Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég efndi til þessarar umræðu í því skyni að athuga hvort hægt væri að knýja fram óyggjandi svör frá hæstv. ráðherrum við einstökum spurningum. Nú er komið í ljós að eftir stendur sama óvissan og áður. Ekki getur það verið svo að tveir ráðherrar segi báðir satt þegar þeirra fullyrðingar stangast á. Enn er það svo að hæstv. forsrh., sem hér er fjarstaddur, flutti langa ræðu án þess að svara einu einasta orði þeim beinu fyrirspurnum sem til hans var beint. Hið sama er raunar að segja um hæstv. sjútvrh. sem flutti undarlega þulu hér áðan sem sýndi að honum var ekki sama orðið og má raunar segja að honum sé mikið í mun, þessum skapríka manni, ef hann heldur að hann með einhverjum hætti geti gert íslenskar skipasmíðar tortryggilegar. Mátti vel skilja það á máli hans að hann teldi það mikinn óþarfa að efna til þeirrar umræðu sem við höfum nú átt hér í dag og á þessari kvöldstund, utandagskrárumræðu um atvinnuástandið, þegar svo háttar til skv. nýjasta yfirliti um atvinnuástand sem vinnumálaskrifstofa félmrn. hefur sent frá sér, svo að mér sé kunnugt, og dagsett er 9. okt. sl., að fjöldi skráðra atvinnuleysisdaga svari til þess að 1516 manns hafa að meðaltali verið á atvinnuleysisskrá í 5 mánuði, en það jafngildir 1,1% af áætluðum mannafla á vinnumarkaði í mánuðinum, en 0,4% á sl. ári. Ef ég man þær tölur rétt sem hæstv. iðnrh. fór með hér áðan, þá hefur atvinnuleysi á þessu ári verið 1,6%, er það rétt munað? og stefnir í 1,7%.
    Jafnframt kom fram hjá hæstv. iðnrh. að hann staðfestir það mat Þjóðhagsstofnunar og vinnumálaskrifstofu félmrn. að atvinnuleysi muni fara vaxandi, við séum ekki komnir ofan í öldudalinn, og skyldi maður ætla að a.m.k. hæstv. forsrh. sæi sóma sinn í að vera viðstaddur umræður af þessu tagi.
    Það var líka eftirtektarvert að hér tóku til máls fjórir hæstv. ráðherrar. Einn þeirra, hæstv. iðnrh., talaði um það með sjálfsánægju að atvinnuleysi væri þó ekki jafnmikið í landinu og svörtustu spár hefðu sagt, en gleymdi á hinn bóginn því að fólksflutningar frá Íslandi hafa verið meiri en um langt árabil og væri fróðlegt að sjá hvernig þær tölur litu út, ef bætt yrði við atvinnuleysistölurnar því fólki sem hefur orðið að flýja land vegna þess að það hefur ekki fengið atvinnu hér á landi við sitt hæfi. Aðrir ráðherrar, ekki forsrh., ekki sjútvrh. og ekki hinn nýi atvmrh., hæstv. hagstofuráðherra, sáu ástæðu til þess að gera atvinnuástandið að umræðuefni með einu einasta orði. Meira að segja hæstv. sjútvrh. var svo ósvífinn að segja, eftir að ég hafði farið hér með tölur atvinnuleysis alla mánuði ársins, þær tölur sem fyrir lágu frá janúarmánuði til september og jafnan hafði komið í ljós að ástandið var verra en á sl. ári, ýmist þrefalt eða fjórfalt meira atvinnuleysi en sl. ár, að segja að ég hafi efnt hér til umræðu á fölskum forsendum og mér hefði verið nær að tala um að þessi umræða væri um skipasmíðar. Ekki snerti hann nú meir þessi umræða um hið bága atvinnuástand sem

er hér á landi.
    Hitt þótti mér næsta undarlegt að þessi hæstv. ráðherra, sem kýs að vera fjarverandi og má vera að hægt sé að hnippa í hann þó síðar verði, skuli ekki hafa svarað þeirri beinu spurningu sem ég beindi til hans hér við umræðurnar, hvort hann teldi að samkeppnisstaða sjávarútvegs væri viðunandi hér á landi. Ég man ekki hvort hann sagði að ég hefði ekki minnst á sjávarútveg. Hitt man ég að hv. þm. Skúli Alexandersson, 4. þm. Vesturl., hafði ekki hlustað á mína ræðu þar sem ég varði löngum kafla einmitt til þess að ræða stöðuna í sjávarútveginum og það samhengi sem er milli skipasmíða og sjávarútvegs og gekk svo langt að vitna til ræðu, boðskapar sjútvrh. á fiskiþingi þar sem hann segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Mikilvæg breyting hefur nú náðst á raungengi krónunnar og þeim ábata verður atvinnugreinin að halda. Kjarasamningum sem raska því raungengi sem verður um næstu áramót getur sjávarútvegurinn ekki staðið undir.``
    Þessi ummæli mín tók hæstv. sjútvrh. svo að ég væri kominn í flokk einhverra vondra manna sem héldu því fram að ríkisstjórnin hefði brugðist þeim loforðum sem hún gaf vinnumarkaðinum á sl. vori þegar hún stóð fyrir kjarasamningum við opinbera starfsmenn. Þegar hún gekk fram fyrir skjöldu, tók ráðin af aðilum vinnumarkaðarins og markaði sérstaka launastefnu sem hún sagði að hið opinbera gæti staðið undir, en síðan kæmi það í hlut aðila vinnumarkaðarins að semja um þau laun sem atvinnuvegirnir gætu staðið undir. Var svo að skilja, a.m.k. þegar ráðherrarnir töluðu stundum, að þeir ætluðust til þess að fólk úti á hinum almenna vinnumarkaði sætti sig við önnur og lakari kjör en gerist á hinum opinberu stofnunum.
