Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka fyrir að fá hér tækifæri til að ræða ögn um atvinnuástandið og víkja að nokkrum atriðum sem fram hafa komið í opinberri umræðu varðandi atvinnulíf hér á landi, bæði nú á síðustu dögum og eins í vor og raunar á þessu ári. Ég tel að það sé mjög brýnt að ræða það vegna þeirrar þröngu stöðu sem við Íslendingar erum nú í. Um leið vil ég þakka þeim ráðherrum sem ég bað að vera viðstadda þessa umræðu fyrir að verða við þeirri beiðni.
    Hinn síðasta dag októbermánaðar mátti sjá á baksíðu Morgunblaðsins að starfsfólki Slippstöðvarinnar á Akureyri hefði verið sagt upp vegna yfirvofandi verkefnaskorts. Um það fórust formanni Starfsmannafélags Slippstöðvarinnar, Þorsteini Konráðssyni, svo orð í viðtali við blaðamann Morgunblaðsins, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það er alvarlegur hlutur þegar 210 manns er sagt upp á einu bretti og engu er um að kenna öðru en skilningsleysi stjórnmálamanna og ráðamanna sjóðakerfisins. Það hafa yfirleitt verið þrengingar á þessum tíma en ástandið hefur aldrei verið jafnslæmt og nú.``
    Tveim dögum síðar kom á forsíðu Dags þriggja dálka fyrirsögn svohljóðandi:
    ,,Á fjórða hundrað manns á Akureyri sagt upp í október: Berjumst eins og ljón fyrir því að enginn þurfi að hætta, sagði Torfi Guðmundsson hjá Vélsmiðjunni Odda.``
    Þann hinn sama dag kom tveggja dálka fyrirsögn í Morgunblaðinu, á Akureyrarsíðu, svohljóðandi:
    ,,Fata-, vefjar- og skinnaiðnaður: Starfsmönnum fækkaði um 249 á tveimur árum. Samdrátturinn heldur áfram, segir Kristín Hjálmarsdóttir, formaður Iðju.``
    Þar segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Kristín sagði alvarlegast þegar samdráttur ætti sér stað hjá fyrirtækjum að eldra fólki væri sagt upp störfum, fólki um og upp úr sextugu. Þetta fólk fengi enga aðra vinnu og atvinnuleysisbætur væru greiddar út í 260 daga, þannig að fólkið hefði engar tekjur á tímabili, eða þar til það fengi greiddan ellilífeyri.``
    ,,Mér hefur lengi þótt iðnaðurinn vera hornreka í okkar þjóðfélagi og það hefur verulega hallað undan fæti á síðustu árum,,, er haft eftir formanni Iðju, félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri.
    Í lok októbermánaðar gat að líta á baksíðu Morgunblaðsins að á þriðja tug starfsmanna Flugleiða hefði verið sagt upp, sem hefur þó verið talið nokkuð sterkt fyrirtæki. Og Árni Gunnarsson, þm. Alþfl., sagði á kjördæmisþingi Alþfl. á Akureyri hinn 31. okt., ef marka má frásögn dagblaðsins Dags, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hann sagði að ástandið væri mun betra á Raufarhöfn sem helgaðist af því að staðurinn væri ekki þjónustumiðstöð í sama mæli fyrir sveitirnar í kring eins og Þórshöfn, Kópasker og Húsavík. Staðreyndin er sú að bakland þessara staða hefur verið að deyja. Ef engin breyting verður á mun þetta

bakland hverfa á næstu árum. Þá vaknar sú spurning hvað verði um þéttbýlisstaðina. Allir vita um erfiðleika Presthólahrepps og erfiðleikarnir eru miklir á Húsavík. Þar er mikið viðvarandi atvinnuleysi og umtalsverðir erfiðleikar í rekstri fyrirtækja. Það kenna menn um að hluta til miklum fjármagnskostnaði, sagði Árni Gunnarsson.``
    Þetta eru örlagaorð, vil ég segja, hjá þm. Alþfl., sem að vísu hefur áður komist svo að orði að það geti enginn maður með snefil af sómatilfinningu fylgt þessari ríkisstjórn ef hún sjái ekki til þess að fjármagnskostnaður lækki og nú spáir hann því að áframhaldandi óbreytt stefna þessarar ríkisstjórnar muni á skömmum tíma valda því að blómlegar byggðir Suður-Þingeyjarsýslu og Þistilfjörður fari í eyði. Baklandið hverfi og eftir standi þorpin án þeirra viðskiptahagsmuna, án þeirra tengsla sem þau hafa haft við landið í kring --- rótarslitnir vísar meðfram ströndum Norðausturlands, svo áfram sé haldið líkingu þm. Alþfl.
    Það er fróðlegt að virða fyrir sér yfirlit um atvinnuástandið eins og það birtist í skýrslum vinnumálaskrifstofu félmrn. Fyrsta skýrslan vegna þessa árs hljóðar svo:
    ,,Í janúarmánuði sl. voru skráðir rúmlega 64 þús. atvinnuleysisdagar á landinu öllu, 37 þús. hjá konum en 27 þús. hjá körlum.`` Enn fremur segir: ,,Skráðum atvinnuleysisdögum fjölgaði í janúar frá mánuðinum á undan um 19 þús. og hafa ekki skráðst svo margir atvinnuleysisdagar í janúarmánuði síðan árið 1984, en þá voru skráðir 84 þús. dagar.`` Að lokum segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Aukið atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu á því rætur að rekja til almenns samdráttar í atvinnulífinu, fyrst og fremst í ýmsum þjónustugreinum. Miðað við þann mikla fjölda uppsagna sem tilkynntur var þrjá síðustu mánuði ársins 1988 má gera ráð fyrir að ekki séu öll kurl til grafar komin í þessu efni og atvinnuleysi kunni enn að aukast á höfuðborgarsvæðinu.``
    Í næsta yfirliti segir: ,,Í febrúarmánuði sl. voru skráðir 57 þús.
atvinnuleysisdagar á landinu öllu`` og enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Fjöldi skráðra atvinnuleysisdaga hefur ekki verið jafnmikill í febrúarmánuði síðan árið 1984 og að því ári undanskildu þarf að leita aftur til ársins 1969 að jöfnum eða hærri tölum í sama mánuði.``
    Í þriðju skýrslunni segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Í marsmánuði sl. voru skráðir 54 þús. atvinnuleysisdagar á landinu öllu`` og enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Af þessum tölum má ljóst vera að skráð atvinnuleysi á nýliðnum ársfjórðungi var a.m.k. helmingi meira en eðlilegt getur talist miðað við árstíma.``
    Um aprílmánuð segir að þá hafi verið skráðir 39 þús. atvinnuleysisdagar og enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Enda þótt atvinnuástandið hafi tekið breytingum til hins betra í aprílmánuði sl. miðað við mánuðina á undan, eins og fram kemur í tölum hér að framan, var atvinnustigið þó mun lakara nú en í sama

