Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Ég kýs í þessari umræðu að beina máli mínu að byggðarlögum utan höfuðborgarsvæðisins. Vandamál atvinnulífsins þar eru margþætt og eiga sér djúpar og víðfeðmar rætur sem margir renna ekki augum til þegar ræddur er vandi líðandi stundar. (Gripið fram í.) --- Já, ég ætla að halda áfram máli mínu. Ég sagði að margir renndu ekki augum til þess hve vandi landsbyggðarinnar á sér djúpar og víðfeðmar rætur þegar ræddur er vandi líðandi stundar og þar fléttast saman vandi landbúnaðar, útgerðar og iðnaðarstarfsemi ásamt fólksflóttanum margumtalaða.
    Á síðustu áratugum hefur orðið alvarleg búseturöskun í landinu og sífelldur straumur fólks frá byggðarlögunum til höfuðborgarsvæðisins, misþungur að vísu en óstöðvandi. Þessi þróun hefur um árabil verið áhyggjuefni fólks, bæði vegna byggðarlaga og borgarinnar því að höfuðborgin hefur staðið frammi fyrir vandamálum af þessum sökum þó að með öðrum hætti sé en í dreifbýlinu.
    Margar skoðanir hafa verið uppi um hvernig snúa mætti af þessari leið á þann veg sem hagkvæmast væri, bæði í byggðum og borg. Flestir hygg ég að hafi talið að það væri mál málanna að efla og styðja atvinnulíf á landsbyggðinni og einkum að auka fjölbreytni þess. Það var ljóst fyrir löngu að fjölgun nýrra starfa yrði aðallega í þjónustugreinum. Sömuleiðis var ljóst að í okkar miðstýrða samfélagi mundi þessi atvinnuaukning fyrst og fremst koma fram á höfuðborgarsvæðinu sem óhjákvæmilega hlyti að skapa þar aukna og jafnvel óæskilega þenslu á kostnað byggðanna um landið.
    Ég man ekki hvenær fyrst kom fram slagorðið ,,jafnvægi í byggð landsins``. En a.m.k. 30--40 sl. ár hefur ekki setið ríkisstjórn sem ekki hefur haft í sínum málefnasamningi að efla byggð í landinu og styðja að atvinnuþróun á landsbyggðinni. Þetta eru loforð og þetta eru stór loforð, en hvernig hefur verið staðið við þau? Hvernig halda ríkisstjórnir yfirleitt loforð sín og fyrirheit?
    Árið 1972 var skipuð nefnd til að kanna staðarval ríkisstofnana og hvaða breytingar kæmu helst til greina í því að flytja ríkisstofnanir frá höfuðborginni út um landið. Nefndin skilaði viðamiklu, vönduðu og greinargóðu áliti fyrir rúmum 14 árum þar sem hún lagði til heildarflutning 25 ríkisstofnana, deildaflutning 12 stofnana, stofnun 36 útibúa frá ríkisstofnunum og eflingu 11 útibúa. Einnig lagði hún til að Alþingi kysi sjö manna flutningaráð til að framkvæma þessar tillögur en það ráð var aldrei kosið. Ekkert var gert með álit og tillögur nefndarinnar, en skv. áætlun hennar átti framkvæmd tillagnanna að ljúka á árinu 1982.
    Vorið 1984 var skipuð önnur nefnd, svonefnd byggðanefnd þingflokkanna, í kjölfar afgreiðslu Alþingis á frv. um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins, sem ætlað var að leiða til aukinnar valddreifingar og virkara lýðræðis. Nefndinni var

ætlað að kanna nauðsyn breytinga á stjórnkerfi ríkis og sveitarfélaga, hvers vegna byggðaröskun hefði aukist á síðustu fimm árum og nýjar áherslur í aðgerðum til byggðajöfnunar og hvort þörf væri á stefnubreytingu stjórnvalda í byggðamálum. Þessi nefnd skilaði einnig áliti þar sem segir m.a. að meginforsenda þess að ná fram markmiðinu um aukið lýðræði og aukna valddreifingu sé að setja á stofn stjórnsýslustig milli ríkis og sveitarfélaga. Fleiri ábendingar eru í skýrslu þessarar nefndar, en hvergi sjást síðan merki þess að tillit hafi verið tekið til þeirra.
