Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 01. nóvember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það er rétt sem hefur komið fram í máli manna að þetta er gamall kunningi þótt hann hafi tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina. Hann á sér nokkuð langa sögu eða allt frá því að vinstri stjórn fyrir rúmum áratug lagði þennan skatt á. Röksemdirnar fyrir skattinum þá voru þær að hann ásamt nýbyggingargjaldi ætti að færa til fjármuni í þjóðfélaginu frá þeim sem hefðu grætt á verðbólgunni og til hinna sem hefðu tapað.
    Þetta var meginröksemdin þá. Síðan er liðinn langur tími og margt hefur gerst í íslenskum efnahagsmálum sem ryður þessum röksemdum til hliðar. M.a. hefur því verið breytt að nú eru greiddir raunvextir og allduglegir raunvextir af lánum, sérstaklega eftir að ríkisstjórn hæstv. forsrh., ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sú fyrri, stóð fyrir því --- það var samstjórn framsóknarmanna og sjálfstæðismanna --- stóð fyrir því að gerðar voru þær breytingar á lögum um banka og vexti að vextir voru gefnir frjálsir til þess að ná fram jafnvægi á fjármagnsmarkaðinum. Það var eitt stærsta framfaraspor sem stigið hefur verið jafnvel þótt menn séu nú að reyna að berjast við afleiðingar þess eins og það hafi komið þeim á óvart að auðvitað hlutu vextir að hækka í kjölfar þessa frelsis vegna þess ójafnvægis sem var ríkjandi á markaðnum. Sem betur fer hefur hæstv. ríkisstjórn ekki gripið til handafls til að færa niður vextina, enda eru vextir nú talsvert hærri en fyrir 2--3 árum sem eðlilegt er þegar þess er gætt að núverandi hæstv. ríkisstjórn rekur þá stefnu í efnahagsmálum að afla lánsfjár erlendis og hérlendis til að standa undir þeim kostnaði sem ríkið þarf að greiða. Þetta sést m.a. á gífurlegum viðskiptahalla sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að halda, er í ár líklega 9--10 milljarðar sem er allveruleg upphæð.
    Nú hefur ríkisstjórnin ekki einungis samþykkt að gleypa það í sig að það sé gífurlegur halli á fjárlögum yfirstandandi árs heldur leyfir hæstv. ríkisstjórn sér það að leggja fram fjárlagafrv. þar sem gert er ráð fyrir að hallinn sé verulegur eða tæpir 3 milljarðar. Það getur ekki leitt til annars en að brúa þurfi bilið með lántökum og ef yfirlýsingar hæstv. fjmrh. eru marktækar, þá hlýtur sú ásókn sem þá verður í innlenda fjármagnsmarkaðinn að leiða til verulegrar vaxtahækkunar nema stefnt sé í voða því markmiði að selja ríkisskuldabréf til að mæta hallanum.
    Það hefur ekki nægilega komið fram í umræðum og skiptir verulegu máli þegar þetta frv. er til umræðu að verulegur hluti af því fjármagni sem ríkið aflar sér á innlenda lánsfjármarkaðinum fæst með sölu ríkisvíxla. Ég geri ráð fyrir því, hæstv. ráðherra mun leiðrétta mig ef ég fer rangt með, að vextir á ríkisvíxlum séu umtalsvert hærri en á ríkisskuldabréfum eða a.m.k. um 10% eða jafnvel hærri. Þetta er auðvitað lýsandi dæmi um það hvað hefur verið að gerast og er að gerast á

fjármagnsmarkaðinum og nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að auka enn spennuna á þessum markaði, sem auðvitað stefnir markmiðum ríkisstjórnarinnar um jafnvægi í þjóðarbúskapnum í verulega hættu og gerir það að verkum að menn hljóta að efast nokkuð um orð hæstv. forsrh. og orð hæstv. fjmrh. þegar þeir lýsa ástandinu hér á landi eins og hér sé himnaríki á jörð.
