Fjögurra ára framkvæmdaáætlun fyrir fatlaða
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir ítarlegt og langt svar við fsp. Það kom margt fróðlegt fram í því sem hefði verið ástæða til að taka hér til frekari umræðu, en ég geri hluta af því að umræðuefni. Það er mjög mikilvægt í þessum málaflokki að það verði unnið áfram að þessum málum með þeim hætti að sem bestar lausnir fáist fyrir fatlaða og ég ítreka hér og nú að það má ekki láta neina eina stefnu ríkja í því. Það verður að finna fleiri lausnir. Ef þær lausnir eru góðar sem til eru í dag á að nota þær og fara eftir þeim. Ég nefni sem dæmi að það er ekki endilega sú lausn að allir fari í sambýli sem er besta lausnin. Ég nefni hér að það eru ekki endilega alltaf þær lausnir sem ýmsir félagsfræðingar hafa viljað fara inn á sem eru þær réttu. Það verður að vera fjölbreytt kerfi sem er hægt að leysa þessi mál eftir, en ég vil samt ítreka að það er mjög mikilvægt að betur verði staðið að þessum málum og einnig að það verði ekki gengið á rétt þeirra einstaklinga sem eru t.d. vistmenn á stofnunum, svokölluðum, þar sem unnið hefur verið mjög vel að þessum málum, og ég nefni t.d. Skálatúnsheimilið. Það má ekki ganga á hlut þessara einstaklinga sem eiga rétt á jafnmikilli fyrirgreiðslu eins og aðrir.