Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Þetta er orðin nokkuð löng umræða. Ég mun þó leitast við að svara, þótt með fáum orðum hljóti að verða, ýmsu af því sem til mín hefur verið beint.
    Hv. 1. þm. Reykv. Friðrik Sophusson nefndi nokkur atriði í sínu máli. Fyrst spurði hann um það hvort ekki kæmi til greina að setja ,,dumping``-toll á erlendar skipasmíðar fyrir íslenskan sjávarútveg. Ég svara því þannig að það komi ekki til greina, jafnvel þar sem bersýnilegt er að niðurgreiðsla eða styrkur hafi fylgt hinni erlendu smíði. Hvers vegna er það? Það er af því að íslenskur sjávarútvegur er í samkeppni við erlendan sjávarútveg sem nýtur aðgangs að skipasmíðum á þessum kjörum. Sjávarútvegurinn er í samkeppni. Hann er okkar lifibrauð og ég man ekki betur en hv. 2. þm. Norðurl. e., málshefjandinn hér í dag hafi fyrir æðimörgum stundum síðan einmitt nefnt það sem eitt af því sem mestu skiptir. Um það er ég honum sammála. Við þurfum að tryggja sjávarútveginum samkeppnisstöðu. Það gerum við ekki með því að leggja toll á innflutning á nauðsynjum hans, skipum eða viðgerðum á þeim.
    Ég man reyndar ekki til þess á þeim tíma sem hv. 1. þm. Reykv. var iðnrh. að hann hafi lagt þetta til, enda nefndi hann það í ræðu sinni að þetta kynni að verða eitthvað erfitt í framkvæmd.
    Hliðstæðan, samjöfnuðurinn, sem hv. 1. þm. Reykv. gerði í máli sínu var sú hvort ekki væri þá rétt að við nytum landbúnaðarniðurgreiðslna frá útlöndum með sömu rökum. Þarna á ekki það sama við. Landbúnaðurinn er ekki í beinni samkeppni við erlendan landbúnað. Það þekkir hv. þm. mætavel. Kannski væri hægt að hugsa sér að sú samkeppni væri eitthvað beinni. Ég bendi líka á, sem öllum er vel kunnugt, að Íslendingar njóta reyndar niðurgreiðslna, útflutningsbóta á kornvöru og ýmsum landbúnaðarvörum sem hér eru ekki framleiddar þegar þær eru keyptar frá svæði Efnahagsbandalagsins. Hins vegar er hér ólíku saman að jafna og ég veit að þessi spurning hv. þm. var, eins og honum er títt, ræðubragð, mælskubragð en ekki efnisleg spurning. En við ræðum hér mikið alvörumál og ég tel það ekki sæmilegt að blanda slíkum hlutum saman eins og reyndar hefur því miður orðið vart í máli hv. málshefjanda, 2. þm. Norðurl. e., að þótt hann hreyfði hér mikilvægu máli, þá hafi hann stundum notað helst til léttvægar aðferðir og rök í sínum málflutningi.
    Hv. 1. þm. Reykv. nefndi réttilega að hann hefði sýnt --- að mínu áliti lofsverðan --- áhuga á málefnum skipaiðnaðarins með því að skrifa viðskiptaráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti á sínum tíma og reyndar iðnrn. í sumar bréf um málefni skipaiðnaðarins. Því bréfi var svarað eins og hann tíundaði hér vandlega. Hann rifjaði upp að Byggðastofnun hefði verið veitt sérstök heimild til erlendrar lántöku til þess að greiða fyrir innlendum skipaviðgerðum. Reyndar er nú aðdragandi þess máls miklu lengri en svo að það hafi gerst í iðnrh.-tíð hv. 1. þm. Reykv. Ég man ekki betur

en þetta hafi staðið lengur og m.a. var á það minnst í bréfi sem hér hefur verið vitnað til í umræðunni sem hæstv. núv. forsrh. Steingrímur Hermannsson skrifaði í septemberbyrjun árið 1986.
