Atvinnumöguleikar á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Flm. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 54 um nýja atvinnumöguleika á landsbyggðinni. Till. þessi var lögð fram hér á Alþingi í fyrra en komst ekki á dagskrá í önnum þingsins á síðustu starfsvikum þess. Flm. ásamt mér eru þingkonur Kvennalistans, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna með hvaða hætti unnt er að nota nútíma tölvu- og fjarskiptatækni til að flytja verkefni á vegum ríkisstofnana og annarra aðila frá höfuðborgarsvæðinu til annarra landshluta.
    Sérstaklega verði kannaðir möguleikar á að nýta þessa tækni til þess að koma á laggirnar fjarvinnustofum í því skyni að fjölga störfum og auka fjölbreytni í atvinnulífi byggðarlaganna.``
    Á landsfundi Kvennalistans um síðustu helgi var að vonum löngum tíma varið til að ræða stöðu kvenna, ekki síst kvenna á landsbyggðinni í ljósi atvinnuástandsins sem nú ríkir víða. Kvennalistakonur hafa reyndar verið ötular við það á undanförnum árum að ræða atvinnumál kvenna úti á landsbyggðinni og hafa haldið marga fundi og ráðstefnur um stöðu kvenna. Þar hafa komið fram margar frjóar hugmyndir þó að ekki kalli þær á stórvirkjanir eða önnur slík stórvirki sem oft eru talin hin einu eiginlegu atvinnutækifæri. Get ég fullyrt að allar þær hugmyndir sem konur hafa eru örugglega langt innan við 200 millj. fyrir hvert starf sem nú er talað um að hvert nýtt starf í fyrirhuguðu álveri kunni að kosta okkur. En konur skortir stuðning til þess að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Á landsfundi Kvennalistans kom fram hugmynd um að gera þær breytingar á starfsemi Byggðastofnunar sem fela í sér að ákveðnu fjármagni stofnunarinnar yrði varið til sérstakra aðgerða í þágu kvenna og ætti það að falla vel að fyrirheiti hæstv. ríkisstjórnar um að gera sérstakt átak í atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni.
    Við kvennalistakonur munum reyna að fylgja þessari hugmynd eftir eftir þeim leiðum sem mögulegar reynast, en ég vil leggja áherslu á það að hugmyndin gerir ekki aðeins ráð fyrir ákveðnu fjármagni til kvenna frá Byggðastofnun heldur er ekki síst átt við ráðgjöf og stuðning konum til handa til þess að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.
    Sá samdráttur sem orðið hefur á undanförnum árum í báðum okkar undirstöðuatvinnugreinum, þ.e. landbúnaði og sjávarútvegi, hefur komið harðast niður á konum og ekki hefur tekist svo um munar að auka fjölbreytni atvinnulífsins úti á landsbyggðinni sem allir virðast þó sammála um að gera þurfi.
    Á fskj. I með tillögu þessari má sjá hlutfallslega skiptingu nýrra starfa eftir landsvæðum á árunum 1981--1984 og eru þessar upplýsingar fengnar úr skýrslu byggðanefndar þingflokkanna. En eins og sjá má á fyrri mynd á fskj. urðu 3 / 4 hlutar nýrra starfa til

á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum á þessum tíma.
    Atvinnuleysi er nú þegar umtalsvert og þar eru konur í meiri hluta. Þar með er reyndar ekki öll sagan sögð því að mikið dulið atvinnuleysi er meðal kvenna. Landbúnaður á undir högg að sækja eins og ég nefndi fyrr og tölur sýna að 40% búa eru svo smá að þau bera aðeins eitt ársverk en hjón reka þó flest þeirra, þ.e. tveir einstaklingar, en karlmaður er gjarnan talinn fyrir búinu. Sveitakonur láta ekki skrá sig atvinnulausar. Það gera ekki heldur þær konur sem um þessar mundir eru búnar að koma upp börnum sínum og væru tilbúnar til þess að fara út á vinnumarkaðinn en hafa ekki verið þar. Í nýjasta yfirliti vinnumálaskrifstofu félmrn., sem einnig fylgir með þskj. þessu, kemur ekki fram á hvaða aldri hinir atvinnulausu eru. Þetta yfirlit vinnumálaskrifstofunnar er frá 9. okt. sl.