mánuði undanfarin ár.`` Og enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:
"Atvinnustigið nú hlýtur að vera áhyggjuefni, ekki síst þegar haft er í huga að á þessum árstíma bætast þúsundir skólafólks á vinnumarkaðinn.
    Það er til marks um að erfiðlega gangi hjá skólafólki að fá sumarvinnu að hjá Ráðningarstofu Reykjavíkurborgar eru umsækjendur nú þrefalt fleiri en á sama tíma í fyrra og hjá Vinnumiðlun námsmanna eru fimm umsækjendur um hvert starf sem í boði er. Víða annars staðar á landinu er ríkjandi óvissa um sumarvinnu skólafólks.``
    Þess skal getið að hæstv. forsrh. beitti sér fyrir sérstakri aukafjárveitingu til að mæta erfiðu atvinnuástandi skólafólks eins og þm. er í fersku minni.
    Um maímánuð segir að þá hafi atvinnuástand verið nær óbreytt frá næsta mánuði á undan, 39 þús. atvinnuleysisdagar á landinu öllu, en skráð atvinnuleysi hafi meira en þrefaldast milli ára. Í júnímánuði er tala atvinnulausra komin upp í 42 þús. og þar segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fyrstu sex mánuði yfirstandandi árs voru skráðir 295 þús. atvinnuleysisdagar á landinu öllu. Til samanburðar má geta þess að allt árið 1988 voru skráðir 215 þús. atvinnuleysisdagar og 153 þús. árið 1987.`` Hálft árið í ár, 295 þús. dagar, allt árið í fyrra 215 þús. og allt árið í hittiðfyrra 153 þús. dagar.
    Í júlímánuði var atvinnuleysi 39 þús. atvinnuleysisdagar og skráð atvinnuleysi þrefalt meira en á sama tíma í fyrra og hafði ekki mælst jafnmikið í júlímánuði þann tíma sem sambærilegar tölur eru til um, en mest hefur atvinnuleysi áður mælst í júlímánuði 1969 1,1% af mannafla, var nú 1,3% af mannafla, meira en nokkru sinni fyrr.
    Í ágústmánuði voru skráðir atvinnuleysisdagar 41 þús., fjórum sinnum fleiri en á sama tíma í fyrra þegar þeir voru einungis 10 þús. Í septembermánuði voru atvinnuleysisdagar 33 þús. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta: ,,Þrátt fyrir nokkra fækkun atvinnuleysisdaga í september sl. frá mánuðinum á undan er skráð atvinnuleysi þrefalt meira en á sama mánuði í fyrra.``
    Lengra ná þessar skýrslur ekki en það sem e.t.v. er áhyggjuefni, og ég kem nánar að síðar, er að bæði vinnumálaskrifstofa félmrn. og Þjóðhagsstofnun hafa spáð því að atvinnuleysi muni fara vaxandi í fyrirsjáanlegri framtíð þannig að horfurnar eru sannarlega ekki bjartar.
    Þjóðviljinn tók saman skýrslu hinn 27. júlí sl. um það hvernig ástandið væri hjá fjölskyldum í landinu, fólki almennt, og fyrirsögn er ,,Atvinnuleysi. Æ fleiri leita fjárhagsaðstoðar. Félagsmálastofnanir uppiskroppa með fé til fjárhagsaðstoðar við einstaklinga. Samdóma álit að miklu fleiri en áður leiti á náðir félagsmálastofnana.``
    Sveinn Ragnarsson, félagsmálastjóri Reykjavíkur, lætur þess getið að stofnunin hafi fengið 48 millj. kr. aukafjárveitingu hjá borginni og þó liggi ekki fyrir hvort þessi aukafjárveiting dugi út árið. Eftir honum

er haft, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það er vel hægt að leiða getum að því af hverju þessi fjölgun skjólstæðinga stofnunarinnar stafar,,, sagði Sveinn. ,,Fyrir það fyrsta er mun erfiðara ástand á vinnumarkaði en um langt árabil og í ofanálag hefur einnig orðið kjararýrnun, svo sem vegna minni aukavinnu sem gerir það að verkum að fólk á í erfiðleikum með að láta enda ná saman.``
    Bragi Guðbrandsson, félagsmálastjóri Kópavogs, lætur þess sérstaklega getið að fólk sé að missa húsnæði í kjölfar atvinnumissis. Guðrún Sigurðardóttir, félagsráðgjafi á Akureyri, segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Þunginn enn meiri en venjulega, meira gengið en venjulega á það ráðstöfunarfé sem við höfum til fjárhagsaðstoðar við einstaklinga. Verður metið hvort farið verður fram á aukafjárveitingu.``
    Það gerir svo myndina enn dekkri en hér hefur verið lýst að í sumum fyrirtækjum er það svo að fólk reynir að skipta með sér þeim vinnustundum sem því áskotnast til þess að allir geti þó haldið einhverri vinnu, þeir sem hafa unnið hjá viðkomandi fyrirtækjum.
    Ekki er myndin fallegri ef horft er á afkomu fyrirtækja og heimila. Hinn 29. okt. sl. var yfirlit í Morgunblaðinu yfir gjaldþrot og greiðslustöðvanir á landsbyggðinni. Þar voru taldir upp 35 staðir sem eiga í slíkum erfiðleikum. Svo að ég grípi niður í þessari löngu og yfirgripsmiklu grein á einum stað, þá segir til að mynda svo um Suðurland, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Staða atvinnufyrirtækja á Suðurlandi frá Þorlákshöfn til Víkur er misjöfn. Hún mótast mjög af staðsetningu þeirra og starfsemi. Atvinnureksturinn er sveiflukenndastur við ströndina þar sem erfiðleikar eru nokkrir í fiskvinnslu. Þeir liggja svo sem víðar og koma fram í uppboðs- og gjaldþrotabeiðnum hjá sýslumannsembættunum. Í Árnessýslu koma fram að meðaltali tvær slíkar beiðnir á dag, en stór hluti er vegna einstaklinga. Í Rangárvallasýslu má reikna með að þær verði nær 300 á árinu. Ríkjandi kyrrstaða er í atvinnulífi á svæðinu og afturkippur ef eitthvað er. Talað er um að lánardrottnar tapi milljörðum vegna gjaldþrota og greiðslustöðvana úti á landsbyggðinni.``
    Það er jafnframt lýsandi fyrir þetta ástand að á sl. ári voru greiddar úr félmrn. vegna ríkisábyrgðar á laun hjá gjaldþrota fyrirtækjum 80 millj. kr. en í ár hafa þegar verið greiddar út 160--170 millj. kr. til um 1600 aðila og stefnir í að greiðslur ríkissjóðs vegna ríkisábyrgða á launum verði um 200 millj. kr. á þessu ári.
    Það er nauðsynlegt að rifja þetta upp m.a. til þess að sýna fram á að þeir atburðir sem gerðust í Slippstöðinni á Akureyri voru ekki eitthvert einstakt tilefni eins og skilja mátti af þeim ummælum sem höfð voru eftir Jóni Sigurðssyni iðnrh. í útvarpinu 31. dag októbermánaðar, heldur aðeins eitt dæmi af mörgum um það hörmulega ástand sem við búum nú í vegna þeirrar stefnu sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur fylgt í atvinnumálum, gengismálum og fjármálum þjóðarinnar yfir höfuð að tala. Fréttin í

