Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir það að hafa tekið þetta mál upp utan dagskrár. Ástæðan fyrir því var auðvitað sú að það var kominn tími til þess að við ræddum hér í almennri umræðu um atvinnumálin. Ég minni á að hæstv. forsrh. og þó einkum hæstv. fjmrh. höfðu báðir vakið athygli á því að stjórnarandstaðan hefði ekki enn efnt til almennrar umræðu um efnahagsmál, en nú gefst tækifæri til þess. Því miður hagaði því þannig til þegar við héldum fram fundi hér í kvöld að enginn hæstv. ráðherra var viðstaddur og þess vegna varð að fresta fundinum um nokkrar mínútur. Nú hefur hæstv. forsrh. komið hér í salinn og er ég honum þakklátur fyrir það að hann skuli gefa sér tíma til þess að hlýða a.m.k. á hluta þessara umræðna hér í kvöld um þessi mikilvægu mál, en ég hlýt að lýsa yfir söknuði mínum og vonbrigðum með að ekki skuli aðrir hæstv. ráðherrar og þó einkum og sér í lagi þeir sem skiptu sér af umræðunni í dag koma hér til leiks í kvöld þótt ég viti reyndar hvers vegna hæstv. iðnrh. er forfallaður.
    Til þess að ljúka þeim þætti sem ég fyrst og fremst á erindi við hæstv. forsrh., þótt auðvitað sé það öll ræðan, kemst ég ekki hjá því hér í upphafi að ræða örlítið um það sem hann fjallaði um í ræðu sinni hér fyrr við umræðuna í dag þegar hann sagði frá því að það hefði verið fastgengisstefnan sem hefði verið öðrum greinum en sjávarútveginum erfið vegna þess að sjávarútvegurinn þoldi hækkun á raungenginu vegna hækkunar á afurðum erlendis, allt að 15% á árunum 1986 og 1987. Ég tek undir með hæstv. ráðherra þegar hann segir að þetta gátu aðrar samkeppnisgreinar ekki gert, þar á meðal iðnaðurinn, ekki síst skipaiðnaðurinn en um hann hefur talsvert verið fjallað í þessari umræðu. Vitanlega er rétt hjá hæstv. forsrh. að það hlýtur að vera ákaflega erfitt fyrir þær greinar, sem nutu ekki beinlínis góðs af verðhækkunum á fiskafurðum erlendis, að þurfa að búa við hækkun raungengis en geta ekki sótt hærra verð til útvegsins vegna þess að þær --- ekki síst skipaiðnaðurinn er að verulegum hluta rekinn í samkeppni við erlendan skipaiðnað.
    En málið er ekki alveg svona einfalt. Ef við skoðum það sem gerðist á þessum árum allt frá 1986 má segja að skipaiðnaðurinn hafi notið þess í talsverðum mæli að góðæri var í sjávarútvegi. Það góðæri gerði það að verkum að ýmsir skipaeigendur létu gera við skipin í meira mæli en áður, létu endurnýja þau og jafnvel byggja ný skip þegar vel gekk. Auðvitað naut skipaiðnaðurinn þess, svo sem kemur fram í öllum upplýsingum, en samkvæmt þeim naut íslenski skipaiðnaðurinn þess verulega. Það var ekki um samdrátt að ræða í greininni fyrr en á yfirstandandi ári og í lok síðasta árs. Ástæðan er sú að umfangið í þessum iðnaði var svipað og árin á undan, en hins vegar var markaðshlutdeild hans, þegar allt er talið með, miklu minni en áður. Á því verðum við að gera skýran greinarmun. Það gerist hins vegar

þegar slær í bakseglin í sjávarútveginum að minna verður um verkefni og þá auðvitað kemur í ljós hve illa þessi skipaiðnaður stendur.
    Nú kem ég að því sem ég vildi gjarnan að hæstv. forsrh. hlustaði á og íhugaði vandlega. Hæstv. forsrh. segir að það hafi verið fastgenginu að kenna hvernig samkeppnisgreinarnar á sínum tíma voru leiknar. Það má út af fyrir sig færa rök fyrir því. Það hefði hins vegar kannski mátt réttlæta fastgengisstefnuna ef og þegar sló í bakseglin hjá sjávarútveginum, hefði vandanum verið mætt með viðeigandi hætti, þ.e. með gengisfellingum strax þannig að raungengið hefði breyst iðnaðinum verulega í vil. Ég minni á að á þeim tíma sem sjávarútvegurinn naut góðærisins var ekkert gert að ráði til þess að koma til móts við íslenskan iðnað, hvorki samkeppnisiðnað né heimaiðnaðinn. En um leið og sló í bakseglin í sjávarútvegi var gripið til þess ráðs að falsa gengi íslensku krónunnar. Ég segi beinlínis að falsa gengi íslensku krónunnar. Það var gert með fyrst og fremst þrennum hætti: Í fyrsta lagi með því að greiða verulega fjármuni inn í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og borga uppbætur með útfluttum fiski. Í öðru lagi með endurgreiddum söluskatti umfram það sem hægt er að sýna fram á að hefði safnast upp í sjávarútveginum. Og í þriðja lagi með því að greiða 100 millj. kr. úr ríkissjóði í niðurgreiðslur á rafmagni til sjávarútvegsins fyrst og fremst. En allar þessar aðgerðir gerðu það að verkum að gengi íslensku krónunnar var falskt og mældist ekki rétt gagnvart öðrum greinum.
    Þetta er vitanlega það alvarlega sem þessi hæstv. ríkisstjórn sem nú situr að völdum hefur gert á þessum tíma því að þetta leiddi til þess að íslenski iðnaðurinn, samkeppnisiðnaðurinn gat ekki snúið vörn í sókn á þeim tíma þegar slær í bakseglin hjá sjávarútveginum. Og þetta verður auðvitað hæstv. forsrh. að taka með í reikninginn. Hann getur ekki vikist undan því fyrir sína hönd og ríkisstjórnarinnar að þessi aðgerð þýddi auðvitað, þegar fram í sótti, dauðadóm fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað. Og þegar ég segi skipasmíðaiðnað þá á ég við þann þátt skipaiðnaðarins þar sem um er að ræða nýsmíði eða verulega endurnýjun eða nýsmíði að hluta. Það er einmitt vegna þessa atriðis sem hæstv. ríkisstjórn getur ekki hlaupist undan því að viðurkenna að hún á sjálf
beinlínis þátt í þeim vanda sem nú er uppi í íslenskum skipaiðnaði. Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að hæstv. forsrh. hlustaði á því að þetta er mjög mikilvægt atriði, ekki eingöngu fyrir skipaiðnaðinn heldur og fyrir aðra þætti íslensku iðnaðarstarfseminnar sem verður að keppa við erlendan iðnað.