    En það vill svo til að það er ekki aðallega ég sem hef gert þessi mál að umræðuefni hér í þingsölum. Sá maður er varaforseti Alþýðusambands Íslands, kunnur verkalýðsleiðtogi frá Vestfjörðum, hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason, sem við umræður um lánsfjárlög í Ed. krafðist þess að umræðunni yrði frestað til þess að hann gæti rekið ofan í hæstv. fjmrh. þau ósannindi sem hann hefði farið með og rakið lið fyrir lið þau svik sem ríkisstjórnin hefði sýnt í sambandi við þau fyrirheit sem hún gerði við kjarasamningana á sl. vori.
Morgunblaðið hefur þessa umræðu eftir honum, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það er sama hvað menn ryðja upp úr sér af tölum, þá er það budda hins almenna launamanns sem segir til um stöðu mála. Karvel benti á að vinur væri sá er til vamms segði og því hikaði hann ekki við að segja að skattar væru um of og ríkisstjórnin hefði ekki staðið við loforð sín við launþega um kaupmátt launa. Almenningur mun kveða upp sinn dóm, sagði Karvel, og bætti því við að oft þegar menn væru komnir á toppinn þekktu þeir ekki sinn vitjunartíma. Ætti það við um ríkisstjórnina.``
    Þessi eru ummæli varaforseta Alþýðusambands

Íslands og ég man ekki hvort hann viðhafði þau ummæli í hinni sömu ræðu að hann hefði aldrei lofað þessari ríkisstjórn stuðningi. A.m.k. fór það ekki dult að traust hans á ríkisstjórninni væri mjög þverrandi og ekki til þess að byggja á. Svo mikið er a.m.k. víst. En það er kannski eðlilegt að hv. þm. blöskri. Ef við tökum hækkun launa frá upphafi til loka árs eins og ég gerði hér áðan, þá nemur sú hækkun 12% á þessu ári, er spáin. Spáð er að verðbólga verði 25%. Hæstv. forsrh. sagði hér í þessum ræðustól áðan og var montinn yfir að gengi krónunnar hefði fallið um 30% síðan í september í fyrra. Það þýðir, ef rétt er með farið, að erlendur gjaldeyrir hefur á þessu sama tímabili hækkað um 42,9%. Nú hygg ég að vísu að hæstv. forsrh. fari ekki rétt með. Ég hygg að hann ruglist á tölum eins og stundum áður. Ætli það sé ekki nær lagi að gengið hafi fallið um 25% eða svo. Ég hef það ekki hjá mér. En hitt liggur ljóst fyrir að gengisfellingin hefur verið veruleg og þótti mér vænt um að heyra það hjá hæstv. viðskrh. að hann taldi það nú helst sér til gildis í sínum ræðustól áðan að hann hefði mjög beitt sér fyrir því að gengið hefði fallið síðan þessi ríkisstjórn var mynduð.
    Hæstv. forsrh. talaði um fast gengi á árunum 1987 og fram eftir ári 1988. Ég og viðskrh. vitum báðir að hæstv. forsrh. fer þar með rangt mál. Við vitum báðir tveir, ég og viðskrh., að gengið var fellt um 6% í febrúarmánuði 1988. Við vitum báðir að gengið var fellt um 10% í maímánuði 1988 og við vitum að þá var gefin heimild til þess að gengið mundi síga um 3% til viðbótar. Við vitum meira að segja líka báðir tveir að það var Alþfl. og hæstv. viðskrh. sem stóðu gegn því í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar að sú gengisheimild væri notuð en um leið og nýja ríkisstjórnin var mynduð fór hæstv. viðskrh. og þáv. hæstv. utanrrh. fram á það við Seðlabankann að þetta gengissvigrúm yrði notað af Seðlabankanum áður en ný ríkisstjórn yrði mynduð. Á þessum tíma féll gengið með öðrum orðum um tæp 20%. Ég býst við að hæstv. viðskrh. hafi haft það í huga, þegar hann talaði áðan um það hvað sér hefði tekist vel að fella gengið síðan, að hann hefði of seint skilið þann sannleik sem fólst í stefnumörkun okkar sjálfstæðismanna, bæði vorið 1988 og eins um haustið, að óhjákvæmilegt væri að leiðrétta gengisskráninguna. Með öðrum hætti væri óhugsandi að komast að þeirri niðurstöðu að rétt sé að fella gengið --- eigum við að nota tölu forsrh.? --- um 30% síðan, miðað við þær almennu launahækkanir sem hafa orðið á þessu tímabili og miðað við þær breytingar sem hafa orðið á stöðu atvinnuveganna á þessu tímabili. Spurningin er auðvitað þessi: Hvers vegna miðar ekki hæstv. viðskrh. raungengið við þann tíma þegar hann var viðskrh. síðustu mánuðina í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar þegar hann talar um óskastöðuna?