    Þessar tvær nefndir skiluðu merkilegu og vel unnu starfi sem í öllum greinum miðaði að því að losa um þá helfjötra miðstýringar sem landsmenn búa við og efla atvinnuuppbyggingu og þróun vítt um landið. En hvað er síðan gert með niðurstöður og tillögur? Varla nokkur skapaður hlutur sem talandi er um. Aðeins ein ákvörðun hefur verið tekin um flutning ríkisstofnunar. Útibúum banka hefur að vísu fjölgað og Ríkisútvarpið hefur af veikum mætti verið að reisa landshlutastöðvar. Ekki hafa forráðamenn Húsnæðisstofnunar séð ástæðu til að veita landsmönnum þá sjálfsögðu þjónustu að hafa a.m.k. eitt útibú í hverjum landsfjórðungi. Þannig er um fleiri.
    Þær eru ótaldar nefndirnar sem skipaðar hafa verið til að rannsaka og sinna atvinnu- og byggðamálum. Skýrslurnar eru óteljandi. Pappírsflóðið verður hvorki mælt né vegið né heldur vinnan sem að baki liggur. Því er grátlegt að þess sjái hvergi stað svo að heitið geti að allar þessar skýrslur, allar þessar kannanir, tillögur og vinna séu nýtt í þágu þeirra markmiða sem að var stefnt. Tillögur staðarvalsnefndarinnar stefndu að því að efla búsetu menntaðs og sérhæfðs fólks vítt um landið. Menn sáu fyrir sér aukna grósku í mennta- og menningarlífi í sambandi við það og aukinn fjölda atvinnutækifæra, bæði fyrir heimamenn og fólk sem mundi flytja út á staðina. Það má telja víst að það hefði orðið þjóðinni allri mjög til hagsbóta hefðu tillögur nefndarinnar náð að ganga fram. Auðvitað horfði landsbyggðin til þess að svo yrði og menn litu á þetta sem fyrirheit um aðgerðir sem kæmu landsbyggðinni til góða, en vonir manna brugðust í þessum efnum sem fleirum.
    Margt hefur breyst síðan tillögur þessar um flutning ríkisstofnana komu fram
og sumar þeirra eiga e.t.v. ekki lengur við. En þar sem það er nú svo að ekki færri en tveir hæstv. núverandi ráðherrar áttu sæti í þessari nefnd, og nú sakna ég ráðherra úr salnum, þá vildi ég skora á þá að draga upp nefndarálitið, dusta af því rykið og kanna hvort ekki sé tímabært að koma einhverjum af þessum fornu áhugamálum þeirra til framkvæmda. Þeir lögðu m.a. til að ýmsar af deildum Háskóla Íslands yrðu fluttar út á land. En nú fær nýstofnaður Háskóli Akureyrar þær kveðjur frá hæstv. fjmrh., sem var formaður nefndarinnar, að hann fái ekki fjármagn til að reka sjávarútvegsbrautina sem átti þó að vera meginverkefni hans.

    Því hef ég rakið þessi mál hér á þessum vettvangi að mér virðist að margt væri með öðrum hætti í atvinnumálum landsbyggðarinnar ef stjórnvöld hefðu þorað á hverjum tíma að taka ákvarðanir samkvæmt tillögum þeirra manna sem þau treystu til að móta þær og setja fram, ef þau hefðu þorað að hafa stefnu í atvinnu- og byggðamálum, þorað að axla þá ábyrgð sem fylgir því að hafa stefnu í þeim málum og framfylgja henni í staðinn fyrir að helga lífdaga sína skammtíma- og bráðabirgðalausnum. Atvinnustefna hefur aldrei verið mótuð hér á landi, byggðastefna ekki heldur. Þess geldur landsbyggðin og við gjöldum þess öll. Við okkur blasir í dag stórkostlegur vandi í atvinnumálum. Útgerðin stendur illa, fiskvinnslan verr og gamalgróin fyrirtæki riða til falls. Málmiðnaðurinn er að hrynja og atvinnuleysi er meira en dæmi eru um í áratugi og fjöldauppsagnir eru fram undan ef ekkert er að gert. Og þá hlýtur maður að spyrja: Hver er stefna hæstv. ríkisstjórnar í málefnum iðnaðarins? Í málefnasamningi hennar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Unnið verður að því að endurskoða lög og reglur til að búa íslenskum fyrirtækjum starfsskilyrði sem eru sambærileg við það sem samkeppnisaðilar þeirra njóta.