    Vík ég nú að öðrum atriðum sem ekki snerta hæstv. forsrh. heldur fremur aðra hæstv. ráðherra sem því miður eru ekki hér staddir. Ég sé reyndar að hæstv. heilbrrh. hefur gengið í salinn og má kannski segja að það sé vel við hæfi því ekki veitir af því að hafa einhvern sem hefur áhuga á því að það sé meira og betra heilbrigði í þessari grein. En ekki vissi ég að starfsskipting hæstv. ráðherra væri með þeim hætti að

þeir sæju helst ástæðu til að senda hæstv. heilbrrh. til að hlusta á þessar umræður, en hæstv. iðnrh. og hæstv. hagstofuráðherra láta hvergi sjá sig. ( Heilbrrh.: Hann var ekki sendur. Hann kom bara hér eins og vera ber.) Nú, meira að segja hefur hæstv. heilbrrh. eins og góðum lækni sæmir komið sjálfkallaður þegar hann vissi að þessi iðnaður var í hættu og er ég honum þakklátur fyrir það að hafa fundið þetta upp hjá sjálfum sér. --- Og bætist nú einn garpur við í salinn, hæstv. fjmrh. Býð ég hann velkominn hér með. ( Fjmrh.: Þakka þér fyrir.) Kem ég þá að þætti hans í málinu.
    Hæstv. fjmrh. lét þess getið þegar hann ræddi um skipaiðnaðinn hér í síðustu viku að allt vandamálið væri arfur frá síðustu ríkisstjórn. ( Fjmrh.: Nei, það sagði ég ekki. Það er rangt með farið.) Ég kem nú að því að hann leiðrétti sig í síðari ræðunni. Ég skal taka það fram strax til þess að hæstv. ráðherra sé nú rólegur undir ræðu minni að í síðari ræðu sinni gat hann þess að raunar hefði síðasti iðnrh. Sjálfstfl., þ.e. sá sem hér stendur, gert eitthvað í málinu, en þá fyrst er hann komst að sem ráðherra og þakka ég honum auðvitað góð orð í minn garð. Sannleikurinn er sá, eins og ég hef þegar rætt og rætt við hæstv. forsrh., að hæstv. núv. ríkisstjórn ber á þessum málum miklu meiri ábyrgð en hún sjálf vill vera láta.
    Mig langar til þess, virðulegur forseti, að rifja upp nokkur atriði sem ég held að hafi þýðingu fyrir skipaiðnaðinn sérstaklega og varðar það sem hefur verið gert fyrir þennan iðnað á síðustu árum.
    Í fyrsta lagi vil ég geta þess að í síðustu ríkisstjórn, þeirri ríkisstjórn sem hæstv. fjmrh. ræddi um á sínum tíma, urðu talsverðar umræður um málefni skipaiðnaðarins, einkum og sér í lagi það að erlendar ríkisstjórnir styrkja þennan iðnað í sínum heimalöndum sem gerir það að verkum að íslenskur skipasmíðaiðnaður er ekki samkeppnisfær.
    Hæstv. iðnrh. sagði í sinni ræðu hér í dag að í raun gætum við ekki keppt við niðurgreiddan iðnað og það var helst á honum að skilja ef hann ekki beinlínis sagði það að við ættum auðvitað að njóta þess að erlendir aðilar styrktu sinn iðnað og við nytum þess vegna beinlínis ríkisstyrkja frá öðrum löndum. (Gripið fram í.) Við ættum að þiggja ríkisstyrk frá öðrum löndum. Nú spyr ég hæstv. fjmrh. eða hæstv. heilbrrh., því hæstv. forsrh. er farinn og hæstv. iðnrh. er eitthvað annað að gera úti í bæ, hvort þeir séu sammála því að þetta sama eigi að gilda í öðrum greinum og vil ég þá sérstaklega nefna landbúnaðinn. Eru hæstv. ráðherrar þeirrar skoðunar af því að landbúnaður er niðurgreiddur annars staðar en hér á landi og talsvert miklu meira sums staðar þannig að vöruverð í landbúnaði er lægra erlendis en hérlendis að við Íslendingar eigum að njóta þeirra ríkisstyrkja og flytja landbúnaðarafurðir þess vegna inn í landið? Mér finnst vera full ástæða til að spyrja þessarar spurningar vegna þess að sama lögmálið hlýtur að gilda. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherrar sem hafa séð sóma sinn í því að mæta hér í kvöld hugleiði þetta og ef ríkisstjórnin hæstv. hefur einhverja

skoðun á þessu máli að þá komi þeir hér í pontu og geri okkur grein fyrir því. ( EG: Hver er skoðun Sjálfstfl. á þessu?) Skoðun Sjálfstfl. hefur birst á landsfundi flokksins. Þar kom fram að Sjálfstfl. er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að flytja inn erlend matvæli sem hér eru framleidd. Það eigi fyrst og fremst að leita leiða til þess að lækka vöruverð hérna heima. En svo kann að fara einhvern tíma í framtíðinni, ef ekki tekst að ná niður verði á vörunni, að Sjálfstfl. endurskoði þá stefnu sína. En það er alveg skýr niðurstaða landsfundarins að Sjálfstfl. telur ekki efni til þess nú um stundir og á meðan verið er að endurskipuleggja landbúnaðinn að flytja inn meira af landbúnaðarafurðum en nú þegar er gert.
    En þá kem ég að einum kjarna málsins --- það eru nú margir kjarnar í þessu máli --- en hann er sá að þegar við fjöllum um landbúnaðarafurðir þá hafa auðvitað verið fluttar inn landbúnaðarafurðir, þar á meðal kjarnfóður og kartöflur, svo ég nefni nú tvo flokka sem menn þekkja mjög gjarna. Og hvernig hefur hæstv. ríkisstjórn brugðist við og Alþingi? Það hefur auðvitað brugðist við með þeim hætti að leggja tolla og gjöld á þennan innflutning. Nú er það svo að í íslenskum tollalögum eru til heimildir til þess að leggja tolla á innfluttan varning þegar ljóst er að slíkur varningur er framleiddur með niðurgreiðslum eða styrkjum erlendis, þ.e. svokallaðir undirboðstollar. Sú heimild hefur hins vegar ekki verið notuð í þessum iðnaði. Það er ástæða til
að spyrja að því, og hæstv. iðnrh. sérstaklega sem nú hefur gengið í salinn, hvort hann telji ekki að það hefði mátt leita leiða til að nýta sér þessi lagaákvæði í íslenskum lögum sem leyfa íslenskum stjórnvöldum að leggja á tolla þegar ljóst er að um viðurkennda ríkisstyrki er að ræða til framleiðslu vöru sem flutt er hingað til landsins.
    Mér þykir leitt, virðulegur forseti, að ég endurtek þá spurningu sem ég kom hér með áðan til annarra ráðherra, en ef hæstv. iðnrh. tekur til máls langar mig til að spyrja hann að því hvort hann telji, og ekki einungis hann, hvort hann sé tilbúinn til þess í nafni ríkisstjórnarinnar að segja hér að þar sem landbúnaðarvörur eru niðurgreiddar erlendis og ljóst að Íslendingar gætu notið þessara ríkisstyrkja þar, hvort ekki sé þá full ástæða til að hefja innflutning landbúnaðarvara til þess að klófesta þá ríkisstyrki sem til þeirrar framleiðslu gengur.