    Ég hafði, eins og upp var rifjað, þá skoðun að til greina kæmi að líta á aðra tilhögun um þessa fjárútvegun til skipaiðnaðarins og þá fyrst og fremst með því sjónarmiði að það yrði honum hagfelldara að ætla öðrum að miðla fénu, t.d. viðskiptabönkunum. Ég sannfærðist um það af viðtölum við þm. sem láta sig málið varða, m.a. hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal, og forustumenn Byggðastofnunar og það sem mestu máli skiptir, forustumenn skipaiðnaðarins að það fyrirkomulag að veita viðgerðalánin um reikninga Byggðastofnunar væri það sem einfaldast og heppilegast væri. Þess vegna hefur þetta verið svo, bæði í fyrra og verður, ef lánsfjárlög verða samþykkt eins og tillaga er um hér í þinginu, nú einnig á næsta ári.
    Hv. 1. þm. Reykv. rifjaði upp að hann hefði beitt sér fyrir skýrslugerð breska ráðgjafarfyrirtækisins Appledore og sjútvrh. hefði tekið þátt í því og beitt sér fyrir þátttöku lánasjóða sjávarútvegsins. Það var rétt og skynsamlegt af hv. 1. þm. Reykv. að rifja þetta upp og ég tek það fram að ég er honum alveg sammála um að það var mikilvægt að fá sjávarútveginn til samstarfs í málinu. Það samstarf hefur staðið síðan og ég mun lýsa því að
nokkru hér á eftir hvernig ég hyggst reyna að standa að því þegar ég kem að fleiri atriðum í máli hv. 1. þm. Reykv.
    Hv. 1. þm. Reykv. hélt því fram að ég sæi ekki þörfina fyrir bankaábyrgðir með sömu reglum fyrir innlendar skipaviðgerðir og smíði eins og þegar um erlendar skipasmíðar væri að ræða fyrir innlendar útgerðir. Þetta er alls ekki rétt lýsing á því sem ég hef fram fært í málinu. Ég hef lýst því yfir að ég vilji beita mér fyrir því að jafn aðgangur verði að fjármagni, hvort sem skipaiðnaðarverkefnin eru unnin hér á landi eða erlendis. Ég hef líka bent á það varðandi ábyrgðirnar að það sé óeðlilegt að innlendir aðilar, sem hafa verið í traustum viðskiptasamböndum, fari að gera kröfur um bankaábyrgðir upp úr þurru og taka fyrir þau gjöld því að auðvitað mundu þau leggjast á
viðskiptin. Þetta er þarflaust þegar ekki er viðskiptaleg ástæða fyrir því. Hins vegar legg ég á það mikla áherslu, og m.a. hef ég gert það í bréfaskrifum mínum til lánastofnana, að bankar og fjárfestingarsjóðir mismuni ekki sínum viðskiptavinum eftir því hvort um verkefni innan lands eða utan er að ræða. Hv. 1. þm. Reykv. spyr hvað þessu líði, hverju hafi fengist framgengt. Ég ætla nú ekki að miklast af því að þarna hafi orðið mikill árangur. Þó vona ég, og þá kem ég aftur að samstarfi því sem tekist hefur við aðila í iðnaðinum og við þá vil ég hafa gott samstarf, að fylgt verði eftir ábendingum Appledore-skýrslunnar. Starfshópur er að verki í því máli og hefur m.a. fjallað um bankaábyrgðirnar. Ég hyggst fylgja því eftir en eingöngu þannig að ekki sé verið að leggja

ónauðsynleg ábyrgðargjöld á íslenskan sjávarútveg og um það veit ég að hv. 1. þm. Reykv. er mér sammála.
    Ég þekki til skipasmíðastöðva og skipaviðgerðarstöðva sem þekkja suma af sínum viðskiptavinum svo vel að þeir segja: Ég vil ekki eiga peninga hjá nokkrum manni frekar. Eigum við að fara að gera það að almennri reglu að það verði tekið bankaábyrgðargjald af manni eða fyrirtæki sem alltaf hefur staðið í skilum bara af því að ríkið vilji hafa það svoleiðis? Ég ætla ekki hv. 1. þm. Reykv. að hann hafi átt við þetta þó það hafi mátt skilja hans orð á þann veg.
