Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 01. nóvember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er fyrsta mál af fjölmörgum sem fylgja fjárlagafrv. og koma til umræðu hér í hv. deild. Fjmrh. hefur lýst því að í fjárlagafrv. felist af hálfu hæstv. ríkisstjórnar heildarstefnumörkun í fjármálum ríkisins og efnahags- og atvinnumálum. Þar sé lagður sá rammi fyrir efnahagsstarfsemina, ríkið sjálft, atvinnureksturinn og launafólkið í landinu, sem hæstv. ríkisstjórn hafi ákveðið að gilda skuli á næsta ári. Þetta frv. er í raun réttri fyrsta myndin, eða fyrsta myndbrotið sem sett er inn í þennan ramma.
    Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði hefur um árabil verið endurnýjaður árlega. Ég hefði talið að á þessu stigi hefði verið fullt tilefni til að stíga eitt skref til þess að lækka þennan skatt í viðleitni til þess að afnema hann síðar með öllu. Þegar hæstv. ríkisstjórn tók ákvörðun um stórfellda hækkun á þessum skatti á síðasta þingi var sterklega varað við því hér af talsmönnum Sjálfstfl. Þeim mótbárum var ekki sinnt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar né þeim gildu rökum sem fram voru sett gegn þeirri gífurlegu hækkun. Þegar kom að kjarasamningum þá settu húsbændurnir í Garðastræti fram kröfu um að fallið yrði að hluta til frá þeirri miklu hækkun og hæstv. fjmrh. varð góðfúslega við þeim óskum forustumanna atvinnurekenda að falla frá a.m.k. hluta af fyrirhugaðri hækkun. Eigi að síður eru nú full efni til þess að stíga eitt skref til þess að lækka þennan skatt á nýjan leik. Slíkt skref var, eins og menn rekur ugglaust minni til, stigið fyrst í fjármálaráðherratíð Alberts Guðmundssonar.
    Með því að hæstv. fjmrh. hefur með svo sterkum orðum og miklum yfirlýsingum lýst því yfir og tekið fram í framsöguræðu fyrir fjárlagafrv., og í ýmsum yfirlýsingum í fjölmiðlum, að fjárlagafrv. og fylgifrv. þess séu hornsteinn í hagstjórn ríkisstjórnarinnar á næsta ári, eins og hæstv. ráðherra komst að orði í fjárlagaræðu sinni og þar sé ramminn sem allir aðilar þjóðfélagsins verði að taka mið af, hvort sem það er ríkið sjálft, atvinnureksturinn eða launafólk, eins og hann bætti við, þá er eðlilegt að þegar fyrsta málið sem fellur inn í þennan ramma kemur til umræðu í þessari hv. deild, að fara nokkrum orðum um þá mynd sem við blasir í þessum efnum.
    Það bar til tíðinda í umræðum í hv. Ed. í gær að einn af helstu forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar, einn af mestu áhrifamönnum í Alþfl., varð að krefjast þess að umræðu um lánsfjárlög ríkisstjórnarinnar, sem þessu máli eru tengd, yrði frestað vegna þess að upplýsingar skorti og ýmislegt benti til þess að sú efnahagsstefna, sá hornsteinn í hagstjórn ríkisstjórnarinnar sem hér er verið að fjalla um, væri ekki í samræmi við það sem Alþfl., einn stjórnarflokkanna, vildi keppa að. Morgunblaðið hefur eftir hv. þm. Karvel Pálmasyni þetta: Þegar menn eru komnir á toppinn þekkja þeir oft ekki sinn vitjunartíma. Karvel taldi dóm almennings yfir ríkisstjórninni mundu verða harðan.

Þetta eru nokkur tíðindi þegar þessi rammi, hornsteinn hagstjórnar hæstv. ríkistjórnar á næsta ári, kemur hér til umræðu í deildum Alþingis.
    Annar af forustumönnum Alþfl., nýkjörinn varaformaður Verkamannasambands Íslands, tók þátt í umræðum um fjárlagafrv. og stefnu ríkisstjórnarinnar í fjármálum og þar á meðal í skattamálum á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Þar fullyrti hv. þm. Karl Steinar Guðnason að mikilvægar forsendur fyrir fjárlagafrv. mundu raskast á næsta ári. Þar átti hv. þingmaður við að þau áform um launabreytingar á næsta ári sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir fengju ekki staðist og mundu því raskast. Ljóst er af þessum yfirlýsingum að ýmislegt er á huldu og ýmislegt er túlkað með misvísandi hætti af hálfu talsmanna og stuðningsmanna hæstv. ríkisstjórnar að því er varðar þennan hornstein efnahagsstefnunnar.
