Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Þessi umræða sem hér var hafin í dag, snemma nokkuð, átti að snúast um atvinnumál almennt. Ég mun hins vegar halda mig við þann þáttinn sem hér hefur verið ræddur talsvert, þ.e. skipasmíðarnar og það af mjög gefnu tilefni. Mig langar að leiðrétta nokkur atriði sem hér hafa komið fram og farið hefur verið ranglega með og fjalla um þann vanda sem íslenskur skipasmíðaiðnaður stendur frammi fyrir.
    Ég vil í byrjun leiðrétta það sem kom fram hjá hv. málshefjanda að hæstv. iðnrh. hefði tekið stjórnarmenn og framkvæmdastjóra Slippstöðvarinnar inn á teppið. Það var á honum að skilja að hæstv. ráðherra hefði beitt þessa menn einhverju valdi og dregið þá inn á skrifstofu til sín til þess að lesa þeim pistilinn. Ég held að það sé best að sagan sé sögð eins og hún er rétt vegna þess að ég þekki hana frá upphafi. Það var ákveðið á stjórnarfundi Slippstöðvarinnar að leita til hæstv. iðnrh. og óska eftir fundi með honum ásamt fjmrh. og sjútvrh. Þessum boðum kom ég til hæstv. iðnrh. og hann leysti þetta mál skjótt og vel. Ég hygg að það hafi liðið þrír eða fjórir dagar frá því að þessi beiðni barst honum þangað til þessir þrír ráðherrar ræddu við tvo stjórnarmenn Slippstöðvarinnar og framkvæmdastjóra.
    Í annan stað vil ég og get ekki látið hjá líða að leiðrétta það sem hér hefur komið fram eða mér skilist á orðum manna í umræðunni og gat ekki skilið öðruvísi en að íslenskur skipasmíðaiðnaður hefði leitað eftir einhverjum niðurgreiðslum eða opinberum stuðningi við sinn rekstur. Ég kannast ekki við beiðnir af þessu tagi. Ég veit ekki til þess að forustumenn þessa iðnaðar á Íslandi hafi leitað eftir niðurgreiðslum vegna sinnar framleiðslu. Ef svo er þá hefur það farið fram hjá mér og komið einhvers staðar frá þar sem ég ekki þekki til.
    Ég held einmitt að íslenskur skipasmíðaiðnaður hafi staðið sig ótrúleg vel í þeirri hörðu baráttu sem hann hefur átt í, við samkeppnisiðnað m.a. í Efnahagsbandalagslöndunum, í kommúnistaríkjum þar sem greidd eru lág laun og þessi iðnaður fær ótrúlega háa ríkisstyrki.
    Það sem skipasmíðaiðnaður á Íslandi hefur farið fram á og beðið um kemur ákaflega skýrt fram í bréfi sem er undirritað af núv. hæstv. forsrh. og ritað var 2. sept. 1986. Þar eru rakin þau fjögur meginatriði sem þessi iðngrein hefur farið fram á og óskað eftir að gert yrði svo hún gæti starfað betur og gert betur við þann iðnað sem nú er að komast á heljarþröm. Í bréfi hæstv. núv. forsrh. segir, með leyfi virðulegs forseta, þetta er skrifað framkvæmdastjóra Sambands málm- og skipasmiða:
    ,,Með tilvísun til bréfs yðar, dags. 24. júní sl., um viðhald og endurnýjun fiskiskipastólsins hefur ríkisstjórnin á fundi sínum í dag samþykkt eftirfarandi:`` --- Takið eftir: Samþykkt eftirfarandi:
,,1. Opinberum sjóðum verði tilkynntur sá vilji ríkisstjórnarinnar að leita skuli tilboða innan lands um

endurbætur og viðhald fiskiskipa og samanburður gerður á slíkum tilboðum og erlendum og þau metin á viðskiptalegum grundvelli áður en lánveitingar eru ákveðnar.
    2. Lögð verði áhersla á það við viðskiptabankana að bankaábyrgðir vegna skipasmíðaverkefna innan lands verði sambærilegar og þær sem veittar eru þegar verkefnin eru unnin erlendis.``
    Í báðum þessum tilvikum liggur fyrir með þessu bréfi viðurkenning ríkisstjórnarinnar á því að þessi íslenski iðnaður búi við önnur kjör en samkeppnisiðnaðurinn.