    Það kom mjög glöggt fram í máli hv. 1. þm. Reykv. að hann er þeim sammála sem halda því fram að afkastagetan í skipaiðnaðinum sé of mikil. Það verður auðvitað bersýnilegra þegar litið er á verkefnin fram undan. Þau eru einfaldlega minni af því að íslenskur sjávarútvegur er nú að koma út úr enn einni endurnýjunaröldunni eftir góðæri í sjávarútvegi og horfir fram á minnkandi verkefni. Það er ekki verkefni stjórnvalda og ekki skynsamlegt viðfangsefni að skaffa skipasmíðaverkefni hvað sem slíkri sveiflu líður, hvað sem eftirspurninni líður. Sem betur fer hafa stjórnvöld ekki skipunarvald yfir íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum til þess að segja þeim að kaupa bara skipin hvort sem þau þurfa á þeim að halda og borga fyrir þau það sem þarf. Ef það er stefnan, þá stefnum við beint til Póllands --- ,,fyrir breytingarnar``.
    Ég kem þá að máli hv. þm. Árna Gunnarssonar. Hann rifjaði réttilega upp bréf hæstv. núv. forsrh. Steingríms Hermannssonar frá því í september 1986. Í því bréfi var getið fjögurra atriða, sem öll eru enn til athugunar, um það að þess verði freistað að leita tilboða í verk áður en lánveitingar eru ákveðnar. Ég minni í því sambandi á svar viðskrn. frá árinu 1988 við erindi iðnrh., sem þá var 1. þm. Reykv., um það að nú væri eðlilegra að slíkt aðhald og trygging fyrir sanngjarnri samkeppni við innlendan iðnað kæmi frá Fiskveiðasjóði. Þetta er enn mín skoðun. Þess vegna er það einmitt æskilegt að fá fulltrúa frá iðnaðinum í stjórn þessa sjóðs. Það er enn mín tillaga m.a. af því að ég tel að með endurskipulagningu á bankakerfinu og þar á meðal þeim bönkum sem standa að stjórnum í þessum sjóðum, bæði Iðnlánasjóði og Fiskveiðasjóði, þurfi hvort sem er að breyta þessari stjórnarskipan, m.a. af því að um næstu áramót hefur göngu sína ný lánastofnun, Íslandsbanki hf., þar sem búið er að stokka upp spilin og þegar af þeirri ástæðu verður nauðsynlegt að endurskoða skipun stjórnar í Fiskveiðasjóði. Það er kannski ástæðan fyrir því að þarna hefur ekki fengist niðurstaða enn. Ég held því alls ekki fram að það sé sammæli í ríkisstjórninni um það að þetta eigi að verða eins og ég hef lagt til. Hins vegar segi ég skýrt hvert sé mitt álit í málinu og mun tala fyrir því.
    Annað atriði sem rifjað var upp úr bréfi forsrh. var áhersla lögð á það að bankaábyrgðir væru sambærilegar fyrir innlend og erlend viðskipti. Ég er

hér algerlega sammála. Spurningin er, hvað er sambærilegt og hvað eru sömu aðstæður? Það er þess vegna sem í þessum orðum felst svarið við því sem kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv.
    Í þriðja lagi var nefnd lántökuheimild til Byggðastofnunar eða Byggðasjóðs til þess að tryggja 80% lánahlutfall við innlend verkefni. Það hlutfall hefur reyndar nú í sumum tilfellum farið hærra eða upp í 85% á þessu ári fyrir tilverknað bæði þings, Byggðastofnunar og reyndar að tillögu fleiri aðila.
    Í fjórða lagi voru svo nefnd samkeppnislán sem Iðnlánasjóður ætti að veita þegar mæta þurfi undirboðstilboði.
