Klak- og eldisstöð fyrir sjávarfiska
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Það er að sjálfsögðu mjög nauðsynlegt að rannsaka klak á þorskseiðum. Sú hugmynd hefur komið upp að reyna að hjálpa náttúrunni með þeim hætti. Það verður hins vegar að hafa í huga að umhverfið, hafið umhverfis Ísland er afar mikið hafsvæði og það er flókið kerfi sem þar er að störfum þannig að ég á nú ekki von á því að hægt sé að ná gífurlegum árangri að því er varðar að hjálpa náttúrunni í þeim efnum. Hins vegar er ljóst að það eru margir þorskstofnar, það eru ýmsir staðbundnir stofnar sem menn hafa hug á að rannsaka. Það er líka verið að gera slíka hluti í Noregi, jafnvel að loka fjörðum í því skyni.
    En ég vil benda á það að nú fara fram mjög þýðingarmiklar rannsóknir hjá Fiskeldi Eyjafjarðar á klaki lúðu. Það eru mjög mikilvægar rannsóknir og þar á sér stað samstarfsverkefni þess fyrirtækis og Hafrannsóknastofnunar og sjútvrn. hefur reynt að koma inn í það mál. Þar eru einnig taldar ágætar aðstæður til að klekja út þorski. Ég vil taka undir það með hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni að það er mikilvægt að hafa um þessar rannsóknir samstarf við fyrirtæki í greininni og það er sú stefna sem sjútvrn. hefur rekið til þess að komast hjá mjög mikilli fjárfestingu í sambandi við rannsóknirnar. Þess vegna var þessi samningur gerður við Íslandslax hf. og þess vegna er þetta samstarf jafnframt hafið við Fiskeldi Eyjafjarðar, en þar fara í reynd fram frumrannsóknir á þessu sviði og það fyrirtæki hefur um nokkurra ára skeið ekki haft eina einustu krónu í tekjur og því er eðlilegt að hið opinbera taki þátt í slíkum frumrannsóknum.