    Hæstv. fjmrh. hefur býsna oft endurtekið yfirlýsingar sínar um hornsteininn og um það að fullt samkomulag sé innan ríkisstjórnarinnar, ekki aðeins um þær talnaraðir sem í fjárlagafrv. og boðuðum skattafrv. felast, heldur einnig þær efnahagslegu forsendur sem að baki fjárlagafrv. og skattafrv. búa. Hann hefur lýst því yfir að hér sé sameinuð ríkisstjórn með sinn boðskap sem allir aðilar þjóðfélagsins verða að hlíta.
    Nú þegar það hefur gerst að einn af áhrifamestu stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar og forustumönnum í verkalýðshreyfingunni hefur lýst því yfir að ein af mikilvægustu forsendum fjárlagafrv. sé óraunhæf, sé brostin og fái ekki staðist, er ástæða til þess, þegar fyrsta skattafrv. kemur hér til umræðu, að inna hæstv. ríkisstjórn eftir því hvernig staðið hefur verið að undirbúningi fjárlagafrv. og hver er í raun og veru afstaða einstakra stjórnarflokka til frv. og þeirra forsendna sem það byggir á og þeirra markmiða sem að er stefnt.
    Herra forseti. Ég óska gjarnan eftir því að hæstv. forsrh. verði af þessu tilefni viðstaddur þessa umræðu og svari hér spurningum sem óhjákvæmilega hljóta að koma upp í þessu sambandi. Ef ég mætti óska eftir því að það yrði
hlutast til um það að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur umræðuna. ( Forseti: Já, forsrh. er í húsinu og það verður óskað eftir því að hann hlýði á mál ræðumanns.) Eftir að þessi yfirlýsing liggur fyrir hlýtur það að vera fyrsta spurning sem hæstv. forsrh. þarf að svara: Er samkomulag um þær forsendur sem fjárlagafrv. byggir á og skattafrumvörpin sem því fylgja? Er samkomulag um það innan ríkisstjórnarinnar og á milli einstakra stjórnarflokka? Hvernig má það vera að yfirlýsingar eru gefnar í svo gagnstæðar áttir með aðeins fárra daga millibili um höfuðforsendur frv.?
    Það liggur fyrir að frv. miðar að því að kaupmáttur rýrni á næsta ári um 5% á milli ára eða fimmfalt meir en samdráttur landsframleiðslu gefur tilefni til. Talsmaður Alþfl. hefur lýst því yfir að þessi áform um kaupmáttarrýrnun séu óraunhæf og standist ekki. Það hlýtur að hafa veruleg áhrif á niðurstöður

fjárlagafrv. og stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. forsrh. svari þeirri spurningu hvort samstaða er innan ríkisstjórnarflokkanna um þetta efni. Hvort Alþfl. hafi gert ágreining um þessa meginforsendu sem eru launabreytingar á næsta ári eins og hv. þm. Karl Steinar Guðnason hefur yfirlýst að ekki fái staðist. Gerði Alþfl. grein fyrir þessum fyrirvörum í undirbúningi fjárlagafrv. eða eru þeir fyrst að koma fram núna?
    Það er að vísu venja í umræðum um efnahags- og skattamál hér eftir að þessi hæstv. ríkisstjórn var mynduð að þingmenn Alþfl. yfirgefa yfirleitt þingsali og taka ekki þátt í umræðu og það er varla ástæða til þess að inna þá eftir þeirra afstöðu. En óhjákvæmilega hlýtur þá sú spurning líka að vakna upp í þessu sambandi hvort yfirlýsing hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar marki þau tímamót að Alþfl. hafi tekið upp venjuleg vinnubrögð Framsfl., að lýsa yfir andstöðu við eina af meginforsendum fjárlagafrv., en hafi jafnframt tekið þá ákvörðun að greiða atkvæði með fjárlagafrv. og þeirri stefnumörkun sem í því felst. Ef einhverjir þm. Alþfl. hafa áhuga á þátttöku í umræðum um efnahags- og skattamál þá er auðvitað fróðlegt að heyra viðhorf þeirra til þessarar spurningar því hún hlýtur auðvitað að vakna upp í þessu sambandi.
