Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 01. nóvember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Svör hæstv. forsrh. fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar voru um margt athygli verð, bæði fyrir það sem þar var sagt og kannski ekki síður fyrir hitt sem ósagt var látið.
    Hæstv. forsrh. greindi frá því að það hefði verið full samstaða innan ríkisstjórnarinnar og á milli ríkisstjórnarflokkanna um þær efnahagslegu forsendur sem liggja að baki fjárlagafrv. Með öðrum orðum: Hann er að segja frá því hér á hinu háa Alþingi að Alþfl. hafi fallist á þessar efnahagsforsendur sem frv. byggir á, en einn af áhrifamestu þingmönnum þess flokks og forustumaður í verkalýðshreyfingunni komi svo á eftir og segi að forsendurnar geti ekki staðist. Og enginn af hv. þm. Alþfl. og því síður af hæstv. ráðherrum Alþfl. sér ástæðu til að taka þátt í þessari umræðu og skýra afstöðu Alþfl. í þessu efni. Það er auðvitað ekki nýtt af nálinni því að Alþfl. gufar yfirleitt upp hér á hinu háa Alþingi þegar umræður um þessi efni fara fram. En þetta er það sem liggur fyrir eftir svar hæstv. forsrh.
    Hæstv. fjmrh. hefur margítrekað að í fjárlagafrv. felist sá efnahagsrammi sem atvinnuvegir og launafólk verði að beygja sig undir. Eigi að síður kemur hæstv. forsrh. og segir: Þetta verður að ráðast í samningum á vinnumarkaðnum að því er varðar launaforsenduna og gefur til kynna um allt það sem hæstv. fjmrh. hefur sagt um rammann sem ekki megi bresta að það sé nú lítið mark á því takandi því að allt sé það hinni mestu óvissu háð. Síðan segir hæstv. forsrh. að fjárlagafrv. verði ekki að forsendu efnahagsstarfseminnar og verði ekki að þessum margumtalaða ramma hæstv. fjmrh. fyrr en það hefur verið samþykkt hér á hinu háa Alþingi og þess vegna telji hæstv. sjútvrh. þörf á því að flýta fyrir rammasetningu að því er varðar sjávarútveginn. Heldur var þetta nú kynleg útskýring og í flestu bar hún merki þess að hæstv. forsrh. er býsna fimur á skíðum og kann vel fyrir sér í svigi. En það fer heldur illa á því þegar sú list úr skíðabrekkunum er ástunduð hér á hinu háa Alþingi.
    Hæstv. forsrh. reyndi að sveigja á milli yfirlýsinga hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh. um rammasetningu í efnahagsmálum án þess að taka af skarið. Hann sagði að enn væri óvíst hvernig lokið yrði þeim verðuppbótum sem nú eiga sér stað í gegnum Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og skýra a.m.k. 3% af rekstrarafkomu sjávarútvegsins. Hin eiginlega rekstrarafkoma er neikvæð þegar tekið hefur verið tillit til þess að með erlendum lánum er staðið undir 3% af rekstrarkostnaði. Hæstv. forsrh. segir hér að enn sé óvíst um það hvernig þessu ljúki. Í fjárlagafrv., hinum endanlega ramma er þó alveg skýrt kveðið á um það að þessu ljúki um áramótin og hæstv. sjútvrh. gengur út frá því að svo muni verða.
    Og hæstv. forsrh. gefur til kynna að það sé eitt af þeim atriðum sem hæstv. sjútvrh. sé að tala um hvað verði um verðhækkanir á erlendum mörkuðum á næsta ári. Ég er alveg sannfærður um að þegar hæstv.

sjútvrh. tekur sig loksins til og byrjar að ræða um afkomu sjávarútvegsins og nauðsyn þess að teknar séu ákvarðanir í því sambandi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, þá á hann ekki við hvað neytendur á erlendum mörkuðum eru reiðubúnir að borga. Hæstv. sjútvrh. er ekki svo skyni skroppinn að bera það á borð fyrir þjóðina að verð á erlendum mörkuðum sé hluti af því sem íslensk stjórnvöld hafa yfir að segja eða sé hluti af þeim efnahagsgrundvelli sem íslensk stjórnvöld verða að ákveða sjávarútveginum. Nei, niðurstaðan af þessu svari er sú að hæstv. forsrh. getur engin svör veitt við því sem hér hefur komið fram, að þessir tveir hæstv. ráðherrar í hans ríkisstjórn, fjmrh. og sjútvrh., hafa gefið yfirlýsingar í gagnstæðar áttir. Væri auðvitað mikil og brýn nauðsyn á því að hæstv. sjútvrh. gerði hér nánari grein fyrir því við hvað hann á þegar hann bendir alveg réttilega á að afkoma sjávarútvegsins muni á næsta ári fara versnandi, verulega versnandi, nema nýr efnahagslegur grundvöllur verði ákveðinn sem hann sér ekki fyrir í dag. Það er við þessu sem verið er að krefja hæstv. forsrh. um svör og þau fást ekki.