    Er það skoðun ríkisstjórnarinnar --- ég þarf ekki að spyrja um einkaskoðun ... ( Viðskrh.: Hver er skoðun þingmannsins?) Ég er búinn að lýsa henni. Hefði hæstv. ráðherra komið hér fyrr í salinn þá hefði hann hlustað á mig svara þeirri fyrirspurn frá flokksbróður sínum, hv. formanni þingflokks Alþfl., sem hefur þegar lagt þessa spurningu fram og fengið mjög góð og skýr svör frá þeim sem hér talar. En ég spyr hæstv. ráðherra að því: Fyrst þetta er skoðun ríkisstjórnarinnar að við eigum að njóta ríkisstyrkjanna í skipasmíðaiðnaðinum, er það þá líka skoðun ríkisstjórnarinnar --- ég er ekki að spyrja um einkaskoðun ráðherrans, ég veit hver hún er --- en er

það þá líka skoðun ríkisstjórnarinnar að við eigum að njóta þessara ríkisstyrkja sem ganga til landbúnaðarins?
    Þetta er auðvitað talsvert mál því að á sama hátt og útvegurinn er neytandi skipasmíðaiðnaðarins vilja auðvitað almennir neytendur sem þurfa að borða, og það veit hæstv. ráðherra hvað er, að borða, njóta ríkisstyrkja annarra landa til þess að hafa hér ódýrari matvæli á boðstólum. Ég spurði ekki um einkaskoðun ráðherrans, ég spurði um það hvort þetta væri skoðun hæstv. ríkisstjórnar en hæstv. ráðherra er auðvitað málsvari hennar og talsmaður.
    Mig langar í örstuttu máli, virðulegur forseti, til þess að fara hér yfir örfá atriði sem snerta önnur þau atriði sem ég hef haft afskipti af varðandi þá grein sem mest hefur verið rætt um, í sambandi við skipaiðnaðinn.
    Í fyrsta lagi vil ég minnast á það að þegar ég gegndi starfi iðnrh. þá skrifaði ég bréf til sjútvrn. og viðskrn. vegna útboða hérlendis áður en íslenskir bankar og sjóðir með sjálfvirkum hætti veittu ábyrgð eða lánuðu til skipaiðnaðarverkefna erlendis.
    Ég tek það fram að það kom ekki svar frá sjútvrn. Hins vegar svaraði viðskrn. þessu bréfi og lýsti því yfir að afskipti ráðuneytisins væru nú hverfandi lítil eftir að auglýsing hefði verið gefin út 25. maí 1987 sem ég ætla nú ekkert að vera að rekja hér, það er talsvert langt mál. En síðan segir í lok þessa bréfs:
    ,,Í mörg ár reyndi viðskrn. að fylgja þeirri reglu að veita ekki heimild til erlendrar lántöku nema áður hefði verið athugað hvort hægt væri að láta slíka viðgerð fara fram hérlendis. Þetta aðhald hefur eflaust komið að einhverju gagni fyrir skipasmíðastöðvarnar enda þótt útgerðarfélög hafi ekki alltaf virt þessa reglu.``
    Síðan segir orðrétt: ,,Væntanlega gæti Fiskveiðasjóður veitt innlendu skipasmíðastöðvunum sams konar aðstoð með því að verða við tilmælum þeirra um að veita ekki lán til endurbóta eða meiri háttar viðgerða á skipum erlendis nema verkið hafi áður verið boðið út innan lands.``
    Með öðrum orðum: Hæstv. viðskrh., sem á þessum tíma var hæstv. ráðherra Jón Sigurðsson, lýsti þessari skoðun sinni í þessu bréfi, sem reyndar er undirritað af Þórhalli Ásgeirssyni fyrir hans hönd, og þetta er það viðhorf sem hæstv. ráðherra hefur haft í þessum málum að ég tel og vík ég að því síðar, eins og siður er nú að segja í þessari umræðu.
    Í öðru lagi hafði ráðuneytið á sínum tíma afskipti af breytingum á mælingareglum, send voru bréf til sjútvrn. og samgrn. sem ég ætla ekki að rekja.
    Í þriðja lagi var spurt um hugsanlegar ívilnanir vegna erfiðleika að framfylgja undirboðstollaákvæðinu, en mér er auðvitað ljóst eins og hæstv. ráðherra að erfiðleikarnir þar að lútandi eru fyrst og fremst vegna þjónustunnar. Það er mjög erfitt að fylgjast með því hvort þjónusta er niðurgreidd erlendis eða ekki þótt það sé tiltölulega auðvelt þegar um nýsmíði er að ræða. Ég ætla heldur ekki að ræða það mál sérstaklega nema um það sé beðið og eftir því leitað.

Ég er aðallega að víkja máli mínu til hæstv. fjmrh. til þess að benda á að auðvitað hafði síðasta ríkisstjórn afskipti af þessum málum.
    Ég minni enn fremur á það að í tíð þeirrar ríkisstjórnar var leitað eftir því að Byggðasjóður fengi 200 millj. kr. til þess að geta bætt við þegar um skipaverkefni væri að ræða. Ég veit að hæstv. viðskrh. man eftir því og man eftir hver hans skoðun var á þessu máli, en hann taldi eðlilegra að sú
fyrirgreiðsla og önnur fyrirgreiðsla við skipaiðnaðinn færi í gegnum viðskrn. en ekki í gegnum Byggðastofnun og held ég að ég fari rétt með það mál. ( Viðskrh.: Í gegnum viðskiptabankana.) Í gegnum viðskiptabankana og viðskrn. Ég endurtek: og viðskrn.
    Þá vil ég minna á að það skip sem hér hefur verið rætt talsvert um og sú skipasmíð var auðvitað tilkomin vegna afskipta þáv. ríkisstjórnar og skal ég axla ábyrgð á þeirri ákvörðun eins og aðrir þeir sem þá ábyrgð bera.
    En loks --- og það er kannski stóra málið í þessu og ég fagna því nú að hæstv. sjútvrh. gengur í salinn, af því að ég tel að þar hafi verið brotið blað í þróun þessara mála --- það er þetta: Það var í tíð fyrrv. ríkisstjórnar sem ákveðið var að iðnrn. og Landssamband iðnaðarmanna fengju með tilstyrk Byggðastofnunar, Fiskveiðasjóðs, Iðnþróunarsjóðs og Iðnlánasjóðs fyrirtækið AP Appledore til þess að gera úttekt á íslenskum skipaiðnaði.
