Atvinnumöguleikar á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Flm. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þau jákvæðu viðbrögð sem till. þessi hefur vakið og þann stuðning sem hún hefur fengið. Ég þakka sérstaklega hv. 9. þm. Reykn. fyrir mjög góðar upplýsingar og góðan stuðning við till. og sömuleiðis hv. 5. þm. Norðurl. e. Það er auðvitað mjög mikilvægt að fá stuðning þeirra sem geta haft bein áhrif á framgang mála innan ríkisstjórnarinnar.
    Ég get tekið undir flestallt sem þau sögðu og langar mig til að nefna þetta svokallaða tregðulögmál sem hv. 5. þm. Norðurl. e. nefndi um flutning stofnana út á landsbyggðina. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir að það er ekki náttúrulögmál. Þetta eru mannanna verk og því ætti að vera hægt að breyta því.
    Ég tek líka undir þau orð sem féllu hjá hv. 9. þm. Reykn. um nauðsyn þess að styðja konur í fyrirtækjarekstri. En við verðum að gera okkur grein fyrir því að konur sem stofna fyrirtæki á óhefðbundnum sviðum þurfa að berjast við ýmsa fordóma og hindranir. Fyrst og fremst eru þær að fara inn á svið sem eru þeim framandi og valda þeim minnimáttarkennd af því að þær þekkja ekki reglurnar. Þess vegna er ýmiss konar stuðningur mjög mikilvægur fyrir þær og það á að sjálfsögðu einnig við um öll önnur óhefðbundin svið sem konur voga sér inn á. Stuðningsaðgerðirnar geta verið með ýmsu móti, t.d. lán, styrkir, ódýrt húsnæði og síðast en ekki síst fræðsla, en það er trúlegt að með tímanum muni konur auka þátttöku sína í atvinnurekstri og ég vil nefna hér enn og aftur hugmynd Kvennalistans um sérstaka deild innan Byggðastofnunar þar sem bæði yrði hægt að sækja sér ráðgjöf og fjárhagsstuðning. Aukinn atvinnurekstur verður örugglega eitt af þeim viðbrögðum sem koma frá konum vegna lélegra kjara þeirra á vinnumarkaðnum. Í dreifbýli getur verið um að ræða atvinnuleysi fyrir konur eða mjög einhæfa og takmarkaða atvinnu.
    Núna eru karlar því sem næst einir um að meta vinnu kvenna og ef þeir meta störf þeirra minna en sín eigin yfirgefa konurnar vinnustaði þeirra og stofna sína eigin. Það er reyndar ekki víst að það muni hækka tekjurnar til muna en það veitir þeim aukið sjálfstraust og sjálfsvirðingu.
    Hér á landi er greinilegt að konur í dreifbýli og kannski alls staðar annars staðar á landinu bregðast við byggðaröskun með því að leita nýrra leiða í atvinnurekstri. Og við skulum gera okkur grein fyrir því að framtíð byggðarinnar hvílir að miklu leyti á konum og þar er átt við byggðina um allt landið. Hjá konum er að hluta til ónýttur forði hugmynda, orku og tilfinninga, en það er ekki síst á því síðastnefnda sem baráttan gegn byggðaröskun byggir.
    Ég vil gera þetta að mínum lokaorðum hér og þakka fyrir þá jákvæðu umræðu sem orðið hefur um þessa till. og leyfi mér að vænta þess að hún fái framgang hér í þinginu.