Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég get ekki stillt mig um að lýsa bæði undrun, hneykslun og vonbrigðum á svörum hæstv. fjmrh. hér fyrr í dag. Nú skilst mér að hann fái ekki að taka til máls aftur og því ætla ég, um leið og ég þakka málshefjanda fyrir að efna til þessarar umræðu, að ítreka þá spurningu sem hann bar hér fram í upphafi og vænti þess að við fáum svar fjmrh. við henni á mánudaginn: Er ríkisstjórnin tilbúin að beina verkefnum til íslenskra skipasmíðastöðva? Það er mikil einföldun á þessu vandamáli að binda það við Slippstöðina á Akureyri því hér hefur komið fram í umræðunni að þegar hefur mönnum verið sagt upp í Stykkishólmi. Ég hef litið á það sem hluta af okkar vinnuskyldu að líta í blöðin og fylgjast með fréttum í fjölmiðlum, en í Morgunblaðinu í morgun er einmitt frétt um þessar uppsagnir í Stykkishólmi. Við sem áttum þess kost að sitja fund í sameinuðu þingi í morgun ræddum atvinnumál og áttum mjög góðar umræður um atvinnumál kvenna úti á landsbyggðinni. Skipasmíðarnar snerta kannski ekki svo mjög margar konur beint, en óbeint gera þær það, á þann hátt sem fram kom í máli hv. 7. þm. Norðurl. e., og það er ekki síður þörf á að ræða þessa alvarlegu stöðu í skipasmíðaiðnaðinum, sem reyndar er tengd íslenskum iðnaði yfirleitt. Núna meðan íslenskur iðnaður reynir að efna til íslenskra daga er hæstv. iðnrh. á ferð og flugi um heiminn og leggur höfuðáherslu á erlenda stóriðju í atvinnuuppbyggingunni á meðan íslenski iðnaðurinn er að líða undir lok. Það er nauðsynlegt að við ræðum þetta betur í sameinuðu þingi á mánudaginn.