Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Það þarf ekki að efa það að þingheimur allur deilir áhyggjum með hv. 2. þm. Norðurl. e. af því að atvinnuleysið hefur orðið meira á þessu ári en mörg undanfarin ár. Og okkur er brýn nauðsyn að horfast í augu við það að atvinnuleysi kynni enn að aukast nokkuð á næstu mánuðum. Ég ætla að nefna nokkrar tölur um þetta mál.
    Fyrstu níu mánuði ársins voru að jafnaði um 2200 manns atvinnulausir sem svarar um 1,6% af mannaflanum. Því er nú spáð að fyrir árið allt verði þetta atvinnuleysi mælt á sama hátt 1,7% af mannafla. Til samanburðar var atvinnuleysið í fyrra 0,6%. Þetta er vissulega vandamál. En ég bið menn þó að hafa í huga að einfaldur hlutfallareikningur eins og sá sem hv. 2. þm. Norðurl. e. fór með hér áðan, sem er vissulega réttur, að þannig megi segja að nú sé atvinnuleysið þrefalt meira en það var í fyrra, þá fer því fjarri að komið hafi til þess fjöldaatvinnuleysis sem ýmsir hafa spáð undanfarin missiri. Það hefur verið og það verður áfram forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar að sporna gegn auknu atvinnuleysi.
    Það er rangt hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að ekki hafi verið mótuð heildarstefna til að snúast við þessum vanda. Þessi ríkisstjórn var mynduð til að snúast gegn honum. Við megum heldur ekki líta fram hjá því þegar við skoðum þær breytingar sem orðið hafa á vinnumarkaðnum að undanförnu að þær sýna á vissan hátt þá óhjákvæmilegu aðlögun að breyttum skilyrðum þjóðarbúsins sem varð að eiga sér stað. Þessi aðlögun hefur fyrst og fremst verið fólgin í hægfara en verulegri lækkun á raungengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum og aðhaldi í peningamálum og ríkisfjármálum. Þessi aðlögun hefur að ýmsu leyti tekist vel. Ég nefni sem dæmi þær áætlanir Seðlabankans að raungengi krónunnar mælt á mælikvarða verðlagsþróunar á Íslandi og í öðrum löndum var um 13% lægra á síðasta fjórðungi ársins í ár en það var á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Á sama tíma hefur raungengið á mælikvarða launakostnaðar lækkað um næstum því 20%. Þessar tölur um þróun raungengis eru auðvitað til marks um bætta samkeppnisstöðu útflutnings- og samkeppnisgreina. Raungengi krónunnar er nú svipað og það hefur að jafnaði verið á þessum áratug. En auðvitað er líka rétt og heiðarlegt að segja að þessar tölur eru einnig til marks um þverrandi kaupmátt. Það var nauðsynlegt að kaupmáttur minnkaði, það var óhjákvæmilegt, það var ekki tilgangurinn heldur er það því miður leiðin í málinu. Þess vegna verð ég að segja að því miður gengur ekki málflutningur hv. 2. þm. Norðurl. e. upp sem í senn segir: ,,Það var farið allt of hægt í sakirnar með gengið, það átti að fella það miklu fyrr og miklu meira. Kaupið er líka allt of lágt, kaupmátturinn er allt of lítill.`` Ég sé nú ekki hvernig þetta getur gengið upp. Og það eru þessar staðreyndir málsins sem enginn kemst hjá að horfast í augu við hvort sem hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu.

    En þær breyttu samkeppnisaðstæður sem ég hef lýst til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf koma m.a. fram í samdrætti í innflutningi og í tölunum um eftirspurn eftir fólki til starfa sem ég nefndi áðan. Samkvæmt könnun Þjóðhagsstofnunar á atvinnuástandi í septembermánuði sl. vildu fyrirtækin í landinu í heild heldur fækka við sig fólki, reyndar mest í verslun og þjónustu hér um suðvestanvert landið, tæplega 400 manns þegar litið er á nettótölurnar. Hins vegar er enn nokkur umframeftirspurn eftir fólki til starfa í fiskvinnslu, tæplega 300 manns. Þetta sýnir á sinn hátt að þær breytingar á verðhlutföllum sem voru tilgangur stjórnarstarfsins hafa orðið og hafa skilað árangri.
