Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Sú utandagskrárumræða sem nú fer fram varðar einn brýnasta vanda sem nú er við að etja, atvinnumálin, vaxandi atvinnuleysi og hvaða úrbóta er þörf. Vandinn er margþættur og kallar á lausnir, ekki bara eina eða tvær heldur margar. Við horfum upp á að þau verkefni, sem ekki einungis er hægt heldur æskilegt að vinna hér á landi, eru að flytjast úr landi. Skipasmíðarnar sem einkum hefur verið rætt um í þessari lotu eru gott dæmi um þetta en síður en svo hið eina. Í sömu stöðu eru fleiri iðngreinar, t.d. fataframleiðsla og húsgagnasmíði, og það eru aðrar þjóðir ekki síður en við sem framleiða fiskrétti úr dýrmætu sjávarfangi okkar. En auðvitað er ekki hægt böl að bæta með því að benda á annað verra. Og skipasmíðar eru engu betur komnar í öðrum löndum þegar aðrar atvinnugreinar eru þar einnig. Ekki batnar atvinnuástandið með þess konar samfloti.
    En umræðan í dag hefur óneitanlega verið ærið einsleit. Mig langar þó að minna á þá áherslu sem Kvennalistinn hefur einatt lagt á nauðsyn þess að styðja íslenskan iðnað og tek því undir þessa einsleitu áherslu. Við höfum sýnt fram á að styrkja þarf íslenskan iðnað vegna þess að okkur ber að líta á afleiðingar þess að láta skammtímasjónarmið villa okkur sýn. Við verðum að hafa þá heildarsýn að sjá að atvinna á Íslandi er dýrmæt auðlind. Ef við vanrækjum einhvern þátt í hringrás atvinnulífsins kemur slagsíða á allt hagkerfið. En umræða má ekki bara vera einsleit.
    Tilgangur minn með því að tengja vanda skipasmíðanna við annan vanda í atvinnumálum er sá að benda á að það má ekki henda sem oft hefur gerst áður að menn gleymi einum vanda meðan þeir glíma við annan. Ég hygg að í umræðunni í dag hafi komið fram flest þau sjónarmið og ýmis þau úrræði sem varða skipasmíðarnar og er það vel, einkum ef góð fyrirheit ganga eftir. Um allt land bíða öflugar skipasmíðastöðvar eftir sómasamlegum verkefnum, ekki skortir aðstöðu, verkþekkingu og reynslu, aðeins verkefni. Aðrar áherslur hafa allt of fáar komið fram og verið allt of almenns eðlis og því langar mig að segja nú skilið við skipasmíðarnar.
    Ég óttast það mjög að nauðsynlegur hávaði í kringum þetta stórmál í atvinnu þjóðarinnar, mál sem einnig varðar gjaldeyrisstöðu okkar, leiði hugann frá öðrum vanda sem ekki hefur verið hávaði í kringum en er engu að síður alvarlegur og varðar þetta allt saman, stöðu okkar sem sjálfstæðrar þjóðar, atvinnuástandið og gjaldeyrinn. Þessi vandi grefur einnig undan samfélagi okkar. Og þar sem utandagskrárumræðan í dag fjallar um atvinnumál er nauðsynlegt að fjalla einnig um þau mál sem liggja í þagnargildi.
    Eitt er það mál sem hefur legið allt of mikið í þagnargildi og það er hið dulda atvinnuleysi. Mönnum óar að vonum við hækkandi atvinnuleysistölum, en þessar tölur segja í mesta lagi hálfa söguna. Hinn hluti sögunnar er jafnvel enn uggvænlegri. Hann

varðar fólk sem ekki telst atvinnulaust samkvæmt
hagtölum, en er jafnótvírætt atvinnulaust fyrir það. Stærsti hópurinn sem hér um ræðir er mjög sennilega heimavinnandi húsmæður sem þurfa eða vilja, og yfirleitt hvort tveggja þurfa og vilja, fara út á vinnumarkaðinn. Þessar konur fá ekkert starf, né heldur atvinnuleysisbætur, vegna þess að þær hafa unnið ólaunuð störf inni á heimilunum, gætt ungra barna, annast aldraða og sjúka. Laun samfélagsins eru þau að ef aðstæður breytast og þessar konur leita út á almennan vinnumarkað eru þær í reynd taldar hafa verið að gera ekki neitt. Það er mat samfélagsins á störfum þeirra.