`` Auðvitað er nauðsyn að taka á þessum málum og var nú gott að ráðherrar áttuðu sig á því að starfsskilyrði iðnaðarfyrirtækja væru e.t.v. ekki sem best. Hvernig eiga t.d. íslenskar skipasmíðastöðvar að geta keppt við erlend fyrirtæki sem njóta sannanlegra opinberra styrkja og fyrirgreiðslu þegar þeim hefur árum saman verið gert að búa við rangt skráð gengi og enn við okurvexti? Hæstv. forsrh. ætti að minnast þess sjálfur, sem aðrir hafa ekki gleymt, að það var flokkur hans sem stóð að því, í samvinnu við Sjálfstfl. á árinu 1985, að innleiða vaxtafrelsið á Íslandi. Nú fórnar þessi hæstv. ráðherra höndum yfir háum fjármagnskostnaði fyrirtækja og virðist ekki hafa hugmynd um sína eigin hlutdeild í hvernig komið er og skellir svo bara skuldinni á vonda menn í Seðlabankanum. Þetta má nú kalla að axla ábyrgð. Síðan er hæstv. iðnrh. á harða hlaupum út um öll lönd í leit að einhverjum aðilum sem kynnu að vilja reisa hér álver eins og það mundi nú leysa atvinnuvandann til frambúðar. Meðan þessu fer fram eru gamalgróin iðnfyrirtæki að dragast upp vegna þess að stjórnvöld skortir bæði framsýni og þjóðhollustu til að taka í taumana og búa þeim lífvænleg skilyrði í samkeppni við erlend fyrirtæki, þrátt fyrir fögur orð í málefnasamningnum. Þannig er iðnaðarstefna hæstv. ríkisstjórnar í framkvæmd. Ég vil í þessu sambandi vitna í ályktun 43. iðnþings Íslendinga, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þjóðhagslega þýðingu iðnaðarins má ráða af því að ef hans nyti ekki við þyrfti meira en að tvöfalda verðmæti útflutningsframleiðslunnar til þess að þjóðin gæti haldið þeim lífskjörum sem hún nú býr við. Verður alls ekki séð að tækifæri til þessa liggi á lausu.``
    Þessi tilvitnun sýnir glöggt þýðingu iðnaðarins fyrir okkur sem þjóð og hve mikilvægt er að skilningur ríki

á því af hálfu stjórnvalda hvaða aðstæður þarf að búa honum og framkvæma síðan í samræmi við það.
    Nú á þessum haustdögum glymja daglega í eyrum okkar uggvænlegar fréttir um atvinnumál. Fyrirtæki segja upp starfsfólki vegna ,,hagræðingar í rekstri`` sem þýðir að það kreppir að og þau eru að draga saman seglin. Mörg fyrirtæki, jafnvel heilar atvinnugreinar ramba á barmi gjaldþrots eða eru þegar gjaldþrota. Verkefnaskortur blasir við í ýmsum iðngreinum. Skipasmíðastöðvarnar eru dæmi um það þó að sumar þeirra geti kannski veitt vinnu enn um hríð. Vítt um landið er atvinnuleysi nú þegar umtalsvert og þar eru konur í meiri hluta. Og þá er ekki öll sagan sögð því að mikið dulið atvinnuleysi er meðal kvenna, ekki síst í landbúnaðinum. Tölur sýna að um 40% búa eru svo smá að þau bera aðeins eitt ársverk og hjón reka þó flest búin, þ.e. tveir einstaklingar, og er þá karlmaðurinn oftast talinn fyrir búinu. Þessar konur láta ekki skrá sig atvinnulausar þó þær skorti vinnu og það gera ekki heldur þær konur sem um þessar mundir eru búnar að koma upp börnum sínum og væru tilbúnar að fara út á vinnumarkaðinn en hafa ekki verið þar. Allt ber þetta að sama brunni. Fram undan er fjöldaatvinnuleysi ef ekkert verður að gert. Á þessum haustdögum gerist það líka að hæstv. ríkisstjórn boðar verulega kaupmáttarrýrnun á næsta ári. Atvinnuleysistryggingasjóður er tómur um áramót og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra hvað þeir haldi að það fé endist lengi sem honum er ætlað á næsta ári ef þúsundir manna verða að treysta á hann til framfærslu fljótlega eftir áramót.