    Sá efnahagsrammi og sá nýi grundvöllur í efnahagsmálum sem hæstv. fjmrh. hefur lýst að felist í þeirri stefnumörkun sem fyrir liggur kemur skýrt fram í fjárlagafrv. sjálfu, athugasemdum með því, í athugasemdum með lánsfjárlagafrv., í þjóðhagsáætlun hæstv. ríkisstjórnar og umsögnum ýmissa helstu sérfræðinga um efnahagsmál sem fjallað hafa um þær staðreyndir sem fyrir liggja.
    Nokkuð ljóst er að þau áform um u.þ.b. þriggja milljarða kr. halla í rekstri ríkisins á næsta ári sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir muni ekki fá staðist fyrst og fremst vegna vanáætlana af ýmsu tagi, vegna blekkingarleiks á ýmsum sviðum. Helstu sérfræðingar um þessi efni hafa með rökum sýnt fram á að með varfærnislegum áætlunum megi reikna með því að hallinn verði a.m.k. tvöfalt meiri en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Jafnvel 4 milljörðum kr. meiri en þar er gert ráð fyrir. Það mundi þýða að ríkissjóðshallinn færi vaxandi á næsta ári og yrði allt að 2% af landsframleiðslu. Það liggur fyrir að erlendar skuldir eru að vaxa í hlutfalli af landsframleiðslu. Það liggur líka fyrir að greiðslubyrði skulda af útflutningsframleiðslu fer vaxandi. Það liggur fyrir að kaupmáttur hefur verið að rýrna á þessu ári a.m.k. um 8--9% þegar landsframleiðslan er að dragast saman um innan við 3%. Þannig hefur kaupmáttarrýrnunin verið þrefalt meiri á þessu ári en samdráttur landsframleiðslunnar gefur tilefni til. Það er svona venjuleg viðmiðun í þessum efnum að kaupmáttur hljóti að fylgja breytingum á landsframleiðslu. Á þessu ári hefur kaupmáttarrýrnunin orðið þrefalt meiri og á næsta ári er stefnt að allt að því 5% kaupmáttarrýrnun þó að landsframleiðslan dragist

saman um 0,9%, ef ég man rétt, skv. áætlunum og stefnu ríkisstjórnarinnar. Verðbólga var í októberbyrjun í fyrra á þriggja mánaða mælikvarða um 13%. Hún er á sama tíma að ári liðnu orðin 23% og engar horfur eru á því að úr verðbólgu dragi á næsta ári. Þvert á móti hafa ýmsir sérfræðingar bent á að líklegt sé að sú stefnumörkun sem felst í fjárlagafrv. muni fremur leiða til þess að verðbólga aukist enn meir, en þó eru horfur á með þeim varfærnislegu áætlunum að verðbólgan verði á svipuðu stigi og á þessu ári.
    Viðskiptahallinn hefur minnkað lítið eitt á þessu ári, úr 3,5% af þjóðarframleiðslu niður í 3% eða þar um bil, þó að útflutningur hafi verið að aukast. Þó að kaupmáttarrýrnunin hafi verið jafnmikil og raun ber vitni, þá er ekki um að ræða meiri árangur í því að ná niður viðskiptahalla en þetta og fyrirsjáanlegt er að á næsta ári eru litlar horfur á að enn dragi úr viðskiptahallanum og hefur ekki verið jöfnuður í viðskiptum eða afgangur á viðskiptum við útlönd síðan 1986. Þrátt fyrir ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um handaflsstýringu á vöxtum sýnast aðstæður vera með þeim hætti á fjármagnsmarkaði að vextir hafa í raun og veru lítið lækkað þrátt fyrir þann mikla samdrátt sem orðið hefur í þjóðfélaginu. Algengir vextir eru frá 7% og upp í 8--9% og í nýlegu Fréttabréfi Samvinnubankans eru dæmi um það að vextir séu upp í 15% af skuldabréfum. Í Fréttabréfi Samvinnubankans segir einnig að
verðbréf þess sjóðs ríkisstjórnarinnar sem stundum hefur verið kenndur við hv. þm. Stefán Valgeirsson skili nú 8,5% ávöxtun. Allt þetta eru staðreyndir þrátt fyrir hinar miklu yfirlýsingar um handaflsstýringu á fjármagnsmarkaði. Þetta eru aðeins örfá dæmi um veruleikann, um þann nýja efnahagsgrundvöll og þann efnahagsramma sem hæstv. ríkisstjórn hefur markað og þetta frv. sem hér er til umræðu er hluti af.
