Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki flytja hér langa ræðu en mér fannst ræða hv. þm. Karvels Pálmasonar, 3. þm. Vestf., sem hefur nú talist vera stjórnarstuðningsmaður, afar athyglisverð. Ég geri ráð fyrir því að hann sem hafandi verið stjórnarstuðningsmaður þekki þessi mál mjög vel og hvað lýtur að því hvort ríkisstjórnin hefur staðið við gerða samninga eða ekki.
    Við vitum það af fenginni reynslu að þegar samningar eru gerðir á milli verkalýðshreyfingarinnar annars vegar eða réttara sagt aðila vinnumarkaðarins annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar, þá er það, eins og kom fram í ræðu hv. þm., alveg grundvallaratriði að staðið sé við gerða samninga. Það kom fram í ræðu hv. þm. sem hefur tekið þátt í þessum samningum á undangengnum árum að því miður hefur ríkisvaldið ekki staðið við gerða samninga sem skyldi. Hann lýsti áhyggjum sínum yfir því, ekki að ástæðulausu og það er út af fyrir sig mjög alvarlegt mál, að samningsrof eða samningsbrigð geta haft mjög alvarlegar afleiðingar gagnvart stöðu verkalýðshreyfingarinnar og stöðu einstakra félagsmanna hennar. Það er ekki aðeins að það sé verið að svíkja gefin loforð, svíkja væntingar manna og gera þeirra stöðu erfiðari, heldur gerist það einnig við svik á gerðum samningum að fólk kemur til með að lifa í mikilli óvissu. Þetta kom fram í ræðu hv. þm. Karvels Pálmasonar, sem er virtur innan verkalýðshreyfingarinnar fyrir óeigingjörn störf, bæði sem félagsmaður og forustumaður. Það eru vissulega alvarleg tíðindi að svona ræður skuli vera fluttar á hinu háa Alþingi með þeim hætti sem hv. þm. gerði áðan þar sem hann tíundaði nákvæmlega í hverju þessi samningssvik væru fólgin. Ég tek því undir flest af því sem hann sagði að þeir menn sem þannig haga sér, og hér á ég sérstaklega við hæstv. ríkisstjórn, eiga ekki að sitja við völd vegna þess að þeir setja ekki aðeins þá sem hafa gert samninga við hana í óvissu, heldur þjóðina alla. Verkalýðshreyfingin hlýtur að bregðast við þessum samningsbrigðum með þeim hætti sem hún hefur vald til.
    En hv. þm. Karvel Pálmason varpaði fram þeirri spurningu hvort þetta væri gert vísvitandi, hvort það væri gert vísvitandi að setja íslenska verkalýðshreyfingu og íslenskt launafólk í þá óvissu sem þessi samningssvik hafa í för með sér, hvort þar gæti einnig legið að baki vísvitandi tilgangur að kljúfa verkalýðshreyfinguna, sundra verkalýðshreyfingunni. Ef það skyldi nú vera tilgangur hæstv. ríkisstjórnar, þá er hér auðvitað um einstæðan atburð að ræða í samskiptasögu verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar.