    Ástæðurnar sem knýja þessar konur út á vinnumarkaðinn eru af ýmsum toga. Verðlag hækkar. Sífellt verr gengur fyrir almennt launafólk að framfleyta sér á dagvinnulaunum einnar fyrirvinnu og yfirvinnu er mjög óvíða að hafa. Yfirvinnan er neyðarúrræði sem bjargað hefur mörgum fjölskyldum á undanförnum árum. Margir vakna upp við vondan draum og reyna að bjarga því sem bjargað verður með því að bæta við vinnu fjölskyldunnar á móti þeirri vinnu sem tapast hefur.
    Vandi einstæðra foreldra er þó sýnu alvarlegri, vandi allra mæðranna sem eru einar með börn sín því að það eru auðvitað fyrst og fremst mæður sem við erum að tala um þegar við tölum um einstæða foreldra. Síhækkandi verð brýnustu nauðþurfta knýr þá foreldra út á vinnumarkaðinn sem hafa að eigin ósk eða vegna þess að þeir eiga ekki annarra kosta völ verið heimavinnandi með börn sín og reynt að bjarga sér fyrir horn með alls konar íhlaupavinnu, oftar en ekki utan allra samninga sem verktakar. Hverra kosta á sú móðir völ sem ekki á möguleika á annarri vinnu en svo lágt launaðri að hún nægir ekki einu sinni fyrir niðurgreiddri barnagæslu, sé hún á annað borð fáanleg, húsnæði, fæði og klæðum? Dæmið lítur oftar en ekki svona út: Hún gætir barna sinna heima á daginn, skúrar á kvöldin, vaskar upp á veitingahúsi, pakkar tímaritum eða vélritar heima á nóttunni og fær launin sín gefin upp sem þóknun fyrir verktakastörf. Unglingsstúlkur eða eldri systkini gæta barnanna á meðan.
    Á vinnumarkaðnum nýtur þessi kona engra réttinda og þegar harðna tekur á dalnum er hún atvinnulaus fyrirvaralaust. Þær háu tölur sem hv. 2. þm.
Norðurl. e. nefndi í upphafi umræðnanna í dag er hann fjallaði um aukna þörf á félagslegri aðstoð eru ekki síst tilkomnar vegna dæma eins og þessara.
    Ég vitna í eitt dæmi um erfiða stöðu fólks í þessari aðstöðu. Dæmið er úr tímaritinu Vinnunni frá í sumar og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,"Ég skil núna af hverju verkalýðsjaxlarnir eru búnir að standa í þessu pexi í áratugi. Ég skildi allt í einu þegar þetta gerðist hvað þeir eru búnir að gefa launþegum, t.d. af öryggi og réttarstöðu upp að vissu marki.``
    Þetta sagði Ásgeir Tómasson, fyrrv. dagskrárgerðarmaður á Rás 2 og Bylgjunni, í samtali við Vinnuna, en Ásgeir er einn þeirra launþega er lét

tilleiðast til að vinna sem sjálfstæður verktaki þótt hann ynni í raun fullt starf fyrir einn vinnuveitanda. Þetta gekk vel í mörg ár þar til honum var fyrirvaralaust sagt upp störfum í samdráttaraðgerðum fyrirtækisins. Ásgeir var atvinnulaus í fjóra mánuði og á í verulegum fjárhagserfiðleikum vegna þessa, enda átti hann hvergi rétt til atvinnuleysisbóta. Um það leyti er þetta viðtal var tekið hafði honum tekist að semja um skuldir sínar og bjóst við að komast út úr þessu áfalli á um það bil tveimur árum.``
    Ekki eru allir eins lánsamir og maðurinn sem hér um ræðir og ég segi ,,lánsamir`` innan gæsalappa. Í því dæmi sem rakið er hér var þó um fjölskyldu að ræða sem hafði tvær fyrirvinnur.