    Varðandi skipaiðnaðinn, en hv. 2. þm. Norðurl. e. gerði hann sérstaklega að umtalsefni, er hverjum manni ljóst að þar þarf ekki hálfs annars klukkutíma ræðu til að segja okkur að þar blasi við alvarlegt ástand vegna fyrirsjáanlegs verkefnaskorts sem m.a. hefur komið fram í því að næstum 400 manns í þessari atvinnugrein hefur verið sagt upp störfum á þessu ári þótt sem betur fer hafi minnstur hluti þeirra uppsagna reyndar enn komið til framkvæmda. En hvað hefur hér gerst? Hyggjum að því.
    Eins og oft áður er það fyrst og fremst hin mikla sveifla í afkomu sjávarútvegsins og þar með í eftirspurn útvegsins eftir nýsmíði og endurbótum fiskiskipa sem veldur vandræðum erum við vön að kalla það. Þetta skýrir málið, eins og skoðun á tölunum sýnir hverjum þeim sem vill kynna sér þær. Það hefur líka orðið harðnandi samkeppni frá erlendum skipasmíðastöðvum, bæði vegna þess að raungengi krónunnar fór hækkandi um skeið á árunum 1986--1987, en líka af því að margar erlendar ríkisstjórnir velja að styrkja þessa starfsgrein með fé úr ríkissjóði.
    Á uppgangsárunum í sjávarútveginum, 1986 og 1987, jókst eftirspurn útgerðarinnar eftir nýsmíðum og viðgerðum verulega og það var eins og venjulega að allir vildu fá sínum verkum lokið sem allra fyrst. Þetta þekkjum við öll vel. Á þessum árum fór það saman, eins og oft vill verða þegar vel árar til sjávarins, að raungengi krónunnar hækkaði sem veikti einnig samkeppnisstöðu íslensku skipasmíðastöðvanna beinlínis. Þetta er bakgrunnur
þeirra erfiðleika sem við glímum nú við í skipaiðnaðinum.
    Í umfangsmikilli úttekt á stöðu íslenska skipaiðnaðarins sem breska ráðgjafarfyrirtækið Appledore hefur gert fyrir iðnrn. og Landssamband iðnaðarmanna, athugun sem hv. 1. þm. Reykv., þáv. hæstv. iðnrh., beitti sér fyrir að hafin var --- í þessari athugun, sem lokið var í maí á þessu ári, kemur fram að bestu íslensku skipasmíðastöðvarnar væru vel samkeppnisfærar við erlendar stöðvar ef ekki kæmu til miklir styrkir, einkum til nýsmíða víða í útlöndum. Ég mun víkja að þessu nokkru nánar hér á eftir, en vil minna á að í þessu sambandi er ástæða til að nefna að Evrópubandalagið stefnir nú að því að leggja af þessa styrki innan sinna vébanda og þá væntanlega

EFTA-ríkin líka ef þau tengjast Evrópubandalaginu þeim böndum sem nú er að stefnt að hnýta þannig að styrkir sem nú nema yfirleitt um 26% --- reyndar er það reglan innan Evrópubandalagsins að þeir fari ekki fram úr þeirri hlutfallstölu þótt dæmi séu um það í Frakklandi og e.t.v. í öðrum Suður-Evrópuríkjum að þessir styrkir fari upp í 35% --- nú er sem sagt að því stefnt að leggja þá af fyrir árslok 1992. En hvað sem því líður, þá fóru þeir vaxandi á árunum sem ég nefndi. Allt fór þetta saman til þess að verkefnin, sérstaklega nýsmíðaverkefnin, færðust til útlanda í góðærinu til sjávarins. En á þessu ári hefur ásóknin í nýsmíðar og meiri háttar viðgerðir dregist mikið saman í kjölfar versnandi afkomu í fiskveiðum og því miður eru horfur á að enn dragi úr henni á næsta ári. Þetta er kjarni málsins, en ekki það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur kosið að kalla skilningsleysi stjórnvalda. En það er nú eiginlega merkilegt einkenni á hans málflutningi að hann treystir mest á forsjá ríkisins. Ég mun líka víkja að því nánar í minni ræðu. ( HBl: Þetta voru ummæli formanns Starfsmannafélags Slippstöðvarinnar.) Komum að því síðar, hv. 2. þm. Norðurl. e.