    Mér þykir slæmt að hæstv. forsrh. skyldi ekki hafa svarað þeirri spurningu nema út í hött hvort rétt væri hjá hæstv. hagstofuráðherra að málefni skipasmíðaiðnaðarins hefðu ekki verið rædd í ríkisstjórninni síðan hún var mynduð til loka

októbermánaðar, hvað sem síðan hefur verið.
    Þetta er athyglisvert, líka í ljósi þess að hæstv. hagstofuráðherra lýsti því hér yfir í dag, í þessum stól, að það væri búið að fela honum atvinnustefnu innan þessarar ríkisstjórnar. Þar með er auðvitað búið að fela honum um leið að marka stefnuna í málefnum skipasmíðaiðnaðarins og má kannski segja að það sé eina vonin fyrir skipasmíðaiðnaðinn eftir að hæstv. iðnrh. var svo smekklegur að segja áðan að við Íslendingar ættum að þiggja styrki,
erlenda ríkisstyrki, til útgerðarinnar. Við ættum ekki að reyna að standa á bak við íslenska skipasmíði, en meðan okkur gæfist kostur á því að fá 26--36% ríkisstyrk hjá þjóðum Efnahagsbandalagsins ættum við að þiggja það.
    Ég vil minna hæstv. iðnrh. á það að þegar hæstv. forsrh. skrifaði aðilum vinnumarkaðarins bréf í tengslum við kjarasamningana á sl. vori var tekið sérstaklega fram að það ætti að tryggja stöðu íslenskra útflutningsatvinnuvega, og það er ekki hægt að líta á skipasmíðarnar öðruvísi. Það sannaði sig m.a. í sambandi við Kanadaskipin og í sambandi við þá tækniþekkingu sem verið er að tala um að íslenskar skipasmíðastöðvar geti flutt úr landinu.
    Ég hygg að hæstv. iðnrh. sé mér sammála um það að það sé of þröng skilgreining að segja að íslenskur skipasmíðaiðnaður sé ekki útflutningsiðnaður. En ef átti að tryggja íslenska skipasmíðaiðnaðinum samkeppnisstöðu, hvernig getum við þá fallist á það um leið að rekstrarskilyrðin eigi að vera allt önnur? Eða gleymdist að segja í bréfinu að
það ætti að tryggja íslenskum útflutningsatvinnuvegum, öðrum en skipasmíðaiðnaði, eðlilega samkeppnisstöðu við þessar greinar í erlendum löndum? Það má vel vera að það sé hugsun ráðherrans. A.m.k. kom það fram hjá hæstv. sjútvrh. hér áðan að hann hafði allt á hornum sér um það að hægt yrði að nota það fiskiskip sem nú er í smíðum í Slippstöðinni fyrir norðan, en hann tók ekki alveg fyrir það að hann væri til í það að leyfa smíði fiskiskipa erlendis á sama tíma og þetta skip er í Slippstöðinni norður á Akureyri. Það er stolt atarna fyrir íslenskum atvinnuvegum, að horfa upp á atvinnuleysið, ráðast gegn stjórn Slippstöðvarinnar fyrir það að hún skyldi hafa heimilað smíði skipsins á árinu 1987, eins og hæstv. sjútvrh. gerði, en segja síðan í lokaorðum sinnar ræðu að hann hefði ekki séð annað en að sæmileg atvinna hafi verið í íslenskum skipasmíðastöðvum og ekki hefði verið hægt að bæta þar við verkefnum. Hvernig getur hann gert hvort tveggja í senn, að ráðast að þeim mönnum sem samþykktu verkefnin en hrósa sér svo sem stjórnmálamanni af því á eftir að ekki kom til uppsagnar í Slippstöðinni fyrir einu eða tveimur árum? Þetta er auðvitað spurning sem hann verður að svara og ég hefði knúið svara við ef hann hefði verið hér í kvöld. Hið sama er að segja um raðsmíðaskipin. Það var atvinna vegna þeirra, af því að þau voru hér. Þess vegna kom ekki til uppsagna í Slippstöðinni. Og ég hygg að bæði hæstv. iðnrh. og hæstv. sjútvrh., ef

maður talar við þá í ró og næði, báðir þessir menn muni samþykkja það að ógjörningur er með öllu að halda uppi svo stórri, svo fullkominni og tæknilega vel útbúinni stöð sem Slippstöðin á Akureyri er ef hún á ekki að fá burðarverkefni eins og skipasmíðar þegar að kreppir.