    Ég hef nú rætt nokkuð um málefni landsbyggðarinnar, en ég hef alveg sleppt
þeim kapítula hvernig fé hefur verið tekið úr atvinnulífinu þar og flutt á brott. Það ætla ég ekki að ræða að þessu sinni en ég minni á það. Varðandi atvinnumál dreifbýlisins vil ég aftur á móti minna á að það skiptir meira máli en margur gerir sér ljóst að þar hafi konur atvinnu við sitt hæfi. Ef menn ætla að halda sveitum landsins í byggð yfirleitt, þá verða þeir að byggja þar upp atvinnu fyrir konur.
    Ríkisstjórnin hefur nú skipað tvær nefndir til að skoða uppbyggingu atvinnumála og fjalla um framtíðarstefnumótun. Þetta gerðist núna í haust og stefnan hefur þess vegna ekki verið til þó að við heyrum sagt annað. Steinrunnið hugarfar karlveldisins lýsir sér með ágætum í þessari nefndarskipan. Í 12 manna nefndinni eru einungis karlmenn, en við skipun hugarflugsnefndarinnar svokölluðu höfðu menn þó hugarflug til þess seint og um síðir að nefna til eina konu í 5 manna nefnd. En því hefur verið lýst hér áður að uppbyggingarþörf er jafnvel enn meiri varðandi atvinnumál kvenna. Konur eru ríflega helmingur þjóðarinnar. Hvernig er þeim mönnum varið sem dettur ekki í hug að taka tillit til þessa þegar skipaðir eru starfshópar og nefndir sem eiga að fjalla um atvinnumál og mótun stefnu? Dettur þeim ekki í hug að konur eigi rétt á að koma nærri þeim málum og hugkvæmist þeim ekki að konur hafi þar eitthvað

til mála að leggja? Ég er ekki með þessu að kasta rýrð á þá karlmenn sem þarna hafa verið tilkvaddir, en ég ber engan efa um að starf þessara nefnda yrði frjórra og skilaði betri árangri ef konur kæmu þar við sögu. Þeim mundu áreiðanlega detta í hug árennilegri atvinnukostir heldur en álver.
    Virðulegi forseti. Við höfum heyrt hv. 2. þm. Norðurl. e. gera greinargott yfirlit yfir atvinnuástandið í landinu núna á þessum dögum og myndin er ekki björt. Atvinnuleysi brennur á fjölskyldum og heimilum þessa lands og spurningarnar brenna á allra vörum. Hvernig stendur á þessu? Hvað ætla stjórnvöld að gera? Ég held að orsök ástandsins sé sú að hæstv. ríkisstjórn ræður ekki við verkefni sín og hefur ekki haft neina stefnu í atvinnumálunum eins og kom fram í því að það þurfti að skipa nefndir til að finna þessa stefnu. Það er ekki nóg að hafa uppi fögur orð í stjórnarsáttmálum um að efla og styðja íslenskt atvinnulíf. Það er ekki heldur nóg að prentaður sé þar hástemmdur texti um mikilvægi þess að efla byggðir um landið ef ekkert er gert til að standa við fyrirheitið. Það er ekki nóg að skipa nefnd á nefnd ofan til að skoða atvinnulífið, sérstaklega ekki ef með tillögur þeirra er farið eins og þær sem ég nefndi fyrr.
    Hæstv. ríkisstjórn þarf að hafa hugfast að tölur um atvinnuleysi eru ekki bara einhverjar tölur á pappír. Á bak við hverja eina einingu í þessum tölum er fjölskylda, kona og börn. Á atvinnuleysistölur verður að líta með þessu hugarfari og minnast þess að þetta fólk ber í brjósti kvíða um framtíð sína. Það fólk sem nú er ýmist atvinnulaust eða horfir fram á atvinnuskort á rétt á að fá skýlaus svör frá hæstv. ríkisstjórn um hvers það megi vænta. Og þau fyrirtæki sem nú eru að falli komin eiga einnig rétt á svörum um það hvort þau megi vænta einhverra þeirra aðgerða sem muni rétta stöðu þeirra. Þau svör hafa ekki heyrst enn í þessari umræðu.