Tvöföldun Reykjanesbrautar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég má til með að blanda mér í þessar umræður þó að ég sé ekki þingmaður Reyknesinga. En ég þekki Keflavíkurveginn nokkuð vel og þekkti hann kannski einna best á meðan hann var, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, Ódáðahraun íslenskra vega, þegar ég var barn og átti heima í Keflavík og þurfti að fara oft um þennan veg. Ég fer miklu sjaldnar núna en ég hef þá sömu reynslu og þeir sem hér hafa talað á undan mér að það er fyrst og fremst slitinn vegur og sú hætta sem það skapar vegfarendum, þ.e. ástand vegarins. Ég held að aðalvandamálið sé ekki að vegurinn beri ekki þá umferð sem um hann fer. Ég hef að vísu ekki farið um veginn þegar hvað flestir bílar eru á honum, en vandamálið er fyrst og fremst þessi slysahætta, hversu mikið vatn safnast á hann, hversu erfitt er að aka um hann vegna annarra aðstæðna heldur en endilega að hann sé of mjór. Þetta bæði skilst mér á þeim sem hér hafa talað og eins þeim skýrslum sem maður hefur séð og þeirri umfjöllun sem hefur farið fram um þetta mál. Ég held því að það sem fyrst og fremst þarf að gera núna sé að taka á slysahættunni. Mér óar sá mikli kostnaður sem hér hefur verið talað um, 1 milljarður til að tvöfalda brautina. Það hlýtur að vera hægt að fara ódýrari leiðir og þurfi að gera það strax til þess að bæta veginn, því að hér eins og annars staðar er alltaf spurningin um forgangsröð. Þó að margir búi á þessu svæði þá verðum við líka að muna að það eru önnur svæði sem við verðum að taka tillit til og við sem búum hér megum ekki gleyma því að vegirnir eru líka mjög illa farnir annars staðar. Það þarf að gera stórátak í vegamálum annars staðar en akkúrat hér. Þess vegna held ég að þingmenn Reykjaness ættu að sameinast um að leita ódýrari leiða og hugsa um þessa margumtöluðu forgangsröð og leggja höfuðáhersluna á að vegurinn sé öruggari en ekki endilega að tvöfalda veginn.