Ríkisútvarpinu hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta og ég tel óhjákvæmilegt að lesa hvert einasta orð til þess að ekki vakni sú spurning hvort ég misfari með eða taki úr samhengi:
    ,,Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra segir að undanfarnar vikur hafi hann átt viðræður við forsvarsmenn Slippstöðvarinnar á Akureyri sem sagði upp rúmlega 200 starfsmönnum í fyrradag. Hann segir að staða fyrirtækisins, sem að stórum hluta er í eigu ríkisins, stafi af því að ráðist hafi verið í nýsmíði fiskiskips án þess að gengið hafi verið frá sölu þess í upphafi.
    Jón Sigurðsson segir að hann hafi verið í sambandi við forustumenn Slippstöðvarinnar. Hann segist hafa heimsótt stöðina í september sl. og fylgst með stöðu hennar um langt skeið. Sl. föstudag hafi hann kallað á sinn fund stjórnarformann hennar, forstjóra og einn stjórnarmann. Fjmrh. og sjútvrh. hefðu einnig setið þann fund.
    Jón segir að á fundinum hafi verið farið yfir rekstrarstöðu og fjárhagsstöðu Slippstöðvarinnar, en ríkið er stærsti hluthafi í henni. Jón segir að slök fjárhagsstaða stafi af því að þar standi á stokkum nýsmíði sem ekki eigi sér neinn kaupanda. Í hana hafi verið ráðist fyrir um tveimur árum án þess að séð hefði verið fyrir því hvernig verkefnið gæti aflað fyrirtækinu tekna og ekki hafi verið hugað að því hvernig það félli inn í reglur um stjórn fiskveiða og reglur um sölu og skipti á skipum.`` --- Ég endurtek: ,,Og ekki hafi verið hugað að því hvernig það félli inn í reglur um stjórn fiskveiða og reglur um sölu og skipti á skipum.`` Iðnaðarráðherra segir að þetta hafi verið afdrifarík ákvörðun, þ.e. að ráðast í þetta tiltekna verkefni, og nú ríki óvissa um verkefnin fram undan og Slippstöðin treystist ekki til þess að halda mönnum í vinnu. Jón segist vilja freista þess að finna leið til þess að selja skipið án þess að það brjóti í bága við fiskveiðireglurnar og fengið til þess menn frá þremur ráðuneytum. Hann segist hafa áhuga á að leysa vandann en segist ekki geta sagt hvenær né með hvaða hætti málið verður leyst. Ekki heldur segist hann geta fullyrt nokkuð á þessu stigi um það hvort allir starfsmenn Slippstöðvarinnar haldi vinnu sinni. Ljóst sé að Slippstöðin sé mikilvægt fyrirtæki, ekki eingöngu fyrir Akureyringa heldur einnig fyrir allan fiskiskipaflotann.``
    Svo mörg eru þau orð og margt í þeim sem ekki aðeins orkar tvímælis heldur hygg ég að óhætt sé að fullyrða að þeir menn, sem þekkja rekstur Slippstöðvarinnar jafnvel og hæstv. iðnrh. segist gera, séu flestir sammála um það að sá maður sem forstjóri var þegar ákvörðun var tekin um að ráðast í þessa nýsmíði, hafi verið þekktur að ýmsu öðru heldur en gönuhlaupum í sínum rekstri. Og ég hygg að ekki einn einasti Akureyringur trúi því að hann hafi ekki hugað að því hvernig hið nýja fiskiskip félli inn í reglur um stjórn fiskveiða eða reglur um sölu og skipti á skipum. Ég lýsi þetta staðlausa stafi. Ég fullyrði að hæstv. iðnrh. viti betur og ég fullyrði að það sé a.m.k. ekki oft sem betur fer sem í opinberum

fjölmiðlum sé haft eftir æðstu ráðamönnum þjóðarinnar, --- ja, ætli ég verði ekki að segja önnur eins endileysa og þessi.
    Nú skulum við rifja upp hvernig ástandið var á árinu 1987, þegar undirbúningur að smíði þessa skips hófst. Á þeim tíma töluðu stjórnarmenn og forstjóri Slippstöðvarinnar við þáv. hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson og þáv.
hæstv. fjmrh. Jón Hannibalsson, sem fer með málefni Slippstöðvarinnar. Það er í umboði fjmrh. sem stjórnarmenn Slippstöðvarinnar starfa, þeir sem eru fulltrúar ríkisins, og hefði af þeim sökum auðvitað verið eðlilegt að það hefði verið hæstv. fjmrh. en ekki hæstv. viðskrh. sem kallaði til sín forstjóra, stjórnarformann og stjórnarmann í Slippstöðinni. Kallaði inn á teppi til sín, er sá hljómur sem verið er að gefa í skyn með þessu í stað þess að auðvitað hlýtur hæstv. viðskrh. að bjóða forsvarsmönnum atvinnulífsins hverjum og einum að koma á sinn fund vegna erfiðleika en kallar þá ekki til sín. Slippstöðin á Akureyri heyrir ekki undir hæstv. iðnrh. heldur hæstv. fjmrh.
    En hvernig var nú ástandið á þessum tíma árið 1987, hæstv. iðnrh.? Ef við tökum t.d. skip eins og Núpinn, að hinu nýja skipi hefði verið skipt út fyrir Núpinn eins og talað hefur verið um. Slíkt skip á sóknarkvóta á árinu 1987, hafði frjálsa sókn í ýsu, ufsa, karfa, grálúðu og úthafsrækju.
    Þegar kom fram á árið 1988 var búið að setja kvóta á veiðiskip í úthafsrækju, en frjálsar veiðar héldust og haldast enn hjá sóknarskipum í ýsu, ufsa, karfa og grálúðu og ég hygg að svo verði einnig á næsta ári. Hins vegar eru nú uppi raddir um það að strangur aflakvóti verði settur á allar þessar skipategundir. En þær umræður heyrðust ekki og voru ekki á dagskrá þegar ákvörðun var tekin um smíði þess fiskiskips sem ég er að tala um.
    Ég vil á hinn bóginn rifja upp að á þessu hausti, 1987, sagði ég, bæði hér í ræðustól og eins í ótal greinum sem ég hef skrifað um kvótamálin, að óheppilegt væri að setja reglur um stjórn fiskveiða til jafnskamms tíma og þá var gert eða til þriggja ára vegna þess að það hlyti að valda margvíslegum erfiðleikum í því að gera áætlanir um rekstur útgerðar í landinu, fiskvinnslustöðva og þjónustufyrirtækja við sjávarútveginn.
    Hinn 2. nóv. sl. hafði Morgunblaðið samband við Sigurð Ringsted, forstjóra Slippstöðvarinnar, og bar undir hann ummæli hæstv. iðnrh. Honum fórust m.a. svo orð, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Okkar aðalvandamál er ekki þetta óselda skip, heldur það að við höfum ekki verkefni fram í tímann. Ef við hefðum verkefni þyrfti ekki að segja upp fólki. Mér þykir rangt að segja vanda okkar byggjast á óseldu skipi, en ef ekki hefði verið farið út í smíði þessa skips haustið 1987 hefði sú staða sem nú er uppi komið til fyrir tveimur árum. Við þetta skip hefur verið unnið tvo síðustu vetur og því þurfti ekki að grípa til uppsagna,,, sagði Sigurður Ringsted, forstjóri Slippstöðvarinnar hf., vegna ummæla Jóns