    Ef við lítum eitt ár aftur í tímann og könnum síðan reynsluna af því ári, þá er hægt að rifja það upp að fyrir tæpu ári síðan voru afgreidd fjárlög með 600 millj. kr. tekjuafgangi. Þetta var gert í kjölfar þess að hæstv. fjmrh. og núv. hæstv. ríkisstjórn hafði hækkað skatta um rúma 7 milljarða og hæstv. núv. fjmrh. hafði látið gamminn geisa og lamið á forvera sínum, hæstv. ráðherra Jóni Baldvini Hannibalssyni, kallað stjórn hans á fjármálum ríkisins ,,milljarða mistök`` og sagði að nú yrði tekið á þessu máli og sagðist skyldu sýna þingi og þjóð að nú væri kominn maður að ríkisfjármálunum sem gæti stjórnað þeim þannig að ríkið væri rekið með jákvæðri rekstrarniðurstöðu upp á 600--700 millj. kr.
    Hefur þetta gengið eftir? Hefur hæstv. fjmrh. komið hér í ræðustól á Alþingi á þessu hausti til þess að skýra þingheimi og þjóð frá því að honum hafi tekist þetta ætlunarverk, hann hafi ekki fetað í fótspor fyrirrennara síns og sýnt verulegan halla á fjárlögum? Hefur ekki hæstv. ráðherra komið hingað upp og sagt: Ég er maður sem stend við mín orð. Ég að vísu hækkaði skattana lítils háttar, svona um 7 milljarða eins og allir vita. Nú er liðið ár. Ég lofaði að skila ríkissjóði með tekjuafgangi. Hefur hann ekki komið hingað og sagt okkur frá því hve afgangurinn er mikill? Nei, þetta hefur hæstv. ráðherra ekki gert. Hann hefur hins vegar ekki hikað við að koma hér upp í ræðustól og lýsa ástandinu eins og það sé svo gott hér að allar aðrar þjóðir ættu að eiga þessa þjóð sem fyrirmynd í þessum efnum. Og hann hefur látið þess getið að það vanti nokkrar krónur upp á að það sé jöfnuður á niðurstöðutölum ríkissjóðs. Nokkrar krónur, sagði ég. Hverju skyldi nú hæstv. ráðherra spá í þessum efnum? 100 millj., 600 millj., svona álíka tölu eins og hann skildi eftir af niðurstöðutölum fjárlagafrv.? Nei, hæstv. ráðherra hefur skýrt frá því að líklega megi búast við því að þegar niðurstöðutölurnar liggja fyrir í lok
ársins sýni þær hvorki meira né minna en að halli á ríkissjóði í ár verði tæpir 5 milljarðar. Var þetta ekki óvænt? Var þetta nokkuð sem hæstv. ráðherra gat gert að? Auðvitað er það þannig að sumt sjá menn ekki fyrir. Þar á meðal gerði hæstv. ráðherra ráð fyrir því á sínum tíma að verðlagsþróun yrði önnur en hún varð. Svo koma hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hér í stólinn ári seinna og ætlast til þess að þingheimur trúi þeim nú, að verðbólgan fari niður í 16% á næsta ári. Og hæstv. forsrh. meira að segja, sem er nú bjartsýnasti maður á Íslandi, maður verður stundum svo hissa þegar maður hlustar á hann blessaðan, hann leyfir sér að halda að á næsta ári náist það markmið að í 6 mánuði verði verðbólgan undir 10% og lofar þjóðinni því að þá sé hægt að hætta við verðtryggingu

