Fjögurra ára framkvæmdaáætlun fyrir fatlaða
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Þann 13. okt. gengust heildarsamtök fatlaðra og aðstandendur þeirra fyrir degi fatlaðra á Íslandi undir yfirskriftinni ,,Lífsgæði``. Þar kom m.a. fram sú staðreynd að í dag ríkir algjört neyðarástand í umönnun og húsnæðismálum hjá fjölmennum hópi fatlaðs fólks. Í dag eru á neyðarlistum 108 einstaklingar en hjá Öryrkjabandalaginu eru hins vegar um 300 manns á biðlista eftir húsnæði.
    Það er kunn staðreynd að Framkvæmdasjóður hefur verið skertur verulega í gegnum árin. Ef hann hefði hins vegar fengið að vera óskertur og framlög hefðu skilað sér eins og þeim bar væri staðan allt önnur og betri og jafnvel og sennilega viðunandi. Það er staðreynd að biðlistarnir hrannast upp, bæði hjá sveitarstjórnum og sveitarfélögum og málið er algjörlega óviðunandi. Þess vegna, eins og segir hér í ályktun frá fötluðum sem dreift var til formanna flokka á degi þeirra, segir, með leyfi forseta:
    ,,Þess vegna ætlast þjóðin til þess að fatlaðir njóti jafnréttis og lífsgæða á sama hátt og ætlast er til að hinir ófötluðu vinni hver með sínum hætti að bættum lífskjörum heildarinnar. Neyðarástand í málefnum fatlaðra er vandi samfélagsins og þennan vanda verða stjórnmálamenn að leysa án tillits til þess hvar í flokki þeir standa. Það er smánarblettur á þjóðinni að umönnun og húsnæðismál fatlaðs fólks skuli vera með þeim hætti sem raun ber vitni.``
    Í framhaldi af þessum fundi fatlaðra leyfi ég mér, hæstv. forseti, að bera fram fsp. þá sem birtist á þskj. 34, 34. mál, til félmrh., um fjögurra ára áætlun, framkvæmdaáætlun fyrir fatlaða, eins og farið var fram á við og reyndar skorað á hæstv. félmrh. með því ávarpi sem flutt var hér úti og afhent félmrh. þá.