    Það vekur einnig athygli í framhaldi af hinum stóru yfirlýsingum hæstv. fjmrh. um það að í þessu frv. felist efnahagsramminn, felist sú stefnumörkun af hálfu hæstv. ríkisstjórnar sem atvinnureksturinn og launafólkið verði að beygja sig undir á næsta ári, að hæstv. sjútvrh. talar með öðrum hætti á fiskiþingi um þessi efni. Í ræðu sem hæstv. ráðherra flutti þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á næstu mánuðum eru fyrirsjáanlegar ýmsar breytingar á starfsskilyrðum sjávarútvegsins. Laun munu hækka um tæp 2,5% á næstu tveimur mánuðum. Greiðslur verðbóta á freðfisk falla niður, en jafnframt hefur gengið mjög á innistæður í Verðjöfnunarsjóði til greiðslu verðbóta á aðrar afurðir. Tekinn verður upp virðisaukaskattur um næstu áramót. Það mun hafa víðtæk áhrif og m.a. leiða til jafnari starfsskilyrða innlendra fyrirtækja og samræma þau því sem gerist erlendis, en jafnframt hafa í för með sér nokkra bindingu fjármuna. Endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti til sjávarútvegsins mun því falla niður um næstu áramót. Loks er nauðsynlegt að draga enn frekar úr þorskafla á næsta ári, þriðja árið í röð. Þessi atriði munu að óbreyttu leiða til versnandi afkomu sjávarútvegs á næsta ári og því er nauðsynlegt að sem

allra fyrst liggi fyrir sá efnahagslegi rammi sem sjávarútvegurinn þarf að búa við.``
    Ég hlýt að vekja athygli á því að eftir hinar miklu yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um að í fjárlagafrv. felist efnahagsramminn sem atvinnulífið verði að beygja sig undir, hæstv. ríkisstjórn hafi sagt sitt síðasta orð í þeim efnum, tekið endanlegar ákvarðanir sem ekki verði haggað og það þýði ekki með nokkru móti fyrir forustumenn atvinnuveganna eða launafólks að banka upp á hjá ríkisstjórninni og biðja um frekari aðgerðir, þá kemur hæstv. sjútvrh. og segir að nauðsynlegt sé að sem allra fyrst liggi fyrir sá efnahagslegi rammi sem sjávarútvegurinn þurfi að búa við. Með öðrum orðum, hæstv. fjmrh. heldur því fram að efnahagslegi ramminn liggi fyrir í fjárlagafrv. fyrir sjávarútveginn eins og aðrar atvinnugreinar, en hæstv. sjútvrh. kemur fyrir fiskiþing og segir að þessi efnahagslegi rammi liggi ekki enn fyrir, en brýnt sé að ríkisstjórnin taki ákvarðanir um þann ramma sem sjávarútveginum er ætlað að starfa við. Og þykir nú ýmsum sem hæstv. sjútvrh. hefði kannski fyrr mátt kveða upp úr um það að þessi hæstv. ríkisstjórn tæki ákvarðanir um þann efnahagslega ramma sem sjávarútvegurinn á að starfa við. En hér ganga yfirlýsingar í gagnstæðar áttir. Þess vegna er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forsrh. að því, hvað snýr upp og hvað snýr niður í þessum efnum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hvort er það hæstv. fjmrh. sem hefur kveðið upp úr um það af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að efnahagsramminn liggi endanlega fyrir fyrir allar atvinnugreinar og því verði ekki breytt eða er það hæstv. sjútvrh. sem hefur rétt fyrir sér í því að efnahagsramminn hafi ekki verið ákveðinn fyrir sjávarútveginn og brýn þörf sé á að gera það hið allra fyrsta? Á hvorum hæstv. ráðherra á þjóðin að taka mark? Til hvors á að líta? Hvor mælir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar eða er það kannski svo að báðir tali fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar? Er það kannski svo að ríkisstjórnin sé bæði þeirrar skoðunar að ramminn hafi endanlega verið ákveðinn og líka þeirrar skoðunar að hann hafi ekki verið ákveðinn og brýnt sé að það verði gert hið allra fyrsta? Þessu þarf hæstv. forsrh. að svara hér í þessari umræðu. Það væri líka æskilegt að hæstv. ráðherra gerði grein fyrir því hvernig staðið var að undirbúningi og afgreiðslu fjárlagafrv. Var í þeirri undirbúningsvinnu af hálfu ríkisstjórnarflokkanna fallist á að í forsendum fjárlagafrv. væri endanlegur rammi ákveðinn sem atvinnuvegirnir yrðu að beygja sig undir og gætu ekki gert tilkall til að breytt yrði? Var á þetta fallist? Var þessi stefnumörkun skýrt borin fram af hálfu hæstv. fjmrh. og var á hana fallist? Er hæstv. sjútvrh. að skjóta sér undan ákvörðunum sem teknar voru á undirbúningsstigi fjárlagafrv.? Nauðsynlegt er að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. geri grein fyrir þessum efnum hér í umræðunni.
