varð í fundarhléi, ástæðu til að hafa lengri framsögu fyrir þessu frv. og mælist til þess að því verði að lokinni 1. umr. vísað til fjh.- og viðskn.