Sigurðssonar iðnrh. í Morgunblaðinu í gær.
    Sigurður sagði enn fremur út af innlendum skipasmíðum og skipasmíðastöðvum að þeim væri sjaldnast gefinn kostur á að vera með þegar nýsmíðaverkefni væru boðin út. ,,Ég bendi á,,, sagði hann, að ,,þótt hér væri smíðað eitt skip á 1 1 / 2 --2 ára fresti mundum við ekki stækka flotann. Straumur innfluttra skipa er hins vegar mikill og einungis á þessu ári eru í smíðum í útlöndum skip sem samsvara um 10 ára afkastagetu Slippstöðvarinnar.``
    Ég held að nauðsynlegt sé að gera rekstur Slippstöðvarinnar nokkuð að umræðuefni vegna þessara ummæla hæstv. iðnrh. Ekki eru nema 5--6 ár síðan um 300 manns unnu hjá Slippstöðinni á Akureyri. Á þeim tíma, áður og síðar, hafa jafnan verið uppi miklar áhyggjur frá ári til árs um það hvernig hægt sé að tryggja þessum mikla mannafla vinnu yfir dauða tímann þegar minnst er að gera í skipasmíðastöðvum hér á landi. Ef ég fer aðeins yfir söguna get ég rifjað upp að sú ákvörðun var t.d. tekin í Slippstöðinni árið 1978 að kaupa Flakkarann til þess að freista þess að selja hann og grípa til hans yfir dauða tímann til þess að ekki þyrfti að koma til uppsagna. Þessi bátur hefur síðan heitið Sjávarborg, hefur verið í eigu sama aðila og ég veit ekki betur en rekstur hans hafi gengið vel.
    Ef við rifjum upp þann tíma þegar hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson var iðnrh. munum við eftir því að hann tók ákvörðun um að hafin yrði smíði svokallaðra raðsmíða hér á landi. Tvö slík skip yrðu smíðuð á Akureyri, eitt á Seyðisfirði og eitt í Stálvík --- eitt á Akranesi og eitt í Stálvík, Seyðisfjarðarskipið kom til síðar. Smíði þessara skipa lá niðri alllengi, m.a.
vegna þess að óhjákvæmilegt var að taka upp kvóta á fiskiskip á árinu 1984 og ég hygg að við hæstv. sjútvrh. getum vel rifjað það upp í sameiningu að mörg viðtöl fóru fram um það, m.a. milli okkar og þeirra sem sátu í ríkisstjórn á þessum árum, hvernig hægt væri að ljúka þessum skipum og hvaða leiðir ætti að fara til þess að þau fengju aðgang að fiskimiðunum umhverfis landið. Sú ákvörðun var síðan tekin og hún átti m.a. þátt í því að ekki þurfti að segja upp fólki í Slippstöðinni á Akureyri, heldur gat það haldið áfram sinni vinnu. Vinnuöryggið hélst af þeim sökum.
    Ég rifja upp að á árinu 1984--1985 tókust samningar um endurbætur á því skipi sem nú heitir Freri og brúaði þá bilið fyrir Slippstöðina á Akureyri. Ég rifja upp að á árunum 1985--1986 tókust samningar um svokölluð Kanadaskip sem Slippstöðin vann í alþjóðlegu útboði og ollu því að vinna hélst stöðugt í Slippstöðinni á Akureyri. Það sem var kannski ánægjulegast af þessu öllu saman
í sambandi við þau skip var að þrátt fyrir óhagstæða gengisþróun hér á landi og í Kanada tókst að skila þessum verkum með hagnaði. Auk þess tókst að eiga margvísleg önnur viðskipti við Kanadamenn. Þannig seldi t.d. Plasteinangrun á Akureyri fiskkassa til þessara skipa. Á þessum tíma stóðust íslenskir

skipasmiðir þannig fyllilega samkeppni á alþjóðamarkaði, bæði varðandi tækniþekkingu og vinnubrögð almennt. Og ég rifja upp endurbæturnar á Sléttbak sem þjónuðu sama tilgangi.
    Síðan var tekin ákvörðun um að smíða nýtt fiskiskip árið 1987 og ég vil enn lýsa þakklæti mínu við þáv. hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson, að hann skyldi bregðast vel við málaleitan stjórnar Slippstöðvarinnar og veita langlánaleyfi til þess að hægt væri að hefja smíði á þessu skipi hér innan lands eins og hann hefur veitt langlánaleyfi til þess að hægt sé að smíða skip erlendis og eins og hann hefur veitt langlánaleyfi til þess að hægt sé að vera með endurbætur á skipum erlendis. Mér þykir vænt um að hann skyldi ekki hafa hallað á íslensku skipasmíðina að þessu leyti og ég veit að hann sér ekki eftir þessu. Ég vona hins vegar að þegar hann talaði um það að ekki hafi verið hugað að því hvaða reglur giltu um stjórn fiskveiða og hvaða reglur giltu um sölu og skipti á skipum á þeim tíma sem langlánaleyfið var veitt, þá hafi hann ekki átt við það að hann hafi gleymt að kynna sér hverjar væru reglur um stjórn fiskveiða og hverjar væru reglur um skipti og sölu á skipum.
    Ég vil taka það fram að vinna við hið nýja skip Slippstöðvarinnar á Akureyri hefur gengið vel. Það er búið að afskrifa nýsmíðina verulega eins og áður var gert við raðsmíðaskipin sem þar voru smíðuð og ég veit ekki betur en Slippstöðin hafi fengið mikið hrós fyrir frá öllum aðilum, þannig að ef skipið yrði nú selt á svipuðu verði og útgerðarmenn og samningar stóðu um á síðustu mánuðum mundi Slippstöðin koma slétt út úr því dæmi og það sem meira er, verðið yrði sambærilegt og ekki hærra en á sambærilegum skipum sem hafa verið að koma til landsins. Þetta er auðvitað merki um það að tækni- og verkþekking þeirra Slippstöðvarmanna er mikil og geta þessarar stöðvar til þess að taka að sér mikil verkefni óumdeilanleg.
    Við skulum ekki gleyma því að skipasmíðar eru verktakastarfsemi. Við getum t.d. gert okkur grein fyrir því að í slíkri starfsemi getur það rekstrarlega komið illa út, hvort tveggja, að hafa of lítið af verkefnum eða of mikið. Oft er það svo og hefur verið á umliðnum árum yfir mesta annatímann að reksturinn hefur ekki skilað arði heldur verið borinn uppi af öðrum mánuðum. Auðvitað fer best á því að hægt sé að sveigja verkefnin að afkastagetunni þannig að jöfn og góð atvinna sé árið um kring og öryggi í rekstri fyrirtækisins.
    Ég þarf auðvitað ekki að taka fram að við getum ekki vænst þess að hér á landi sé hægt að reka fyrirtæki á borð við Slippstöðina með 200--300 manns án þess að í þeim rekstri sé einhver kjölfesta. Ég held að það sé til of mikils mælst ef einhver maður hér inni ímyndar sér það að til langframa sé hægt að halda úti svo stóru fyrirtæki í skipasmíðum að atvinnuöryggi sé viðunandi fyrir starfsmennina nema hægt sé að grípa inn í skipasmíðarnar til að fylla upp í og vera kjölfesta í slíkum rekstri. Það er enn fremur nauðsynlegt til þess að eðlileg verkþekking geti

