Tvöföldun Reykjanesbrautar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að taka undir orð þeirra sem lagt hafa sérstaka áherslu á slysahættuna á Reykjanesbraut. Ég tel að vænlegast til úrbóta sé þar að einbeita sér að þeim svæðum brautarinnar þar sem slys eru tíðust og vegurinn virðist hættulegastur. En eins og fram kemur í upplýsingum frá Vegagerðinni þá er það mjög misjafnt eftir svæðum. Þar má leita annarra brýnna úrbóta nú þegar og raða upp í þá forgangsröð að slysahættu sé bægt frá eftir því sem kostur er og síðan að hyggja að tvöföldun brautarinnar. Þetta má gera með góðri lýsingu, breikkun á einstökum svæðum og ýmiss konar góðum aðgerðum sem til eru tillögur um. Þetta held ég að sé okkar albrýnasta mál nú og það verður að bíða framtíðarinnar, vonandi ekki þó of mikillar, að stíga næsta skref til þess að gera Reykjanesbrautina að öruggum og góðum vegi.