    Hér hefur svo í umræðunni verið skilmerkilega sýnt fram á það að allt tal hæstv. ráðherra um það að verðbólga sé að lækka er gjörsamlega út í bláinn. Hún hefur nánast tvöfaldast frá því á sama tíma í fyrra. Þegar stjórnarskiptin urðu var verðbólgan um 13% og hún er núna 23%. Á þessu ári er verðbólga frá upphafi til loka árs 25% en hún var 20% frá upphafi til loka ársins þar á undan. Það er sama á hvaða mælikvarða er litið, verðbólgan fer vaxandi. Ég minnist þess þegar ég var hér í þessum ræðustól í byrjun þessa árs að halda því fram að þrátt fyrir spádóma hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. forsrh., um það að verðbólgan færi, ja mig minnir niður fyrir 10%, að þá yrði hún 20--23% á þessu ári. Og þeir stóðu hér upp og fluttu langar hneykslunarræður yfir þessari svartsýni. Reyndin segir svo að spádómar mínir í byrjun þessa árs voru varfærnislegir. Verðbólgan er meiri en við gerðum þá ráð fyrir í okkar umræðu. Og auðvitað fer svo einnig á næsta ári. Enda kemur það fram í forsendum fjárlagafrv. að ríkissjóður er að seilast lengra um á innlendum lánsfjármarkaði og það er verið að auka erlendar lántökur og allt mun þetta auka á þenslu og ýta verðbólgu upp á nýjan leik.
    Auðvitað er það fagnaðarefni þegar viðskiptahalli minnkar. En árangurinn er nú samt ekki meiri en sá að hér er um að ræða 1 / 2 % breytingu frá fyrra ári, það er nú allur árangurinn þrátt fyrir 8% kjaraskerðingu á milli þeirra ára, og þrátt fyrir það að vöruútflutningur hefur verið að aukast. Og það er ekki gert ráð fyrir að ná frekari árangri á næsta ári í því að lækka viðskiptahallann. Eftir stendur að það hefur ekki verið afgangur af viðskiptum við útlönd síðan 1986. Þetta eru þær staðreyndir sem blasa við í þessum efnum. Og það kemur fram í Hagtölum mánaðarins sem Seðlabanki Íslands gefur út að viðskiptahallinn hefur farið vaxandi á síðari hluta þessa árs. Hæstv. forsrh. lýsti því svo yfir að Framsfl. væri klofinn í afstöðunni til vaxtaskattsins sem er eitt af stærstu pólitísku

deilumálum í þjóðfélaginu í dag. Þingflokkurinn ætlaði einarðlega að standa með stefnu hæstv. fjmrh. og formanns Alþb. í því að skattleggja sparifé landsmanna þó að einstakar deildir flokksins ályktuðu um annað. Með öðrum orðum: Hér er staðfest að Framsfl. er klofinn í þessu máli.
    Hæstv. forsrh. gaf engin svör við spurningunni um það hver hefði verið afstaða Alþfl. til þess að brjóta niður kerfisbreytinguna frá 1987. Alþýðublaðið hefur upplýst að Alþfl. sé á móti yfirlýstri stefnu hæstv. ríkisstjórnar í þessu efni, en hæstv. forsrh. gaf engin svör um það hvort þessi afstaða hefur komið fram af hálfu Alþfl. innan ríkisstjórnarinnar og auðvitað er óhjákvæmilegt að kalla eftir skýrum svörum þar um eftir að aðalmálgagn Alþfl., þar sem ritstjórinn hefur á þingflokksfundum sama rétt og þingmenn, hefur upplýst að þessi sé hin raunverulega afstaða innan ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.
    Hæstv. forsrh. gaf engin svör við þeirri fyrirspurn hvort Framsfl. ætlaði að bregðast með jafnjákvæðum hætti við á þessu ári eins og hann gerði í fyrra þegar hæstv. fjmrh. gerði atlöguna að Öryrkjabandalaginu og Háskólanum og ætlaði að taka sjálfsaflafé þessara stofnana í ríkissjóð. Hæstv. forsrh. svaraði engu um það hvort Framsfl. ætlaði að bregðast jafnjákvætt við nú og á síðasta ári og taka höndum saman við þá sem vilja hindra hæstv. fjmrh. í að koma þessum áformum sínum fram. Það vantaði því mikið á að hæstv. forsrh. gæti raðað saman þeim brotabrotum sem fyrir liggja um staðreyndir að því er varðar hinn nýja efnahagsgrundvöll, stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum, í ríkisfjármálum og skattamálum.