Kynningarrit í bókmenntum
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Það er mjög vandasamt verk að gefa út yfirlit um íslenskar bókmenntir fyrir erlenda menn á erlendu máli og skiptir auðvitað miklu máli að það sé ekki bundið við þrönga hagsmuni lítils hóps eða eins útgáfufélags. Þvert á móti þurfa margir ólíkir aðilar að standa að slíku kynningarriti vegna þeirra hagsmuna sem í húfi eru og starfsmaður Máls og menningar lýsti raunar vel í Morgunblaðinu fyrir skömmu.
    Það var misskilningur eða fáfræði hjá hæstv. menntmrh. að þau skáld sem hann taldi upp væru ekki talin upp í þessu kynningarriti hér sem ég er með í höndum. Þar er bæði Theódóra Thoroddsen og þar er Steinar Sigurjónsson og þar er Jóhannes úr Kötlum og öll þau skáld sem hann nefndi. Það er meira að segja svo að í ritgerð annars starfsmanns Máls og menningar er Þorsteinn frá Hamri tekinn fram yfir Hannes Pétursson sem ég get ekki verið sammála.
    Ég verð að vísa þeim ummælum hv. 18. þm. Reykv. á bug að ég hafi verið að draga skáld í pólitíska dilka. Það sem ég var að gera var að ég vakti athygli á því að í opinberu riti menntmrh. er sleppt tveim rithöfundum sem mjög hafa komið við sögu sl. 40 ár, eru meðal okkar fremstu rithöfunda og njóta heiðurslauna Alþingis. Þess vegna er óhjákvæmilegt að telja þá upp meðal rithöfunda íslenskra sem koma við sögu eftir 1950 og skiptir engu máli pólitískt mat manna á rithöfundum eða neitt slíkt. Það er óhjákvæmilegt að nefna þá.
    Ég verð í öðru lagi að segja að þó ég nefni hér nafn Kristjáns Karlssonar er ég ekki að troða aðra niður. Ég er einungis að benda á að þessi rithöfundur, þetta skáld hefur ekki verið í röðum þeirra sem mest hafa verið í náðinni hjá tímariti Máls og menningar né þeim sem í það skrifa og það skýrir e.t.v. að ekki skuli minnst á það í þessum bókmenntaritlingi. Ég ætla satt að segja að vona að sú útgáfuröð sem menntmrh. hefur boðað beri ekki merki þeirrar þröngsýni sem fyrsti ritlingurinn gerir og ég ætla að vona að þeir sem sjá um þær útgáfur lyfti sér á ofboðlítið hærra plan en gert er með þeim bókmenntaritlingi sem ég hef gert hér að umræðuefni.