fjármagnsins. Ég spyr: Trúir hæstv. ráðherra þessu sjálfur? ( Forsrh.: Já, hann gerir það.) Ja, mikil er trú þín kona, var sagt einu sinni. En ég verð að segja það, ef forsrh. trúir þessu sjálfur, þá er hann eini þm. sem trúir þessu. Og hvers vegna ekki? Hvers vegna trúa aðrir þessu ekki? Það er einfaldlega vegna þess að reynslan hefur sýnt okkur að þetta hefur aldrei gengið fram, jafnvel þó hæstv. forsrh. hafi, í undanförnum ríkisstjórnum sem hann hefur átt sæti í, reynt að telja þjóðinni trú um þetta. Þessu trúir auðvitað ekki nokkur maður. Og Karl Steinar Guðnason alþm. gerði eins og barnið forðum, benti á keisarann og sagði: Hann er ber. Hann er ber. Vegna þess að hann er það raunsær, hann starfar í verkalýðshreyfingunni og veit að verðlagsforsendur næsta frv. eru út í bláinn því að það er algerlega ljóst að við þessar forsendur verður ekki unað. Þetta sagði einn af hv. þm. stjórnarliðsins á fundi úti í bæ. Hann tók að sér hlutverk barnsins að benda á beran keisarann sem kemur hér í ræðustól á hv. Alþingi til þess að telja okkur trú um það að verðbólgan sé á niðurleið. Sami maðurinn sem ásamt hæstv. fjmrh. gumar af því að verðbólga sé nú minni en áður. Hver var verðbólgan þegar þessi stjórn tók við? 11, 12, 13%. Hver er hún í dag? Hverjir eru vextirnir hjá ríkisbönkunum í dag? Það var verið að hækka þá, hæstv. forsrh. Eru þeir 25, 26 eða 27%? Eitthvað þar um bil. Og verðbólgan er heldur lægri. Með öðrum orðum, verðbólgan hefur nánast tvöfaldast í höndum þessara ágætu stjórnarherra hæstv. ríkisstjórnar á einu ári. Þetta er árangurinn. Svo koma þessir menn hér í ræðustól, berja sér á brjóst og segja: Á næsta ári verður þetta allt, allt öðruvísi. Þá verður verðbólgan miklu minni. Og ég segi: Hver trúir þessum mönnum? Jú, það er einn sem finnst til að trúa þeim, það er forsrh. sjálfur.
    Fyrst ég hef þá félaga, hæstv. sjútvrh. og hæstv. fjmrh., hérna fyrir framan mig, það er sjaldgæft að sjá þá svona saman hér á þingfundi, er best að spyrja hæstv. sjútvrh. að því beint hvort hann sé tilbúinn til þess að gera hv. Alþingi þann heiður að endurflytja þá ræðu sem hann flutti fyrir skömmu og sagði frá því að það þyrfti að taka ákvörðun um þann efnahagsramma sem notaður yrði á næsta ári. Með öðrum orðum, hæstv. sjútvrh. gaf það í skyn að sá efnahagsrammi sem fælist í fjárlagafrv. væri ekki sá rétti. Nú er hæstv. sjútvrh. kominn hingað og af því að hann hefur nú tvö eyru og þarf ekki að hlusta með nema öðru á hæstv. fjmrh., þá veit ég að hann ljær mér hitt eyrað og okkur þegar ég spyr hann að því hvort hann vilji nú vera svo góður að koma hingað upp og segja okkur frá innihaldi þessarar ræðu og segja okkur frá því hvernig átti að skilja hann þegar hann flutti þjóðinni þennan boðskap annars staðar en hér á hinu háa Alþingi. Ég held að það væri fróðlegt fyrir okkur að fá að heyra frekari skýringar á því máli. Hann, ásamt hv. þm. Karli Steinari, hefur nefnilega sagt skýrt og skorinort að það sé harla lítið að marka það sem kemur fram í því sem hæstv. fjmrh. kallar efnahagsumgjörðina á næsta ári sem eru

forsendur fjárlagafrv. og fjárlagafrv. sjálft.
