Tvöföldun Reykjanesbrautar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Bara örfá orð í viðbót við þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég vil taka það fram strax í upphafi að þingmenn kjördæmisins hafa alla tíð haft mjög góða samvinnu um það hvernig að þessu máli skyldi staðið. Þessi tillaga um tvöföldunina hefur verið rædd hér áður en ekki hlotið neina afgreiðslu í þinginu. Trúlega er það vegna þess mikla kostnaðar sem er við það að tvöfalda brautina og ekki síst vegna þess að vegamálayfirvöld telja að umferðin sé varla orðin nægilega mikil til þess að réttlæta það í samanburði við aðra þjóðvegi á landinu.
    Ég tel hins vegar að þeir meti tölurnar kannski svolítið varlega. Umferðin á Reykjanesbraut er fyrst og fremst tvisvar á sólarhring, snemma á morgnana og síðla dags, og þess vegna held ég að sólarhringsmeðaltalið segi í raun og veru ekki alla söguna. Ég hygg að af okkur þingmönnum séum við, ég og kollegi okkar, hv. 4. þm. kjördæmisins, hvað kunnugastir þessum vegi og það er alveg ljóst að við tvennar aðstæður er hann verulega hættulegur, þ.e. í hálku, og að mínu viti e.t.v. hættulegri í votviðri og hvassviðri svo slitinn sem hann er orðinn.
    Eins og 1. þm. kjördæmisins tók fram fara nú fram ýmsar kannanir á þeim möguleikum sem eru til þess að bæta ástandið og ég hygg að við verðum að vera raunsæ í því hvað hægt er að gera. Ég er ekki viss um að okkur takist, nema þá með einhverri sérstakri fjáröflun sem ég sé ekki í hendi minni núna í augnablikinu, að ganga til tvöföldunar á brautinni sem áætlað er að kosti tæpan milljarð. Það eru ýmsar aðrar aðgerðir sem Vegamálaskrifstofan telur að mundu bæta ástandið mjög víða á leiðinni og undir þær margar tek ég.
    Það er eitt atriði sem mér finnst að vanti í skýrsluna hjá þeim, sem ég tel að væri mjög brýnt að kanna til þrautar og ég veit að þeir hafa hafið könnun
á, og það er að setja upp hálkuvara, sjálfvirka eða ekki sjálfvirka, sem mundu leiðbeina ökumönnum mjög mikið ef hætta er á hálku eða hitastigið komið á það stig að hætta sé á hálku. Þetta væri að mínu viti ekki mjög flókið mál en mundi létta það að ýmsu leyti.
    Ég ætla ekki að fara að rekja þá möguleika sem Vegamálaskrifstofan mælir með eða telur möguleika á sem áfanga í tvöföldun brautarinnar. Ég legg áherslu á það að eins og verið hefur fram að þessu þá reynum við þingmenn kjördæmisins að hafa samstöðu í þessu máli, það er farsælast til þess að ná fram hagkvæmri lausn, og munum við hafa góða samvinnu við nefndarmenn í atvmn. þegar kemur til lokaafgreiðslu þessarar till.
    Það er eitt atriði að lokum sem þarf að auka mjög en hefur dregið úr núna á seinni árum og það er löggæslan. Ég held að það sé atriði sem mjög vantar á en mundi leysa marga hluti í þessu, sérstaklega á þeim tímum sem umferð er mjög mikil.
    Þessi atriði vildi ég að kæmu fram. Ég tel gott að

till. kom hér fram, hún vekur þá þessa umræðu upp og hefur kannski flýtt fyrir þeim störfum sem Vegamálaskrifstofan hefur verið að vinna. En ég legg á það megináherslu að þingmenn kjördæmisins hafi, eins og fram að þessu, góða samvinnu um það á hvaða hátt hægt er að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum endurbótum á þessum mikilvæga þjóðvegi.