Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes) (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með þann útúrsnúning sem kemur hér fram í málflutningi hv. þingmanna. Ég var að lýsa hér viðhorfum. Ég er að segja að það eru viðhorf forsvarsmanna sjávarútvegsins að íslenskur skipasmíðaiðnaður borgi sig ekki, að útgerðin verði að eiga aðgang að lægsta verði sem þeir telja að fáist einungis erlendis. Það þarf ekki að svara þessari spurningu nánar. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. stjórnarandstöðunnar að koma hér upp og reyna síðan að snúa út úr því sem er sagt. Auðvitað hlýtur hæstv. sjútvrh. að túlka þar með hagsmuni sjávarútvegsins eins og þeir blasa við honum. Aðrir forsvarsmenn sjávarútvegsins hafa túlkað sína hagsmuni. Þeir eru með þeim hætti að þeir telja að það svari ekki kostnaði að smíða skip hér innan lands, hagsmunir sjávarútvegsins séu best tryggðir með því að leita hagstæðasta verðs sem þeir telja að einungis fáist í erlendum skipasmíðastöðvum. Þetta eru viðhorf sem mönnum er fullkomlega leyfilegt að hafa, en ég er ekki þar með að segja að þau séu rétt, og reyndar held ég því fram að þau séu röng. ( Forseti: Ég vil benda hv. þingmönnum á að hér verður ekki leyft að hefja efnislega umræðu um það mál sem hér var á dagskrá eða var rætt utan dagskrár áðan. Ég treysti því að hv. 2. þm. Norðurl. e. ætli í raun og veru að tala um þingsköp.)