    Við verðum að horfast í augu við að vaxandi atvinnuleysi einskorðast ekki við eina atvinnugrein eða tvær. Það er ekki svo alvarlegt sem atvinnuleysistölur segja okkur, heldur miklu alvarlegra. Staða þeirra sem nú eru atvinnulausir og ætlast er til að framfleyti sér á lágum atvinnuleysisbótum er óviðunandi. Staða þeirra sem eiga engra annarra kosta völ en að leita til félagsmálastofnana vegna þess að þeir eru ekki einu sinni formlega atvinnulausir er ekki sæmandi siðmenntuðu samfélagi.
    Atvinnuátaks er þörf. Við verðum sérstaklega að hyggja að konunum sem ganga atvinnulausar. Þær eru stærsti hópurinn á atvinnuleysisskrám. Þær eru án efa fleiri óskráðar en jafnatvinnulausar fyrir það og við verðum að hyggja að þessu svo að það gleymist ekki.
    Ég sakna þessara vangaveltna, sem ég hef nú komið með, sárlega úr þeirri umræðu sem hér hefur farið fram í dag. Hugmyndir eru þó margar til. Er mönnum ljóst hvaða fjölskyldur það eru sem konur einar framfleyta? Er mönnum ljóst að meðal þeirra eru t.d. 80% fjölskyldna fatlaðra barna? Er mönnum ljóst hvaða atvinnumöguleika þessar konur, fyrirvinnur fatlaðra barna, hafa helst? Vinnu utan hefðbundins kerfis, það er nú svo einfalt sem það er. Ekki eru dagvistarmál fatlaðra barna í betra horfi en dagvistarmál annarra barna. Þetta eru alvörumál, sem og önnur mál sem til umræðu hafa verið hér í dag. Þetta er atvinnuleysi og atvinnuóöryggi ekki síður en það sem helst hefur tekið tíma okkar hér í dag.
    Við erum að tala um víðtækan vanda. Hyggjum að vandanum öllum og tökum til við að leysa allan þann vanda sem við horfumst í augu við, ekki einungis hluta hans. Til að taka á þeim vanda sem ég hef gert að umræðuefni mínu þarf í fyrsta lagi að verja fé til nýsköpunar í atvinnulífinu. Annars bíður okkar stöðnun og afturför. Því má ekki gleyma að ríkisstyrkir í iðnaði annarra ríkja eru ekki eina ástæðan fyrir þeim yfirburðum sem þær þjóðir hafa stundum í samkeppni við okkur, heldur einnig það að þær leggja margar hverjar mikið fé í nýsköpun, styrkingu og frumkvæði við nýja atvinnusköpun. Þá nýsköpun er m.a. að finna í hugmyndum kvenna víðs vegar um landið og víðs vegar um öll lönd. Með því að hlúa að þeim og byggja upp á þeim trausta grunni sem hyggjuvit kvenna er má áreiðanlega finna nýja möguleika í atvinnulífi okkar sem annarra þjóða. Ekki

síður verðum við að gæta vel að réttarstöðu fólks á vinnumarkaði framtíðarinnar. Með nýsköpun skapast alltaf hætta á að í hraða okkar við að finna nýjar leiðir gleymum við því að hyggja að öllum málum, jafnt félagslegum sem efnahagslegum.
    Ástandið er ekki uppörvandi núna, en síst megum við nú gleyma uppbyggingu þótt mikil orka fari í að halda uppi því sem sýnist vera að hrynja. Við megum ekki gleyma því að umræða um félagsleg málefni og réttindi og skyldur á vinnumarkaði eru óleystur vandi í umræðu um samninga okkar og hugsanlega aðild að innri markaði Evrópubandalagsins með hverjum hætti sem menn hugsa það, en það hefur legið í loftinu að menn líta slíkar hugmyndir mjög hýru auga. Ég held að ekki sé vanþörf á að minna á þessa staðreynd í þeirri umræðu sem nú hefur verið um atvinnuástandið í landinu og treysti því að menn hafi þessar áherslur með í umræðunni í framtíðinni.
    Vera má að einhverjum þyki ekki við hæfi að benda á viðbótarvanda þegar verið er að ræða vanda skipasmíðanna og annars iðnaðar sem er ærinn. En ekki hverfur vandinn við að horfa fram hjá honum. Gleymum ekki dulda vandanum, heldur tökumst á við hann, lítum ekki fram hjá einni einustu hugmynd. Aðalatriðin eru mörg, ekki eitt.