    Í þriðja lagi segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin samþykkir að gera ráð fyrir lántökuheimild til Byggðasjóðs eins og verið hefur undanfarin tvö ár þannig að sjóðurinn geti veitt viðbótarlán vegna viðgerðarverkefna hér á landi svo lánin verði 80% af kostnaði.
    4. Þess verði farið á leit við Iðnlánasjóð að hann veiti skipaiðnaðinum samkeppnislán til þess að mæta sérstökum undirboðstilboðum eða niðurgreiðslum frá erlendum skipasmíðastöðvum.``
    Þetta er ekki óskalisti frá íslenskum skipasmíðaiðnaði, þetta er bréf frá hæstv. forsrh.
    Alþingi Íslendinga ítrekaði og staðfesti þessa skoðun með þáltill. sem samþykkt var á síðasta þingi. Fyrsti flm. þeirrar till. var hv. þm. Stefán Guðmundsson og í henni koma fram nánast öll þau atriði sem getið er um í bréfi hæstv. forsrh.
    Að þessu fengnu og með þetta hvort tveggja í huga þá held ég að það hljóti að verða fremur óskiljanlegt, svo ég taki ekki dýpra í árinni, af hverju menn hafa ekki hreyft sig hraðar í þessu máli. Af hverju menn hafa ekki gert betur við þennan iðnað sem nú er að fara fram af hömrunum í eiginlegri merkingu þess orðs. (Gripið fram í.) Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að þessi iðngrein hefur ekki beðið um niðurgreiðslur eða stuðning úr ríkiskassanum, það hefur hún ekki gert. Hins vegar hefur þessi iðnaður orðið að þola ákaflega neikvæða
gagnrýni. Ég hef meira að segja heyrt það frá sumum hv. þm. að það væri ekki hægt að eiga viðskipti við íslenskar skipasmíðastöðvar vegna þess að þær skiluðu verkum sínum allt of seint, allt of illa og væru alls ekki samkeppnisfærar í verði. Þetta er bara alrangt. Þetta er alröng skoðun og því til sönnunar get ég lesið hér upp úr samantekt sem gerð var á síðasta ári, yfirlit yfir 52 íslensk útboð á tímabilinu 1985--1988, hverjir buðu, hvernig tilboðin voru, hverjir voru hæstir og hverjir voru lægstir. Það kemur í ljós við þessa athugun að í 35,7% tilvika eru Íslendingar með lægstu tilboðin á móti 32,8% frá útlendingum. Þar af er t.d. Slippstöðin í sama hlutfalli með lægst tilboð í 44,2% tilvika. Þegar kemur að hæstu flokkunum, hverjir eru með hæst tilboð, kemur óvart í ljós að það eru erlendu aðilarnir sem í langflestum tilvikum eru hæstir. Auðvitað kemur að því í svona umræðu að menn nefni dæmi eins og t.d. útboð vegna Vestmannaeyjaferju og segi eins og hæstv. forsrh. sagði hér í dag: Íslenska tilboðið var upp á 1,6

milljarða, pólska tilboðið var upp á 700 millj. kr. Við þetta er auðvitað erfitt að keppa. En ég get greint hv. þm. frá því að það hefur verið reiknað út í Slippstöðinni á Akureyri að pólska tilboðið, sú upphæð sem þar kemur fram dugar ekki fyrir efniskostnaði. Á þessu geta menn séð við hvað verið er að stríða á þessum vettvangi.
    Ég get nefnt fjölmargar aðrar tölur og það nýlegar tölur um viðgerðarútboð þar sem íslensku fyrirtækin eru langsamlega lægst og þá spyr maður sig þessarar spurningar: Hvernig stendur á því að íslensku fyrirtækin fá ekki þessi verkefni? Hvernig stendur á því að íslenskir útgerðarmenn sem vilja láta samlanda sína gera við skip sín fá ekki bankaábyrgðir vegna viðgerða hér á landi, en fá þær ef þeir láta gera við erlendis? Ég hefði talið, í þeirri stöðu sem við erum í nú, að með þessu móti værum við að hjálpa öðrum þjóðum til að halda niðri atvinnuleysi, en auðvitað á það að vera á hinn veginn. Við eigum að halda niðri atvinnuleysi í okkar eigin landi.