    Ég ætla þá að víkja örfáum orðum að þeim atriðum í skattamálum sem enn eru óvissu undirorpin og falla undir þann ramma sem hæstv. fjmrh. hefur sett og þetta frv. sem hér er til umræðu er hluti af. Í athugasemdum með fjárlagafrv. er tekið fram að á

næsta ári sé gert ráð fyrir nokkrum breytingum á tekjuöflun ríkissjóðs og þær helstar eru taldar að hækka eigi virðisaukaskatt í 26%, en greiða niður hluta af innlendum matvælum þannig að í reynd verði skatturinn aðeins 13%. Að skattleggja eigi vexti og breyta tekjuskattlagningu einstaklinga. Jafnframt er fjallað um ýmsar aðrar breytingar eins og um launaskatt, bifreiðagjald, stimpilgjöld og það frv. sem hér er til umræðu.
    Þau áform sem hæstv. ríkisstjórn hefur uppi um breytingar á tekjusköttum einstaklinga eru býsna athygliverð, ekki síst í ljósi þess hversu skammt er
síðan grundvallarbreyting var gerð á lögum um tekju- og eignarskatt með staðgreiðslukerfinu sem lögfest var vorið 1987. Þá var gerð grundvallarbreyting sem hafði það að meginmarkmiði að lækka skatthlutfall, fækka frádráttarliðum og einfalda tekjuskattskerfið í heild sinni um leið og staðgreiðslu yrði komið á. Engum getur blandast hugur um að hér er um að ræða einhverja mestu breytingu á tekjuskattskerfinu sem gerð hefur verið. Þessi breyting var gerð í mjög nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins og samtök launafólks í landinu og var í raun og veru einn þátturinn í þeirri þjóðarsátt sem svo hefur verið nefnd og gerð var á milli þessara aðila og þáv. hæstv. ríkisstjórnar í febrúar 1986. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn uppi áform um það og ákvarðanir ef skilja má athugasemdir með þessu frv. að þegar á næsta ári eigi að knýja fram breytingar á þessu sviði sem brjóta niður í veigamiklum atriðum þá kerfisbreytingu sem gerð var, þá einföldun skattkerfisins sem gerð var á sínum tíma. Nú eru sem sagt uppi áform um það að hækka skatthlutfallið verulega, bæta við nýju skattþrepi og tekjutengja í ríkari mæli en verið hefur barnabæturnar sem eru hluti af tekjuskattskerfinu.
    Ég hef talið þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar vera mikið gagnrýniefni og undrunarefni vegna þess að Framsfl. átti í tíð þáv. ríkisstjórnar þátt í að gera þessa miklu breytingu og koma þessari miklu réttarbót fram. Hann virðist nú ætla að taka fullan þátt í að brjóta þetta kerfi niður. Og fram til þessa hefur ekki komið annað fram en að full samstaða væri um það milli stjórnarflokkanna að þessi boðaða stefna hæstv. fjmrh., þessi stefna Alþb. í skattamálum, yrði sameiginleg stefna Framsfl. og Alþfl. einnig. Í Alþýðublaðinu í gær er frétt sem gefur tilefni til að óska eftir skýringum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Þar segir svo um þessi áform, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt heimildum Alþýðublaðsins hefur að undanförnu verið rætt innan ríkisstjórnarinnar að setja á sérstakt hátekjuþrep í tekjuskatti og miða það við 300 þús. kr. mánaðartekjur. Það eru einkum Alþb. og Framsfl. sem eru áfram um að þetta verði gert, en Alþfl. er hugmyndinni andsnúinn. Andstæðingar þessarar hugmyndar innan stjórnarflokkanna benda á að með þessu vinnist afskaplega lítið þar sem ekki sé umtalsverðar fjárhæðir að sækja fyrir ríkissjóð með þessum hætti auk þess sem sumir þeirra vilja kalla þetta aðför að staðgreiðslukerfinu, kerfi sem komið var á til einföldunar á skattheimtu og jöfnunar. Með

þessu sé einvörðungu verið að flækja kerfið.``
    Ég vek athygli á að nýlega var upplýst, í tilefni af umræðum um mál sem mjög hefur verið á döfinni að undanförnu, að ritstjóri Alþýðublaðsins er ekki aðeins ritstjóri þess heldur hefur hann skv. flokkslögum Alþfl. jafnan rétt í þingflokki Alþfl. eins og kjörnir alþm. Þessi frétt í Alþýðublaðinu hlýtur, ekki síst með tilliti til þessara upplýsinga um réttarstöðu ritstjóra Alþýðublaðsins í þingflokki Alþfl., að vekja upp spurningar.
