Tvöföldun Reykjanesbrautar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Sú till. sem liggur hér fyrir er till. um að tvöfalda Reykjanesbraut. Vissulega er nauðsyn að það verði gert. Umferð á þessum vegi er þvílík, slysatíðni slík og nauðsyn þess slík að það verður að gera þá hluti sem allra fyrst. Hitt er annað að bæði ég og aðrir þingmenn Reykjaness gera sér það ljóst að um þessar mundir er ekki unnt að setja milljarð í þetta, beinlínis vegna fjárskorts. Því er hyggilegast, eins og fram hefur komið hér, að velja næstbestu leiðina þar til því marki verður náð að tvöfalda Reykjanesbraut, að gera verulegar úrbætur á veginum. Það er fyrirhugað að gera það. Það er algjör samstaða þingmanna Reykjaness í þeim efnum að ýta á það að svo verði gert og ég fullyrði að það verður líka gert.
    Ég minni á það líka að það þarf aukna löggæslu á þessum vegi. Það verður að leggja í þann kostnað á meðan ekki er hafist handa við tvöföldun Reykjanesbrautar. Það þarf úrbætur strax. Þess vegna er hyggilegt að gera þær betrumbætur sem unnt er að gera nú fyrir mun minni kostnað. Það er náttúrlega aðalatriðið að slysum verði fækkað og vegurinn verði eins og best verður á kosið og það er meiningin að svo verði.
    Þessi vegur, Keflavíkurvegurinn eða Reykjanesbrautin, var á sínum tíma nefndur, þ.e. vegurinn á undan Reykjanesbrautinni var nefndur Ódáðahraun íslenskra vega. Ég hygg að Ólafur heitinn Thors hafi nefnt veginn því nafni. Það var mikil barátta við að fá varanlegt slitlag á þennan veg. Í upphafi var ákveðið að steypa veginn, síðan komu upp raddir um það að malbika veginn. Þá brugðust Suðurnesjamenn mjög hart við og mótmæltu hástöfum. Það tókst að koma í veg fyrir það að vegurinn yrði hálfur malbikaður, þ.e. frá Straumi og til Keflavíkur. En ég vil varpa því aðeins fram til hugleiðingar ykkur hér í þingsal hvernig ástandið hefði verið ef vegurinn hefði allur verið malbikaður, hvert viðhaldið hefði verið, hver kostnaðurinn hefði verið fyrir þjóðarbúið. Sem betur fer tókst að koma í veg fyrir þetta. En ég vek líka athygli á því að þessi vegur hefur verið afskaplega viðhaldslítill og því hefur lítið af fé Vegagerðarinnar farið til þessara hluta og það segir okkur að nú er ástæða til að setja fé í þennan veg.
    Það má líka rifja það upp að þetta var fyrsti vegurinn og eini vegurinn sem lagt var á veggjald. Það var af tekið vegna háværra mótmæla þess fólks sem þennan skatt þurfti að greiða, sem neitaði þessum skatti vegna þess að það var fyrirsjáanlegt að þetta var eini vegurinn sem fyrirhugað var að taka skattgjald af.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta en ég legg áherslu á að það verða gerðar verulegar umbætur á þessum vegi. Við þingmenn Reykjaness munum ýta fast á eftir því. Framtíðin verður sú að tvöfalda veginn, en þessar úrbætur koma fyrst.