    Það er ákaflega mikilvægt að reyna að draga reynslulærdóm af þessu, og það veit ég að forveri minn í starfi iðnaðarráðherra vildi gera, og það er: Hvernig eigum við að koma í veg fyrir, hvernig forðumst við sveiflur af þessu tagi í starfsskilyrðum og eftirspurn? Það er baksvið þessarar títtnefndu athugunar Appledore-fyrirtækisins.
    Ég minni á að í flestu tilliti fara hagsmunir íslensks sjávarútvegs og íslensks skipaiðnaðar saman. Það hefur viljað brenna við í málflutningi hv. 2. þm. Norðurl. e. að hann hafi þarna viljað láta málið bera svip af hagsmunaárekstrum milli þessara greina og fyrirsvarsmanna þeirra. Ekkert gæti verið fjær sanni. Sjávarútvegurinn á mikið undir því að í landinu sé öflugur skipaiðnaður sem geti veitt góða smíða- og viðgerðarþjónustu, því það er auðvitað frá útgerðinni sem skipasmíðastöðvarnar fá sín verkefni. Það er fjarstæðukennt að halda því fram t.d. að hæstv. sjútvrh. hafi beitt sér fyrir einhverju öðru en því sem lýsir sér í þeim orðum sem ég hef hér flutt.
    Skipasmíðaiðnaðurinn mun hagnast með tvennum hætti á þeim breytingum sem orðið hafa að undanförnu á starfsskilyrðum með lækkandi raungengi krónunnar sem nú koma betur og betur í ljós. Í fyrsta lagi hefur auðvitað batnandi afkoma í sjávarútvegi gert fyrirtækjunum í þeirri grein betur kleift að standa í skilum og panta verkefni frá skipasmíðastöðvunum og í öðru lagi hefur samkeppnisstaða stöðvanna sjálfra batnað gagnvart erlendum stöðvum. Þessa sér reyndar þegar stað í því að á árunum 1988 og 1989 mun verkefnahlutfall innlendu stöðvanna fara mjög hækkandi frá því sem var á árunum 1986 og 1987.
    En auðvitað er þetta ekki nóg vegna þess að það er samdrátturinn í verkefnunum í heild sem er mesta vandamálið. Ég vil þess vegna og einnig í tilefni af fyrirspurn hv. 2. þm. Norðurl. e. upplýsa það hér að ég mun leggja fram skýrslu til Alþingis um þær

athuganir og aðgerðir sem í hefur verið ráðist í framhaldi af ályktun Alþingis í fyrravor og í framhaldi af Appledore-skýrslunni. Reyndar var hafið starf þegar á liðnu sumri. Ég skipaði þá nefnd til þess að gera tillögur um aðgerðir af hálfu hins opinbera til þess að efla innlenda skipasmíðaiðnaðinn. Þessari nefnd er ekki ætlað að skila löngum ritsmíðum um þetta mál. Hún mun skila drögum að tillögum eftir því sem verkefnunum miðar áfram. Hún hefur þegar skilað tillögum um breytt fyrirkomulag á endursmíði notaðra skipa innan lands og skiptum á eldri skipum. Og vegna ummæla hv. 2. þm. Norðurl. e. um það mál og úreldingu skipa sem úr sér gengin eru í okkar fiskiskipaflota, þá vil ég taka það fram að það er heilmikið mál að velja reglur sem tryggja aðgang innlendu stöðvanna að verkefnum. Þar er alls ekki hægt að vísa með neinum einföldum hætti til löggjafarinnar. Þetta er verkefni sem við erum nú með til skoðunar og því miður hafði ekki verið ráðið fyllilega fram úr þegar starfsreglur Fiskveiðasjóðs og þeirra sem ábyrgð bera á því hverjum er leyft að skipta eldra skipi fyrir nýtt eða betra skipi fyrir bilað voru settar. Þetta þarf að skoða vel til þess að hægt sé að koma verkefnum og skynsamlegri nýtingu á okkar fiskiskipastól í hagrænt horf.
