Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 01. nóvember 1989


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Til umræðu mun vera frv. til laga um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði en hv. 1. þm. Suðurl. hefur kosið að ræða hér um efnahagsmálin almennt. Ég hlýt að fagna því, því ég hef heyrt ákaflega lítið á þau minnst í ræðum hv. þm. síðustu vikurnar. En ég skal leitast við að svara þeim spurningum sem hann hefur borið fram.
    Í fyrsta lagi heyrði ég hann spyrja um það hvort samstaða væri í ríkisstjórninni um meginforsendur fjárlagafrv. Það er að sjálfsögðu full samstaða um þær í ríkisstjórninni. Þessar forsendur komu einnig mjög greinilega fram í þjóðhagsáætlun. Í þjóðhagsáætlun er því m.a. spáð að meðalverðbólga muni frá þessu ári til næsta árs verða um 16% sem er veruleg lækkun á verðbólgu borið saman við árin 1988 og 1989. Forsendurnar eru að sjálfsögðu tengdar þeirri tekjuþróun sem verður á næsta ári. Til þess hefur ríkisstjórnin ekki tekið afstöðu. Tekjuþróunin er að sjálfsögðu málefni vinnumarkaðarins. En spá ríkisstjórnarinnar í þeim efnum kemur fram í þessum forsendum verðlagsþróunar á næsta ári. Við gerum okkur vonir um það að verðbólgan muni falla mikið á næsta ári. Ekki eins og hv. þm. lýsti hér áðan, ef ég skildi hann rétt, að verðbólga yrði svipuð á næsta ári og þessu.
    Kaupmáttur hefur fallið á þessu ári, mun líklega falla um u.þ.b. 8--9%. Því veldur einnig að dregið hefur mjög úr þenslu. Og ég hygg að hv. þm. geti verið mér sammála um að það var afar mikilvægt að drægi úr þeirri ofþenslu sem hér var á árunum 1987 og 1988. Vinnutími hefur því styst verulega. Og að sjálfsögðu ber þess að geta að inni í tölum um minnkandi kaupmátt ráðstöfunartekna felst einnig styttri vinnutími. Það hefur dregið mjög mikið úr yfirvinnu. Hér er því ekki eingöngu um að ræða minnkandi kaupmátt kauptaxta þó að rétt sé að kaupmáttur kauptaxta hafi einnig fallið nokkuð. Það er þó afar athyglisvert sem kom fram á nýlegum fundi hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja að kaupmáttur þeirra sem með lægstu launin eru hefur vaxið á þessum tíma en ekki fallið og því náðst að nokkru að jafna launin í þjóðfélaginu, þ.e. á meðal þeirra sem eru í meðal- eða lægri kaupstiga. Ég get því fullvissað hv. þm. um það að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Það er full samstaða í ríkisstjórninni um þessar meginforsendur bæði þjóðhagsáætlunar og fjárlagafrv.
    Hv. þm. ræddi einnig um starfsskilyrði sjávarútvegsins og taldi þar bera nokkuð á milli þess sem fjmrh. hefur lýst og sjútvrh. Ég vek athygli hv. þm. á því að fjárlagafrv. verður ekki orðið að lögum fyrr en seint á þessu ári og fyrr er það að sjálfsögðu ekki orðin ein meginforsenda þessa starfsgrundvallar í atvinnulífinu almennt. Og ýmislegt mun skýrast fyrir þann tíma. Þarna ræður einnig t.d. raungengið að sjálfsögðu mjög þegar skoðaður er starfsgrundvöllur sjávarútvegsins. Raungengið hefur lækkað afar mikið í tíð síðustu og þessarar ríkisstjórnar. Frá því í byrjun október í fyrra hefur raungengið á mælikvarða launa

lækkað um nálægt 14% og á mælikvarða verðlags um nálægt líklega 5--6%. Því er spáð að raungengi verði í lok þessa árs orðið fyrir neðan það meðaltal sem hefur verið á öllum áratugnum 1980--1990. Ég vísa til þess að hv. þm. Sjálfstfl. hafa réttilega hér á þingi lýst afar miklum áhyggjum með of hátt raungengi. Þetta kom fram í ræðu eftir ræðu á síðasta þingi. Þarna hefur sem sagt tekist að lækka raungengið mjög. En á sama tíma er þó að mati Þjóðhagsstofnunar, eins og glöggt kemur fram í þjóðhagsáætlun, verðbólga á þessu ári, ef ég man hvernig það er orðað þar, nokkurn veginn nákvæmlega sú sama og á sl. ári. Það er út af fyrir sig afar mikill vinningur að hafa þó komið raungengi þetta langt niður og niður fyrir það sem raungengi var 1987. En á sama tíma hefur ekki orðið sú hækkun á verðlagi, verðbólgu eins og verið hefur á öllum samdráttarskeiðum þegar reynst hefur nauðsynlegt að lækka raungengi. Það sýnir mjög glöggt samanburður allt frá stríðsárum.
    Það er hárrétt sem kemur fram hjá fjmrh. að starfsgrundvöllur atvinnuveganna er mjög að mótast og fjárlagafrv. á þar vitanlega mjög stóran þátt í. En inn í þetta spilar einnig hvernig lokið verður þeirri greiðslu úr Verðjöfnunarsjóði sem enn á sér stað og sömuleiðis hvort þær verðhækkanir, sem nú eru erlendis á fiskafurðum, verða varanlegar og verða víðar en t.d. bara á Bretlandsmarkaði. Það eru ákveðnir hlutir núna að gerast sem ráða vitanlega samhliða fjárlagafrv. afar miklu um starfsgrundvöll sjávarútvegsins.
    Þessi mál hafa að sjálfsögðu verið ítarlega rædd í ríkisstjórninni og m.a. komið fram hjá sjútvrh., sem hann hefur lýst á fiskiþingi, að þarna eru ákveðnir þættir sem eru enn þá í mótun. Og ég hef ekkert farið leynt með það þar sem ég hef rætt um þessi mál, að ef ekki verður verðhækkun erlendis sem mætir t.d. þeim 3% sem greidd eru úr Verðjöfnunarsjóði, þá hlýtur gengið enn þá að síga eitthvað eða raungengi enn að lækka nokkuð.
    Ég er því miður ekki með grg. sem ég fékk frá Seðlabankanum núna fyrir tveimur dögum um samkeppnisstöðu og þróun raungengis þar sem Seðlabankinn metur nú að enn meira hafi áunnist að þessu leyti heldur en áður var metið, og telur reyndar að raungengi hafi lækkað meira og samkeppnisaðstaðan, þá
vitanlega að teknu tilliti til þróunar allra þeirra þátta sem þar spila inn í, hafi lagast enn meira en við höfðum áður haft upplýsingar um. Það bendir því allt til þess að það sé að nást alveg á næstunni, sem sjávarútveginum var lofað þegar samningar voru gerðir 30. mars sl., að afkoman að mati Þjóðhagsstofnunar sem var samkomulag um að leggja til grundvallar yrði í heildina eða að meðaltali fyrir ofan núllið á samningstímanum. Og það veit ég að hv. þm. getur tekið undir með mér að er afar mikilvægt.
    Ég get því ekki betur séð en að þessar yfirlýsingar séu réttar. Fjárlagafrv. á stóran þátt í að skapa rammann en það eru þarna vissir þættir sem sjútvrh.