    Er það svo að ekki sé samkomulag innan ríkisstjórnarflokkanna um þessa stefnumörkun? Hafði Alþfl. aldrei fallist á þá breytingu á tekjuskattslögunum sem hæstv. fjmrh. hefur sí og æ og í athugasemdum með fjárlagafrv. lýst að sé stefna hæstv. ríkisstjórnar? Ég óska eftir því að hæstv. forsrh. svari því hvort Alþfl. hafi gert við þetta fyrirvara og sé í raun andvígur þessari yfirlýstu stefnu ríkisstjórnarinnar og vilji koma í veg fyrir að staðgreiðslukerfið verði eyðilagt. Eða er hér enn eitt dæmið um það að Alþfl. sé að feta inn á braut Framsfl. og lýsa yfir andstöðu við mál en ætli sér síðan að greiða því atkvæði á Alþingi?
    Ég hef áður í umræðum hér rifjað það upp að í stefnuyfirlýsingu í skattamálum sem fylgir athugasemdum með fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að hæstv. ríkisstjórn flytji breytingar á gildandi lögum um stimpilgjöld. Nú hefur einn af helstu forustumönnum Framsfl. í efnahagsmálum endurflutt frv. sem flutt var hér á síðasta þingi um afnám stimpilgjalda af hlutabréfum. Ekki er það nú alveg rétt farið af minni hálfu með efni þessa frv. því að þar var um að ræða mjög verulega lækkun en ekki endanlegt afnám á stimpilgjaldi af hlutabréfum.
    Þegar einn helsti forustumaður Framsfl., og stjórnarflokkanna þar af leiðandi, í efnahagsmálum flytur frv. af þessu tagi er ástæða til þess að hæstv. fjmrh. svari því hvort þetta frv. er það sem ríkisstjórnarflokkarnir ætla sér að standa að í þessum efnum eða hvort hæstv. fjmrh. ætlar sjálfur að flytja frv. um breytingu á stimpilgjöldunum og hvort það væri þá í einhverju frábrugðið því frv. sem hv. 10. þm. Reykv. hefur endurflutt og hæstv. forsrh. hefur lýst yfir fullum stuðningi við.
    Það er líka ástæða til þess að vekja á því athygli hér við þessa umræðu að það var eitt af fyrstu verkum núv. hæstv. fjmrh. að gera tilraun til þess að brjóta niður það séríslenska fyrirbrigði að ýmis samtök almennings í landinu sem staðið hafa að uppbyggingu í velferðar- og menningarmálum og fengið hafa svigrúm til þess að afla tekna, að að þeim yrði ráðist með þeim hætti að taka að verulegum hluta sjálfsaflafé þessara félagasamtaka inn í ríkissjóð. Þetta átti að gera gagnvart Öryrkjabandalaginu, íþróttasamtökunum í landinu og Háskóla Íslands. Þessi áform mættu mjög harðri andstöðu hvarvetna í
þjóðfélaginu, ekki síst hér á Alþingi af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna, en það gerðist svo eftir fund í Framsóknarfélagi Reykjavíkur að hv. 10. þm. Reykv., þm. Framsfl. í Reykjavík kvað upp úr um það

að við þessi áform um skattlagningu á happdrættispeningum almannasamtaka og Háskóla Íslands væri enginn stuðningur í Framsfl. Ég hygg að það hafi kannski ráðið úrslitum um að hæstv. fjmrh. varð að gefast upp í aðför sinni að þessum samtökum.