    Í þeirri skýrslu sem hið enska ráðgjafarfyrirtæki Appledore samdi fyrir iðnrh. er varpað fram einni spurningu, að hætta skipasmíðum. Um það segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Frammi fyrir skorti á pöntunum, lélegri fjárhagsstöðu og harðri samkeppni er þetta vissulega möguleiki á Íslandi ...`` --- Ja, svo stendur þetta, herra forseti. --- ,,og gæti gerst að einhverju leyti vegna ,,eðlilegra`` markaðsafla ef ekkert er gert til þess að endurskipuleggja iðnaðinn. Þetta er þó ekki álitinn álitlegur kostur fyrir Ísland vegna eftirgreindra ástæðna:
    Sjávarútvegurinn þarfnast lágmarksþjónustu sem þarf að vera tiltæk á staðnum. Það tap kunnáttu og tækni sem fylgir mundi verða til tjóns fyrir litla eyþjóð sem reiðir sig mjög mikið á fiskiflota sinn. Atvinnutækifærum mundi fækka mjög mikið og vandamálið vegna flutnings vinnuafls til Reykjavíkur mun aukast. Það mun hafa óhagstæð áhrif á vöruskiptajöfnuðinn að öll vinna við flotann verði að gerast erlendis.
    Mat APA hefur sýnt að iðnaðurinn á möguleika á að verða samkeppnishæfur með endurskipulagningu. Þegar alls er gætt er því álitið að það sé ekki álitlegur kostur fyrir Ísland að leyfa iðnaðinum að hnigna.`` --- Ég endurtek: ,,að leyfa iðnaðinum að hnigna.``
    Nú er spurning: Telur hæstv. iðnrh. að iðnaðinum hnigni ef Slippstöðinni á Akureyri er lokað, þegar búið er að loka Slippstöðinni í Stykkishólmi, þegar Stálvík er lokuð, þegar við horfum fram á það að Þorgeir og Ellert hafa ekki verkefni þegar þeirri nýsmíði er lokið sem nú er verið að vinna að? Og ég ítreka þá spurningu sem ég kom með hér fyrr í dag: Hefur það verið rætt innan ríkisstjórnarinnar að þær endurbætur sem boðnar voru út vegna Árna Friðrikssonar verði unnar hér á landi og lægsta íslenska tilboðinu tekið? Það þýðir lítið að tala um einhverja spillingu í sjávarútvegi af þeim sökum, að útvegsmenn muni kappkosta að kaupa ný og ný skip ef skipasmíðaiðnaður er niðurgreiddur eins og hæstv. sjútvrh. gerði. Eða vill kannski hæstv. iðnrh. frekar þiggja ölmusuna hina erlendu og segja upp fólkinu á Akranesi? Er það hugmyndin? Er það það sem á að gera?
    Ég tók eftir því að Árni Gunnarsson, hv. 3. þm. Norðurl. e., fann að því að ég skyldi hafa talað um að hæstv. iðnrh. hefði kallað forstjóra Slippstöðvarinnar, stjórnarformann og stjórnarmann inn á teppið. Hann sagði að stjórn Slippstöðvarinnar hefði að fyrra bragði óskað þess við hæstv. iðnrh. að fá að ræða við hann um ástandið í skipasmíðaiðnaðinum og ástand Slippstöðvarinnar sérstaklega.