    Það var út af fyrir sig ekkert nýtt við það að gerð væri úttekt á skipaiðnaðinum. Það var margoft búið að gera það áður. Það sem var hins vegar nýtt, og ég vil að það komi hér skýrt fram því ég held að það sé ástæða til þess að menn átti sig á þróun mála, var að hæstv. sjútvrh. féllst á það að beita sér fyrir því að annars vegar Fiskveiðasjóður og hins vegar Landssamband útvegsmanna tæki þátt í þessu verkefni. Ég er honum þakklátur fyrir það og ég sé ekki ástæðu til annars heldur en að það komi skýrt fram hér við þessar umræður að í þessu máli tók hæstv. sjútvrh. vel í þessa málaleitan og þar með var brotið blað vegna þess að áður hafði iðnrn. eitt verið að paufast í þessum málum en allir vita að Fiskveiðasjóður heyrir undir sjútvrn. og tollamál og lánamál undir annaðhvort viðskrn. eða fjmrn. Þetta má hæstv. ráðherra eiga þó að í flestum öðrum greinum þegar ég leitaði til hans um þessi mál hafi hann verið staður eins og gamalt hross. Þá má hann þó eiga það að í þessu máli gekk hann fram fyrir skjöldu og féllst á það að vinna að þessu máli sem auðvitað var það eina vitræna. Það var að ná samstöðu milli þessara ráðuneyta þannig að hægt væri að vinna þær tillögur sem fleiri tækju mark á en þeir sem eingöngu væru í iðnaðinum því auðvitað snertir þetta mál útvegsmenn og útgerð í mjög stórum stíl. Ég vil að þetta komi skýrt fram, ekki síst vegna þess að hæstv. ráðherra hefur af samráðherrum sínum verið sakaður um það að vera það afl í ríkisstjórninni sem vilji íslenskan skipaiðnað dauðan. Hann vill hann ekki alveg dauðan, það er rangt, þó hann vilji kannski ekki mikið fyrir hann

gera.
    Þá kem ég að nýjasta þætti þessa máls sem er talsvert nýrri en sá sem ég hef nú verið að rekja. Sl. sumar, nánar tiltekið 6. júlí í sumar skrifaði ég hæstv. iðnrh. bréf. Þá hafði ég heyrt það sem menn hafa verið að ræða hér á undanförnum vikum að í raun og veru væri samkeppnin ekki eðlileg á milli annars vegar íslensku fyrirtækjanna og hins vegar þeirra erlendu sem hafa umboðsmenn hér á landi. Og þá er fyrst og fremst átt við þann iðnað sem er í tengslum við skipasmíðar en ekki skipasmíðarnar sjálfar. Af því tilefni skrifaði ég hæstv. ráðherra bréf, sagðist hafa frétt af því að þál. sú sem samþykkt var á sl. vori, en flm. hennar var hv. þm. Stefán Guðmundsson, hefði verið send frá forsrn. til iðnrn. og verið væri að vinna að málinu þar, og spurði í lok bréfsins til hæstv. iðnrh., og ég held að það sé full ástæða til að þetta komi hér fram, hvernig iðnrn. hygðist taka á vandamálum skipaiðnaðarins með tilliti til þál. og fyrirliggjandi skýrslu, en ljóst er að mörg fyrirtæki bundu miklar vonir við aðgerðir í framhaldi af samþykkt Alþingis.
    Í bréfi iðnrn., sem dags. er 14. júlí, kemur fram að forsrn. hafði ekki enn þá sent þál. til iðnrn. og það er ekki fyrr en þann dag sem iðnrn. hefur samband við forsrn. til þess að fá þál. hv. þm. Stefáns Guðmundssonar til þess að geta síðan kynnt sér efni hennar, sem hæstv. ráðherra auðvitað þekkti, og unnið að framgangi málsins eins og hv. Alþingi hafði samþykkt. Þetta kemur skýrt fram í bréfi dags. 14. júlí frá iðnrn. sem stílað er til þess sem hér stendur. Í þessu bréfi segir orðrétt, og þar er verið að lýsa skoðunum hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:
    ,,Í umræðum um tillöguna á Alþingi lýsti iðnrh. því yfir að hann teldi ekki rétt að útvegsmenn séu skyldaðir fortakslaust til að bjóða út verk sem þeir þurfa að láta vinna. Slíkt gæti bæði verið kostnaðarsamt og tímafrekt og útvegsmenn hjóti á hverjum tíma að sjálfsögðu að leitast við að velja smíða- og viðgerðaraðila sem veitir þeim bestu og ódýrustu þjónustu.``
    Síðar í þessu bréfi segir: ,,Iðnrh. hefur lýst því yfir að hann muni beita sér fyrir því að jafn aðgangur verði að fjármagni hvort sem verkefnið er unnið hér á landi eða erlendis.`` Og þetta er undirstöðuatriði.
    Síðan er vitnað til umræðunnar á Alþingi og segir orðrétt í bréfinu og er verið að vitna í ræðu hæstv. ráðherra: ,,Ráðherra taldi hins vegar ekki eðlilegt að krafa um bankaábyrgð væri almenn regla þegar skipasmíðastöðvarnar vinna verk fyrir innlenda aðila sem þær þekkja.`` Þetta er orðrétt úr bréfinu.
    Hérna kem ég að atriði sem skiptir afar miklu máli. Ef erlendur aðili býður í verk, þá fást bankaábyrgðir. Erlendi aðilinn ber enga áhættu. Ef innlendur aðili fær verk, þá segir hæstv. ráðherra: Ef það er nægilegt traust á
fyrirtækinu, þá er óþarfi að hafa bankaábyrgð. Nú hefur það gerst, og er til dæmi um það t.d. í Vesturlandskjördæmi svo að ég taki nú bara eitt dæmi sem ég man eftir, að fyrirtæki var vel stætt og lét

gera verulegar endurbætur á sínu skipi. Skipið fór á vertíð til Snæfellsness og vertíðin var sú lélegasta sem þar hafði verið um áraraðir. Mjög illa gekk að fá greiðslurnar og
þær hafa ekki enn komið allar til þess aðila sem annaðist þetta verkefni. Og ég spyr: Haldið þið að það hafi ekki lent á íslenskum skipaiðnaðarfyrirtækjum það sem hefur verið að gerast og er að gerast á Súgandafirði eða á Patreksfirði? Auðvitað bitnar það á þessum fyrirtækjum. En hvað gerðist þegar Portúgalarnir sendu hingað heim reikning upp á 30% hækkun? Þá gekk allt sjálfvirkt fyrir sig.
    Það eru svona atriði --- það eru nákvæmlega svona atriði sem menn eru að tala um í þessari grein þegar þeir eru að lýsa óánægju sinni. Það er að það er ekki sama meðhöndlunin eftir því hvort fyrirtækið sem annast verkefnið er hér á landi eða erlendis. Og það sem alvarlegast er er að hæstv. ráðherra finnst ekki að það eigi að vera sömu reglur. Hann hreinlega segir að það þurfi út af fyrir sig ekkert að vera sömu reglur af því að aðilar hér innan lands þekkist sín á milli. En auðvitað vita allir, a.m.k. allir sem hafa einhvern tíma séð sjó og séð fisk að það er svipull sjávaraflinn. Síðan segir orðrétt í þessu bréfi:
    ,,Þá skal þess getið að iðnrh. hefur gert þá tillögu í ríkisstjórn að iðnrn. fái fulltrúa í stjórn Fiskveiðasjóðs. Með setu fulltrúa ráðuneytisins í stjórn sjóðsins drægi væntanlega úr tortryggni ýmissa aðila skipaiðnaðarins sem stundum hefur sýnt sig við lánveitingar Fiskveiðasjóðs til meiri háttar skipaviðgerða erlendis.`` Og hér staldra ég við.
