Fjögurra ára framkvæmdaáætlun fyrir fatlaða
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Karl Steinar Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég kem hér upp vegna þess að mér heyrist að þeir hv. alþm. sem gera lítið úr þessari heildarkönnun og skráningu fatlaðra skilji ekki málið.
    Það er talið af samtökum fatlaðra að það sé mjög mikils virði að þessi áætlun sé gerð og að skráning fatlaðra fari fram því hún hefur verið í mesta ólestri. Það er grundvallaratriði að hún sé í lagi. Og það er ekki bara skráningin. Það er spurning um það hvernig vinnubrögðin eiga að vera í framtíðinni.
    Ég vil að það komi líka hérna fram, vegna þess tóns sem er í sumum hér, að ég fullyrði að það hefur enginn ráðherra unnið betur að málefnum fatlaðra en núv. hæstv. félmrh. og það er viðurkennt af samtökum fatlaðra einnig.
    Ég vil spyrja ráðherrann: Er það ekki rétt að forustumenn þessara samtaka hafi tekið virkan þátt í þessum störfum og viti betur en kom fram í þeim kröfum sem lagðar voru fram hér fyrir nokkru síðan?