    Ég var að ræða, áður en ég lagði þessa fsp. fyrir hæstv. sjútvrh., um fjárlög yfirstandandi árs af því tilefni að hæstv. ráðherra segir okkur nú að á næsta ári verði allt breytt, þetta verði allt miklu betra heldur en á yfirstandandi ári. Það er sams konar ræða og hann flutti í fyrra. Ég var að fara í gegnum hallann á þessu ári sem nú er að líða og benti á að auðvitað er það ýmislegt sem getur breyst án þess að hæstv. ráðherra sé þar um að kenna. Ég var að minnast á verðlagsforsendurnar. Þær hafa breyst. Það má gera ráð fyrir því að það þýði svo mikið sem breytt útgjöld upp á líklega hálfan þriðja milljarð. Að vísu koma tekjur á móti, líklega um tveir milljarðar. Þar tapar ríkissjóður kannski 400--500 millj. skulum við gera ráð fyrir. En hæstv. ríkisstjórn hefur líka tekið ákvarðanir sem hafa valdið verulegum halla, líklega hálfum þriðja milljarði og eins og margoft kom fram í umræðunni um fjárlög á sl. ári, um fjárlög yfirstandandi árs, þá voru vanáætlanir í frv. og nú kemur það í ljós að slíkar vanáætlanir eru líklega tæpir 2 milljarðar. Hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér síðan að spara heilmikið eða um 1100 millj. og sá árangur næst nú varla. Ætli það náist ekki 700 millj. kr. sparnaður eða þar um bil þannig að eftir standi þar líklega tæpur hálfur milljarður. Nú kemur þessi sami hæstv. ráðherra og segir að menntmrn. ætli að spara eitt og sér 200 millj. kr. og ætlast til þess að menn trúi því. Auðvitað trúir þessu ekki nokkur maður. Ef þetta hefði verið ætlunin, þá auðvitað væri ljóst að það hefði verið sett inn í frv. Það getur vel verið að þeir hafi ekki fyrir
nokkrum árum verið miklir vinir hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. en það er vitað nú að þeir sitja í sömu ríkisstjórninni, eru flokksbræður og tala stundum saman. Og ég efast ekkert um það að ef einhver vilji hefði verið að setja þetta inn í frv. þá hefði það verið gert. Staðreynd málsins er sú að hæstv. ráðherra menntamála ætlar sér auðvitað ekkert að spara. Þetta er bara sett á blað til þess að gefa okkur ranga hugmynd um það sem á að gerast á næsta ári.
    Þetta nefni ég allt hér vegna þess að ég tel að það sé ástæða til þess að vara þingheim og vara þjóðina við því þegar þessir herrar koma nú annað skiptið í röð og segja að nú megi trúa þeim. Þetta hefur að vísu mistekist eitthvað í ár, en á næsta ári verður allt miklu bjartara.
    Það hefur verið minnst á það hér og áður en hæstv. forsrh. gekk fram minntist hann á það að erfiðleikarnir væru ekki búnir, þeir væru að vísu ekki í sömu greinum og áður. Þeir væru ekki lengur að sama marki í frumframleiðslugreinunum, þeir hefðu færst yfir í þjónustugreinarnar og verslunina. Þetta sagði hæstv. ráðherra í umræðum um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Í umræðum um skattlagningu á þær greinar sem eru í verslun og þjónustu. Hvernig getur hæstv. ráðherra látið þessa hluti koma heim og saman? Ef hann, sem er nú meistari sértækra aðgerða, hefði viljað eitthvað gera fyrir þessar greinar og koma til móts við þá erfiðleika

sem eru uppi ekki síst í dreifbýlisversluninni þá hefði hann átt að standa að því að lækka duglega þennan skatt og jafnvel að afnema hann.
    Saga þessa skatts á síðustu árum er sú að hann var 1,1%, hækkaði síðan í meðferð þessarar ríkisstjórnar í 2,2% ef ég man rétt, en var lækkaður síðan aftur á miðju ári, áður en hann var greiddur niður, í 1,5% og nú er gert ráð fyrir því að hann verði sá sami á næsta ári. Ég spyr hæstv. ráðherra, hæstv. fjmrh., finnst ekki hæstv. fjmrh. það skjóta nokkuð skökku við þegar það er viðurkennt af æðsta manni þjóðarinnar, hæstv. forsrh., að erfiðleikarnir séu mestir í þeim greinum sem hér er verið að skattleggja sérstaklega? Er hæstv. fjmrh. sammála því sem hæstv. forsrh. sagði? Ef hann er sammála, finnst honum það þá rökrétt að halda áfram þessari skattlagningu? Þessum spurningum óska ég eftir að hæstv. ráðherra svari þegar hann tekur til máls hér síðar í þessari umræðu.