    Hér er komið að öðru lykilatriði. Það er það að Fiskveiðasjóður er aðallánasjóður íslenska skipaiðnaðarins. Hann heyrir undir sjútvrn. Í stjórn þess sjóðs eru fulltrúar bankakerfisins, eru fulltrúar sjútvrn., eru fulltrúar fiskvinnslunnar og það eru fulltrúar útgerðarinnar og fulltrúar sjómanna. Nú upplýsist hér að enn á ný hefur hæstv. iðnrh. óskað eftir því í ríkisstjórninni að fulltrúi úr iðnaðinum fái setu í stjórn þessa sjóðs. Það verður ugglaust ekki gert nema með lagabreytingu. Ég spyr: Hver var niðurstaðan í hæstv. ríkisstjórn? Var niðurstaðan sú að tillaga hæstv. iðnrh. var samþykkt? Eða var niðurstaðan sú að henni var hafnað? Þetta verða menn auðvitað að fá að vita því að 14. júlí í sumar lýsir hæstv. iðnrh. því yfir að hann hafi farið þess á leit við ríkisstjórnina að hann eða fulltrúi iðnaðarins hafi aðgang að stjórn sjóðsins sem auðvitað er ákaflega mikilvægt, mikilvægt vegna þess að þar kæmi þá inn aðili sem hefði hagsmuni skipaiðnaðarins í fyrirrúmi og gæti gengið eftir því hvort búið væri að bjóða út verkefni hér á landi áður en þau flytjast úr landi.
    Þá segir í bréfinu og ég les enn orðrétt, enda hefur þessu bréfi ekki verið haldið sérstaklega á lofti af minni hálfu eða úr því verið birt á opinberum vettvangi. Orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Viðskrn. hefur skrifað bönkum og sparisjóðum með vísun í þál. og nál. atvmn. Alþingis um að skilyrða fjármagnsfyrirgreiðslu við það að innlendum aðilum verði veitt færi á að keppa um verkefni á

jafnréttisgrundvelli.``
    Hér staldra ég enn við og spyr hæstv. ráðherra: Hefur eitthvað breyst? Hæstv. forsrh. kom hér í ræðustól í dag og sagði að þessi samþykkt hefði verið gerð 1986. Hann vissi að vísu ekki hvort þetta hefði gengið eitthvað eftir. Og nú spyr ég: Hefur eitthvað gerst eftir að hæstv. viðskrh. skrifaði bönkum og sparisjóðum bréf, sem ég er reyndar með, og bréf það sem er vitnað til var skrifað 14. júlí, sama daginn og þetta bréf til mín er dagsett. En aðalspurningin er auðvitað sú: Hefur eitthvað nýtt gerst? Hefur eitthvað breyst? Hafi eitthvað breyst, þá ber auðvitað að fagna því. Ef það hefur ekki breyst, þá verður auðvitað að spyrja hæstv. ráðherra að því: Var þessi ráðstöfun gagnslaus og til hvaða ráðstafana ætlar þá hæstv. ráðherra að grípa til að tryggja það að hans skoðun nái fram að ganga? Þá held ég hér áfram lestrinum, með leyfi forseta:
    ,,Þá mun ráðherra skipa nefnd frá aðilum skipasmíðaiðnaðarins til þess að fylgja eftir tillögum þeim og ábendingum sem fram komu í Appledore-skýrslunni. Að lokum vill ráðuneytið vekja athygli á að gert er ráð fyrir að ráðuneytið leggi fyllri skýrslu um þessi mál fyrir Alþingi á haustþingi eins og óskað er eftir í nefndaráliti atvinnumálanefndar.``
    Hér lýkur þessum lestri og hæstv. ráðherra hefur reyndar í sinni ræðu í dag gert þingheimi grein fyrir því að þetta muni verða gert og ég fagna því að sjálfsögðu.
    Ég hef nú nokkuð rætt, virðulegur forseti, um bréfaskipti sem hafa farið á milli mín og ráðuneytisins á sl. sumri af gefnu tilefni, því tilefni sem varð til þess að þessi mál voru tekin upp í síðustu viku af hv. 5. þm. Norðurl. e. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni --- og býð ég hæstv. hagstofuráðherrann velkominn hér í salinn. Hins vegar held ég að kannski sé ástæða til þess nú að líta á stöðuna í dag í þessum iðnaði sem við höfum talsvert verið að tala um.
    Mér sýnist af mínum kynnum af þessu máli að það sé margt til í því sem kemur fram í skýrslu Appledore-fyrirtækisins um það að of mikil afkastageta hafi verið í íslenskum skipaiðnaði þegar skýrslan var skrifuð. Nú hefur það hins vegar gerst eins og menn vita að sumum stöðvum hefur verið lokað, því miður, og kannski ekki endilega þeim sem átti að loka, en auðvitað þýðir þetta það að afkastagetan hefur minnkað. Hins vegar kemur það rækilega fram, og ég held að það sé stórt atriði í þessu máli, að sérfræðingarnir, sem eru vel að sér og hafa kynnst þessum málum víða um heim, benda á að það þurfi að auka samvinnu á milli fyrirtækjanna og það þurfi að auka sérhæfinguna í fyrirtækjunum. Og þeir benda á, sem ég veit að hæstv. hagstofuráðherra þekkir mjög vel, að það þurfi að koma upp hér á landi fyrirtækjaneti eins og gert er annars staðar, ekki síst nú þegar þau standa frammi fyrir aukinni samkeppni erlendis frá eins og verða mun í Evrópu þegar Vestur-Evrópa verður einn markaður.
    Appledore-skýrslan segir jafnframt frá því að það hljóti að vera hlutverk opinberra aðila að liðka til við

þróun og hagræðingu --- og taki menn nú eftir --- í stað þess að beina niðurgreiðslum til þessa iðnaðar. Og ég vil taka undir það með hæstv. ráðherra að það er engin ástæða til þess í sjálfu sér að niðurgreiða okkar iðnað. En við skulum vara okkur á einu, þ.e. að láta tímann nú líða þar til ríkisstyrkirnir hverfa upp úr 1992, kannski árin þar á eftir, styrkir sem eru á bilinu 20--35% á að giska hjá ýmsum Evrópuríkjum, við skulum ekki bíða svo lengi með okkar aðgerðir að skipasmíðaiðnaðurinn verði dauður á Íslandi þegar hann loksins verður samkeppnisfær vegna þess að ríkisstyrkirnir hafa verið felldir niður. Og hvað á hæstv. ríkisstjórn að gera? Hún á auðvitað að hjálpa til við þróun og hagræðingu í þessari grein án þess að menn fari i kapphlaup um það að kaupa alltaf nýjustu og dýrustu tækin, enda er það alveg út í bláinn því að það eru tæki sem breytast frá einum tíma til annars. En það eru fyrst og fremst þessi atriði sem menn þurfa að takast á við til þess að það standi eftir einhver slíkur iðnaður þegar við verðum samkeppnisfær upp úr 1992. Það er lágmarkið. Ég sakna þess satt að segja að hæstv. iðnrh. skuli ekki hafa komið inn á þetta atriði í sinni ræðu jafnmikilvægt og það er fyrir allt landið, fyrir sjávarútveginn. Ég heyrði hins vegar að hæstv. hagstofuráðherra hafði skilning á þessu atriði, enda hefur hann komið nálægt skipasmíðastöðvum að undanförnu.
