Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég lýsti því yfir í svari mínu að ríkisstjórnin hefði nú þegar skipað nefnd manna til þess að taka til sérstakrar meðferðar málefni Slippstöðvarinnar á Akureyri og leita að kaupanda að því skipi sem þar er í smíðum. Ég ítreka svo einnig það sem ég sagði hér áðan að brýnasta úrlausnarefnið varðandi Slippstöðina á Akureyri væri að finna kaupanda að því skipi sem þar er í smíðum. Ég vænti þess að hv. alþm. séu sammála því að það er brýnasta verkefnið.
    Hitt er svo alveg ljóst að til þess að finna langvarandi lausn á vanda íslenskra skipasmíðastöðva þarf víðtækar breytingar bæði á sjóðakerfinu í landinu en þó kannski ekki síst á viðhorfum og vilja þeirra frjálsu aðila í útgerð og öðrum atvinnugreinum á Íslandi sem kjósa frekar að leita til erlendra aðila en innlendra. Það er stóra verkefnið ásamt svo því að tengja saman og sérhæfa hinar innlendu skipasmíðastöðvar. Vegna þess að hv. þm. Friðrik Sophusson gagnrýndi mig fyrir mín orð og hann var ekki viðstaddur þegar þau féllu hér vil ég bara ítreka það að ég vakti athygli á því að Sjálfstfl. hefði í fimm ár farið með forræði þessara mála, frá árinu 1983 til ársins 1988. Það er lengsta samfellda tímabil sem nokkur flokkur hefur stjórnað íslenskum iðnaðarmálum og það var ekki fyrr en á allra síðustu mánuðum þess tímabils sem þáv. iðnrh. Friðrik Sophusson hóf þær aðgerðir sem hann lýsti hér, en fimm árin á undan höfðu ráðherrar Sjálfstfl. ekkert aðhafst í málinu.