Klak- og eldisstöð fyrir sjávarfiska
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir greinargott svar um þetta efni sem bendir til þess að það sé aukinn skilningur hjá stjórnvöldum á þessum málum enda eru þetta okkar stærstu og mestu hagsmunamál þannig að hér eru miklir fjármunir í húfi þegar til lengri tíma er litið. Það sýnir sig miðað við það svar sem hér kemur fram að það eru töluverðir möguleikar á þessu sviði. Það sýnir sig einnig að það gæti verið, þegar við lítum til þorskstofnsins, mjög mikilvægt að við fyndum leiðir til að klekja út þorskhrognum og sleppa seiðunum síðan til sjávar til að tryggja að stofninn vaxi á hverju ári með þeim hætti sem eðlilegt er. En í fregnum undanfarin ár hefur alloft borið við að menn telji að klak þorskstofnsins hafi ekki náð fram að ganga með þeim hætti sem eðlilegt væri. Með þeim hætti gætum við notað klakstöð til að klekja út þorskhrognum og gætum við þá tryggt klakið í framtíðinni.