    Nú er enn einu sinni gerð tilraun af svipuðu tagi sem miðar að því að taka hluta af framkvæmdafé Háskóla Íslands, sem hann fær úr afrakstri af Happdrætti Háskólans, inn í verkefni sem ríkissjóður á að standa undir lögum samkvæmt. Hér er verið að skattleggja Háskólann, hér er verið að skattleggja æðri menntun í þjóðfélaginu.
    Nú er það spurning til hæstv. forsrh. hvort þess sé að vænta að enn á ný bresti stuðningur í Framsfl. við aðför að Háskóla Íslands af þessu tagi. Má vænta þess aftur á þessu þingi? Eða hefur Framsfl. forherst svo á þessu eina ári að þar sjái menn lítið ljós og muni að þessu sinni taka þátt í herferð hæstv. fjmrh. gegn Háskólanum?
    Eitt af höfuðatriðunum í skattastefnunni sem fjmrh. hefur lýst og fram kemur í athugasemdum með fjárlagafrv. er það að ríkisstjórnin ætlar að hefja skattlagningu á sparnaðinn í landinu. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvers konar glapræði það er að taka upp skattheimtu af því tagi, ekki síst með tilliti til þeirra efnahagslegu aðstæðna sem við búum nú við. Augljóst er að það mun draga úr sparnaði. Og þegar erlendar skuldir eru að vaxa og hlutfall erlendra skulda af landsframleiðslu mun ná nýju Íslandsmeti á næsta ári samkvæmt lántökustefnu ríkisstjórnarinnar þá er nú ekki vænlegt að leggja skatt á innlendan sparnað og stuðla að því að hann dragist enn frekar saman. Þess vegna vakti það athygli að Tíminn, málgagn Framsfl., hefur birt frétt frá aðalfundi Framsóknarfélags Reykjavíkur sem haldinn var 30. okt., þar sem samþykkt eru harðorð mótmæli gegn þessari stefnu ríkisstjórnarinnar. Framsóknarfélag Reykjavíkur hefur þannig gengið gegn þessu höfuðstefnumáli hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. fjmrh. í skattheimtu.
    Nú vil ég gjarnan óska eftir því að hæstv. forsrh. svari því hvort þessi samþykkt Framsóknarfélagsins í Reykjavík muni hafa einhverjar breytingar í för með sér á afstöðu ráðherra og þingmanna Framsfl. við þessi stefnuáform ríkisstjórnarinnar. Hér er um að ræða mjög skýra samþykkt og mjög eindregin
mótmæli framsóknarmanna í Reykjavík. Ég hygg að frummælandi á þeim fundi hafi verið Finnur Ingólfsson, varaþingmaður framsóknar hér í Reykjavík og einn af helstu forustumönnum Framsfl. og aðstoðarmaður heilbr.- og trmrh. Mun þessi samþykkt breyta í einhverju stefnu Framsfl. eða ætlar þingflokkur framsóknarmanna að virða að vettugi þessa kröfu framsóknarmanna í Reykjavík, að fallið verði frá þessum áformum?
    Þá ætla ég í nokkrum orðum að víkja að einu atriði er snertir virðisaukaskattinn. Í stefnuræðu sem hæstv. forsrh. flutti fyrir ekki mörgum dögum síðan hér á hinu háa Alþingi tekur hann fram að það hafi verið ákveðið í ríkisstjórninni að greiða niður hluta af

virðisaukaskattinum þannig að hann jafngildi 13% skattlagningar á nauðsynlegustu innlend matvæli, mjólk, kjöt, grænmeti og fisk. Og hæstv. forsrh. bætti meira að segja um betur og sagði að það væri í sérstakri athugun hvort ekki mætti beita þessum niðurgreiðslum einnig að því er varðaði gróf brauð.
    Nú er það svo að þegar ákveðið var að leggja söluskatt á matvæli þá var sú krafa gerð af hálfu Sjálfstfl. að sá söluskattur yrði endurgreiddur að fullu á tilteknum tegundum matvæla og um það varð samkomulag í þáv. ríkisstjórn. Söluskatturinn var að fullu greiddur niður á mjólk og kjöt og að hluta til á fisk. Það var síðan ákveðið í þáv. ríkisstjórn að fela þáv. landbrh. og þáv. fjmrh. að framkvæma og taka ákvarðanir um framkvæmd á sams konar niðurgreiðslu á grænmeti. En þeir hæstv. ráðherrar komu þeirri ákvörðun ekki í verk.