    Í frétt Ríkisútvarpsins var þetta öðruvísi. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Jón Sigurðsson segir að hann hafi verið í sambandi við forustumenn Slippstöðvarinnar. Hann segist hafa heimsótt stöðina í september sl. og fylgst með stöðu þess um langt skeið. Sl. föstudag hafi hann kallað á sinn fund stjórnarformann hennar, forstjóra og einn stjórnarmann.``
    Þetta verður ekki skilið öðruvísi, hæstv. iðnrh., en svo að frumkvæðið hafi verið hans, iðnrh., hann hafi fylgst með rekstri Slippstöðvarinnar um nokkurt skeið og séð ástæðu til þess að kalla stjórnarmenn fyrir sig og forstjóra Slippstöðvarinnar. Hæstv. iðnrh. er smekkmaður á íslenskt mál og ég veit að hann finnur að ég hef rétt fyrir mér, en ekki get ég fundið að því þótt hæstv. iðnrh. leiðrétti sig og lýsi því hér yfir að hann hafi ætlað að segja annað en hann sagði. ( Viðskrh.: Hver segir að ég hafi sagt þetta, Halldór minn? Þetta
er ómerkilegur orðhengilsháttur og ekki sæmandi þingmanni hér.) Hæstv. ráðherra sagði: ,,Hver segir að ég hafi sagt þetta? Þetta er ómerkilegur orðhengilsháttur og ekki sæmandi þingmanni hér.`` Kannski ég megi þá aftur spyrja: Er þessi setning ekki heldur höfð eftir hæstv. iðnrh.? Með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í hana hafi verið ráðist fyrir um tveim árum án þess að séð hefði verið fyrir því hvernig verkefnið gæti aflað fyrirtækinu tekna og ekki hafi verið hugað að því hvernig það félli inn í reglur um stjórn fiskveiða og reglur um sölu og skipti á skipum.``
    Sagði hæstv. iðnrh. þetta? ( Viðskrh.: Þetta er staðreynd í málinu.) Er þetta staðreynd í málinu? Gengur hæstv. iðnrh. svo langt að segja að ég hafi sagt ósatt um þetta atriði? Gengur hann svo langt? ( Viðskrh.: Ég sagði: Þetta eru staðreyndir málsins.) Eru þetta staðreyndir málsins?
    Það verður náttúrlega fróðlegt að bera þeim starfsmönnum Slippstöðvarinnar sem unnu að undirbúningi þessa skips þessa kveðju hæstv. iðnrh., að þeir hafi ekki hugað að reglum um stjórn fiskveiða og með hvaða hætti mætti skipta út skipi, og hann ætlar að standa við það. Ég skal láta kanna hitt, hæstv. iðnrh., uppi í Ríkisútvarpi, hvort Ríkisútvarpið hafi farið rangt með ummæli ráðherrans. Ég mun láta gera það, biðja hæstvirtan fréttamann að hlusta nú á segulbandið og athuga hvort hann hafi farið rétt með ummæli ráðherrans, líka varðandi hitt atriðið. Ég veit að þetta eru ósannindi og ég sagði, hæstv. forseti, þgar ég bað um þessa umræðu að ég mundi biðja um hana vegna þess að ráðherrar færu með ósannindi og þeir hafa gert það.
    Hæstv. fjmrh. sagði hér við umræður um fjárlög að engin nefnd starfaði að því að vinna að breytingu á skattalögum í samræmi við yfirlýsingu hæstv. forsrh. í vor. Hæstv. iðnrh. segir að þessi nefnd sé til og segir að hún hafi starfað. Og þá langar mig að spyrja hæstv. iðnrh. hvort nefndin sem hann talaði um sé búin að skila hæstv. fjmrh. tillögum um breytingar á skattalögum í samræmi við yfirlýsingu forsrh. um það í vor að skattareglur hér yrðu sambærilegar við það sem gerist í löndum Efnahagsbandalagsins.

    Ég veit ekki hvort ég man rétt síðan í maí. Mig minnir að hæstv. iðnrh. hafi þá notað orðið ,,fljótlega``. Nú kannaðist hæstv. fjmrh. ekkert við þetta. Hann sagði að talsmenn vinnuveitenda mundu bara standa frammi fyrir því sem ríkisstjórnin ákvæði. En er hæstv. iðnrh. búinn að skila þessum tillögum til hæstv. fjmrh.? Veit hæstv. fjmrh. hvað iðnaðurinn er að hugsa? Var það kannski niðurstaða þessarar nefndar, hæstv. iðnrh., að búið er að leggja hér fram á Alþingi frv. um það að gjalddagi launaskatts skuli vera einu sinni í mánuði? Í grg. er sérstaklega talað um að með þessu sé verið að liðka fyrir ríkissjóði, þetta bæti hag ríkissjóðs en bitni á iðnaðinum í landinu sem launaskattinn greiðir eins og hæstv. ráðherra veit. Var þetta samþykkt í nefndinni eða er þetta á móti þeim hugmyndum sem komu í nefndinni? Er ekki hægt að fá já eða nei við því hvort þessi nefnd hæstv. iðnrh. hefur sent hæstv. fjmrh. blað um það hvernig hún vilji breyta lögum um tekjuskatt? Það er komið fram í október, nóvember meira að segja, og skattalögin eru óðum að berast á borð þingmanna. Er ekki einu sinni hægt að segja já við því að fjmrh. hafi séð þetta blað? Ekki nei? Hæstv. forsrh. fer undan í flæmingi ef hann er spurður. Er hægt að fá svar við því hvort hæstv. iðnrh. hefur rætt málefni skipasmíðaiðnaðarins í ríkisstjórn eftir að þessi ríkisstjórn var mynduð? Hvor segir satt, ráðherra Hagstofu eða forsrh. um þau mál? Vill ekki hæstv. iðnrh. upplýsa okkur hér, með jái eða neii, hvort málefni skipasmíðaiðnaðarins hafi verið rædd í ríkisstjórninni, og þá hvenær, eftir að þessi ríkisstjórn var mynduð? --- Ekki orð. Stundum grípur hæstv. iðnrh. fram í. Hann er ekki alltaf sannheilagur í þeim efnum, en nú vill hann ekkert segja. Gallinn við þetta er auðvitað sá, sem maður hefur áður orðið var við, að þó að ráðherrar séu þannig staðnir að því að vilja ekki svara knýjandi spurningum hafa þeir komist upp með það gagnvart fjölmiðlum að þeir láta kyrrt liggja ef svarið kemur ekki í þingsölunum. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort fjölmiðlar muni knýja þessa menn til sagnar um það, eins og við reynum hér í þingsölum, hvað sé rétt í þessu máli. Það verður fróðlegt að sjá það.