    Nú spyr ég og hlýt að gera það: Þau tvö ár sem liðu frá því í byrjun september 1986 þar til í lok september 1988 fór Sjálfstfl. með iðnaðarmálin. Líklega fór sá flokkur með viðskiptamálin líka á þessum tíma og fjármálin; hvers vegna gerðist ekkert á þessum tíma sem telja verður nokkuð langan, tvö ár, á þeim tíma sem breytingarnar urðu í skipaiðnaðinum og við þekkjum vel? Finnist hv. málshefjanda, 2. þm. Norðurl. e., tveggja mánaða tími langur, þá hlýtur honum að finnast óskaplega langt, heil eilífð, að tvö ár líði án þess að nokkuð gerist í málinu. Þetta eru eðlilegar spurningar. Ég tel að það hafi fyrr á þessu ári nokkuð áunnist í öllum málunum fjórum vegna þess að hreyfing í þeim verður þó á þessu ári, m.a. á grundvelli skynsamlegrar undirstöðu sem lögð var af hv. 1. þm. Reykv., þáv. iðnrh., með því að kveðja til Appledore skýrslugerðarmennina. Þetta er ekki sagt af því að ég vilji sakast við menn um liðna tíð eða orðna hluti. Þetta bara er svona.
    Og af því að hér hefur verið á orði haft hvort rætt hafi verið meira eða minna í ríkisstjórninni um málefni skipaiðnaðarins, þá vil ég taka það fram að ég hef að sjálfsögðu átt viðræður við félaga mína í ríkisstjórninni um skipaiðnaðinn þótt þau mál kunni ekki að hafa verið formlega á dagskrá ríkisstjórnarfunda, enda er það ekki mælikvarði á athafnasemi ríkisstjórna heldur það starf sem fram fer á vegum ráðuneytanna. Eins og kunnugt er er ríkisstjórnin ekki fjölskipað stjórnvald.
    Það fór einmitt mjög vel á því hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. Árna Gunnarssyni að rifja upp þessi bréfaskipti frá árinu 1986. Það var líka rétt sem kom fram hjá honum að skilaboðin frá þessari umræðu hér í þinginu eigi að vera þau að allt sé gert sem unnt er að gera til þess að koma í veg fyrir hrun skipaiðnaðarins. Hins vegar verðum við að miða við þau verkefni sem fyrir liggja, en ekki einhver gerviverkefni. Endurskipulagning á iðnaðinum, aukið samstarf, fyrirtækjanet, eins og hv. 1. þm. Reykv. nefndi, eru lausnir sem líta þarf á og verður líka gert, m.a. í starfi þeirra manna sem ég hef kvatt til til þess að leggja á ráðin um það hvernig best sé að fylgja ábendingum Appledore-skýrslunnar. Og þar er reyndar fjallað um öll þau atriði sem nefnd voru í ályktun Félags dráttarbrauta og skipasmiðja sem hv. 2. þm. Norðurl. e., málshefjandinn, hefur vitnað hér til a.m.k. tvisvar ef ekki þrisvar sinnum. Það er líka gott vegna

þess að þetta eru nokkurn veginn sömu atriðin og voru í bréfinu góða sem til er vitnað frá því í september 1986.
    Ég skil vel óþolinmæði þeirra manna sem telja að það þurfi að laga þessar aðstæður. En ég skil ekki hversu góða biðlund og þolinmæði þeir sýndu, þessir sömu menn, þessi tvö löngu ár og spyr um það hvað valdið hafi. Hv. 5. þm. Vesturl. spurði hvort ekki kæmi til greina að endurskoða skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, m.a. með tilliti til þess að atvinnuástand væri nú einna lakast í verslunar- og þjónustugreinum, ekki síst hér um suðvestanvert landið. Ég tek það fram að ég hef verið talsmaður þess að þessi skattur verði lækkaður, jafnvel lagður af í tengslum við þá endurskoðun sem fram þarf að fara á eignarskattlagningu í landinu og skattlagningu tekna af eignum. Þessi skattur, eins og réttilega var nefnt af þm., mismunar atvinnugreinum. Hann var reyndar lækkaður í vor frá því sem áformað var með fjárlögum. Ég vil láta líta á þetta að nýju en tek það auðvitað fram að ég er hér ekki að tala fyrir hönd fjmrh. þótt honum sé fullkunnugt um þessa skoðun mína.