    En það sem kannski vekur mesta athygli þegar við hér erum að ræða í dag um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði annars vegar og meiningin er að ræða hér síðar um launaskattinn, þar á að fjölga gjalddögum til þess að ná inn eitthvað meiri tekjum á næsta ári sem auðvitað bitnar síðan einhvern tíma á öðru ári en því (Gripið fram í.) --- jæja, eða hvernig sem það er, það skiptir nú ekki máli, hæstv. ráðherra skýrir það út í umræðunni um það mál hér á eftir og kemur þá að því að menn fá nýjan skilning á því eins og svo ýmsu öðru þegar hæstv. ráðherra tekur til máls. En það sem vekur kannski mesta athygli er að hér skuli ekki vera komið inn á borð þm. frv. um virðisaukaskatt. Ástæðan er sú að vorið 1988 voru samþykkt lög frá Alþingi um virðisaukaskatt. Að vísu var hæstv. fjmrh. á móti þeirri skattlagningu. Líklega tók enginn meira upp í sig en hæstv. ráðherra þegar hann skammaði fyrrv. ráðherra, forvera sinn, Jón Baldvin Hannibalsson, vegna matarskattsins. Ég ætla nú ekki að rifja þetta upp einu sinni enn, hæstv. ráðherra. Þó að ég viti að ráðherrann vilji gjarnan að frá því sé sagt, þá ætla ég að geyma það til betri tíma. Ég sá nefnilega að þessi skelfingarsvipur kom á ráðherrann þegar hann hélt að ég ætlaði að fara að endurtaka það hér enn einu sinni. En það var ætlunin að virðisaukaskatturinn tæki gildi á miðju yfirstandandi ári. Hæstv. fjmrh. lagði þá fram frv. á Alþingi til frestunar á gildistöku virðisaukaskattsins. Hann skildi nú frestast um hálft ár, en það voru tvær meginástæður fyrir því. Önnur var sú að hann vildi fá lengri tíma til þess að undirbúa málið. Hin var sú að ef virðisaukaskatturinn tæki gildi á miðju ári mundu tekjur ríkisins rýrna.
    Hvað hefur gerst frá þessum tíma? Jú, það er lagt fram fjárlagafrv. sem gerir ráð fyrir því að virðisaukaskatturinn hækki úr 22% í 26% og nú skal þess getið, til þess að menn glöggvi sig betur á því hvaða upphæðir hér er um að ræða, að hvert virðisaukaskattsstig gefur einn og hálfan milljarð í ríkissjóð. Með öðrum orðum: Þetta er 6 milljarða munur brúttó. Auðvitað kemur til frádráttar ýmislegt sem ég ætla ekki að nefna og hins vegar er ljóst að

auðvitað hefði virðisaukaskatturinn þurft að vera ögn hærri eða 23,5% til þess að jafna út söluskattinn og ríkissjóður fengi þannig sömu tekjur og áður. Þetta höfum við lesið þannig að ekki tapast nú tekjur á næsta ári. Og líklega græðir ríkissjóður 3--4 milljarða ef hæstv. ráðherra nær þessum hugmyndum sínum fram. Það sem er hins vegar öllu alvarlegra er það að tíminn, þessir 6 mánuðir sem hann fékk til viðbótar til að undirbúa málið, hefur ekki verið notaður sem skyldi. Það eru aðeins, að því er ég veit best, komnar tvær reglugerðir af a.m.k. 14 reglugerðum sem þurfa að liggja fyrir og enn bíða menn eftir því. Menn, sem voru skyldaðir til þess samkvæmt lögunum fyrir daginn í dag að skýra frá því að þeir væru virðisaukaskattsgreiðendur, hafa
sumir hverjir ekki hugmynd um það hvernig þeir eiga að greiða skattinn og til hvaða hluta skatturinn nær. Og hver er nú ástæðan fyrir þessu? Jú, hún er sú að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir hafa ekki komið sér saman um þessi mál. Þannig hefur þessi tími verið notaður. Og nú þegar við erum að ræða hér um gamlan kunningja, mál sem menn í sjálfu sér þekkja mjög vel og þurfa ekki að eyða miklum tíma í að hugsa um, þá vekur það auðvitað mesta athygli að fyrir þessum fundi og fyrir þinginu liggur ekki frv. til breytinga á lögum um virðisaukaskatt.