geymst í fyrirtækinu og til þess að við getum varðveitt þá miklu vöruþróun, verkþróun, tækniþróun, sem verið hefur í skipasmíðum hér á landi. Þar að auki hefur fyrirtæki eins og Slippstöðin auðvitað miklar skyldur við sína viðskiptamenn.
    En það er ekki aðeins að atriði eins og þessi komi inn í verktakastarfsemi slippstöðvar. Afkoma útgerðar t.d. skiptir mjög miklu máli og mun ég koma að því síðar hvaða álit skipasmíðamenn sjálfir hafa á því atriði. Ég vil á hinn bóginn rifja upp að talið er að eigið fé í sjávarútvegsfyrirtækjum hafi rýrnað um 5--6 milljarða á árinu 1988 og um það sagði hæstv. sjútvrh. enn fremur í svari við fyrirspurn frá hv. alþm. Kristni Péturssyni í vor, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Miðað við rekstrarskilyrði og verðlag nú í apríl er halli botnfiskveiða og vinnslu áætlaður, miðað við heilt ár, um 900 millj. kr. og má því reikna með að eigið fé rýrni á árinu 1989 að sama skapi miðað við óbreytt rekstrarskilyrði.``
    Þessi mál hafa komið nokkuð til umræðu hér í þinginu og það var athyglisvert sem hæstv. ráðherra Hagstofu, Júlíus Sólnes, sagði í umræðu um daginn. Ég skildi ummæli hans svo að þau viðhorf væru innan ríkisstjórnarinnar að íslenskur skipasmíðaiðnaður ætti ekki rétt á sér, en skömmu áður hafði verið viðtal við hann í Degi þar sem hann komst m.a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við komum til með að fara nákvæmlega yfir þessi mál og í það minnsta leita skýringa á þeirri stöðu sem íslenskur skipasmíðaiðnaður er í. Væntanlega setjum við fram einhverjar hugmyndir til úrbóta. Málefni skipasmíðaiðnaðarins hafa ekki verið rædd í ríkisstjórn síðan Borgaraflokkurinn gerðist aðili að henni. Það er engu líkara en að áhrifamiklir menn í ríkisstjórninni ætli sér að láta þennan iðnað lognast út af og telji það jákvætt.``
    Það var mjög athyglisvert á þessum fundi Sþ. að ég vakti athygli hæstv.
forseta á því að hæstv. forsrh. væri hér í salnum og hefði ekki kvatt sér hljóðs og hefði ekki treyst sér til að dæma um það hvort þeir straumar væru innan ríkisstjórnarinnar að einhverjir ráðherrar þar vildu skipasmíðaiðnaðinn feigan. Ég hygg að það hafi verið undarleg afstaða að þegja undir þessum kringumstæðum vegna þess að sá ráðherra sem ummæli hæstv. hagstofuráðherra hnigu að, hæstv. sjútvrh., var ekki viðstaddur umræðuna og hafði af þeim sökum ekki tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér. Hv. 3. þm. Norðurl. v. Stefán Guðmundsson gat hins vegar ekki setið undir þessari umræðu án þess að kveðja sér hljóðs og auðvitað var það drengilega gert af honum að taka þannig hanskann upp fyrir ráðherra síns flokks að honum fjarstöddum úr því að hæstv. forsrh. lét sig ummæli hæstv. hagstofuráðherra engu skipta.
    Það er hins vegar athyglisvert að svo er að skilja sem skipasmíðaiðnaður hafi ekki komið á dagskrá í ríkisstjórn eftir að hæstv. iðnrh. heimsótti Slippstöðina sem hann hafði svo mörg orð um í fréttaviðtali sínu. Það sýnir enn fremur þann mikla dauða eða dofa sem

hefur verið yfir þessum málum í þessari ríkisstjórn að hafa að engu þál. sem Alþingi samþykkti á sl. vori. Hv. 3. þm. Norðurl. v. Stefán Guðmundsson var flm. að henni og fjallaði hún um samkeppnisstöðu innlends skipaiðnaðar, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nefndin væntir þess að eftirtalin atriði sem nefnd eru í upphaflegri tillgr. verði höfð í huga við framkvæmd þessarar þál.:
    1. Ríkisstjórnin reyni að tryggja það að útvegsmenn og opinberir sjóðir semji ekki um nýsmíði skipa eða viðhaldsverkefni erlendis án undangengins útboðs þar sem innlendir aðilar keppa á jafnréttisgrundvelli við erlendan skipaiðnað, m.a. hvað snertir meðferð tilboða og fjármagnsfyrirgreiðslu.
    2. Tilboð verði metin á viðskiptalegum grundvelli áður en lánveitingar eru ákveðnar.
    3. Settar verði staðlaðar reglur um útboð veðskilmála og tilboð í skipaiðnaðarverkefnum.
    4. Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að bankar veiti sambærilegar ábyrgðir vegna skipaiðnaðarverkefna innan lands og veittar eru þegar verkefni eru unnin erlendis.``
    Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Nefndin telur æskilegt að ríkisstjórnin skili skýrslu um framgang þessarar þál. á haustþingi 1989.``
    Í lok októbermánaðar er svo komið að þessi mál hafa ekki verið rædd í ríkisstjórninni, þessari ríkisstjórn sem nú situr, hvað þá að ríkisstjórnin hafi í undirbúningi að gera Alþingi grein fyrir því hvernig henni takist að vinna að framgangi þessarar þál.
    Ég vil og tel óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh. hvort hann muni beita sér fyrir því að farið verði að vilja Alþingis í þessum efnum, hvort hann sé til þess fús að taka skipasmíðaiðnaðinn á dagskrá í ríkisstjórninni og hvort þess sé að vænta að einhverjar aðgerðir verði til þess að styrkja samkeppnisstöðu innlendra skipasmíða.
    Fátt sýnir betur alvöru þessa máls en sú staðreynd að Félag dráttarbrauta og skipasmiðja er búið að senda frá sér almenna fréttatilkynningu varðandi skipasmíðar nú 2. nóv., lætur ekki við það sitja, heldur sendir sérstakt erindi til alþingismanna og ráðherra hinn 3. nóv. og lætur enn ekki við það sitja, heldur sendir frá sér og sendir hverjum einasta alþingismanni svohljóðandi samþykkt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sambandsstjórnarfundur Málm- og skipasmiðasambands Íslands, haldinn á Egilsstöðum 3.--4. nóv. 1989, skorar á ráðherra samgöngu- og fjármála að tryggja innlendum skipasmíðastöðvum smíð Vestmannaeyjaferju, svo og viðhald og endurbætur á öllum skipum og öðrum mannvirkjum á vegum hins opinbera. Þannig geta stjórnvöld með beinum aðgerðum komið í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi málmiðnaðarmanna í landinu.``
    Ég vil bæta við þessa samþykkt, hæstv. forseti, að í viðtali sem hæstv. samgrh. átti við sjónvarpsfréttamenn í gærkvöldi kom fram að hugur hans stendur til þess að þessi ferja verði smíðuð hér á landi. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að spyrja