    Sumarið 1988 var það áform þáv. fjmrh. að falla frá þessum ákvörðunum og draga úr niðurgreiðslunni á söluskattinum, þ.e. að byrja í fyrsta sinn að leggja söluskatt á þessar tilteknu matvörutegundir. Frá því var horfið vegna þess að um það gat ekki orðið samstaða af hálfu okkar sjálfstæðismanna. Nú eru uppi um það áform í hæstv. ríkisstjórn, þegar virðisaukaskatturinn tekur við, ekki að niðurgreiða virðisaukaskattinn að fullu á þessum matvörum, eins og ákveðið var á sínum tíma þegar söluskatturinn var lagður á, heldur aðeins að hluta. En það sem vekur kannski einna mesta athygli í þessu sambandi er þetta: Um leið og hæstv. forsrh. hefur verið látinn lýsa því yfir í stefnuræðu ríkisstjórnarinnar að þessi hálfa niðurgreiðsla eigi að koma á mjólk, kjöt, grænmeti og fisk og meira að segja verði tekið til athugunar að hún komi líka á gróf brauð, þá kemur hæstv. fjmrh. og lýsir því yfir um leið og hæstv. forsrh. er búinn að flytja stefnuræðu sína að í fjmrn. sé í athugun að gera þetta með allt öðrum hætti þannig að þessi niðurgreiðsla komi aðeins á mjólk og kjöt en ekki á fisk og grænmeti og aðrar tegundir íslenskra matvæla. Og það er athyglivert, því að nokkuð ljóst má vera að þessi athugun hlýtur að hafa tekið nokkurn tíma, að hæstv. fjmrh. kýs að bíða með að greina frá þessari
sérstöku athugun fjmrn. þangað til að hæstv. forsrh. er búinn að flytja stefnuræðu sína sem gengur í þveröfuga átt.
    Nú hlýtur það þess vegna að vera spurning til hæstv. ríkisstjórnar hvaða áform hún hefur í raun og veru uppi í þessu efni. Er það það sem hæstv. forsrh. sagði í stefnuræðu sinni? Eða felast áformin í þeim athugunum sem hæstv. fjmrh. greindi frá um leið og hæstv. forsrh. var búinn að flytja stefnuræðuna? Það er ástæða til á þessu stigi að óska eftir skýrum svörum um þessi atriði af hálfu hæstv. forsrh.
    Herra forseti. Ég hef hér með örfáum orðum vikið að nokkrum þáttum í þeirri mynd sem óhjákvæmilega hlýtur að falla inn í þann ramma sem hæstv. fjmrh. hefur smíðað utan um þá umræðu sem hér fer fram og það frv. sem hér er til umfjöllunar er hluti af. Ljóst er af þessu að margir veigamiklir þættir í efnahagsstefnunni eru í mikilli óvissu, svo ekki sé

dýpra í árinni tekið.
    Í fyrsta lagi liggur fyrir að einn helsti forustumaður Alþfl. í verkalýðshreyfingunni, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, hefur lýst því yfir að launaforsendur fjárlagafrv. fái ekki staðist.
    Í öðru lagi hefur hæstv. sjútvrh. lýst því yfir að enn eigi eftir að ákveða þann ramma sem sjávarútvegurinn eigi að starfa við á næsta ári þó að hæstv. fjmrh. hafi lýst því yfir að sá rammi sé endanlega ákveðinn og óhagganlegur í fjárlagafrv.
    Í þriðja lagi liggur fyrir að Alþýðublaðið hefur upplýst að Alþfl. sé andvígur þeirri sameiginlegu stefnu Alþb. og Framsfl. að brjóta niður þá nýbreytni í tekjuskattsálagningu sem tekin var upp 1987, þvert ofan í þær yfirlýsingar sem hæstv. fjmrh. hefur gefið um það að ríkisstjórnin sé sammála í þessu efni.
    Og í fjórða lagi minni ég hér á að Framsóknarfélag Reykjavíkur hefur samþykkt harðorð mótmæli gegn þeim áformum hæstv. ríkisstjórnar að leggja skatt á sparnaðinn í landinu.
    Ég ætla ekki hér að tína til fleiri dæmi af þessu tagi en þau sýna svo ekki verður um villst að þessi mál öll eru verulegri óvissu undirorpin og hæstv. forsrh. má hafa sig allan við að tína saman brotabrotin í þessari umfjöllun.