    Því miður hefur sumt í fiskveiðistjórninni orkað gegn því að menn nýttu skipin eins og hyggilegast er og gegn því að menn semdu um þessi verkefni við innlendu stöðvarnar. Endurbætur á þessum reglum, endurbætur á starfsreglum Fiskveiðasjóðs, ekki síst um afgreiðslutíma hans og meðferð mála, endurskoðun
á starfsreglum bankanna um bankaábyrgðir vegna endurbóta og nýsmíða á skipum innan lands, eins og hæstv. forsrh. vék hér að, eru meðal þeirra verkefna sem starfshópur á vegum iðnrn. fjallar um. Allar miða þessar tillögur að því að sem mest jafnræði verði með innlendum og erlendum stöðvum hvað varðar fjármagnsfyrirgreiðslu og aðgang að verkefnum.
    Ég vil láta það koma fram, eins og reyndar kom hér fram í máli hv. málshefjanda, 2. þm. Norðurl. e., að ég hef á mínum starfstíma sem viðskrh. reynt eftir fremsta megni að greiða götu innlendra skipasmíðastöðva varðandi erlendar lántökur til verkefna sinna, en í því felst ekki á nokkurn hátt að þar með sé ríkið eða ráðuneytið að taka ábyrgð á verkefnunum. Í því virðist mér liggja grundvallarmisskilningur hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. á verkaskiptingunni milli fyrirtækja og ríkisvalds. Við komum að því síðar.
    Hv. 2. þm. Norðurl. e. nefndi hér mörg atriði úr ályktunum Félags dráttarbrauta og skipasmiðja sem eru reyndar öll til skoðunar í nefndinni sem starfar að þessu verki og senn mun verða gerð hér grein fyrir í þinginu, enda eru þar fulltrúar frá þessum samtökum eins og reyndar frá öðrum sem láta sig þessi mál varða. Sama máli gegnir um Appledore-tillögurnar sem hv. málshefjandi las hér líka nokkuð upp úr.
    Ég vil líka láta þess getið að iðnrn. í samvinnu við Landssamband iðnaðarmanna og fleiri aðila, m.a. Fiskveiðasjóð og Iðnlánasjóð, hefur beitt sér fyrir

markaðsátaki fyrir skipasmíðaiðnaðinn og skipaviðgerðirnar innlendu þar sem áhersla verður lögð á að kynna þessa starfsgrein, bæði inn á við og út á við. Þar bind ég vonir við að hægt sé að finna verkefni sem eru arðvænleg. En það er kjarni þessa máls að þessari grein er enginn greiði með því gerður að útvega henni verkefni sem ekki eru í sjálfu sér arðvænleg, sem á endanum verða að greiðast af almannafé. Ég mun á næstunni kynna þetta mál nánar og ætla ekki að hafa um það fleiri orð.
    En ég vildi nefna það sem tók mikið rúm í málflutningi hv. 2. þm. Norðurl. e., sem eru málefni Slippstöðvarinnar á Akureyri, að ég hef líka sett það í hendur þriggja manna að taka sérstaklega á þeim vanda sem er hið óselda skip, hin óselda nýsmíði Slippstöðvarinnar á Akureyri. Það er ... (Gripið fram í.) Það er vel hægt, hv. þm. (Gripið fram í.) Málefni Slippstöðvarinnar verður ekki leyst með erindisbréfi, hv. 2. þm. Norðurl. e. Vandamál hennar verða leyst með því að finna henni aðstöðu til þess að selja sín verk hér innan lands og utan. Það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. kallaði staðlausa stafi varðandi erfiða fjárhagsstöðu Slippstöðvarinnar á Akureyri voru nú einfaldlega staðreyndir málsins. Erfið fjárhagsstaða hennar er ekki síst til komin vegna þess að hún er með skip í smíðum og hefur bundið mjög mikið fé á háum vöxtum í nýsmíðaverkefni án þess að kaupandi sé fundinn eða hafi verið fundinn sem getur komið málinu heilu í höfn.
