Kynningarrit í bókmenntum
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Kynningarrit menntmrh. um bókmenntir dregur dám af stjórnmálaskoðunum menntmrh. og er mestan part unnið af starfsmönnum Máls og menningar sem er óhæfa þar sem aðilar bókamarkaðarins eiga mest undir hvernig að slíku verki er staðið. Í ritinu eru talin upp þau bókmenntatímarit íslensk sem eru sögð skipta máli. Það kemur ekki á óvart að Rauðir pennar og Tímarit Máls og menningar skuli nefnd en ekki Skírnir, Vaka-Helgafell og Nýtt Helgafell. Ritgerðir um nútímabókmenntir eru að efni til í kreddufullum anda eins og við höfum vanist í Tímariti Máls og menningar og verða metnar og lesnar af Íslendingum sem slíkar, en valda misskilningi erlendis. Hvorki Guðmundur Daníelsson né Indriði G. Þorsteinsson eru nefndir til sögunnar sem lýsir pólitísku ofstæki smáborgarans. Þeir njóta báðir heiðurslauna Alþingis sem ráðherra menntamála er skylt að virða. Ekki er minnst einu orði á Kristján Karlsson sem hefur verið með afkastamestu ljóðskáldum okkar síðasta áratug og hafa önnur ljóðskáld ekki meira fram að leggja en hann. Kristján hefur fært út landhelgi íslenskrar ljóðlistar.
    Svar Guðmundar Daníelssonar lýsir vel skemmtilegum húmor hans þegar hann var spurður af Morgunblaðinu hvað hann vildi um það segja að vera ekki nefndur í ritlingi menntmrh. Guðmundur svaraði, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ég giska á að þetta sé heldur lítið kver og að við Indriði höfum verið orðnir of stórir bitar til að kyngja. Það stendur svo væntanlega til að gefa út sérstaka bók með okkur tveimur einum. Þetta ætla ég að giska á án þess að geta sannað það.``
    Hæstv. forseti. Það er ekki að ástæðulausu sem ég hef borið fram fsp. um hvað bókmenntaritlingur menntmrh. kosti íslensku þjóðina.