Atvinnumöguleikar á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Sú till. sem hér er til umræðu er liður í margþættu átaki sem er fram undan séu orð manna um að efla landsbyggðina meira en orðin tóm. Svo sem áður hefur komið fram úr umræðu hér á Alþingi er ein meginforsenda þess að byggð haldist á tilteknum svæðum sú að konurnar fáist til að vera þar. Styrkur þessarar till. sem hér er lögð fram er sá að hún er mjög vel framkvæmanleg. Reynsla nágrannaþjóða okkar sýnir svo að ekki verður um villst að mörg störf má færa með nýrri tækni út fyrir borgirnar. Ýmiss konar útgáfustarfsemi hefur t.d. færst sífellt meir á vettvang og er það vel. Upplýsingaöflun þarf ekki að vera svo miðstýrð sem nú er. Gegnum tölvunet er lítill vandi að senda gögn milli staða, yfirfara og bæta, senda til prentsmiðju til útgáfu í stað þess að vera að afla gagna og fjalla um málefni einstakra héraða út frá miðstýringu eða miðstöð á suðvesturhorninu og eyða miklu fé í ferðakostnað.
    Mig langar að nefna dæmi þó að það sé kannski ekki líkt því sem við sjáum fyrir okkur ástandið hér á Íslandi. Norðarlega í Austur-Finnlandi situr ung blaðakona. Tugir kílómetra eru í næstu byggð. Þar sinnir hún skrifum frá þessu strjálbyggða héraði. Gildi þess að halda neti byggða um landið er ekki dregið í efa. Býli fjölskyldu hennar ber ekki tvo fullvinnandi einstaklinga, en þessi kona nýtir starfsþrek sitt með aðstoð tiltölulega einfaldrar tækni. Þetta er aðeins eitt af ótalmörgum dæmum sem sýna að við getum hugsað atvinnumál kvenna upp á nýtt, hvar sem þær eru á landinu. Það er hagur okkar allra að byggð og blómlegt atvinnulíf haldist í hendur. Ég fagna því að heyra af þeim vilja sem er fyrir hendi til að vinna að atvinnumálum kvenna. Ég treysti því að þessi þáltill. bæti enn í þann hugmyndabanka sem sífellt virðist þurfa að bæta í og því vona ég að hún fái jákvæða afgreiðslu þingsins.