    Frá því að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð á mjög vafasömum og veikum forsendum, svo að ekki sé meira sagt, haustið 1988 hef ég margsinnis lýst því yfir bæði í ræðum mínum hér og einnig skrifum að ég teldi að þeir menn sem stóðu að myndun þeirrar ríkisstjórnar hefðu gert það fyrst og

fremst í þeim tilgangi að tryggja sér og sínum flokkum völd á Íslandi. Þeir mundu ætla sér að halda völdum, sem sagt, að beita þeim aðferðum og ráðum sem felast í því að tilgangurinn helgi meðalið. Ég skil vel áhyggjur hv. þm. Karvels Pálmasonar varðandi stöðu íslenskrar verkalýðshreyfingar því nú eru við völd menn sem fyrst og fremst hugsa um valdið út frá sjónarmiðum háþróaðrar pólitískrar tækni í samskiptum við borgana í landinu, en ekki út frá þeim sjónarmiðum sem okkur ber að starfa samkvæmt, sem byggjast á því hvað komi fólkinu best. Þegar stjórnmálamenn eru farnir að koma sér fyrir í valdakerfinu í þeim eina tilgangi að tryggja sér völd án tillits til þess hvernig það kemur út fyrir fólkið, þá erum við Íslendingar vissulega komnir inn á mjög hættulegar brautir. En þetta er nú því miður megineinkenni þessarar ríkisstjórnar og ætla ég ekki að tíunda það frekar. Það hefur verið margsinnis upplýst hvernig þessir hv. þm. eða hæstv. ráðherrar hafa tryggt sér völdin með mjög vafasömum hætti út frá lýðræðislegu og þingræðislegu sjónarmiði séð.
    Ég vildi, virðulegi forseti, koma hér að einum þætti þessara mála varðandi svik þessarar ríkisstjórnar við gerða samninga við verkalýðshreyfinguna. Það er sá þáttur sem lýtur að húsnæðismálum, þ.e. þeim hluta sem lýtur að samningum ríkisvaldsins við verkalýðshreyfinguna um húsnæðismál. --- Virðulegi forseti, ég nenni ekki að flytja hér ræður ef hæstv. ráðherrar sem ég er að tala til eru truflaðir. ( Menntm rh.: Nú er hann ótruflaður.) Ég þakka fyrir að hæstv. menntmrh. skuli vera hættur þessum einkasamræðum sínum við hæstv. fjmrh. og þeir félagar sitja þarna sáttir. Fram undan hjá þeim er landsfundur og maður les það í dagblöðunum í dag að það sé nú ekki allt í einingu og bræðralagi í þessum ágæta flokki, Alþb., en e.t.v. eru þeir að semja hérna um
það hvernig þeir geti sameinast í valdinu þar líka eins og annars staðar þannig að blessað fólkið í Alþb., ég nota nú orðið blessað yfir hinn almenna félagsmann þar, því séu búin þau örlög að þurfa að lúta þessum tveimur lénsherrum, ég vil segja lénsherrum á vinstri væng íslenskra stjórnmála, pólitískum lénsherrum. ( Menntmrh.: Ég hef bara gaman af því.) Já, hæstv. menntmrh. nýtur þess alltaf þegar maður talar um Alþb. og verkalýðshreyfinguna því að þrátt fyrir allt finnst mér nú hæstv. menntmrh. nokkuð nálægt
verkalýðshreyfingunni þó að hann hafi eitthvað truflast í því síðustu mánuðina svo ekki sé meira sagt.
    En ég vil víkja að þeim þætti sem lýtur að húsnæðismálum. Það er verulega stór þáttur í samningum verkalýðshreyfingarinnar við ríkisvaldið. Eins og hæstv. fjmrh. man, þá var á sínum tíma gerður samningur eða samkomulag milli ASÍ, VSÍ og Vinnumálasambandsins annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar um húsnæðismál. Það var 26. febr. 1986. Í þessu samkomulagi er kveðið á um það hvert skuli vera framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins á næsta ári og einnig til Byggingarsjóðs verkamanna jafnframt því sem samningur er gerður um það með

hvaða hætti verkalýðshreyfingin efli og styrki það húsnæðiskerfi sem aðilar voru sammála um. Það var gert með þeim hætti, eins og hv. þm. muna, að verkalýðshreyfingin skuldbatt sig til þess að ráðstafa 55% af árlegu ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna til húsnæðismálakerfisins. Verkalýðshreyfingin hefur staðið við þann samning að fullu og vel það. Hins vegar verður það sama ekki sagt um þær hæstv. ríkisstjórnir sem Steingrímur Hermannsson hefur haft forustu fyrir á síðustu árum, þ.e. í ár og frá því haustið 1988. Það segir nefnilega svo, hæstv. fjmrh., í þessu samkomulagi að framlag ríkissjóðs, miðað við gefnar forsendur sem ég vísa til í umræddu samkomulagi sem hv. þm. þekkja sem hér eru viðstaddir, megi ekki vera lægra en 1000 millj. kr. á árinu 1987 jafnframt því sem ráð var fyrir því gert að þetta framlag hækkaði og ykist að sama skapi eftir því sem verðlagsþróun breyttist hérlendis. Við þetta var staðið og vel það eins og ég gat um áðan í ríkisstjórnartíð Þorsteins Pálssonar.
