Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð liðið á fundartímann, komið fram yfir miðnætti og vel það. Ég skal ekki gerast langorður. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf við fyrirspurnum er ég beindi til hans. Það eru aðeins örfá atriði fyrst sem ég vildi gera athugasemdir við. Ég veit ekki hvort ég á að vera að skipta mér af umræðum um þær gárur sem áttu sér stað í stjórnmálum fyrir nokkrum árum er við sátum saman í ríkisstjórn, ég og hæstv. ráðherra. En það er rétt sem hér hefur komið fram að það var skilin eftir opin heimild fyrir Seðlabankann, að sjálfsögðu þá með ... ( Viðskrh.: Hver skyldi hafa veitt hana?) Það var ríkisstjórnin, ( Viðskrh.: Það var viðskiptaráðherrann.) það var ríkisstjórnin og viðskiptaráðherra fyrir hennar hönd, en sú heimild var ekki notuð þrátt fyrir það að starfandi sjútvrh. á þeim tíma hafi haft fulla vitneskju um að til nýs fiskverðs var stofnað miðað við það að þessi heimild yrði notuð og ég held, þó að ég telji varla viðeigandi að fara í þessa umræðu hér án þess að menn séu allir viðstaddir, en ég hygg að hv. 2. þm. Norðurl. e. fari nokkuð nærri um það þegar hann heldur því fram að það hafi fyrst og fremst verið hæstv. viðskrh. sem kom í veg fyrir það að þessi heimild var notuð á þessum tíma. Hitt er svo annað mál að sjálfsagt er hægt að grafast fyrir um þetta með tiltölulega einföldum hætti og í raun skiptir þetta ekki öllu máli í umræðunni í dag nema vegna þess að gengismálin voru dregin inn í þessa umræðu.
    Það sem er miklu alvarlegra og upp úr stendur er hitt að hæstv. ráðherra, og það nefndi hann ekki í sinni ræðu, stóð að því að falsa gengi íslensku krónunnar þegar hann tók við embætti iðnrh. í nýrri ríkisstjórn með því að fallast á það að færa til fjármuni til sjávarútvegsins sem lent hafði í erfiðleikum og þar með að breyta starfsskilyrðum samkeppnisiðnaðarins í landinu. Og það er auðvitað ein af ástæðunum fyrir því að íslenskur iðnaður stendur illa eða stóð illa á sínum tíma og stendur jafnvel illa enn vegna afleiðinga af þessu, ekki síst vegna þess að hann hafði ekki fengið neinar bætur þegar best gekk hjá sjávarútveginum á sínum tíma og það hlaut að koma iðnaðinum illa.
    Í öðru lagi vil ég gera athugasemd við málflutning hæstv. ráðherra þegar hann segir að það sé ræðubragð að hafa nefnt landbúnaðinn við hliðina á niðurgreiðslum í sambandi við innflutning á fiskiskipum og hugsanlega tolltöku samkvæmt heimildum í lögum. Það eina sem mér gekk til var að benda á að þetta er sambærilegt og rök hæstv. ráðherra ná ekki lengra en svo að hann bendir á að landbúnaðurinn eigi ekki í samkeppni við landbúnað annars staðar. Það er ósköp einfalt að koma því heim og saman. Við skulum t.d. taka kartöflurækt og innflutning á kartöflum, kjúklinga, egg og svínakjöt. Það er ekkert einfaldara en að koma því þannig fyrir. Það sem ég var að benda á í minni ræðu ... ( Viðs krh.: Eruð þið ekki að verða þarna sammála, hv.