    Í því sem ég sagði við fréttamann Ríkisútvarpsins og hv. 2. þm. Norðurl. e. var svo greiðvikinn að lesa hér vandlega upp fólst nákvæmlega þetta: Þetta er fjárhagsvandinn en auðvitað er það rétt að vandinn fram á við er verkefnaskorturinn. En það er sama hversu mikið lesið er úr fréttum um þetta mál að Halldóri Blöndal mun vera það vel kunnugt að það voru skiptar skoðanir um það í stjórn fyrirtækisins á sínum tíma hvort í þessa nýsmíði skyldi ráðist á þeim forsendum sem það var afráðið. Og ég kem aftur að því að þótt ég að sjálfsögðu gæfi sem viðskrh. Slippstöðinni á Akureyri heimild til þess að taka erlend lán vegna þessarar framkvæmdar fólst ekki í því nein skoðun á því hvort það væri þessu fyrirtæki hagkvæmt, hvort það gæti selt þetta verk eður ei. Þetta er einfaldlega það sem ég nefndi áðan. Hugsunarhátturinn sem við verðum að varast er að fyrirtækin, jafnvel þau sem ríkið á verulegan hlut í, starfi í þeim anda að ríkið muni bara bjarga þessu eftir á. Það er ómögulegt að skilja orð hv. 2. þm. Norðurl. e. á annan veg en þetta sé hans skoðun. Þess vegna er engin þversögn í því sem kom fram hjá forstjóra Slippstöðvarinnar, Sigurði Ringsted, þar sem hann segir: ,,Aðalvandamálið er ekki hið óselda skip heldur verkefnaskorturinn fram undan.`` En hann gætir þess vandlega að skilja ekki undan að fjárhagsvandi stöðvarinnar stafar ekki síst af þessum óseldu nýsmíðum.
    Ég vildi líka láta það koma fram að í viðtali við Sigurð Ringsted, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. vitnaði hér mjög til áðan, í fréttabréfi Landssambands

iðnaðarmanna sem nýútkomið er, tekur hann skýrt fram að hann telji nú glæðast áhuga og skilning einkum hjá iðnrh. á málefnum skipasmíðaiðnaðarins. Ég nefni þetta nú eingöngu til marks um þann vitnisburð sem hv. 2. þm. Norðurl. e. flutti hér.
    Við þurfum að reyna að finna lausn á þessu vandamáli sem er að viðhalda góðri skipaþjónustu í landinu fyrir okkar fiskiskipaflota án þess að grípa til styrkja eða ríkisforsjár, þótt auðvitað geti komið upp þau dæmi að það sé óhjákvæmilegt að beita tímabundnum stuðningi. Þá held ég að það sé
næsta hæpin ráðstöfun, eins og skilja mátti af málflutningi hv. 2. þm. Norðurl. e. að væri tillaga hans, að takmarka með einum eða öðrum hætti aðgang íslenskra útgerðarmanna, íslenskra útgerða að erlendum skipasmíðastöðvum. Við lifum fyrst og fremst á sjávarútveginum sem á í harðri samkeppni á erlendum
markaði. Við höfum engin efni á því að íþyngja okkar sjávarútvegi með því að skylda hann til þess að notfæra sér eingöngu þjónustu innlendra skipasmíðastöðva. Í skjóli slíkrar verndar rís jafnan upp yfirkostnaður og óhagkvæmni í rekstri. Þetta er ekki leiðin fyrir þjóð sem byggir allt sitt á því að geta selt sínar eigin vörur án hafta inn á markaði annarra þjóða.
    Það var erfitt að skilja þau orð hv. 2. þm. Norðurl. e. að hann vildi mæta með viðeigandi hætti styrkjum erlendra þjóða við sinn skipaiðnað öðruvísi en þannig að hann væri sjálfur að mæla með því að við tækjum hér upp ríkisstyrki.
    Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að það sé vafasamt, svo ekki sé meira sagt, að við tökum upp styrkja- og niðurgreiðslupólitík fyrir innlendan skipaiðnað jafnvel þótt slíkur opinber stuðningur sé stundaður í okkar nágrannalöndum.
    Spurningin sem við þurfum að svara er sú sem óbeint lá í orðum hv. 2. þm. Norðurl. e.: Hvað er að mæta þessu með viðeigandi hætti? Það er ekki víst og það er reyndar næstum því alveg fráleitt að halda því fram að réttu viðbrögðin séu að etja kapp við ríkissjóði nágrannalandanna með því að fara að styrkja okkar skipaviðgerðir. ( HBl: Hvað er frystingin styrkt með mörg hundruð milljónum?) ( Forseti: Ég vil biðja hv. 2. þm. Norðurl. e. að leyfa ræðumanni að ljúka máli sínu.) Ég kem senn að því, hv. 2. þm. Norðurl. e., ef þú hefur biðlund litla stund.