    En ef maður lítur hins vegar í fjárlagafrv. þá sér maður að hæstv. ráðherra virðist ekki taka meira mark á sjálfum sér en svo að þrátt fyrir það að hér
eigi að taka upp virðisaukaskatt á næsta ári þá ætlar hæstv. ráðherra að halda áfram að leggja jöfnunargjald á innflutning upp á 500 millj. kr. En allir vita að jöfnunargjaldið var lagt á til þess að jafna þann mun sem íslenskir framleiðendur og erlendir samkeppnisaðilar þeirra bjuggu við. Munurinn fólst í því að söluskatturinn er með þeim ósköpum gerður að í honum geta orðið uppsöfnunaráhrif og til þess að koma til móts við innlendu framleiðendurna þá var jöfnunargjaldið lagt á. En nú ætlar núv. hæstv. fjmrh. bæði að halda og sleppa. Hann ætlar sem sagt að leggja á virðisaukaskattinn en heldur áfram að leggja á jöfnunargjaldið. Og til þess að rökstyðja þetta hefur hann gengið svo langt að segja að hann geri þetta af því að það gerist innan Evrópubandalagsins að menn færi fé til jaðarbyggðanna. Með öðrum orðum: Réttlætingin fyrir að halda jöfnunargjaldinu, sem er auðvitað brot á samkomulagi okkar við aðrar þjóðir, felst í því að innan Efnahagsbandalagsins ríkir sú stefna að menn séu að færa peninga til jaðarbyggðanna og þess vegna sé það sjálfsagt að við gerum slíkt hið sama. Munurinn er bara sá, ég veit ekki hvort hæstv. ráðherrann hefur áttað sig á því, að hann ætlar að leggja skatt á okkur í ríkissjóð. Sem þýðir hvað? Sem þýðir það að vörur verða dýrari á Íslandi og vörur í Glasgow þess vegna hlutfallslega ódýrari og þess vegna miklu betra að fara þangað til að versla. Þetta gerist auðvitað vegna þess að hæstv. ráðherra hefur enga hugmynd um það hvernig hann ætlar að taka á þessum málum þegar að virðisaukaskattsárinu kemur.

    Þetta sama gerist þegar hann hefur nú, að því er manni skilst, ákveðið að veita ekki gjaldfrest í tolli á virðisaukaskattinum, en það hækkar auðvitað vöruverð talsvert og gerir samkeppnisstöðuna lakari fyrir íslenska verslun gagnvart versluninni í Glasgow. Ég verð að segja það að margt hefur maður nú heyrt frá hæstv. ráðherra, en eitt hélt ég þó og það er að hann kynni eitthvað fyrir sér í verslun, því að hæstv. ráðherra er fyrrverandi stjórnarmaður í Kron. ( Fjmrh.: Nei, nei, nei.) Jæja, félagsmaður í Kron. ( Fjmrh.: Ég er alltaf að segja það.) Jæja, hæstv. ráðherra komst ekki svo langt að vera stjórnarmaður í Kron. Hann var aldrei kosinn í stjórn Kron. Hann var hins vegar fulltrúi í Kron á þingum Sambands ísl. samvinnufélaga. ( Fjmrh.: Það er rétt.) Jæja, loksins hefur þetta komist rétt frá og þá skilja menn að það gildir einu því að auðvitað sannar þetta að hæstv. ráðherra hefur mikið vit á verslun og ætti að hafa skilning bæði á verslun í Reykjavík, sem er svæði Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis, og eins landsins alls sem samvinnuhreyfingin nær til. Þess heldur verður maður að gera þá kröfu til hæstv. ráðherra að hann átti sig á því hvað hann er að gera.