2. þm. Norðurl. e. og þú og hv. 4. þm. Austurl.?) Ef hæstv. ráðherra heldur að ég hafi verið að ræða það út frá þeim forsendum, þá er það misskilningur. Ég ræddi þetta vegna þess að hæstv. ráðherra tók þannig til orða að honum fyndist sjálfsagt að þiggja niðurgreiðslur frá erlendum ríkisstjórnum. Og þegar hann rökstuddi þetta síðan sagði hann að það væri vegna þess að sjávarútvegurinn íslenski starfaði í alþjóðlegri samkeppni. En hann athugar það ekki að íslenskir launþegar og íslenskir neytendur eru líka í alþjóðlegri samkeppni og það er ein meginástæðan fyrir því að fólk flytur úr landi að vöruverð er hærra hér og laun fara lækkandi, þannig að það má halda því fram að neytendur og launþegar séu líka á samkeppnismarkaði. Hæstv. ráðherra þarf því að endurskoða röksemdir sínar dálítið, a.m.k. áður en hann ætlar sér að flytja þessa ræðu aftur.
    Það breytir hins vegar ekki því og ég get sagt það við hæstv. ráðherra að ég tel að niðurgreiðslur af hálfu íslenska ríkisins til þessa iðnaðar komi ekki til greina, en þá kem ég kannski að því sem ég held að hafi vantað í ræðu hæstv. ráðherra og átti a.m.k. að vera fyrirspurn af minni hálfu. Ég ræddi það nokkuð í minni ræðu, og það er það sem kemur fram í skýrslu Appledore, að í stað niðurgreiðslna komi stuðningsaðgerð frá íslenska ríkinu til þess að ná fram hagræðingu og þróun í greininni til þess að hægt sé að undirbúa það sem að kemur 1992, að þessar styrktaraðgerðir erlendra ríkisstjórna til iðnaðar í þeirra löndum falli niður, að þá sé hægt að grípa til þessa iðnaðar hér en hann er nauðsynlegur fyrir sjávarútveg okkar og þjóðarbúskap.
    Ég á ekki von á því að hæstv. ráðherra svari hér og nú þeirri fyrirspurn hvort hann ætli að beita sér fyrir þessu, en ég læt mér nægja að benda á að hæstv. ráðherra hefur lofað að leggja fram ítarlega skýrslu um þetta mál á haustþinginu, þ.e. annaðhvort í þessum mánuði eða þá í þeim næsta, og ég vonast til að í þeirri skýrslu verði hugmyndir ráðherrans um þetta efni, enda er það mjög mikilvægt.
    Loks að allra síðustu vil ég einungis benda á vegna umræðna um þá eilífð sem svo var nefnd á árunum 1986--1988 að það kemur mjög glögglega fram í tölum sem hæstv. ráðherra nefndi og enn fremur í þeim súluritum sem hv. 4. þm. Vesturl.
lýsti hér í sinni ræðu að íslenskur skipasmíðaiðnaður hafði nóg verkefni á árunum 1986, 1987 og 1988. Hins vegar hefur það gerst, sérstaklega er varðar skipasmíðarnar og meiri háttar endurbætur, að verkefnastaðan hefur gjörsamlega breyst á yfirstandandi ári og því er spáð að hún muni enn versna á því næsta. Þetta er kannski meginskýringin á því hvers vegna ekki var gripið til mikilla aðgerða á þeim tíma jafnvel þótt mönnum væri þá ljóst að hlutfallið af heildarverkefnunum hefði farið lækkandi. Ég vil hins vegar þakka ráðherranum það sem hann hefur sagt varðandi það sem gert var í sambandi við Appledore-verkefnið og þá sérstaklega það að reynt sé að sameina kraftana í sjávarútvegi og iðnaði til þess að ná fram viðunandi lausn á þessu máli og ég tek

undir það með ráðherranum að það er mjög mikilvægt að slíkt samstarf haldi áfram því að þessar tvær atvinnugreinar eiga samleið og verða að starfa saman ef við ætlum að halda áfram að vera þjóð sem lifir á sjávarútvegi á næstu árum.
    Að svo búnu tel ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta hér. Ég hef ekki beint neinni fyrirspurn til ráðherrans en vænti þess að það atriði sem ég nefndi sérstaklega, um þróunar- og hagkvæmnisaðstoðina, verði lýst þegar skýrslan kemur fram á haustþinginu sem lofað var.