    Ég ræddi það, virðulegur ráðherra, við hæstv. forsrh. áður en aðrir ráðherrar gengu hér í salinn að það þýðir ekkert fyrir hæstv. ríkisstjórn --- og ég vil að hæstv. iðnrh. heyri það --- að hlaupast undan merkjum og segja að það sé ekkert sem hún hafi gert sem í raun og veru hafi valdið þessum iðnaði erfiðleikum vegna þess að hæstv. ríkisstjórn með því að falsa gengi íslensku krónunnar, með því að greiða með útflutningi á fiski, með því að greiða niður rafmagnið, með því að endurgreiða söluskatt umfram þá uppsöfnun sem hægt var að sanna til sjávarútvegsins, þá var auðvitað verið að falsa gengið og gera þessum fyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum í iðnaði erfitt fyrir. Og hæstv. ráðherra getur ekki hlaupið frá því að hann ber sök á því og verður að axla ábyrgð af þessu máli eins og aðrir hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni. ( Viðskrh.: Hvenær var markaðshlutdeildin lægst, hv. þm.?) Ég skal fara í gegnum þennan reikning með hæstv. ráðherra ef hann er svo illa að sér að hann þarf að spyrja um þetta. Hefði hann komið hingað á réttum tíma í kvöld, þá hefði hann heyrt svarið við þessari spurningu. Ég lýsti því í upphafi ræðu minnar að það er ekki nóg að tala um markaðshlutdeild því þá verður maður að vita hvað markaðurinn var stór. Ég benti á í upphafi ræðu minnar að 1986 og 1987 þegar mikil uppsveifla var í sjávarútvegi var miklu meira um verkefni og þá hlaut auðvitað markaðshlutdeild íslensku fyrirtækjanna að lækka. Það sem skipti máli var að umfang skipaiðnaðarins á Íslandi minnkaði ekki á þessum tíma. Það minnkaði ekki fyrr en í ár eða í lok síðasta árs og verkefnin detta nánast alveg út á næsta ári.

Þetta skýrði ég út því að spurning hæstv. ráðherra er leiðandi og gefur tilefni til þess að hann sé að láta í það skína að vegna þess að markaðshlutdeildin hafi verið lág þegar mest var að gera, þá sé það síðustu ríkisstjórn að kenna. Menn verða að átta sig á því --- og ég veit að hann er svo mikill hagfræðingur og svo mikill stærðfræðingur að það hefur þýðingu í reikningi hve nefnarinn er stór og hve teljarinn er stór. Það veit hæstv. ráðherra, enda gat hann auðvitað sjálfur svarað þessari spurningu ef hann hefði viljað. Svo illa er hann hvorki að sér í reikningi né málefnum iðnaðarins.
    Ég vil líka láta það koma fram að það mál sem hér er til umræðu er ekkert bundið við Akureyri. Vandamál Akureyringa er, eins og fram hefur komið, það að þeir hafa byggt skip sem þeir hafa ekki getað selt og það er auðvitað stóra vandamál þeirra í dag. En það er ekkert öðruvísi vandamál hjá þeim en öðrum skipaiðnaðarfyrirtækjum, þ.e. það blasir við verkefnaskortur á næstunni vegna þess m.a. sem ég hef lýst og eins vegna hins að þegar niðursveifla verður í sjávarútvegi og slær í bakseglin, þá er minna um verkefni því að menn láta vinna verkefni fyrir sig þegar vel gengur.
    Ég ætlaði, virðulegur forseti, að rekja hér í þessari umræðu sem á nú að
vera um atvinnumál nokkur atriði sem mér finnst full ástæða til þess að rekja þegar maður kemst í tæri við hæstv. ráðherra svo sem eins og þær miklu skattahækkanir sem dunið hafa yfir þjóðina, ekki síst fyrirtækin. Ég hefði meira að segja gaman af því að rifja það upp að hæstv. fjmrh. á sínum tíma, tveimur og hálfum mánuði áður en hann kom í núv. ríkisstjórn, lýsti því yfir, sem til er svart á hvítu í Þjóðviljanum, að efnahagsvandinn á Íslandi væri heimatilbúinn. Það væri enginn ytri vandi. Skilyrðin væru mjög góð. Þetta sagði hann rétt áður en hann kom inn í ríkisstjórnina. Orðrétt sagði hann: ,,Það eru því ekki óhagstæð ytri skilyrði sem skapa hinn mikla efnahagsvanda. Þau eru áfram Íslendingum í hag. Vandinn er algjörlega heimatilbúinn.`` Þetta var tveimur mánuðum áður en hann kom inn í ríkisstjórnina. Síðan hefur hann ekkert gert nema spila þá plötu aftur og aftur, að tala um hinn ytri vanda. Í þessari grein, sem hann skrifaði sumarið 1988, tók hann forvera sinn á beinið og hann kallaði það milljarða mistök í ríkisfjármálum að þá stefndi í talsverðan halla í ríkisfjármálunum. Þá var áætlaður halli reyndar ekki nema nokkur hundruð milljónir, kannski 2--3 milljarðar.
    Ég spyr ykkur ágætu þingmenn: Hafið þið heyrt hæstv. fjmrh. koma hér upp í pontu og tala um milljarða mistök í ríkisfjármálum núna þegar hann er í fyrsta lagi búinn að leggja á 7 milljarða í nýja skatta, sýnir fjárlagafrv. fyrir næsta ár með þriggja milljarða kr. halla og segir svo svona eins og það sé eitthvert smámál: ,,Ja, það vantar svona u.þ.b. 5 milljarða upp á það að fjárlagadæmið gangi upp á þessu ári. Ég ætlaði reyndar að skila 600 milljóna tekjuafgangi.``

    Við munum nú eftir ræðunum hans þegar hann var að belgja sig út af því að nú væri loksins kominn maður við stýrið sem skildi hvað íslensk fjármál væru, 600 milljónir í tekjuafgang. Hefur hann komið hingað upp til að segja okkur hvað tekjuafgangurinn sé mikill? Hefur hann talað um milljarða mistök í ríkisfjármálum? Eða hafa alþýðuflokksráðherrarnir haft kjark til þess að svara fyrir sig og staðið upp og sagt: Jæja, hæstv. fjmrh., nú ert það þú sem ert ráðherra. Þegar hæstv. ráðherra Jón Baldvin var fjmrh. þá kallaði hæstv. núv. fjmrh. hallann milljarða mistök. Hafið þið heyrt hæstv. ráðherra Jón Baldvin eða hæstv. ráðherra Jón Sigurðsson koma hér upp og segja við hæstv. fjmrh.: Hver á þessi milljarða mistök sem við horfum núna upp á?