    Hv. 5. þm. Vesturl. spurði og vitnaði til umræðna sem fram fóru hér í þinginu í des. 1988 og í febrúar á þessu ári og að ég hefði þar talað um jafnan aðgang að fjármagni. Hvað hefði verið gert? Ég vil nefna nokkuð af því sem gert hefur verið. M.a. var lántökugjaldinu aflétt. Þá var fjárútvegun til Byggðastofnunar vegna innlendra viðgerðarverkefna mjög rífleg. Það fé hefur ekki allt verið nýtt, heimildin hefur ekki verið fullnýtt eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. getur vafalaust sagt deili á. Ástæðan er auðvitað sú að verkefnin hafa ekki verið eins mikil og menn töldu í upphafi og þá kem ég að því sem hv. 5. þm. Norðurl. v. spurði um og lýtur að því sem ég hafði nefnt um áramótin síðustu, líklega hef ég gert það bæði í desember og febrúar, að hlutur innlendra stöðva í skipaiðnaðinum hafi farið vaxandi. Það er rétt. Í viðgerðunum sérstaklega, en þær hafa reyndar minnkað mjög mikið. En svo að ég taki nokkrar tölur þá getum við séð að viðgerðirnar, þá er ég að tala um meiri háttar endurbætur, ekki hefðbundið viðhald skipa, námu samanlagt á verðlagi ársis 1988 2435 millj. árið 1987. Af þessu var framkvæmt innan lands fyrir 1160 millj., erlendis fyrir 1275 millj. Á þessu ári, 1989, er áætlað að endurbæturnar samtals, meiri háttar endurbætur, nemi 1030 millj. Af því sé unnið innan lands fyrir 760 millj., erlendis fyrir 270 millj. Þarna hefur hlutfall innlendra skipasmiðja í lækkandi framkvæmdamagni, einkum endurbótum, aukist verulega.
    Í nýsmíðinni hafa innlendu stöðvarnar haldið sínum hlut allvel undanfarin ár. Ég nefni sem dæmi tölur um það að 1986, alltaf er þetta á sama verðlagi, ársins 1988, nam nýsmíði innan lands 520 millj., 1987 620 millj., 1988 830 millj., 1989 500 millj. eða álíka mikið og var 1986. Nú er ég að tala hér í beinum tölum um framkvæmdir og umsvif. Það verður að skoða þessa hluti eins og þeir eru og þegar menn vita

hvað eitt myndarlegt skip kostar, sjá þeir hvað það eru litlar sveiflur í þessum tölum. Það sem nú veldur áhyggjum er það sem fram undan er. Við sjáum nú ekki fram á nema kannski 280--300 millj. kr. verkefni fyrir árið 1990. Ég ætla ekki að fullyrða nú að það verði svo lítið. Þetta eru hins vegar þær tölur sem menn hafa fengið með því að leggja saman pantanabækurnar hjá stöðvunum og meta þær til einnar tölu. Þær spár eru ekki alltaf réttar. Og það er líka rétt, eins og kom fram hér í máli hv. 2. þm. Norðurl. e., að það þarf að líta á verkefnin og m.a. á möguleikana til þess að auðvelda innlendum smiðjum að taka eldri skip upp í ný. Það er eitt af því sem ég legg mikla áherslu á að þannig verði um hnúta búið að það verði alls ekki hægt að halda því fram að það sé erfiðara fyrir innlendu smiðjurnar að veita þessa þjónustu. Þetta nefni ég sem dæmi. En auðvitað komumst við aldrei fram
hjá því að það eru verkefnin sjálf, uppsprettan í sjávarútveginum, eftirspurnin eftir endurbótum og nýsmíðum, og endurbæturnar eru veigameira verkefnið, sem ráða gengi þessarar greinar. Þess vegna er mikilvægast að tryggja hag sjávarútvegsins.
