Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að þessir erfiðleikar eru ekki eingöngu varðandi Slippstöðina á Akureyri, þó það væri tilefni þessarar umræðu. Ég vil líka ítreka það við hæstv. fjmrh. að vandi skipasmíðastöðvarinnar, Slippstöðvarinnar á Akureyri, eða skipasmíðaiðnaðarins í heild er alls ekki þetta skip sem þar bíður. Vandinn er sá að það verður að tryggja þessari starfsemi framtíðarverkefni. Ég er hér með alveg nýjar tölur um þróun þessara mála. Árið 1988 framkvæmdu innlendar skipasmíðastöðvar fyrir 2,1 milljarð, skv. spá fyrir árið 1990 fer það niður í 700 millj., á árinu 1989 var það komið niður í 1200 millj., en á því ári minnkuðu erlendu framkvæmdirnar ekki neitt. Það stefnir sem sagt í hrun ef ekki verður gripið til aðgerða. Og ég vil ítreka eitt. Ég tel að útgerðin, með því að leita í svo miklum mæli erlendis með sín verkefni, sé að grafa undan eigin hagsmunum, vegna þess að hér verður engin öflug íslensk útgerð öðruvísi en hún geti leitað eftir innlendri þjónustu, ekki bara þegar henni þóknast.
    Að lokum. Undirtektir við þetta mál hafa verið það góðar að ég veit það og treysti því að ríkisstjórnin muni taka þetta mál upp af fullri einurð nú á næstu vikum og móta stefnu sem snýr þessari þróun við.