Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Hér er sannarlega um viðameira mál að ræða en svo að því sé hægt að gera nokkur skil á þeim örstutta tíma sem ætlaður er til umræðunnar. Engu að síður er gott að þessi umræða skuli hafa verið vakin og það er rétt að undirstrika það að það vandamál sem hér er um að ræða er ekki bundið við Slippstöðina á Akureyri.
    Frá því hefur verið greint að skipasmíðastöðin Skipavík í Stykkishólmi hefur sagt upp sínum starfsmönnum og fram hefur komið í þessari umræðu að fram undan er verkefnaskortur í skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts á Akranesi þegar þar lýkur smíði nýs Baldurs, sem verður á næstunni.
    Það er líka ljóst og liggur fyrir að íslenskar skipasmíðastöðvar eru fyllilega samkeppnisfærar við erlendar um gæði. Þær eru líka í mörgum tilvikum samkeppnisfærar um verð. Hér er á ferðinni mál sem ríkisstjórnin verður að taka á og það fyrr en seinna og gefst betra tækifæri til að ræða það í þeim utandagskrárumræðum sem hér hefur verið boðað að verði um atvinnumál á mánudag, en þar mun þetta mál verða tekið upp.