    Það verður vissulega tilhlökkunarefni að sjá hvort hæstv. ráðherra breytir, sem ég tel að hann hljóti að gera, núverandi afstöðu sinni til þessa máls þegar það verður lagt fyrir Alþingi á næstunni.
    Í þriðja lagi má nefna í þessu sambandi að nú liggja fyrir þrjár útgáfur á því hvernig eigi að endurgreiða hluta söluskattsins, eða virðisaukaskattsins. Yfir það mál fór hv. 1. þm. Suðurl. nokkuð vandlega og þarf ég ekki að endurtaka það. En svo virðist sem þegar fjárlagafrv. var skrifað að þá hafi hæstv. fjmrh. verið búinn að ákveða það að endurgreiðslan færi á dilkakjöt, mjólk, á fisk og innlent grænmeti. ( HJ: Og gróft brauð.) Nei, hv. þm. Hreggviður, það var ekki fyrr en Borgfl. kom inn í ríkisstjórnina og gerði kröfu um það að breikka endurgreiðsluna sem hæstv. forsrh. kom til móts við þá og sagði að það kæmi til greina og þyrfti að skoðast vandlega hvort endurgreiðslan ætti ekki að ná til grófs brauðs. Það verður auðvitað að þakka Borgfl. það sem Borgfl. er. Því að þarna hefur auðvitað Borgfl. náð þeim stórkostlega árangri í afnámi matarskattsins að hæstv. forsrh. hefur fyrir hönd Borgfl. lýst því yfir að það komi til greina að endurgreiðslan nái til grófs brauðs. Þeir eru nú miklir skorpumenn hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., og má vera að þetta hafi eitthvað með það að gera. En þó hygg ég að þetta sé Borgfl. að þakka og ætla a.m.k. að ákveða það þar til annað sannara kemur í ljós.
    Þessar umræður hafa að sjálfsögðu farið nokkuð víðar heldur en um það mál sem hér er á dagskrá. (Gripið fram í.) Og það er von vegna þess að hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. hafa báðir mælst til þess að hér yrði tekin upp nokkur umræða um efnahagsmál, þar með talin skattamál eða tekjumál og gjaldamál ríkisins vegna þess að þeir hafi saknað þess að Sjálfstfl. hafi ekki
gert það fyrr. ( Gripið fram í: Þú ert bara að gera þetta fyrir okkur.) Ég er fyrst og fremst að gera þetta

vegna þess að hæstv. ráðherra hefur æ ofan í æ lýst undrun sinni á því að Sjálfstfl. skuli ekki hafa tekið upp umræðu um efnahagsmál á Alþingi. Og nú segi ég, hæstv. ráðherra, hér er tækifærið, hér hefur komið fram fjöldi af fyrirspurnum, hér hafa komið efnislegar athugasemdir, hér hefur verið bent á það að aðrir ráðherrar eru ósammála hæstv. ráðherra, þar á meðal sessunautur hans, hæstv. sjútvrh., og undir hans málstað tók reyndar hæstv. forsrh. með sínum skýra framburði eins og hans var nú von og vísa. Því tel ég, hæstv. ráðherra, að hér sé gullið tækifæri til að taka þátt í þessari umræðu og svara þeim fyrirspurnum sem málefnalega hafa verið lagðar fyrir hæstv. ráðherra á þessum fundi.
    Að svo mæltu þá lýk ég máli mínu.