    Árið 1987 fóru í Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna 1300 millj. kr. frá ríkinu eða sem sagt í gegnum fjárlög. Þá tala ég um niðurstöður, ekki skv. fjárlögum heldur niðurstöður. Árið 1988 er þetta framlag 1725 millj. Árið 1989 er þetta komið niður í 1150 millj. og skv. frv. til fjárlaga fyrir árið 1990 er gert ráð fyrir að þetta séu 650 millj. samtals, þ.e. að 150 millj. fari í Byggingarsjóð ríkisins en 500 millj. í Byggingarsjóð verkamanna.
    Þetta kalla ég, hæstv. fjmrh., að svíkja gerða samninga. Þetta er gersamlega óviðunandi og hlýtur að kalla á andsvör af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og aðila vinnumarkaðarins þar sem hér er raunverulega verið að svíkja gerða samninga, ekki aðeins í krónutölu á núgildi hvers árs, heldur einnig ef maður lítur til þess að árið 1990 er áætlað að verðbólga á Íslandi verði á bilinu 20--30%. Ef við gefum okkur það að meðalverðbólga verði á árinu 1990 um 25% má segja það að miðað við raungildi sé gert ráð fyrir að ríkið leggi til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna um 400 millj. kr. að raungildi. Þetta raunverulega þýðir það að það er verið að þurrka út framlag ríkisins til þessara mála. Í stuttu máli sagt, ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar stóð við gerða samninga við aðila vinnumarkaðarins, en ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, ríkisstjórn ,,félagshyggju``, svíkur gerða samninga. Það kemur fram, bæði í frv. til fjárlaga og einnig í svari sem hæstv. félmrh. gaf við fsp. frá mér um sjóðsstöðu og ríkisframlög til Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þetta er skjalfast þannig að það fer ekkert á milli mála.
    Það er hægt að skoða þetta út frá fleiri sjónarmiðum en aðeins því hvernig þessir samningar hafa verið sviknir. Það er einnig hægt að líta á þetta út frá því sjónarmiði hvernig framlög ríkissjóðs hafa komið til Byggingarsjóðs verkamanna og Byggingarsjóðs ríkisins. Ef við lítum til þess eftir mánuðum árið 1989, þá kemur í ljós að á fyrstu níu mánuðum þessa árs hafa aðeins komið 443 millj. til Byggingarsjóðs verkamanna frá ríkissjóði.