    Virðulegi forseti. Ég er í máli mínu ekki að gagnrýna í raun eina ríkisstjórn umfram aðra. Ég held bara að stjórnvöld yfir höfuð á undanförnum árum hafi ekki viljað taka á þessum vanda, m.a. af þeirri ástæðu sem hér hefur verið nefnd, að sveiflurnar í sjávarútvegi á Íslandi eru með þeim hætti að stöðvarnar hafa á stundum haft yfrið nóg að gera, en í annan tíma allt of lítið.
    Ég vil líka benda á það að í tengslum við þennan iðnað hafa viðgengist afskaplega óheppilegir viðskiptahættir, svo að ég taki ekki dýpra í árinni, m.a. varðandi tilboð. Ég gerði það á fjölmennum starfsmannafundi í Slippstöðinni á Akureyri að lesa upp bréf sem ég hafði undir höndum frá Vélsmiðju Sigurðar Sveinbjörnssonar um það hvernig háttað hefur verið tilboðum þegar íslensk fyrirtæki hafa komið út með lægstu tilboðin, en síðan hefur verið brugðið á það ráð að skjóta inn nýjum tilboðum frá umboðsmönnum erlendra fyrirtækja sem hafa þá gjarnan verið mun lægri en þau íslensku. Svona vinnubrögð verður auðvitað að stöðva og ég treysti því að í þeirri endurskoðun sem hæstv. iðnrh. hefur nú beitt sér fyrir varðandi skipasmíðar á Íslandi verði þetta atriði skoðað sérstaklega.
    Það verði einnig kannað með hvaða hætti starfsmenn ráðgjafarfyrirtækja starfa gagnvart þessari grein, hvort þeir fara með umboð fyrir erlenda aðila, vélar og tæki sem þeir af bersýnilegum hagsmunaástæðum mundu mæla með í þau skip sem þeir fara með í það og það skiptið.
    Ég held að það sé rétt, virðulegi forseti, að hér sé farið með nokkrar tölur sem sýna þróun þessara mála á allra síðustu árum. Á árunum 1982--1988 voru 22 skip smíðuð erlendis, og eru þau samtals 9250 rúmlestir að stærð. Á sama tíma voru aðeins 14 skip smíðuð hér innan lands sem er rétt um þriðjungur rúmlestafjölda skipanna sem smíðuð voru erlendis eða 3850 rúmlestir. Frá ársbyrjun 1989 hefur verið samið um smíði á 14 skipum erlendis, samtals 3900 rúmlestir. Þetta er gert á sama tíma og fyrirsjáanlegur

er umtalsverður samdráttur í íslenskum skipasmíðum. Og ég fyrir mína parta verð að lýsa talsverðri sök á bæði sjóða- og lánakerfið hérlendis og ég verð að segja það að mér þykir að stjórnvöld hafi látið þessa þróun ganga allt of hratt í þá átt sem við horfum nú til, þ.e. eyðingaráttina. Þetta verður að breytast. Það er auðvitað hárrétt, hins vegar, sem hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan að það er ekki fyrirsjáanlegt að hér á Íslandi eða erlendis verði smíðuð mörg skip, fiskiskip fyrir Íslendinga á næstu árum. Hins vegar tel ég mig hafa heyrt þessa setningu einhvern tíma áður. Það eru smíðuð skip erlendis og skipt út skipum fyrir þau, en ég held því miður að það hafi annað gerst um leið og það er einfaldlega það að þrátt fyrir það að skipastóllinn hafi ekki vaxið verulega hafi hins vegar sóknargeta flotans aukist umtalsvert, einfaldlega vegna þess að nýju skipin eru kraftmeiri, tæknilega betur útbúin og geta náð í miklu meiri afla á miklu skemmri tíma en eldri skipin geta. Þetta er líka atriði sem menn verða að hafa hugfast þegar þeir ræða þessi mál.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég vil bara skora á þá hæstv. ráðherra sem hafa með þennan málaflokk að gera, að þeir taki nú
rösklega í gömlu taumana og reyni að sjá til þess að þessi iðnaður verði ekki drepinn í dróma eða bara endanlega drepinn. Sums staðar heyrir maður það að ráðamenn hafi áhuga á því að koma þessum iðnaði fyrir kattarnef. Ég vil ekki trúa því fyrr en ég tek á því og ég vil að það verði skilaboð þessarar umræðu, sem hefur snúist að verulegu leyti um skipasmíðaiðnaðinn, skilaboðin til þeirra 400 manna sem sagt hefur verið upp í þessari grein, að þeir megi treysta því að allt verði gert sem unnt er að gera til þess að koma í veg fyrir hrun greinarinnar.