hæstv. forsrh. hvort hæstv. samgrh. hafi tekið það mál upp innan ríkisstjórnarinnar og hvernig því hafi verið tekið. Ég held að það sé líka óhjákvæmilegt að minna hæstv. forsrh. á að nú er nýbúið að opna tilboð um verulegar endurbætur á Árna Friðrikssyni, og ég held að óhjákvæmilegt sé að spyrja hæstv. forsrh. hvort það hafi verið rætt innan ríkisstjórnarinnar að tekið verði tilboði þeirrar skipasmíðastöðvar sem lægst var. Ég hygg að það hafi verið Þorgeir og Ellert. Ég fullyrði að verði það gert þurfi ekki að koma til uppsagna hjá þeirri skipasmíðastöð með sama hætti og komið hefur til uppsagna norður á Akureyri og vestur í Stykkishólmi og með sama hætti og Stálvík er nú lokuð. Ég vil líka rifja upp að slippir hafa farið á höfuðið nú á undanförnum missirum og er því þó ekki um að kenna, hæstv. iðnrh., að þessir slippir hafi unnið við það skip sem nú er í smíðum í Slippstöðinni á Akureyri.
    Í fréttatilkynningu frá Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja frá 2. nóv. er rakinn aðdragandi þeirra erfiðleika sem íslenskur skipasmíðaiðnaður stendur
frammi fyrir. Þar segir m.a. að í viðgerðum og breytingaverkefnum hafi íslenskar stöðvar staðist harða verðsamkeppni. Þar segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nýleg könnun sýnir að á þessu tímabili, þ.e. frá 1983, voru íslenskar stöðvar oftar lægri en erlendar stöðvar í tilboðum í viðgerðar- og breytingarverkefni á alþjóðlegum markaði og hafa því haldið verði niðri íslenskri útgerð til hagsbóta.
    Á þessu ári hefur samkeppnisstaða verið að færast í betra horf hvað varðar gengisskráningu og er svo komið nú að innlendar stöðvar bjóða nýsmíðar á fyllilega samkeppnishæfu verði miðað við erlendar stöðvar. Tvö nýleg dæmi sanna svo að ekki verður um villst þessa fullyrðingu. Erfiðleikar sem nú blasa
við innlendum skipaiðnaði eru fyrst og fremst vegna verkefnaskorts. Endurnýjun flotans fer fram í holskeflum. Veislunni var lokið loksins þegar innlendar stöðvar höfðu fengið betri samkeppnisstöðu. Vegna erfiðleika í sjávarútvegi hefur eftirspurn dregist saman, einnig í viðgerðum og breytingum eldri skipa, eins og fram kemur í hjálögðum upplýsingum.``
    Ég hygg að þetta eigi við víðar en í skipasmíðum, að aðlögun gengisins hjá þessari ríkisstjórn hefur gengið svo hægt að þótt nokkuð hafi áunnist nú allra síðustu vikur eru ýmis atvinnufyrirtæki, jafnvel heilar atvinnugreinar, að þrotum komnar. Og það kemur auðvitað ekki á óvart. Þessi ríkisstjórn sem nú situr var mynduð um það haustið 1988 að halda uppi röngu gengi. Hún var mynduð um það að taka upp stórfelldari millifærslur í sjávarútvegi en áður höfðu þekkst. Og við munum eftir því, alþingismenn, að á þessu sumri, þegar brýnt var að koma við nauðsynlegri leiðréttingu á gengi krónunnar, gerðu Alþfl. og ráðherrar Alþfl. lítið úr þessari umræðu og formaður Alþfl. var svo ósmekklegur að kalla það dóp að færa gengið til rétts horfs þannig að íslenskir atvinnuvegir gætu undir því staðið, sagði að það væri efnahagslegur dópismi að hafa gengið í réttu lagi. Við

munum einnig eftir því að hæstv. viðskrh. hafði þau orð haustið 1988 að gengisfellingin og sú aðlögun sem þá varð að réttu gengi hefði átt rétt á sér vegna þess að engar hliðarráðstafanir voru gerðar.
    Það hefur auðvitað margt skrýtið verið sagt um þessi mál, en sannleikurinn er sá að við stöndum nú frammi fyrir meiri kreppu í íslensku atvinnulífi en við höfum staðið lengi frammi fyrir áður sem ég mun víkja nánar að síðar þegar ég hef gert grein fyrir erindi Félags dráttarbrauta og skipasmiðja. Ég bendi aðeins á þetta: Það hefur auðvitað ekki mikla þýðingu að tala um að gengið sé viðunandi rétt í augnablikinu þegar Þjóðhagsstofnun er að reikna út hvað saltfiskurinn standi vel núna í augnablikinu þegar enginn saltar --- rifjar það upp þegar önnur vinstri stjórn sat og grunnskólamál voru til umræðu og fyrrum þingmaður Vesturlands rifjaði réttilega upp, þegar þáv. hæstv. forsrh. var að guma af því að verð væri gott á skreiðinni, að engum heilvita manni dytti í hug að hengja upp skreið á þessum tíma. Það væri þá bara fyrir fluguna.
    Það sem Félag dráttarbrauta og skipasmiðja bendir á er eftirfarandi:
    Að auka mismun lána til verkefna innan lands og erlendis.
    Að tryggja jafnræði í bankaábyrgðum til samræmis við ákvörðun ríkisstjórnar frá 2. sept. 1986.
    Að auðvelda innlendum stöðvum að taka eldri skip upp í ný.
    Að tryggt sé að leitað sé eftir tilboðum innan lands og tilboð séu metin á viðskiptalegum grundvelli áður en lánveitingar eru ákveðnar.
    Hæstv. iðnrh. talar um að hann muni huga að því hvernig það félli inn í reglur um stjórn fisveiða og reglur um sölu og skipti á skipum og hann segist vilja freista þess að finna leið til þess að selja skipið án þess að það fari í bága við fiskveiðireglurnar. Það eru nú aldeilis fréttir ef ráðherra ætlar að reyna að finna leið sem er lögum samkvæmt. Hins vegar get ég bent hæstv. ráðherra á að samkvæmt Fiskifréttum er nú talað um að setja á stofn nýjan úreldingarsjóð sem gæti keypt gömul skip fyrir 1,5 milljarða kr. í byrjun sem svarar til 7 togara eða ígildis þeirra í bátum. Get ég ekki betur séð en þarna sé m.a. kjörleið fundin til þess að koma til aðstoðar íslenskum skipasmíðaiðnaði til að hann geti tekið skip upp í og þannig auðvelda honum það að koma því skipi í verð sem m.a. er á stokkunum norður á Akureyri.
    Það var erfitt að ræða við hæstv. iðnrh. á síðasta þingi um skipasmíðaiðnaðinn vegna þess að hann vitnaði þá stöðugt í úttekt sem erlent fyrirtæki, enskt fyrirtæki, var að gera á íslenska skipasmíða- og skipaviðgerðaiðnaðinum. Ég hef hér í höndum útdrátt, samantekt helstu niðurstaðna úr þessari athugun, og þar segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta, um tillögur APA um aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar:
    ,,Það sem ekki á að gera:
    Til langs tíma litið á ekki að veita styrki, þ.e. innleiða ekki styrkjakerfi í iðnaðinn til frambúðar. Það á ekki að taka á sig tap iðnaðarins. Varpið ekki vanda