Byggingarsjóður ríkisins hefur á sama tíma fengið 450 millj. eða samtals 893 millj. á því ári sem er að líða. Miðað við það að verðbólgan í ár er ca. 20% getur maður raunverulega sagt sér það sjálfur að raungildi er auðvitað aðeins um 700 millj. kr. Framlög þessi eru óregluleg á sama tíma sem fólkið í landinu, ég vil segja þeir sem spara í lífeyrissjóðunum, eru skuldbundnir til að kaupa skuldabréf af Húsnæðisstofnun reglulega þannig að kaup lífeyrissjóðanna á skuldabréfum séu sem jöfnust eftir mánuðum. Við það hafa þeir sjóðir staðið sem hafa haft bolmagn til þess og greiðslugetu. Sama verður ekki sagt um ríkissjóð. Sem sagt, þetta er allt á sömu bókina lært. Fólkið er nefnilega látið standa undir því sem máli skiptir í sambandi við Húsnæðisstofnun og byggingarmál launafólks, en ríkissjóður svíkur þetta með beinum og óbeinum hætti og þar sem hann reynir að standa við eitthvað af skuldbindingum sínum, þá kemur það í tröppugangi. Sem dæmi vil ég taka fyrstu níu mánuði þessa árs. Í janúar sl. komu aðeins 3 millj. kr. í Byggingarsjóð verkamanna sem framlag frá ríkissjóði, aðeins 3 millj. Í mars eru þetta 197 millj., í apríl 102 millj., í maí 103 millj., í júní dettur þetta niður í 8 millj., í júlí í 8 millj. og í ágúst niður í 15 millj. króna. Það kom ekki króna sem framlag úr ríkissjóði í Byggingarsjóð verkamanna í september, ekki ein einasta króna.
    Nú er því oft veifað af valdhöfum, hæstv. ráðherrum, allt í skjóli þess að fólk hefur enn þá samning um það að vextir á lánum hjá Byggingarsjóði ríkisins skuli vera 3,5%, þá telur ríkisvaldið sig hafa þau tök bæði á fólkinu og
lífeyrissjóðunum að ríkisstjórnin geti boðið fólki hvað sem er í skjóli þess að það sé verið að niðurgreiða vextina. Nú er búið að brjóta það einnig af hálfu hæstv. ríkisstjórnar vegna þess að með tilkomu húsbréfakerfisins hefur verið ákveðið að vextir á húsbréfum skuli vera 5,75% ef ég man rétt. Jafnframt hefur hæstv. félmrh. sem því miður er ekki hér inni marglýst því yfir að hún stefni að því að þróa vexti Byggingarsjóðs í það að verða svokallaðir markaðsvextir. Og þegar hæstv. ráðherra hefur verið spurður að því hvað hann ætti við með markaðsvöxtum, þá hefur hann talað um þetta svona á bilinu 4,5--5--6%. Nú er hæstv. félmrh. ekki hér til staðar til þess að fjalla um þetta mál með okkur en ég veit að hæstv. fjmrh. þekkir þessa sögu alla. Það fara að vakna upp spurningar hjá okkur sem erum aðilar að hinum almennu lífeyrissjóðum sem raunverulega leggja til peningana í Húsnæðisstofnun. Hvers vegna erum við yfirleitt að ræða við hæstv. ríkisstjórn um þessi mál? Hvers vegna tökum við þetta ekki í okkar eigin hendur? Í fyrsta lagi brýtur hæstv. ríkisstjórn gerða samninga. Í öðru lagi stefnir hún að því að brjóta aðra meginforsendu samninganna sem er að vextir skuli vera 3,5% á húsnæðislánum og ætlar að hækka þá upp í 5--6% í þrepum. Fyrsta þrepið er húsbréfakerfið.
