Tvöföldun Reykjanesbrautar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Flm. (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umfjöllun sem þetta mál hefur fengið hér í þinginu. Hún sýnir að það er mikill áhugi á þessu máli og jafnframt hve brýnt er að farið verði í þessar framkvæmdir. Ég held nefnilega að þegar við lítum á það mál þá sé ódýrasta lausnin tvöföldun vegarins strax, frekar en að fara út í alls konar vegabætur sem kosta mjög mikið með því leysa þetta vandamál til skemmri tíma, þannig að ef við lítum á kostnaðinn sem slíkan þá yrði hann minni með slíkum hætti.
    Þá er ekki úr vegi að varpa fram þeirri hugmynd hér að slík framkvæmd yrði boðin út og verktaki sem fengi verkið fengi jafnframt að gefa út skuldabréf fyrir kostnaðinum, t.d. kúlubréf sem yrðu þá gefin með slíkum hætti. Hér var einnig talað um vegatoll. Það er út af fyrir sig umhugsunarefni hvort gera ætti skoðanakönnun í næstu sveitarstjórnarkosningum sem verða á komandi vori um það hvort t.d. íbúar Suðurnesja mundu sætta sig við eða hefðu áhuga á því að farið yrði strax út í slíka framkvæmd ef taka ætti vegatoll. Það mætti auðvitað bera það undir íbúana og sjá hvort grundvöllur væri fyrir slíku í dag.
    Það er alveg ljóst að það verður núna að fara út í framkvæmdir við að bæta veginn eins og hann er, svo sem hér kom fram hjá allflestum ræðumönnum, og það er auðvitað án tillits til tvöföldunarinnar sem slíkrar. Það er hins vegar rétt hjá hv. 5. þm. Vesturl. að við verðum að hugsa um hagsmuni heildarinnar og um þjóðina alla í þessu verkefni. Það er svo að hér verður að hugsa um það að þetta er vegurinn til útlanda og hér búa 65% allrar þjóðarinnar þannig að framkvæmdafé til vegamála á þessu svæði er miklu minna en það ætti í raun að vera. Það er því brýnt að við stöndum saman um það að fengið verði aukið fé til þessara framkvæmda og raunar framkvæmda í vegamálum á þessu svæði og jafnframt að það fé sem á að fara til vegamála og hefur verið tekið út úr vegafé af ríkisstjórninni verði sett í hana líka.
    Ég hef saknað samgrh. hér í þessum umræðum sem hefði nú gjarnan mátt segja álit sitt á þessum málum, en hann hefur eins og allir vita meiri áhuga á því að bora göt, eins ágæt og þau nú eru, og hefði verið fróðlegt að fá að vita hvað mamma hæstv. ráðherra hefði sagt um þetta því eins og allir vita lagði hún til að hæstv. ráðherra boraði göt.
    Ég held að meginmálið sé hins vegar það að hér er framkvæmd sem er brýnt að við leggjum út í og það er brýnt að við fáum fram bætur í þessu því það er fyrir þjóðina alla en ekki bara fyrir kjördæmið.