    Hv. 5. þm. Vesturl. spurði um önnur atvinnutækifæri á Vesturlandi. M.a. nefndi hann þilplötuverksmiðju og hugsanlegt samstarf við Sementsverksmiðjuna í því máli. Það mál er nú enn á miklu frumstigi. Þó vil ég taka það fram að ég hef beitt mér fyrir því að samband komist á milli Sementsverksmiðjunnar og breska fyrirtækisins Butler, sem hefur áhuga á því að kanna kosti þess að framleiða þilplötur úr vikurblöndu hér á landi. Ég tel það mjög áhugavert að kanna það hvort Sementsverksmiðjan geti tekið þátt í því eða dótturfyrirtæki hennar, Sérsteypan, sérstaklega ef kostur er á því að nota sement í stað gips í fylliefnið í plöturnar. Ekki ætla ég neitt að fullyrða um það fyrir fram hvort úr þessu verkefni verði, en ég hef gert mitt til þess að tengja þessa aðila saman og m.a. rætt um hugsanlega bankafyrirgreiðslu í því sambandi við breska viðskiptabanka. Þetta er hins vegar fyrst og fremst málefni sementsverksmiðjunnar og ég hygg að hv. fyrirspyrjandi, 5. þm. Vesturl., fylgist glöggt með málinu á þeim vettvangi. Ekki vil ég segja fleira um málið í bili og um staðsetningu á slíkum vinnustað held ég að sé betra að segja færra en fleira.
    Ég kem þá að máli hv. 2. þm. Norðurl. e. í síðari umferð í hans málflutningi. Hv. þm. rifjar enn upp gengisbreytingaferil á árinu 1988, telur það skjóta skökku við að ég haldi því nú fram að það sé meðal þarfra verka þessarar stjórnar að hafa tekist að lækka raungengið með sígandi hætti án þess að það ylli afturkasti á vinnumarkaðnum. Ég stend enn við það að ég tel að það hafi verið hið þarfasta verk. Hann telur að ég eða viðskrn. á þeim tíma hafi staðið í vegi fyrir því að 3% heimild til gengisbreytingar, sem veitt var vissulega af þessu viðskrn. vorið 1988, væri nýtt þá um sumarið. Má ég minna hv. 2. þm. Norðurl. e. á það enn á ný að það sumar var að störfum nefnd á vegum forsrh., formanns Sjálfstfl., 1. þm. Suðurl., sem

m.a. hafði það á sinni tillöguskrá og kannski efst á henni, og eftir því sem maður hlaut að skilja lengst af í þökk þess sem var verkbeiðandinn, tillögur um að fara niðurfærsluleið. Til þess að halda þeirri leið opinni sem var fram haldið af hæstv. þáv. forsrh. og ýmsum stuðningsmanna hans var það auðvitað alveg hreint ófært að fara að lækka gengið rétt á meðan mennirnir væru að setja þetta saman. Svo kom að því að menn greindi á um ýmsa hluti um haustið, sem ég ætla nú annars ekki að fara að rifja hér upp. Ég segi bara ósköp blátt áfram að meðan bjargvætturinn frá Flateyri og hans samverkamenn voru að bjástra við það að teikna niðurfærsluleiðina hefði það auðvitað ekki verið þarflegt verk að fella gengið rétt á meðan. Hins vegar var það að mínu áliti óhjákvæmilegt og var enda gert að beita þeirri heimild þegar sú hnapphelda var af. Ég minni á að í framhaldi af þeirri ákvörðun, sem var reyndar tekin og framkvæmd 28. sept. 1988, voru gerðar breytingar á
gengisskráningunni fram eftir vetri eins og vel er kunnugt og þá erum við komin inn á það ár sem hér hefur mest verið um rætt og ég ætla ekki að rifja upp frekar. En ég verð þó að segja það að ég tel það litlum tilgangi þjóna að rifja upp slíkar gárur í stjórnmálaþróuninni og tel það í raun og veru vera að drepa málum á dreif þegar við stöndum frammi fyrir mikilvægum verkefnum eins og við gerum nú.
    Ég hirði ekki um að eiga orðastað við hv. 2. þm. Norðurl. e. þegar hann segir að það sé ráðist gegn stjórn Slippstöðvarinnar á Akureyri af hálfu ríkisstjórnarinnar og ráðherra hennar. Ég hef átt gott samstarf við forustumenn Slippstöðvarinnar, mun eiga það áfram og þarf ekki milligöngu hv. 2. þm. Norðurl. e. til þess að tala við það fólk.