skipaiðnaðarins yfir á sjávarútveginn. Gera þau mistök að viðhalda umframafkastagetu. Auka kvóta skipa smíðaðra á Íslandi. Leyfa frekari aukningu aðstöðu á meðan núverandi ástand varir.`` Með leyfi hæstv. forseta, þetta er
svona smásnúið mál á köflum en skilst vonandi. Og áfram heldur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Vanmeta þá staðreynd að eftirspurn eftir nýsmíðum hefur verið metin á grundvelli eftirspurnar sem kemur til af kvótakerfi. Með hliðsjón af 30% umframafkastagetu fiskiveiðiflotans gæti eftirspurn eftir nýsmíði íslenskra aðila minnkað verulega ef ríkisstjórnin minnkaði stærð flotans í það sem þörfin segir í raun til um.`` Og loks: ,,Vanmeta margföldunaráhrif í efnahagskerfinu. Heildarfjöldi starfa í hættu er töluvert meiri en þau sem lúta beint að starfsemi Félags dráttarbrauta og skipasmiðja.``
    Þetta er það sem ekki á að gera. Það sem á að gera er þetta:
    ,,Marka stefnu fyrir iðnaðinn. Íhuga að útvega niðurgreiðslur í skamman tíma til að aðstoða við hagræðingu í iðnaðinum. Viðurkenna að skipasmíða- og skipaviðgerðaiðnaðurinn gegnir stóru hlutverki innan undirstöðu sjávarútvegsins. Aðstoða við mótun nákvæmrar markaðsþróunaráætlunar, áætlunar um bætta framleiðni og hagræðingu. Skipa nefnd til að marka ákveðna stefnu. Útvega fjármagnsaðstoð til endurskipulagningar. Útvega fjárhagsaðstoð fyrir markaðsþróun, framleiðni, aukningu og endurþjálfun. Íhuga að auka lánsfjármagn í 80% af heildarkostnaði við nýsmíðar innan lands [sem að vísu er loforð fyrir í sambandi við nýsmíðina á Akureyri]. Íhuga að setja fulltrúa frá skipasmíða- og skipaviðgerðaiðnaðinum í stjórn Fiskveiðasjóðs. Leyfa 100% bankatryggingar fyrir nýsmíðar hérlendis. Íhuga að flýta fyrirhuguðum pöntunum á nýsmíðum til að minnka núverandi skort á eftirspurn. Hvetja til sameiningar sem leiðar til hagræðingar. Íhuga leiðir til að draga úr afkastagetu á Faxaflóasvæðinu. Útvega styrki til að flytja tæki og búnað til helstu valinna skipasmíðastöðvakjarna.``
    Þetta eru þær ábendingar sem koma fram í athugun á íslenska skipasmíða- og skipaviðgerðaiðnaðinum með tilliti til stefnumörkunar og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það frá hæstv. iðnrh. hvenær hann muni gefa Alþingi skýrslu um mat sitt á þessari úttekt og hvenær þess sé að vænta að við getum talað um skipasmíðaiðnaðinn á þeim grundvelli sem þessi skýrsla hér markar.
    Hæstv. forseti. Eins og ég hef gert grein fyrir er það ekki einungis skipasmíðaiðnaður sem á við erfiðleika að etja nú, heldur má segja allur samkeppnisiðnaður hér á landi, og raunar er farið að gæta vaxandi erfiðleika í verslun. Má segja að þessar umræður gangi svo langt að talað er um það meira en í hálfkæringi að mörg af helstu og grónustu fyrirtækjum landsins standi nú svo höllum fæti að búast megi við að til greiðslustöðvunar eða jafnvel gjaldþrota kunni að koma.
    Skýringin á þessu er auðvitað ekki flókin. Skýringin á þessu er sú að þær aðgerðir sem

ríkisstjórnin hefur gripið til síðan hún kom að völdum, hafi ekki verið almenns eðlis. Það hefur ekki verið gerð tilraun til að marka atvinnuvegunum í heild viðunandi samkeppnisstöðu borið saman við helstu nágrannaríki okkar, helstu samkeppnislönd okkar.
    Ef við lítum aðeins yfir helstu þjóðhagsstærðir kemur í ljós að landsframleiðsla hefur dregist saman í tvö ár og búist er við að hún dragist saman á næsta ári. Hún var, miðað við vísitölu 100, 118 árið 1987, fór niður í 115 árið 1988, 111 á þessu ári og 109 á því næsta. Það sem er athyglisvert er að á sama tíma og það minnkar sem við höfum þannig til skipta hefur ríkissjóður tekið meira til sín af kökunni, af þeirri landsframleiðslu sem við höfum til skiptanna, af því sem þjóðarbúið hefur til umráða. Þannig kemur fram í yfirliti nokkurra þjóðhagsstærða að einkaneysla dróst saman um 5,7% árið 1988, 6,9% árið 1989 og um 3% er búist við að hún dragist saman á næsta ári. Fjárfesting minnkar um 3,7% á síðasta ári, um 8,9% á þessu og búist er við að hún minnki um 2% á því næsta. Fjárfestingin hefur minnkað svo mikið og er að minnka svo mikið að þeir menn sem eru best inni í atvinnuvegunum hika ekki við að fullyrða að nú sé svo komið að fjárfesting í vélum, tækjum, hugbúnaði og vöruþróun sé orðin hættulega lítil og hljóti það að hefna sín með minnkandi þjóðartekjum síðar meir.
    En á sama tíma og þetta hefur gerst stendur samneysla í stað í ár, jókst á sl. ári um 2,7% og stendur í stað í ár og búist við að hún standi einnig í stað á næsta ári. Samneyslan er með öðrum orðum að verðgildi sú sama í ár og sl. ár, verður að verðgildi sú sama á næsta ári, um leið og allir aðrir í þjóðfélaginu verða að láta sér nægja minna. Og það alvarlega við þetta er að hæstv. ríkisstjórn hyggst enn þyngja skattana á næsta ári eins og yfirlýst hefur verið og óhjákvæmilegt er að spyrja hæstv. forsrh. um það í þessu samhengi hvort staðið hafi verið við yfirlýsingu sem hann gaf vinnuveitendum skriflega við gerð síðustu kjarasamninga og er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun taka skattlagningu fyrirtækja til endurskoðunar með tilliti til samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum. Sérstaklega verður tekið mið af þeim breytingum sem verða innan Evrópubandalagsins. Ríkisstjórnin mun hafa samráð við samtök atvinnurekenda um þessa endurskoðun. Ríkisstjórnin mun við heildarendurskoðun eignarskattsálagningar taka til athugunar álagningu eignarskatta á atvinnufyrirtæki.``
    Í umræðum í Ed. tók hæstv. iðnrh. fram, 6. maí sl., að þetta verkefni ásamt öðrum hafi verið verkefni sérstakrar nefndar hvað varðar iðnaðinn sem nú starfi með þátttöku fulltrúa ríkisstjórnarinnar og samtaka atvinnugreinarinnar og fólks sem vinnur við iðnaðinn. Á hinn bóginn hefur það komið fram í ummælum hæstv. fjmrh. hér úr þessum ræðustól nú á þessu hausti við umræður um fjárlagafrv. að ekkert slíkt samráð sé í gangi, að sú niðurstaða sem ríkisstjórnin muni komast að um skattlagningu fyrirtækja á næsta ári verði sú niðurstaða sem fyrirtækin og aðilar