    Í nágrannabyggðarlagi okkar, þ.e. á Akranesi hérna handan Flóans, hafa verið birtar tölur um atvinnuleysi þar sem fram kemur greining á aldri og kyni hinna atvinnulausu. Það er heldur dökk mynd sem við blasir ef litið er á atvinnuleysistölur úr þeim bæ því að af 137 atvinnulausum eru konur 119 og 77 af þeim eru undir 50 ára aldri, þ.e. á hápunkti starfsævinnar. Það er einnig dapurlegt að sjá að jafnvel ungt fólk innan við tvítugt stendur frammi fyrir því að fá ekki vinnu. Þannig eru nú 17 stúlkur á aldrinum 16--20 ára skráðar atvinnulausar á Akranesi. Ég nefni þessar tölur hér til fróðleiks til þess að gera þingheimi grein fyrir að hér er ekki aðeins um að ræða atvinnuleysi eldri kvenna sem jafnvel væru til í að hætta vinnu eins og oft hefur heyrst, heldur er þetta líka orðið vandamál meðal ungs fólks.
    En atvinnuleysi, lág laun og slæm staða kvenna eru ekkert einsdæmi fyrir Ísland. Ástandið er víðast eitthvað svipað, aðeins mismunandi eftir þjóðfélagsháttum. Sá munur er þó á okkur og frænkum okkar á Norðurlöndunum að þar hefur verið unnið heilmikið í jafnréttismálum og málefnum kvenna um langan tíma, jafnvel allt að 20 ár og mikil reynsla er komin á alls konar aðgerðir. Sumar hafa tekist vel en aðrar reyndar ekki vel.
    Eins og ég nefndi fyrr í máli mínu, þá bitnar skortur á fjölbreytilegum störfum fyrst og fremst á konum á landsbyggðinni. Þær eiga oft ekki annarra kosta völ en að flytja til þéttbýlisstaða í leit að atvinnu. Stóraukin atvinnuþátttaka kvenna og breytt staða þeirra í fjölskyldunni skiptir miklu í þróun byggðamála og að okkar mati er tímabært að taka mið af þeirri staðreynd.
    Fyrir þremur árum var efnt til sérstaks strjálbýlisátaks á vegum Evrópuráðsins þar sem sjónum var beint að landsbyggðinni í nærliggjandi löndum, en því miður bárum við Íslendingar ekki gæfu til þess að taka þátt í því af fullum krafti. Það eina sem stjórnvöldum hér í landi datt til hugar var að karlskipa eina fimm manna nefnd sem hafði væntanlega ekkert fjármagn til framkvæmda til þess að gera neitt sem að gagni gæti komið. Og það eina sem heyrðist frá þeirri nefnd var ein grein í

Sveitarstjórnarmálum um umhverfismál sem er auðvitað líka mikilvægur málaflokkur. Nágrannar okkar á Norðurlöndunum efndu til mikillar umræðu og aðgerða fyrir dreifbýlið á þessu ári og urðu þar ýmsar framfarir sem íbúar landsbyggðarinnar byggja á síðan. T.d. voru uppi miklar aðgerðir í Svíþjóð undir kjörorðinu ,,Svíþjóð öll skal lifa`` og var þar sjónum beint ekki síst að konunum úti í hinum dreifðu byggðum.
    Að mörgu leyti eru vandamál byggðarlaga okkar meiri en hjá nágrönnum okkar og ber þá fyrst og fremst að nefna veðurfar og samgöngur sem oft hamla för fólks. Víða erlendis hafa stjórnvöld reynt að sporna við neikvæðri byggðaþróun með því að jafna aðstöðu þéttbýlis og dreifbýlis og gripið hefur verið til tímabundinna aðgerða til að ýta undir og auka fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli. Í Skandinavíu hefur víða verið gert sérstakt átak í uppbyggingu atvinnulífs og á síðustu árum hefur verið lögð mikil áhersla á að skapa nýja atvinnu fyrir konur í dreifbýli.
    Hér á landi hefur oft verið rætt um þann möguleika að flytja ýmsar stofnanir ríkisins af höfuðborgarsvæðinu í því skyni að fjölga störfum utan þess og draga úr miðstýringu. Vil ég af því tilefni benda sérstaklega á eina grein í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Gerðar verða ráðstafanir til aukinnar valddreifingar, m.a. með því að auðvelda flutning stofnana og svæðisbundinna verkefna frá miðstjórn ríkisvaldsins út í héruð.``
    Að mínu mati ætti því till. þessi að hljóta góðan hljómgrunn hjá ríkisstjórninni þar sem hér er lagt til að reynt verði að flytja hluta af verkefnum ríkisins til annarra landshluta, að sjálfsögðu eftir einhverri áætlun sem þarf að gera þar um. Ég vil í því sambandi sérstaklega benda á að þær breytingar sem tölvutækni og ný fjarskiptatækni hafa í för með sér hafa þegar haft mikil áhrif á atvinnuhætti okkar og alla þætti mannlífsins. Nútímatækni á sviði tölvuvinnslu og fjarskipta hefur opnað nýjar víddir sem menn höfðu ekki hugboð um áður. Þessi nýja tækni gefur allt að því óendanlega möguleika til að safna, geyma og flytja upplýsingar án tillits til dvalarstaðar þess sem verkið vinnur.