    Nei, það eru ekki mistök núna. Það er hinn ytri vandi. Hinn ytri vandi. Efnahagsvandinn, þessi ytri vandi, hann var nefnilega meiri en þeir höfðu gert ráð fyrir. Maður á nú varla orð til að lýsa því hvernig menn geta í raun og veru haldið áfram að starfa sem hæstv. ráðherrar jafnkjaftfullir og þeir eru af fyrri yfirlýsingum. Og svo þora þeir að koma hingað upp í ræðustól og ræða þessi mál eins og ekkert hafi í skorist. Það kalla ég mikinn kjark. Og vissulega verður hæstv. fjmrh. ekki vændur um það að hann sé kjarklaus.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur fyrst og fremst verið í björgunaraðgerðum með þeim hætti sem ég hélt að flestar vestrænar þjóðir hefðu fyrir löngu aflagt. Það eru skuldbreytingar á skuldbreytingar ofan. Með öðrum orðum er ekki verið að fá fyrirtækjunum rekstrarskilyrði, heldur er verið að teygja úr skuldabagganum sem auðvitað þýðir minni greiðslubyrði á ári hverju en fyrirtækin halda áfram að tapa og auka skuldir sínar.
    Ég ætla ekki að fara að ræða hér um Atvinnutryggingarsjóð eða Hlutafjársjóð, ég hef gert það svo margoft. En það er alveg ljóst að ef ekki rætist meira úr á næstunni og gengið verður verulega hreyft til viðbótar, sem hæstv. forsrh. hefur að vísu lofað að gert verði um áramótin í síðasta lagi, þá safnast auðvitað upp nýjar skuldir. Ég hef þegar rætt um millifærslurnar og þegar menn
eru að tala um það að nú sé komin ný gengisstefna þá bið ég menn um að athuga það að enn er gert ráð fyrir því að viðskiptahallinn á yfirstandandi ári verði a.m.k. 8--9%. Og þegar um er að ræða slíkan viðskiptahalla þá er það kannski besta dæmið um það að gengi íslensku krónunnar er rangt skráð, það er eitthvað að. ( Viðskrh.: 8--9% af hverju?) Af landsframleiðslunni, vergri landsframleiðslu. ( Viðskrh.: Það er fjarstæða.) ( Gripið fram í: Nei, nei, það eru 8--9 milljarðar.) Já, ég biðst afsökunar á þessu, þetta er rétt. Það mun vera innan við 3% ætlaði ég að segja. Sá reikningsglöggi maður sem hér kallar fram í á auðvitað skilið að fá skýr svör. Ég biðst afsökunar á þessum ummælum. Það eru sjálfsagt eitthvað innan við 3% sem eru 8--9 milljarðar, en því var spáð upphaflega að þetta yrðu um 10 milljarðar. Ég biðst afsökunar á að hafa farið rangt með þessar tölur, ekki

síst af því að ég veit að það særir jafntalnaglöggan mann og hæstv. iðnrh. sem fyrr hefur kallað fram í þessa ræðu og fengið viðeigandi svör og vonast ég til þess að hann geri sér þetta svar að góðu.
    Að lokum, virðulegur forseti, vil ég lýsa þeim hugmyndum sem ég tel að hefðu átt að vera grundvöllur í atvinnustefnu. Ég dreg ekki dul á það, og tala þar fyrir Sjálfstfl., að við eigum að nýta okkur lögmál markaðsbúskaparins á sem flestum sviðum.
    Hv. þm. Stefán Valgeirsson flutti hér í dag ræðu og sagði: Aðalvandamálið í atvinnulífinu er í fyrsta lagi fjármagnskostnaðurinn, í öðru lagi
fjármagnskostnaðurinn og í þriðja lagi fjármagnskostnaðurinn. Síðan bætti hann við að vandinn væri frelsinu að kenna. Svona geta nú menn orðið þegar þeir hræðast frelsið. Sannleikurinn er auðvitað sá að fjármagnskostnaður verður ekki til nema fyrirtæki eða einstaklingar skuldi. Og ef um er að ræða hallarekstur dögum saman, vikum saman, mánuðum saman og árum saman þá auðvitað hlaðast upp skuldir og eftir því sem skuldirnar eru meiri þeim mun meiri fjármagnskostnaður. Þetta hljóta allir menn að sjá. Og ef menn ætla sér að fara gegn markaðslögmálunum, t.d. á fjármagnsmarkaðnum, og segja: Nú á bara að stýra vöxtunum, setja þá niður með handafli --- eins og sumum hæstv. ráðherrum hefur dottið í hug að gera, en ríkisstjórnin hefur sem betur fer ekki gert --- þá auðvitað hætta sparendur að spara eða breyta sínum sparnaði úr peningum í eitthvað annað, t.d. í fasteignir, og ný fjárfestingaralda ríður yfir. Menn verða nefnilega að átta sig á því að vextirnir eru afleiðing af þeirri stefnu sem ríkir í efnahagsmálum á hverjum tíma og því ójafnvægi eða jafnvægi sem ríkir á þeim markaði.
    Þá kem ég að ábyrgð hæstv. fjmrh. Þegar hann kemur hér glaðbeittur upp í pontu, eins og það sé ekkert mál að reka ríkissjóð með verulegum halla, þá skulum við minnast þess að sá hallarekstur verður til þess að ríkið þarf að taka að láni fjármagn, annaðhvort erlendis eða hérlendis. Ef erlendu skuldirnar eiga ekki að aukast úr hófi fram verður að ná þessum peningum á innlendum markaði. Og ef fyrirtækin eru þannig búin að það eru ekki til rekstrarskilyrði til þess að reka fyrirtækin með ágóða, þá þurfa fyrirtækin jafnframt að sækja á þennan innlenda markað. Það er þetta ójafnvægi sem kýlir vextina upp. Þannig að ef einhver fer í grafgötur með það hver beri ábyrgð á háum og jafnvel hækkandi vöxtum þá er það fyrst og fremst einn maður, það er hæstv. fjmrh. og sú hæstv. ríkisstjórn sem hann starfar nú í.
