Fjögurra ára framkvæmdaáætlun fyrir fatlaða
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Við náttúrlega stöndum að mörgu leyti ekki nógu vel að þessum málum og ég vil benda á það í þessu sambandi að um síðustu áramót biðu 1200 manns sem þurftu að komast á bæklunardeild til aðgerða og auðvitað er sumt af þessu fólki þannig að það fær bata og verður ekki í neyð.
    Það eru vissir hlutir sem við getum ekki sparað í þessu þjóðfélagi og það er einmitt gagnvart þeim sem eru í neyð. Mér er líka tjáð að það sé kominn nokkuð langur biðlisti í sambandi við sjónskerta vegna þess að það er ekki rúm fyrir þá. Það eru ekki fjármunir til þess að halda opnum sjúkrahúsum fyrir þetta fólk. Ég veit af eigin raun að víða, eða a.m.k. sums staðar á landinu, er neyð vegna þess að þroskaheft börn fá ekki vistun. Ég þekki þetta allt og ég held að hver einasti þingmaður hljóti að þekkja þetta. Og það þarf auðvitað að taka á öllum þessum þáttum. Ég verð því að taka undir með síðasta hv. ræðumanni að það verður að taka á, fyrst og fremst á neyðarþáttunum. Það er auðvitað ekki hægt að ræða þessi mál undir þessum lið, en ég segi að það að koma með einhverja heildaráætlun, að ætla að bíða eftir því þegar ástandið er eins og það er, er náttúrlega alveg fáránlegt. Það er ekkert annað.
    Nei, við verðum að skoða þessi mál, alla þessa þætti, hvað er hægt að gera, því það er hægt að spara á ýmsu öðru en ekki þessu.