Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Í lögum sem samþykkt voru hér á Alþingi á sl. vori, lögum nr. 87/1989, um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, er í sérstökum kafla fjallað um kostnaðaruppgjör milli ríkis og sveitarfélaga. Í 75. gr. þeirra laga segir að ríkissjóður greiði sveitarfélögum og félagasamtökum framlög vegna áfallinna skuldbindinga ríkissjóðs við byggingu dagvistarheimila, grunnskóla, íþróttamannvirkja og félagsheimila miðað við stöðu framkvæmda í árslok 1989. Síðan er í þessari grein nánar fjallað um þetta uppgjör en í 5. mgr. segir:
    ,,Menntamálaráðherra setur reglugerð í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga um framkvæmd þessarar greinar.``
    Nú er nokkuð liðið á þetta ár og þessi reglugerð hefur ekki enn séð dagsins ljós. Mér er kunnugt um það að mörg sveitarfélög horfa til þess hvers efnis þessi reglugerð verði. Það er reyndar því meiri ástæða til að spyrja um þetta mál þegar fram kemur í frv. til fjárlaga að ekki er ætlað neitt fé til þess að ríkissjóður standi við þessa lagagrein og hefji uppgjör þegar á árinu 1990 eins og fyrir er mælt í lögunum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þess vegna hef ég leyft mér að bera hér fram fsp. til hæstv. menntmrh. á þskj. 60 og spyr, hvað líði setningu þessarar reglugerðar.