vinnumarkaðarins verði að sætta sig við. Þess vegna er þetta spurning mín til hæstv. forsrh.: Er hugsanlegt að hæstv. iðnrh. hafi falið þetta verkefni sérstakri nefnd á vori komanda, hafi e.t.v. kynnt einhverjar tillögur í ríkisstjórninni sem skellt hafi verið skollaeyrum við og hann hafi ekki komist upp með vegna þeirrar stefnu sem Alþb. hefur í skattamálum? Er það virkilega svo að hæstv. forsrh. hafi ekki gert neina tilraun til að standa við þetta bréflega fyrirheit sitt við aðila vinnumarkaðarins? Eða hitt fyrirheitið sem gefið var, að sjávarútvegurinn fengi viðunandi samkeppnisstöðu á þessu ári?
    Ég spurði hæstv. forsrh. að því í deildinni hvort hann hugsaði sér að sjávarútvegurinn hefði viðunandi samkeppnisstöðu allt þetta ár, til áramóta, á öllum samningstímanum, í einn mánuð, síðustu tvo mánuðina eða kannski bara eina einustu klukkustund eða eina einustu mínútu. Honum fannst þetta bjánalega spurt. Nú er komið fram í nóvember og ekki örlar á grundvellinum fyrir sjávarútveginn. Og boðskapur hæstv. sjútvrh. var ekki fallegur á fiskiþingi þegar hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sjávarútvegurinn hefur átt við mikla rekstrarerfiðleika að etja að undanförnu og fyrirsjáanlegur er aflasamdráttur á næsta ári. Á sama tíma eru allir kjarasamningar lausir og viðræður um skiptingu þjóðarteknanna á næsta leiti. Í ákvörðunum um gengismál og tekjuskiptingu hefur mjög verið gengið á hlut sjávarútvegsins á undanförnum árum. Mikilvæg breyting hefur nú náðst á raungengi krónunnar og þeim ábata verður atvinnugreinin að halda. Kjarasamningum sem raska því raungengi, sem verður um næstu áramót, getur sjávarútvegurinn ekki staðið undir.
    Nú veit ég ekki hvort ég á að skilja ummæli hæstv. sjútvrh. svo að hann telji ástandið viðunandi í sjávarútveginum eins og það er núna, þegar haldið er uppi stórkostlegum millifærslum til frystingariðnaðar og saltfisksins. Ég býst ekki við að svo sé. En ég vil vekja athygli á því að á sama tíma og hæstv. sjútvrh. talar um það umbúðalaust að þjóðfélagið hafi ekkert svigrúm til launahækkana á næsta ári, jafnvel þótt gengið verði látið síga áfram til áramóta til þess að mæta þeim greiðslum sem nú renna til frystingarinnar og saltfisksins úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins, á sama tíma hefur það gerst á þessu ári að frá upphafi til loka árs munu laun hækka um 12% en verðbólga um 25%. Í prósentum talið hækkar verðbólgan meira en helmingi meira á þessu ári heldur en launin. Það er því auðvitað algjörlega út í hött ef einhver ætlar að reyna að halda því fram að vandamál atvinnulífsins nú eins og komið er séu vegna hárra launa í landinu. Það er algjör misskilningur og þeim mun meiri misskilningur sem kemur fram á næsta ár og kaupmáttarrýrnunin heldur áfram.
    Há laun eru ekki vandamálið núna. Vandamálið núna er verðbólga. Vandamálið eru háir nafnvextir og háir raunvextir sem haldið er uppi með mikilli þenslu á lánamarkaði vegna sívaxandi lánsfjárþarfar ríkisstjórnarinnar. Mikill fjármagnskostnaður sem m.a.

kemur til af því að stimpilgjöld á næsta ári verða eftir fjárlagafrv. hærri tala en allur tekjuskattur fyrirtækja í landinu eða tæpir 2 milljarðar kr.
    Og þó svo að reynt sé að gefa í skyn að staða sjávarútvegsins hafi e.t.v. batnað hjá þeim fyrirtækjum sem gátu haldið sjó undanfarið, og þau eru til
allrar hamingju til, þá vitum við að fyrirtækin sem fengu aðstoð Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina kveinka sér nú undan því að þurfa að borga vexti og afborganir af þessum lánum á næsta ári þegar afli minnkar og fjármagnsbyrðin þyngist á nýjan leik. Auðvitað fór þessi ríkisstjórn rangt að. Auðvitað átti að byrja á því að laga rekstrargrundvöllinn og síðan koma til hjálpar með skuldbreytingu þar sem það átti við.
    Hæstv. forseti. Ég sagði áðan að aðrar atvinnugreinar stæðu frammi fyrir sama vanda og skipasmíðaiðnaðurinn. Um samkeppnisiðnaðinn almennt er það að segja að eftirspurnin datt niður fyrir rúmu einu ári og hefur haldið áfram. Þessi mikli samdráttur í framleiðslu samkeppnisiðnaðar hefur bitnað mjög þungt á sumum fyrirtækjum sem áttu í erfiðleikum fyrir og sum fyrirtæki hafa orðið að segja upp starfsfólki sínu. Eins og nú standa sakir er ekki um önnur ráð að ræða en þau að bæta almenn rekstrarskilyrði atvinnuveganna í heild. Til þess að gera það er nauðsynlegt að losa um gjaldeyrismálin. Það er nauðsynlegt að gengi krónunnar sé rétt skráð en því sé ekki haldið of háu með opinberum styrkjum og millifærslum milli atvinnugreina með því að mismuna atvinnugreinum með þeim hætti. Og síðast en ekki síst er nauðsynlegt að auka svigrúm fyrirtækjanna með því m.a. að draga úr opinberri eyðslu en breyta lögum um skattlagningu fyrirtækja í það horf sem breytt var vorið 1988 þegar
ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var við völd. Og allra síst getur gengið upp að auka þá skattpíningu tekjuskatts sem nú er í landinu og á ekki síst þátt í því að draga úr eftirspurn eins og ég hef hér lýst sem veldur minni veltu í þjóðfélaginu og erfiðleikum hjá fyrirtækjunum. Þennan vanda má allan rekja til þess að ríkið tekur of mikið til sín.
    Til allrar hamingju eru þó enn til vel rekin fyrirtæki sem standa undir sér. Þau fyrirtæki verður að efla enn til þess að þau geti dregið þann vagn sem lífskjör okkar byggjast á og hjálpa verður öðrum fyrirtækjum til þess að auka eigið fé sitt með skattalegum aðgerðum og með öðrum hætti.
    Á sama tíma og aðrar þjóðir Evrópu kosta kapps um að auka frjálsræði á öllum sviðum efnahagslífsins, efla markaðsbúskap og samkeppni með það að markmiði að bæta lífskjör almennings hefur vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar horfið á vit forneskju í efnahagsmálum sem margsannað er að lamar framtak og dregur úr hagvexti. Það sjáum við glöggt á vaxandi atvinnuleysi og minnkandi kaupmætti, gjaldþrotum fyrirtækja og fjárhagsvandræðum heimilanna í landinu. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að nauðsynlegt er að koma slíkum almennum aðgerðum við, að þegar einstakar

atvinnugreinar eins og skipasmíðaiðnaðurinn nú á í höggi við niðurgreidda samkeppni erlendis frá þá verður að mæta því með viðeigandi hætti.