Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Það gengu hér orð á milli manna varðandi lækkun á vissum búvörum á sl. hausti, nánar tiltekið 19. sept. sl., en hv. síðasti ræðumaður vakti athygli á því að þá hefðu mjólkurvörur lækkað. Þau orð sem fóru hér á milli manna voru um hvernig þeirri lækkun hefði verið náð fram. Mér finnst sérstök ástæða til þess að það komi fram með skýrari hætti í þessari umræðu þó að sú umræða eigi að sjálfsögðu eftir að fara fram hér með öðrum hætti á Alþingi. En þessari ákvörðun var náð fram með því að brjóta lög, brjóta búvörulögin. Í þeim er kveðið skýrt á um það --- nú hleypur að sjálfsögðu hæstv. fjmrh. í símann --- en þar er kveðið skýrt á um það að verðlag á að ákvarða fjórum sinnum á ári og haustverðlagsgrundvöll á að gefa út 1. sept. Hafi samningar ekki tekist, þá á að gilda framreikningur þar til nýr grundvöllur er gefinn út. Haustverðlagsgrundvöllur mjólkurafurða eða nautgripaafurða var gefinn út með sama hætti og áður hefur verið eins og lög ákveða, en síðan var gefinn út annar grundvöllur 18. september sem engin lög eru fyrir að eigi að gera. Og sá verðlagsgrundvöllur kveður á um að mjólkurvörur lækki með því að skerða launalið bændanna sem vinna við mjólkurframleiðsluna. Fyrir þessu er enginn lagabókstafur til þannig að í þessu tilviki, eins og svo mörgum öðrum, nánast öllum öðrum sem snerta viðskipti landbúnaðarins við þessa ríkisstjórn, voru lög brotin.
    Til viðbótar við þetta langar mig að minnast hér á tvö atriði. Í fyrsta lagi varðandi forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum sem sérstök lög gilda um. Það var samningsatriði á milli ríkisvaldsins og bændasamtakanna, fyrir líklega svona einum áratug, að ákveðnar verðhækkanir á landbúnaðarvörum voru felldar út á móti því að inn kæmi löggjöf um forfalla- og afleysingaþjónustu sem yrði kostuð af ríkisvaldinu. Nú var það svo fyrir nokkrum árum, m.a. studdi ég þá ríkisstjórn sem tók þá ákvörðun að ríkissjóður hætti að kosta þessa starfsemi, afleysingaþjónustu landbúnaðarins, en þess í stað var ákveðið að Stofnlánadeild landbúnaðarins annaðist þessar greiðslur. Þessi ákvörðun hafði engin áhrif varðandi fyrra samkomulag, engin áhrif gagnvart virkni þeirra greiðslna sem lögin kváðu á um.
    Nú hef ég hins vegar komist að því að nægjanlegt fjármagn, miðað við löggjöfina og miðað við þau réttindi sem landbúnaðurinn á í þessum efnum, er ekki lengur orðið til staðar. Ég vil beina því til fjh.- og viðskn. Ed. Alþingis að kanna þetta mál alveg sérstaklega. Mér sýnist hins vegar, við fljóta yfirferð, að skýringin liggi fyrir og hún er sú að við ákvörðun lánsfjárlaga fyrir þetta ár er orðalaginu breytt. Lögin eru ekki lengur látin gilda, heldur segir hér í niðurlagi 25. gr. og sama orðalag er í því frv. sem hér er til umræðu, með leyfi hæstv. forseta: ,,sem tekinn hefur verið inn í verðlag búvara, ganga til greiðslu kostnaðar við forfallaþjónustuna eftir nánari ákvörðun

landbrh.``
    Það er nú sem sagt komin reynsla á það að lögin og lagaákvæðin eiga ekki að virka, heldur eiga þessar greiðslur að fara eftir ákvörðun landbrh. Landbrh. er fenginn réttur til þess að ákvarða hvernig þessum greiðslum ber að haga. Þess vegna, að því er ég hygg, hafa mál þróast þannig að þessi þjónusta við landbúnaðinn hefur á þessu ári ekki gengið fram með sama hætti og lögin ákveða. Ég vil biðja fjh.- og viðskn. þessarar virðulegu deildar að taka þetta atriði alveg sérstaklega til athugunar.
    Nú er það svo að ekki er allt jafnvont í ákvörðunum núv. hæstv. fjmrh. gagnvart bændum landsins og vík ég þá að öðru atriði varðandi lánsfjárlögin. Eins og mönnum er væntanlega kunnugt hefur verið heimilað eða reyndar ákveðið í lánsfjárlögum að skerða eða takmarka greiðslur að því er varðar jarðræktarlög og búfjárræktarlög miðað við þær tölur sem eru á fjárlögum hverju sinni. Þessi ákvörðun hefur jafnan verið tekin með hliðsjón af því að þessi löggjöf hefur verið í endurskoðun og eins og menn muna væntanlega m.a. frá sl. vetri, þá var þessum lögum breytt í miklu og góðu samkomulagi hér á Alþingi.
    Í fjárlagafrv. sem nú er til meðferðar þar sem fjallað er um lagabreytingar í greinargerð með fjárlagafrv. undir þeim kafla sem varðar útgjöld, er gamla greinin inni þar sem segir að þrátt fyrir ákvæði þeirra laga skuli ekki greiða á árinu 1990 hærri upphæð vegna kostnaðar við þá löggjöf en nemur þeirri tölu sem stendur í fjárlögum. Nú er þetta ákvæði ekki hér inni í frv. til lánsfjárlaga, og held ég að mér hafi tekist að leita af mér allan grun, þrátt fyrir að það sé tilgreint í greinargerð fjárlagafrv. að svo muni verða. Þá sýnist mér, og nú vil ég eftir því leita hvort sá skilningur minn er ekki réttur, hæstv. fjmrh., að ákvæði jarðræktarlaga og búfjárræktarlaga eins og þau voru afgreidd m.a. hér frá þessari virðulegu deild á sl. vetri, hvort þau muni nú ekki verða virt. En þar segir, ef ég man rétt, að fyrri skuldbindingar eigi að gera upp og greiða bændum á grundvelli þeirra laga sem í gildi voru. Þá hlýtur það að leiða af sjálfu sér að þegar búið er að fella úr gildi þau skerðingarákvæði sem lánsfjárlög hafa ákvarðað og sem sagt er frá í
fjárlagafrv. að eigi að verða áfram í gildi, þá verði þetta nú gert upp á þessu ári eins og mjög skýrar yfirlýsingar eru um, bæði frá umræðunni um þessi lög á sl. vetri og eins varðandi fjárlagaafgreiðslu og lánsfjárlagaafgreiðslu á sl. ári. Þá sýnist mér, og ég vil leita eftir því svo að mín spurning komi nú alveg skýrt fram, hvort það sé ekki einsætt að með þessum hætti sé það vilji og raunar ákvörðun hæstv. fjmrh. að þegar fjáraukalög verða nú afgreidd héðan frá Alþingi þá verði séð fyrir því að þessi fyrri vanskil við bændur landsins verði gerð upp.
    Ég vænti þess að ég fái um þessi efni skýr svör.