    Í mörgum nágrannalanda okkar hafa verið settar á laggirnar fjarvinnustofur þar sem ýmis upplýsinga- og þjónustuverkefni eru unnin á tölvur auk þess sem þar fer fram nám og kennsla á tölvur. Um síðustu áramót var fyrsta fjarvinnustofan opnuð hér á landi í Vík í Mýrdal. Fyrirhugað er að starfsfólk hennar annist bókhald, ritvinnslu, gagnavinnslu og fleira. Starfsemi slíkra fjarvinnustofa hefur gefið góða raun á Norðurlöndum. Þar eru unnin ýmis verkefni sem áður voru inni í fyrirtækjum eða stofnunum, svo sem bókhald, upplýsingaöflun af ýmsu tagi og skýrslugerð.
    Ég vil aðeins nefna hér eitt dæmi um norska byggð, Dombas sem stóð mjög höllum fæti 1980. Þar er nú unnið að ýmsum mikilvægum verkefnum í fjarvinnustofum, t.d. skráningu upplýsinga úr kirkjubókum og fyrirhugað er að koma skjalasöfnum

á tölvutækt form. Íbúar Dombas eru aðeins 3200. 15 þeirra hafa þegar vinnu í fjarvinnustofunni og takmarkið er að finna 15 ný störf á ári í sveitarfélaginu og er sérstök áhersla lögð á atvinnu fyrir konur. Ég nefni þetta hér til þess að benda á að hér eins og þar skiptir hvert einasta nýtt starf í dreifbýlinu miklu máli. Hér er talað um 15 ný störf í 3200 manna byggðarlagi og þau skipta auðvitað miklu máli fyrir þá sem þar búa.
    Ég bendi á að með því að færa hluta af þjónustu ríkisstofnana út á land má nýta tölvutæknina til að byggja upp nýja vinnustaði. Það er ein leið til að fjölga störfum, auka fjölbreytni atvinnulífsins í byggðarlögum og treysta um leið búsetu fólks. Með frumkvæði stjórnvalda við uppbyggingu fjarvinnustofa fyrir hluta starfsemi sinnar má ætla að ýmis önnur fyrirtæki og einstaklingar fylgi í kjölfarið. Mikilvægt er að vel takist til að notfæra sér nýja tækni á jákvæðan hátt. Verkefni sem þetta krefst góðrar skipulagningar og samstarfs. Það er því nauðsynlegt að gera áætlanir og skipuleggja starfsemi fjarvinnustofa í samráði við sveitarfélög og heimafólk á hverjum stað.
    Ég nefndi hér áðan dæmi um byggðarlag í Noregi þar sem hægt var að fjölga atvinnutækifærum með slíkri fjarvinnustofu og mig langar að nefna enn eitt dæmi. Ég heyrði að nýlega hefði lagasafn Íslands allt verið sett í tölvutækt form og það finnst mér vera dæmi um verkefni sem hægt hefði verið að vinna
hvar sem var á landinu.
    Ég vil einnig benda á að fjarvinnustofur gegna mikilvægu hlutverki á Norðurlöndunum sem kennslumiðstöðvar fyrir tölvufræðslu. Við getum vænst þess að þörfin fyrir kunnáttu á tölvur aukist til muna á næstunni og því er mikilvægt að geta boðið upp á kennslu sem víðast um landið. Dettur mér þá fyrst í hug að nefna það sem skellur á okkur nú um áramótin, ef svo fer sem horfir, þar sem ætlunin er að taka upp virðisaukaskatt. Það mun auka mjög þörf bænda fyrir að halda nákvæmt bókhald. Það gæti veitt konum í byggðarlaginu atvinnu og þar með auðvitað bætt hag þeirra sem þar búa.
    Ég vil ítreka enn og aftur, forseti, áður en ég lýk máli mínu að atvinnuleysi er nú þegar umtalsvert og þar eru konur í meiri hluta. Ég nefni það sérstaklega hér þar sem þær eru svo stór hópur sem raun ber vitni. Ég vil að lokum benda á að víða um land standa hús ónotuð. Slíkar fjarvinnustofur þurfa ekki dýra umgjörð eða húsnæði. Það má koma þeim fyrir t.d. í félagsheimilum sem eru lítt eða ekki notuð. Ég vil einnig benda á þann möguleika sem slíkum fjarvinnustofum fylgir fyrir fatlaða, þá sem eru hreyfihamlaðir, til þess að búa áfram í sinni heimabyggð og fá þar verkefni við sitt hæfi.
    Að lokinni þessari umræðu, forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hv. atvmn. Sþ. og síðari umræðu.