    Aðhald í ríkisfjármálum, segir hæstv. iðnrh. Hann hafi gert tvennt gott: Hann hafi lækkað gengið og hann hafi sýnt aðhald í ríkisfjármálum. Í hverju er þetta aðhald fólgið? Hv. þm. Karvel Pálmason segir að skattarnir séu of háir.
    Við vorum að fá fjáraukalög á borðið til okkar. Ég held að það hafi verið fyrir helgina. Næstu helgi á undan fengum við á borðið til okkar nýtt frv. til lánsfjárlaga vegna ársins 1989. Á þessari einu viku hefur hallinn á ríkissjóði aukist um litlar 100 millj. kr. og rúmlega það, á einni viku. Og ef við lítum á t.d. samneysluna, þá fer hún vaxandi í þessu þjóðfélagi á sama tíma og kaupmáttur rýrnar, á sama tíma og fyrirtækin hafa minna fyrir sig að leggja.
    Hæstv. iðnrh. sagðist telja að við, sem vorum í stjórn Slippstöðvarinnar fyrir tveim árum, hefðum unnið í þeim anda að láta ríkið koma og bjarga

fyrirtækinu eftir á. Og hæstv. iðnrh. segist hafa kynnt sér rekstur Slippstöðvarinnar. Veit hæstv. iðnrh. hversu mikið fé er bundið hjá
Slippstöðinni á Akureyri vegna þess að útvegsmenn geta ekki greitt fyrir þær viðgerðir og endurbætur sem þar hafa farið fram á þessu ári? Veit hann hversu mikið er útistandandi? Gerir hann sér grein fyrir því hversu illa sjávarútvegurinn er staddur hér á landi, þeim gífurlegu greiðsluerfiðleikum sem hann stendur frammi fyrir? Ef hann gerði það má myndi hann ekki segja eins og hann sagði: ,,Það er þetta eina verk sem veldur þessum erfiðleikum.`` Auðvitað bindur þetta verk fé fyrir Slippstöðinni, en staða hennar var mjög góð og hún var rekin með hagnaði á sl. ári þó svo skipið hafi verið afskrifað um 60 millj. kr. En hversu mikið fé skyldi vera útistandandi? Fleiri en einn maður í skipasmíðaiðnaði hefur sagt við mig að það sé undarlegt þegar ráðamenn séu að segja: Af hverju vararðu þig ekki á útgerðarmönnunum? Þú ættir að þekkja þá, þú ættir að vita hvernig þeir standa. En málið er ekki svona. Góð fyrirtæki fyrir einu ári, fyrir tveimur árum standa nú höllum fæti og eru í erfiðleikum með að sjá og annast um nauðsynlegasta viðhald.
    Hæstv. sjútvrh. hafði það eftir mér að ég hefði sagt að launin skiptu ekki máli í þessu þjóðfélagi. Þetta var rangt haft eftir, enda var hann miður sín. Það sem ég sagði var: Þegar búið er að skerða kjörin eins og gert hefur verið sl. tvö ár, þá er ekki hægt að segja lengur að launin séu vandamál í þessu þjóðfélagi. Vandamálin eru verðbólgan, vandamálin eru ríkisstjórnin og skattarnir og vandamálin eru hinir háu nafnvextir og háu raunvextir sem hér er haldið uppi vegna þeirrar miklu þenslu sem er á launamarkaði vegna lánsfjárþarfar ríkissjóðs eins og ég minntist á í minni fyrri ræðu. Það er raunar slæmt að hafa ekki hæstv. sjútvrh. hér, sú umræða verður að bíða betri tíma.