    Styrktar eða verndaðar atvinnugreinar standa ekki undir þeim lífskjörum sem íslenska þjóðin gerir kröfu til. Við skulum heldur ekki gleyma því sem ég nefndi hér áðan að það standa vonir til þess að úr þessum opinbera stuðningi erlendis við skipaiðnaðinn muni draga á næstu árum. Stefnan er reyndar sú að hann hverfi í árslok 1992. En jafnvel þótt það verði ekki, mæla öll rök og skynsemi með því að við eigum að þiggja slíkar niðurgreiðslur meðan þær bjóðast. Svo einfalt er nú það. Reyndar er þetta sú stefna sem nágrannar okkar í Noregi hafa ákveðið að hverfa til. Þetta er sú stefna sem margar aðrar grannþjóðir okkar hafa sagt að sé sú eina sem hyggileg er.

    Undir lok ræðu sinnar kom hv. 2. þm. Norðurl. e. að því sem kannski er kjarni málsins þegar hann fór með nokkur fróm trúarjátningarorð um það að auðvitað væri best að leysa þetta með því að skapa hér almenn rekstrarskilyrði og sem mest frjálsræði í atvinnulífinu. En þrátt fyrir þessar trúarjátningar hvarf hann samt alltaf að ríkisforsjánni og styrkjunum.
    Það er mikilvægt að gæta að því, eins og kom fram í ræðu hæstv. forsrh., að nú er í sjónmáli að okkur hafi tekist á liðnum 12--13 mánuðum að tryggja helstu útflutnings- og samkeppnisgreinum viðunandi starfsskilyrði og afkomu.
    Þetta eru svona stóru línurnar í málinu. En það er líka mjög mikilvægt að huga að því sem hv. 2. þm. Norðurl. e. reyndar líka nefndi, að jafna skattalega stöðu íslenskra atvinnufyrirtækja við það sem gerist í löndunum í kringum okkur, sérstaklega með það fyrir augum sem er nú að verða almenn regla í Evrópulöndunum.
    Það er rétt að á vegum iðnrn. starfar nefnd sem á að vinna að þessu verkefni hvað varðar iðnaðinn. Ég hef reyndar líka kynnt tillögur um það hvernig bæta megi með skattalegum ráðstöfunum stöðu eigin fjár í íslenskum atvinnurekstri. Þetta eru mikilvæg verkefni og það var rétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að minna á þau fyrirheit sem hæstv. forsrh. gaf í bréfi sínu um mánaðamótin apríl/maí til aðilanna á vinnumarkaðinum hvað þetta varðar.
    En þetta er samt, hv. þm., ekki kjarni málsins. Kjarninn lá í hinu, að nú getum við senn lokið þeim óhjákvæmilega aðlögunarkafla sem staðið hefur frá því í fyrrahaust, horfið frá verðbótagreiðslum úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins sem notið hefur ríkisframlags til þess arna, og horfið að því að skapa þeim rekstrarskilyrði með almennum hætti. Það er auðvitað kjarni málsins. Á næsta ári virðist því miður nauðsynlegt að draga enn úr afla til að vernda fiskstofnana, einkum þorskstofninn. Að vísu vegur þar á móti að hugsanlega gæti verðlag á okkar mikilvægustu útflutningsafurðum farið að hækka, það örlar reyndar á slíkum hækkunum, bæði hvað varðar frystan fisk og saltaðan, en þetta er samt þannig. Hvað sem hv. 2. þm. Norðurl. e. kann að segja um málið, þá hefur stjórnin sett upp jöfnu sem gengur upp. En því miður verð ég að horfast í augu við það að á jöfnunni sem hv. 2. þm. Norðurl. e. setti upp í sínu máli finnst engin lausn og ég veit að hann finnur hana ekki sjálfur.
    En nú þurfum við að snúa vörn í sókn og efla útflutningsstarfsemina í landinu, þar á meðal iðnaðarstarfsemina. Stefnan í málefnum sjávarútvegsins, sem er um leið leiðin til að tryggja undirstöðu skipasmíðaiðnaðarins, er að þessi höfuðatvinnuvegur skili hámarksafrakstri. En við þurfum líka að auka fjölbreytni í útflutningi, m.a. með aukinni orkufrekri stóriðju. Til þess að þetta verði þá fer það saman að við þurfum að skrá gengið rétt og það er kannski þarfasta verk þeirrar stjórnar sem nú starfar í landinu að hafa tekist það með sígandi hætti --- og sígandi lukka er best.