    Ég tel það fjarstæðu þegar hv. 2. þm. Norðurl. e. heldur því fram og leggur það til til að styðja skipaiðnaðinn að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem nú þurfa á öllu sínu að halda til þess að ná landi --- og um það mat er ég honum sammála --- eigi að hafa það af sér að leita hagstæðustu verða í nýsmíðar eða viðgerðir. Hv. 2. þm. Norðurl. e. er svo ósmekklegur að kalla þetta að þiggja ölmusu. Ég tel þetta einfaldlega vera búmennsku og það er búmennska ekki eingöngu fyrir hvert fyrirtæki heldur líka fyrir þjóðarbúið allt. Það verður að harma það að í svo mikilvægu máli skuli hv. 2. þm. Norðurl. e. viðhafa svo lágkúrulegan málflutning.
    Þá kem ég að máli þingkvenna Kvennalistans. Þær minntu okkur á það, bæði hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir 7. þm. Norðurl. e., hv. 10. þm. Reykn. Anna Ólafsdóttir Björnsson og hv. 18. þm. Reykv. Sigríður Lillý Baldursdóttir, að atvinnuleysistölur eru ekki neinar venjulegar hagtölur. Þegar við erum að tala um atvinnuástandið erum við í reynd að tala um sjálfa kvikuna í þjóðlífinu. Á bak við tölur um hvern atvinnulausan mann á skránni eru mannleg örlög. Þessu megum við aldrei gleyma. Við höfum á þessu landi átt því láni að fagna um alllangt árabil að vera að mestu laus við böl atvinnuleysisins. Við erum enn blessuð með því að hafa hér miklu, miklu minni

atvinnuvanda en í flestum
nálægum ríkjum. Þetta er ekki nóg til þess að við látum sem okkur komi ekki þessi vandamál við. Við þurfum að bægja atvinnuleysinu frá með öllum tiltækum ráðum. Í dag og kvöld hafa skipasmíðarnar mikið verið teknar sem dæmi. Þeir sem við þær starfa eru flestir raunsæir menn sem skilja það vel að þeim er enginn greiði gerður með því að skapa þeim gerviverkefni. Ég vil hins vegar vinna með þeim og geri það og mun gera til að finna leiðir til þess að tryggja þessari mikilvægu starfsgrein arðvænleg verkefni með samstarfi, endurskipulagningu eins og hér hefur mikið verið nefnt og með því að skapa þeim í hvívetna sanngjarna starfsaðstöðu.
    Ég vil að endingu taka undir það sem kom fram hjá hv. 18. þm. Reykv. þegar hún sagði, Það þarf að horfa fram í tímann og meta langtímaáhrif okkar ákvarðana þegar hugað er að atvinnuuppbyggingu í landinu. Hún nefndi þar umhverfisáhrif af hugsanlegri nýrri atvinnustarfsemi og það er vissulega mjög mikilvægt sjónarmið. Hins vegar tel ég að þeim góðu þingkonum Kvennalistans skjöplist þegar þær tala gegn stóriðju af því að hún sé ekki í samræmi við þeirra skilning á atvinnustarfsemi og sé ekki til þess fallin að auka þátttöku kvenna í atvinnulífinu sem þær minna okkur jafnan á að sé sérlega mikilvæg og um það þarf engum blöðum að fletta.
    Misskilningur þeirra í málflutningi liggur fyrst og fremst í því að sjá ekki að efling stóriðju á grundvelli orkulindanna t.d. er í þágu kvenna jafnt sem karla og allra landsins barna og viðbót við útflutningstekjurnar hvaðan sem hún er runnin virkar eins og seytluveita á engi og græðir og glæðir aðra starfsemi í þjóðarbúskapnum. Það er slík hugsun, slík langtímahugsun sem við þurfum að fá inn í okkar atvinnumálaumræðu og hafi þessi umræða hér í þinginu í dag, svo löng sem hún er orðin, ýtt mönnum eitthvað í þá átt, þá er það vel.