vísar til sem enn þá eru í mótun.
    Það er æðimargt fleira sem gerst hefur á þessu ári sem verður að teljast mjög jákvætt. Hv. þm. talar nokkuð um viðskiptahallann sem hann benti réttilega á að hefur minnkað. Mikilvægara er þó í þessu sambandi að vöruskiptajöfnuðurinn er nú jákvæður í fyrsta sinn eftir nokkur ár. Áætlað hefur verið að vöruskipti yrðu jákvæð um 5 milljarða kr. en það bendir ýmislegt til þess nú eftir síðustu tölur og þegar tekið er tillit til þess að enn þá er mikil framleiðsla í sjávarútvegi að vöruskiptajöfnuðurinn geti orðið enn jákvæðari. Ég leyfi mér því að fullyrða að þessi jákvæði vöruskiptajöfnuður, og sömuleiðis sú staðreynd að verðbólgan hefur ekki aukist, skapi mjög traustan grundvöll til þess að ná miklum árangri á næsta ári. Og ég veit að hv. þm. fagnar því að sjálfsögðu einnig fyrir hönd þjóðarbúsins.
    Hv. þm. kom víða við. Meðal annars nefndi hann nýlega samþykkt í Framsóknarfélagi Reykjavíkur um skattlagningu á sparifé. Framsfl. hefur samþykkt, hvað sem einstök félög kunna svo að álykta, að það eigi að samræma skattlagningu á ýmiss konar eignir, þar með taldar fjármagnseignir og fasteignir og sú stefna hefur verið mörkuð að gera þetta með því að skattleggja raunvexti fyrir ofan 1--2% af sparifé og lækka á móti eignarskatta, sérstaklega það hæsta þrep sem lagt var á á sl. ári. Hvað svo sem liggur að baki þessari samþykkt þá get ég fullvissað hv. þm. um að um þetta er full samstaða innan þingflokksins, m.a. vegna þess að við teljum nauðsynlegt að lækka hátekjuþrepið sem lagt var á í fyrra ef ekki að afnema það af öllu leyti. Við teljum líka eðlilegt, og ég man eftir því að við töluðum um það þegar við sátum saman í stjórn, að það væri afar eðlilegt að samræma skatttekjur á mismunandi eignarform, þannig að ég vona að hv. þm. geti staðfest það að slík samræming er eðlileg.
    Ég gæti að vísu rætt um mörg fleiri atriði, ég man nú ekki hvort það voru fleiri beinar spurningar til mín í þessu sambandi. Út af fyrir sig væri afar þarft hér að taka góða málefnalega umræðu um þróun efnahagsmálanna. Ég tel að erfiðleikar í efnahagslífinu verði í upphafi næsta árs fyrst og fremst á sviði verslunar og þjónustu sem, af mjög eðlilegum ástæðum, verður nú fyrir þeim samdrætti sem hófst í sjávarútvegi sem ég tel að við séum að komast jafnt og þétt og markvisst yfir. Ég verð hins vegar að taka undir það með ágætum manni sem vinnur að fjárhagslegri endurskipulagningu á þeim sviðum
að upp úr því mun væntanlega rísa traustari og öruggari verslunar- og þjónustustarfsemi í þessu þjóðfélagi. Það er því skoðun mín og skoðun ríkisstjórnarinnar að þegar kemur fram yfir mitt næsta ár verði hér orðin æðimikil breyting á efnahagssviðinu. Verðbólga orðin lág, vonandi og að öllum líkindum komin niður fyrir 10% ef ekki gerist eitthvað mjög óvænt í verðlagsmálum sjávarafurða erlendis. Eins og ég lýsti í minni stefnuræðu gerir ríkisstjórnin ráð fyrir því að afnema alla verðtryggingu fjármagns --- alla segi ég að vísu, a.m.k. á öllum meðal og skemmri lánum, það er enn þá verið að

ræða um allra lengstu lánin eins og hjá lífeyrissjóðum, hvort þau eigi að vera verðtryggð áfram, og við gerum okkur vonir um að þá séum við Íslendingar komnir í botninn á þessu samdráttarskeiði og getum séð fram á hagvöxt á ný.