    Ég hef, virðulegi forseti, rætt þetta allt út frá þeim forsendum sem eru samkomulagið frá því í febrúar

1986 þannig að ég tala hér á algerlega fræðilegum grundvelli og á staðreyndagrundvelli. En sögunni er ekki lokið með þessu. Það er annar kafli sem er hugsanlega enn þá alvarlegri og hefði einhvern tíma verið krafist rannsóknar af minna tilefni. Það er að þegar samningsaðili efnir sinn samning í góðri trú, þá skuli hinn aðilinn ekki efna samninginn í framhaldi af því. Þar á ég við það að þegar lífeyrissjóðirnir kaupa skuldabréf af Húsnæðisstofnun, þá eiga peningarnir skv. samningum að renna í húsnæðismálakerfið til þess að mæta þörfum þeirra sem standa í því að byggja eða eignast íbúðir. Þar á ég við það að þessi fjárframlög eiga að halda áfram ótrufluð til lánsumsækjenda hjá Húsnæðisstofnun. Það hefur hins vegar gerst, sem er algert brot á þessu grundvallaratriði um efndir samninga, að ríkisvaldið hefur stöðvað það að þessir peningar gengju áfram til fólksins sem á rétt á því að fá afgreidd lán frá Húsnæðisstofnun, að það stórum hluta að það er meira en ámælisvert, það er hugsanlega tilefni til þess að það fari fram rannsókn á því hvers vegna og hver hafi tekið þá ákvörðun að binda allt að 20--25% af fjárframlögum lífeyrissjóðanna til Húsnæðisstofnunar á þessu ári. Með þeim afleiðingum að fólkið sem hafði brýna þörf fyrir að fá sín lán afgreidd í Húsnæðisstofnun fær ekki eðlilega lánsfyrirgreiðslu. Þetta hefur haft í för með sér ómælda erfiðleika fyrir fjölda fólks sem stendur í húsnæðis- og íbúðakaupum. Ég vil, virðulegi forseti, fá að lesa hér upp svar hæstv. félmrh. við þessu atriði þar sem ég spyr hann í fsp. á þskj. 11 um þetta atriði. Fsp. hljóðar sem hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Hver hefur verið mánaðarleg sjóðsstaða Húsnæðisstofnunar tímabilið 1. jan. 1988 til 30. sept. 1989? Óskað er að tilgreint sé sérstaklega hvernig sjóðsstöðu stofnunarinnar hefur verið háttað gagnvart Seðlabanka Íslands á umræddu tímabili.``
    Ástæða þessarar fsp. var sú að við mig töluðu, sl. vor og í sumar, forustumenn í verkalýðshreyfingunni og forsvarsmenn lífeyrissjóðanna og einnig stjórnarmenn í Húsnæðisstofnun ríkisins og tjáðu mér að það væru vanhöld á því að Húsnæðisstofnun fengi þá peninga sem henni bæri. Það hófst mikil umræða um það hér sl. sumar hvar þessir peningar kynnu að vera og hver væri ástæða þess að þeir kæmu ekki fram í afgreiðslu lána hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Þess vegna kom ég með þessa fsp. og ég hef fengið svar við henni hjá hæstv. félmrh. þar sem sjóðsstaða Húsnæðisstofnunar ríkisins er rakin umrætt tímabil á verðlagi hvers árs. Það kemur í ljós að á þessu ári hafa verið bundnar á reikningi hjá Seðlabanka Íslands verulegar upphæðir. Það má segja að allt frá því í maí á þessu ári og fram til 10. okt. hafi verið bundnar á reikningi í Seðlabanka Íslands að meðaltali 1400--1500 millj. kr. Ef við gefum okkur það að heildarafgreiðslur Húsnæðisstofnunar í ár séu 8--9 milljarðar, þá sér hver heilvita maður það að þarna er raunverulega verið að draga afgreiðslu lána sem nemur 2--3 mánuðum. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar ef aðrir hefðu verið við völd heldur en flokkar félagshyggju

að svona vinnubrögð hefðu verið viðhöfð. Það hefði örugglega ekki staðið á því að hæstv. fjmrh., hefði hann ekki verið ráðherra, hefði hringt á fréttastofu sjónvarps og útvarps og tilkynnt að hann mundi flytja stefnumótandi ræðu um það hvernig sú ríkisstjórn sem þá sæti við völd væri að svíkja gefin loforð við verkalýðshreyfinguna. Eða hringt þá jafnvel í Morgunblaðið, DV og þau látin vita hvað hér væri um alvarlega hluti að ræða. Og ég segi það nú fyrir mitt leyti að ég er ekki að gera athugasemdir við fréttaflutning fjölmiðla á Alþingi. En það er alveg eftirtektarvert hvernig hefur tekist að þagga niður að í svari hæstv. félmrh. felst staðfesting á því að opinberir aðilar hafa raunverulega bundið fé sem hefði getað flýtt fyrir afgreiðslu lána sem nemur þrem mánuðum til fólksins. Og ekki nóg með það, heldur var það fullyrt hér sl. vor af einum hæstv. ráðherra að það vantaði peninga til að fullnægja afgreiðsluskyldu
Húsnæðisstofnunar ríkisins. Það má segja að það er ekki sama hverjir eru við völd.