    Ég ætla að minnast að lokum á eitt atriði, hæstv. forseti, og það eru þau ummæli hæstv. sjútvrh. að hann skilji ekki þá menn sem ákváðu að smíða skipið í Slippstöðinni. Hann sagði að sér hefði aldrei litist á það plan og sagði að þeir sem tóku þessa ákvörðun hefðu skert möguleika fyrirtækisins til langrar framtíðar. Svo mörg voru þau orð. Mér finnst það mikil hreysti þegar horft er á atvinnuástandið í landinu, þegar íhugað er hversu margir eru atvinnulausir hér að eina misfellan sem sjútvrh. sá var sú að þegar allt önnur ríkisstjórn var við völd, spár um þorskstofna komandi var tiltölulega mjög góð, bjartsýni ríkti í landinu, þá skyldu menn láta sér detta í hug að hægt væri að halda uppi fullri atvinnu í Slippstöðinni á Akureyri. Auðvitað get ég tekið undir með sjútvrh. og sagt: Ef maður hefði vitað hvað biði íslenskrar þjóðar, þá er vafasamt að ráðist hefði verið í þessa framkvæmd frekar en margar aðrar sem gert hefur verið því allt er það heldur niður á við sem gerist hér í efnahags- og atvinnumálum upp á síðkastið. Þó er þetta versta lexía núna þegar hæstv. sjútvrh. dauðadæmir þetta skip, en lætur jafnframt í

það skína að til mála komi að skip verði flutt inn erlendis frá. Þó hann hafi ekki verið að hrósa því, þá hélt hann þó þeim möguleika opnum.
    Í fréttatilkynningu frá Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja sem dags. var 2. nóv. segir í niðurlagi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Félagið hefur ítrekað bent á leiðir til að jafna aðstöðu skipaiðnaðarins, svo sem að auka mismun lána til verkefna innan lands og erlendis, að tryggja jafnræði í bankaábyrgðum til samræmis við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 2. des. 1986, að auðvelda innlendum stöðvum að taka eldri skip upp í ný. --- Ég endurtek: að auðvelda innlendum stöðvum að taka eldri skip upp í ný. --- Að tryggt sé að leitað sé eftir tilboðum innan lands og tilboð séu metin á viðskiptalegum grundvelli áður en lánveitingar eru ákveðnar. Félagið hefur jafnan talað fyrir daufum eyrum ráðamanna. Hér er um fullkomið alvörumál að ræða og síðustu tíðindi sýna að skjótra aðgerða er þörf.``
    Enginn þeirra ráðherra sem hér hafa talað í dag hefur léð máls á því að innlendum stöðvum verði auðveldað að taka eldri skip upp í ný. Á sama tíma er það viðurkennt að erlendar skipasmíðastöðvar í löndum Efnahagsbandalagsins fá 26--36% ríkisstyrk. Umræðan í þjóðfélaginu nú snýst um það að við eigum að aðlagast hinum evrópska markaði og við eigum að fara eftir leikreglum þess markaðar. Við Íslendingar erum fámenn, lítil þjóð. Við getum ekki vænst þess að við getum hvarvetna verið samkeppnishæfir við það besta sem gerist í þessum löndum. Skýringin á innflutningi á t.d. kökubotnum erlendis frá er sú að þeir eru miklu ódýrari í framleiðslu í hinum stóru verksmiðjum erlendis en í okkar litlu brauðgerðum þar sem sami maðurinn verður að einbeita sér að margvíslegum brauð- og kökutegundum samtímis. Á mörgum, ótalmörgum öðrum sviðum getum við ekki vænst þess, þessar fáu hræður, að við stöndum erlendri samkeppni snúning og allra síst núna þegar ástandið í atvinnuvegum er þannig að fjárfesting í búnaði, tækjabúnaði og hugbúnaði, í vöruþróun er undir lágmarki. Ég veit satt að segja ekki hvernig þeir menn sem glaðast tala um hinn sameiginlega markað hugsa sér Ísland. En við eigum að búast við því að við þolum hvað sem er hér, að við eigum að vera með eitthvert frelsi innan okkar landamæra sem engum erlendum mönnum dettur í hug að hafa í sínu landi.
    Ég segi, hæstv. forseti, það er ekki ofrausn þótt reynt sé að auðvelda innlendum skipasmíðastöðvum að taka eldri skip upp í ný. Það er ekki ofrausn
þótt brugðist sé við óeðlilegri, erlendri samkeppni með viðeigandi hætti. Ég viðurkenni að skipasmíðaiðnaðurinn hefur marga menn í þjónustu sinni og ég viðurkenni að við erum þar að tala um mjög háar tölur. Eigi að síður blasir við að í smærri iðngreinum hafa verið veitt sérstök samkeppnislán með vildarkjörum hjá útflutningssjóði. Skipasmíðaiðnaðurinn var talinn of stór fyrir þennan sjóð. Það dugir ekki að segja í öðru orðinu: Við

viljum viðhalda þessum iðnaði til þess að íslensk skip, þegar þau þurfa á að halda, geti fengið þá þjónustu sem best er í veröldinni. Það dugir ekki að setja niður á pappír að verkþekking í fiskiskipaiðnaði hér á landi sé meiri en víðast annars staðar, ef við höfum ekki kjark til þess að nýta okkur þessa þekkingu og leyfa þeim mönnum sem búa yfir henni að spreyta sig á nýjum verkefnum. Ég tók eftir því að ráðherra Hagstofu talaði um að það ætti að koma í hlut íslenskra skipahönnuða, verkfræðinga, að stjórna verkum í skipasmíðastöðvum erlendis þar sem vinnuafl er ódýrara. Ég segi á hinn bóginn að okkur sé nauðsynlegt að standa vörð um járnsmíða- og vélsmíðaiðnað okkar Íslendinga sem stendur nú svo höllum fæti að smiðjur í þessari iðngrein hafa margar orðið gjaldþrota á umliðnum mánuðum og í ýmsum þeim sjávarplássum þar sem fyrir nokkrum árum voru lífleg verkstæði eru nú lokaðar dyr. En þetta getum við auðvitað ekki gert nema við viðurkennum sérstöðu skipasmíðaiðnaðarins og göngum til þess verks með opnum hug að rétta hlut hans. Þetta er ekki aðeins spurning um það hvað hæstv. ráðherra finnst og þetta er ekki spurning um það hvað hæstv. ríkisstjórn finnst. Alþingi hefur sagt vilja sinn í þessu máli með þál. frá sl. vori. Það mun vitaskuld reyna á það hér á Alþingi hvort hæstv. ráðherra standi við það að koma því í verk sem honum hefur verið falið.
