Klak- og eldisstöð fyrir sjávarfiska
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Í lögum um Hafrannsóknastofnun frá 1984 segir að eitt af hlutverkum hennar sé að stunda rannsóknir á eldi sjávarlífvera. Var fiskifræðingur ráðinn árið 1985 sem sérfræðingur stofnunarinnar í eldi sjávardýra. Á þeim tíma voru engar aðstæður fyrir hendi til tilrauna með eldi sjávarlífvera. Með samstarfi Hafrannsóknastofnunar, Íslandslax hf. og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og með styrk frá Rannsóknaráði ríkisins hófust tilraunir með söfnun og eldi á smálúðu haustið 1985. Á næstu tveimur árum byggði Íslandslax hf. átta stór útiker þar sem lúðueldistilraunir hafa farið fram. Eru nú um 15 tonn af fiski þar og er gert ráð fyrir að markaðssetja hluta af framleiðslunni nú í haust. Tilraunir þessar þóttu lofa mjög góðu og bentu til að unnt væri að ala lúðuna við mikinn þéttleika sem er forsenda arðbærs fiskeldis.
    Þó að þetta samstarfsverkefni hafi skilað miklum árangri var samt ljóst að Hafrannsóknastofnun gæti ekki náð markmiðum sínum í eldi sjávarlífvera nema með tilkomu eigin tilraunaeldisstöðvar. Við staðarval kom í ljós að af ýmsum ástæðum væri álitlegt að staðsetja stöðina í næsta nágrenni við strandeldisstöð Íslandslax hf. Aðstæður til sjóöflunar eru þar mjög góðar þar sem gnógt er af hreinum og ómenguðum jarðsjó og heitu og köldu vatni.
    Árið 1986 gerði Hafrannsóknastofnun samning við Íslandslax hf. um afnot af landi, sjó, heitu vatni, ferskvatni og rafmagni fyrir tilraunaeldisstöð sem þar skyldi rísa. Eftir að tryggð hafði verið fjármögnun á þessari aðstöðu hóf Hafrannsóknastofnunin samstarf við tvær norskar rannsóknastofnanir um rannsóknir á lúðueldi. Sameiginlega var gerð rannsóknaráætlun til þriggja ára og sótt um styrk til Norræna iðnaðarsjóðsins. Þessi styrkur að upphæð 3 millj. norskra króna fékkst vorið 1988 og skyldu tilraunir með klak- og seiðaeldi fara fram í Noregi en tilraunir með matfiskinn í hinni nýju tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar.
    Þann 2. nóv. 1988 var tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar formlega opnuð og skömmu síðar voru öll eldisker komin í fulla notkun. Um er að ræða 560 m 2 stálgrindahús sem skiptist í eldissal og þjónusturými sem í eru m.a. tvær skrifstofur, rannsóknarstofa, fóðurherbergi og kaffistofa. Í eldissalnum eru 18 þriggja metra föst ker og allmörg smærri ker þar sem unnt er að stjórna bæði hita og seltu. Þá tilheyra einnig stöðinni 5 sex metra útiker.
    Nú eru í gangi þrjár tilraunir í stöðinni með eldi á lúðu. Ein til að kanna áhrif sjávarhita á vaxtarhraða og fóðurnýtingu, önnur til að bera saman sex mismunandi fóðurgerðir og sú þriðja beinist að því að kanna áhrif birtu og botngerðar á lit lúðunnar sem getur skipt máli í sambandi við markaðssetningu. Á næsta ári er fyrirhugað að hefja undirbúning á klaki og seiðaeldi sjávarfiska, en til að byrja með verður lögð áhersla á lúðu- og seiðaeldi.

    Í tilraunastöðinni fara einnig fram rannsóknir á laxi á vegum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Um er að ræða annars vegar samanburð á norskum og íslenskum eldislaxi með tilliti til vaxtarhraða og kynþroska og hins vegar athugun á áhrifum hráefnisgæða á gæði laxafóðurs.
    Í stöðinni fer einnig fram reynslufóðrun á sæeyra, en sæeyrað er verðmætur sækuðungur frá Kaliforníu sem lifir á þara. Hefur komið í ljós að kuðungurinn þrífst vel í íslenskum þara og vaxtarhraði hans hefur verið meiri en í eldisstöðvum í Kaliforníu.
    Í tilraunastöðinni starfa nú alls fjórir starfsmenn sem allir eru búsettir í Grindavík.
    Ég vænti þess að þetta svar gefi nokkra mynd af því sem um er að vera á þessu sviði þótt það tengist að sjálfsögðu ekki eingöngu þessari fsp. og þessari þáltill.