    Nú kemur auðvitað hæstv. fjmrh. fram fyrir þjóðina og segir: Sjáið þið ríkisskuldabréfin, spariskírteinin, náði ég ekki vöxtunum niður á þeim? Jú, vissulega gerði hann það. Hann gerði það með því að hóta að lækka vextina. Og það gerði hann síðan þannig að áður en hann lækkaði vextina kom fjöldi fólks og keypti sér spariskírteini. ( Fjmrh.: Segðu svo að við þekkjum ekki markaðinn.) Auðvitað þekkir hæstv. ráðherra markaðinn og hann veit nákvæmlega að þetta

er rétt sem ég er að segja. Samt ber hann höfðinu við steininn. Ég er ekki að frýja honum vits. Það dettur mér ekki í hug. Ég er bara að benda á að hann ber ábyrgð á þessu. Síðan þegar bréfin eru innleyst núna þá hækkar hæstv. ráðherra vextina um 1% sem er talsvert fyrir þá sem eru að innleysa sína peninga, ná í sína peninga, til þess að þeir kaupi aftur ríkisskuldabréf. Með öðrum orðum: Vextirnir fara upp um 1%. En það sem hann segir aldrei er að í sívaxandi mæli hefur hann verið að ná í peninga með því að selja ríkisvíxla. Og hverjir skyldu vextirnir vera á ríkisvíxlunum? Eru þeir 5% eða 6%? Mér er nær að halda að þeir séu yfir 10%. Yfir 10%. Með öðrum orðum: Hæstv. ráðherra, stærsti lántakandi á íslenska fjármagnsmarkaðnum hefur með stefnu sinni í ríkisfjármálum kýlt vextina upp. Svo kemur einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstjórnar, hv. þm. Stefán Valgeirsson, og segir: Stærsta vandamálið er fjármagnskostnaðurinn, fjármagnskostnaðurinn og fjármagnskostnaðurinn. Ég get sagt við hann: Stærsta vandamálið er ríkisstjórnin, ríkisstjórnin og ríkisstjórnin. Því það er hæstv. ríkisstjórn sem færir vextina upp.
    Hæstv. ráðherra fjármála hefur sagt að á næsta ári, og undir það hefur reyndar forsrh. hæstv. tekið, muni allt falla í ljúfa löð, þá verði jafnvægi í íslenskan efnahagsbúskap. Trúa menn þessu? Muna menn hverjar spárnar voru fyrir yfirstandandi ár? Hverjar voru spárnar um verðbólguna á þessu ári? Þær voru 13--14%. Hver er raunin? A.m.k. 21% og líklega frekar 23%. Með öðrum orðum er verðbólgan 7--10% hærri en spáð var. Auðvitað gerist þetta aftur á næsta ári og þeim mun frekar sem það er ljóst að nú á opinberlega að viðurkenna það fyrir fram að reka eigi ríkisbúskapinn með miklum halla. Þetta veit hæstv. ráðherra og þetta veit hæstv. ríkisstjórn. En hún talar ekki um hlutina með þessum hætti því hún vill láta alþjóð halda að hún hafi tök á þessu máli.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fara yfir mörg önnur mál. Það hefði vissulega verið ástæða til þess að nefna hérna jöfnun starfsskilyrða á milli atvinnugreinanna, ekki síst vegna þess að sú hæstv. ríkisstjórn sem nú situr hefur leyft sér æ ofan í æ að beita sértækum aðgerðum í efnahagsmálum. Það mætti minnast á skattana eins og hv. þm. Halldór Blöndal málshefjandi minntist á og mun á skattlagningu á milli atvinnugreina. Það mætti minnast á sveiflujöfnun í atvinnulífinu, bæði með því að fjölga atvinnugreinum hér á landi, renna fleiri stoðum undir atvinnulífið, eins og t.d. að virkja orkulindirnar og koma upp stóriðju. Það væri gaman að heyra hæstv. fjmrh. fjalla um það hver sé hans skoðun á því. Eða með því að gera það innan fyrirtækjanna með því að leyfa fyrirtækjunum að safna í sjóði á feitu árunum og geyma slíka sjóði til mögru áranna eins og þingflokkur Sjálfstfl. leggur til í fyrirliggjandi frv. sem verða til umræðu síðar í þessari viku. Og loks, eins og hæstv. hagstofuráðherra benti á í dag, má auðvitað auka samstarf
erlendra og innlendra fyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis, til þess að tryggja betur okkar atvinnulíf á

næstunni þegar um harðari samkeppni verður að ræða.
    Virðulegur forseti. Ég hef nú talað hér í nokkrar mínútur um það mál sem er hér til umræðu utan dagskrár og við höfum verið að fjalla um í dag. Þetta er stórmál sem ég tel að hæstv. ráðherrar og hv. stjórnarþingmenn hljóti að taka þátt í að ræða. Það sem skiptir þó langsamlega mestu máli er að átta sig á einu, og það er kannski kjarnaatriðið, eitt af mörgum, stærsta kjarnaatriðið eins og karlinn sagði, og það er þetta:
    Ríkisstjórn sem hefur misst traust fólksins, sem hefur ekki tiltrú, sem enginn trúir á, sem hefur tiltrú kannski 25% þjóðarinnar ( Gripið fram í: 23%.) 23%, getur ekki leyst þessi verkefni. Það er þess vegna langsamlega mikilvægasta skrefið, ef menn vilja einhverjar framfarir í landinu í efnahagsmálum, að þessi hæstv. ríkisstjórn sem hér situr, jafnvel þótt hún hafi stækkað um tvo hæstv. ráðherra, átti sig á því að því fyrr sem hún fer frá þeim mun betra fyrir Ísland, þeim mun betra fyrir íslenskan þjóðarbúskap því þá fyrst er hægt að hefja það endurreisnarstarf sem við verðum að hefja sem allra fyrst. ( Fjmrh.: Hvað stjórnaði Sjálfstfl. iðnrn. lengi?) Vegna þess að hæstv. ráðherra hefur óskað eftir svörum um það sem fæst í bókum þá skal ég verða við hans tilmælum, sækja þær bókmenntir sem þarf, þannig að hann geti sjálfur flett upp ( Fjmrh.: Það eru fimm ár.) á því að það séu fimm ár sem Sjálfstfl. fór með iðnaðarmálin. Á þeim fimm árum gerðist heilmikið. Á þeim fimm árum gerðist það að íslenska þjóðin hvarf frá þeirri svartnættisstefnu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafði fylgt í nafni hæstv. fjmrh. og flokks hans, stefnu sem byggðist á því að ekki mætti neitt gera hér á landi sem yrði til þess að við gætum virkjað fallvötnin og átt samvinnu við útlendinga um það að koma hér á stóriðju. ( Fjmrh.: En hvað með innlenda iðnaðinn?) Varðandi innlenda iðnaðinn vil ég vísa til ræðu hæstv. fjmrh. sem sagði hér um daginn í umræðunni, eftir að ég hafði komið til umræðunnar, að hann viðurkenndi það að þá hefði verið hafist handa þegar sá sem hér stendur hafi orðið iðnrh. Bara það sýnir þó að a.m.k. einhver af iðnaðarráðherrum Sjálfstfl. hafi staðið sig. Og ég heyri að hæstv. ráðherra kinkar svo ótt og títt kolli að glymur í salnum. Vona ég að þetta svar nægi.