    Það má vel vera að nauðsynlegt kunni að vera að taka málið upp aftur með öðrum hætti, ég skal ekki fortaka það. En hitt er alger misskilningur ef hæstv. ráðherra heldur að hann komist upp með það og ríkisstjórnin komist upp með það að aftur líði tveir mánuðir án þess að skipasmíðaiðnaðurinn sé ræddur í ríkisstjórn Íslands.
    Sumir alþm. sem styðja þessa ríkisstjórn, hæstv. forseti, hafa brugðið á það ráð að skamma ríkisstjórnina af og til í fjölmiðlum og hér inni í þingsölum svona til þess að þvo hendur sínar. Einn þessara manna er Guðmundur G. Þórarinsson, hv. 10. þm. Reykv. Í sjónvarpsviðtali í kvöld sagði hann að þeir menn sem rækju fiskeldisstöðvar hefðu verið veiddir í gildru á sl. sumri þegar þeir voru hvattir til þess að ala þau seiði sem ekki var markaður fyrir erlendis og leggja í þann kostnað sem fylgdi því. Nú sagðist hann búast við að hrun yrði í þessari atvinnugrein vegna þess að ríkisstjórnin hefði ekki staðið við þau fyrirheit sem hún hefði gefið. Því miður er þetta allt of víða svona. Kannski er það vegna þess að ríkisstjórninni er eins farið og hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmasyni. Hún trúir ekki lengur á að hún geti rétt við atvinnuástandið hér á landi. Hún horfir fram á vaxandi atvinnuleysi. Hún gerir sér grein fyrir því að hún hefur brugðist þeim loforðum sem hún gaf launþegahreyfingunni á sl. vori og hennar síðasta hálmstrá nú er að launþegar þessa lands sætti sig við það að lífskjörin haldi áfram að versna á næstu mánuðum vegna þess að þeir óttist atvinnuleysið svo mjög að þeir muni sætta sig við kjaraskerðinguna. Þannig er ástandið hjá þessari félagshyggjustjórn. Hjá þeirri ríkisstjórn sem á sl.

hausti talaði hæst og mest um það að hér yrði gróandi þjóðlíf, blómstrandi atvinnulíf, batnandi lífskjör. Á sama tíma og hvarvetna í nálægum löndum, meira að segja í Austur-Þýskalandi, blaktir fáni frelsisins við hún er íslenskt atvinnulíf drepið í dróma aukinna ríkisafskipta sem krystalliserast í þeim ógnvænlegu millifærslum opinbers fjár sem lýsa sér í því að frystiiðnaðurinn hefur verið greiddur niður á þessu ári. Ef hæstv. sjútvrh. hefði verið hér inni, þá hefði ég spurt hann: Er það nú öldungis víst að ríkisstjórnin ætli að fella niður styrkinn til frystiiðnaðarins á næsta ári? Ef hann mundi segja já, þá mundi ég aftur spyrja: Staðan í saltfisknum er erfiðari. Saltfiskurinn þarf á því að halda að greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði renni áfram til hans. En óstjórnin síðustu missiri hefur verð slík að það er búið að éta upp sjóði hans. Skýringin á dauðanum í atvinnulífinu er sú að úr ríkissjóði voru greiddar uppbætur til frystingarinnar í gegnum Verðjöfnunarsjóð frystiiðnaðarins og samtímis voru sjóðir saltfisksins opnaðir upp á gátt og nú er búið að eyða þeim. Hefur ríkisstjórnin í hyggju að koma til móts við saltfiskiðnaðinn á næsta ári, ef staða hans verður áfram erfið með sama hætti og komið hefur verið til móts vð frystinguna og greiða honum úr ríkissjóði uppbætur til þess að sú vinnsla geti gengið?