Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson hefur beint til mín fsp. um það hvenær verði gefin út reglugerð um kostnaðaruppgjör milli ríkis og sveitarfélaga. Hún verður gefin út núna fljótlega. Það er alveg rétt hjá honum að það er mikilvægt að niðurstöður í þeim efnum liggi fyrir en í raun og veru er málið ekki svo einfalt að það sé hægt að skrifa reglugerðina svo að segja á borðinu í menntmrn. Það þarf að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga um samningu hennar og svo að segja við öll sveitarfélögin í landinu vegna þess að við höfum orðið að skrifa nær öllum sveitarfélögum til þess að fara yfir þær skuldir sem ríkið stendur í við hin ýmsu sveitarfélög í landinu.
    Í lögunum nr. 97/1989 um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er gert ráð fyrir því að ríkissjóður greiði sveitarfélögum og félagasamtökum á árunum 1990--1993 framlög vegna áfallinna skuldbindinga ríkissjóðs við byggingu dagvistarheimila, grunnskóla, íþróttamannvirkja og félagsheimmila eins og mælt verður fyrir um í fjárlögum. Í 5. mgr. 75. gr. laganna er ákvæði um að menntmrh. skuli setja reglugerð um framkvæmd uppgjörsmála í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Síðast þegar þessi mál voru til meðferðar á fundi með fulltrúum Sambands ísl. sveitarfélaga og menntmrn. óskuðu fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga eftir fresti til þess að fara yfir málið af sinni hálfu þannig að við höfum gert ráð fyrir því í menntmrn. að í þessari eða næstu viku fáum við viðbrögð Sambands ísl. sveitarfélaga og getum þá mjög fljótlega upp úr því gengið frá reglugerðinni.
    Staða uppgjörsmálanna er þannig að mati menntmrn. að eins og menn vita, þá er hér um að ræða grunnskóla, dagvistarheimili, íþróttamannvirki og félagsheimili. Við gerum ráð fyrir því, eins og staðan í þessum efnum er núna, að heildarskuldir ríkisins vegna allra þessara framkvæmda séu um 1,2 milljarðar kr. Þar af vegna grunnskóla við 150 mannvirki af ýmsu tagi 800 millj. kr. Vegna dagvistarheimila 155 millj. kr. vegna 30 dagvistarheima. Vegna íþróttamannvirkja 230 millj. kr. vegna 125 mannvirkja sveitarfélaga og íþróttafélaga. Og vegna félagsheimila 60 millj. kr. vegna 48 félagsheimila. Samtals er hér um að ræða 350--360 mannvirki í grunnskólum, íþróttum, dagvistum og félagsheimilum. Hér er þess vegna um að ræða geysilega flókið og mikið verk og það verður örugglega mjög snúið að komast til botns í því nákvæmlega hvaða reglur eiga að gilda fyrir hverja framkvæmd fyrir sig. Hvað gerist þá ef ekki næst samkomulag um málið? Þá ber skv. lögunum sem voru samþykkt hér í vor að skipa úrskurðarnefnd sem kveður upp úrskurð um ágreining um kostnaðaruppgjör.
    Við gerum ráð fyrir því að á þessum málum verði tekið núna alveg á næstunni og það er alveg rétt sem hv. 2. þm. Reykv. sagði að í frv. til fjárlaga fyrir árið 1990 er ekki komin inn tala á þennan lið. Það helgast

m.a. af því að við uppgjör á rekstrarkostnaði og breytingar á rekstrarkostnaði, einkum heilsugæslunnar, komu upp atriði sem ríkið og Samband ísl. sveitarfélaga töldu rétt að kanna aðeins betur. Þess vegna er óhjákvæmilegt að höfð verði hliðsjón af því við niðurstöðu mála varðandi úthlutun á því fjármagni sem verður til ráðstöfunar á árinu 1990, en reglugerðin um vinnuferlið sem slíkt verður væntanlega gefin út fyrir miðjan nóvembermánuð.