    Þegar skoðuð er sjóðsstaða Húsnæðisstofnunar ríkisins hjá Seðlabankanum kemur í ljós að 1. sept. sl. eru á þessum bundna reikningi 1925 millj. kr., þ.e. um 25% af áætluðum lánveitingum Húsnæðisstofnunar ríkisins í ár. Það eru þrír mánuðir í afgreiðslu lána. Ég segi það, virðulegi forseti, að það væri kannski fullkomið tilefni til þess að hið háa Alþingi setti á stofn rannsóknanefnd til að skoða hvar hér hafi gerst. Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherrar og hæstv. ríkisstjórn hefur ekki alræðisvald um það hvernig hún fjallar um fjármuni annarra og það er kannski tilefni til þess að það þurfi að skoða þau ákvæði íslenskrar stjórnarskrár sem veiti þessum ágætu mönnum aðhald. Það er víða farið illa með fé, ég segi ekki að fé sé misnotað, en það er greinilega víðar farið illa með fé og illa haldið á hagsmunum fólksins en í sambandi við risnukostnað hjá þessari hæstv. ríkisstjórn. Hér er haldið til haga, til einhverra þarfa, hugsanlega til að styrkja stöðu ríkissjóðs, hugsanlega --- ég segi hugsanlega --- verið að gera stöðu ríkissjóðs örlítið betri eða réttara sagt að staða Seðlabankans sé ekki þeim mun verri sem þurfi að laga stöðu ríkissjóðs í fyrirgreiðslu Seðlabankans sem nemur þessum upphæðum. Niðurstaða mín er þess vegna þessi: Er það hugsanlegt að ríkisvaldið sé farið að nota fjármuni lífeyrissjóðanna til eigin þarfa? Er það hugsanlegt að þetta samningsbrot sem ég nefndi áðan sé gert til þess að styrkja greiðslustöðu ríkissjóðs í þágu núv. hæstv. ríkisstjórnar?
    Það hefði verið fróðlegt og ég ætla nú að athuga það síðar á þessu þingi, það hefði verið fróðlegt að fá sjóðsstöðu ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum á sama tíma og bera það saman og sjá hvort það sé samfylgni á milli þess hvað bundið er af fé lífeyrissjóðanna sem Húsnæðisstofnun á að veita lán með, hvort það sé samfylgni á milli þess og stöðu ríkissjóðs á sama tíma.
    Þetta er, virðulegi forseti, umhugsunarefni. Það kemur þess vegna mjög til greina að nálgast þetta mál enn betur í fyrirspurnarformi til hæstv. fjmrh. --- Ég

sé að hæstv. fjmrh. brosir. Þetta er duglegur maður og hann gætir
auðvitað sinnar stöðu en hæstv. ráðherra má ekki gera það á kostnað gerðra samninga og hann má ekki gera það á kostnað fólksins. Alla vega verður hann að sjá til þess að hans eftirlit sé það gott í daglegum störfum sem fjmrh. að hann láti ekki einhverja aðra komast upp með að haga sér með þessum hætti, hverjir sem það kynnu að vera.
    Ég vil svo að lokum segja það, virðulegi forseti, að því miður hefur þetta veigamikla samkomulag við verkalýðshreyfinguna verið þverbrotið og svikið. Frekari staðfesting. Það vill svo til að þegar fsp. mín kom fram þá brást stjórn Húsnæðisstofnunar mjög hart við og krafðist þess að fá að ráðstafa þessum peningum með þeim hætti sem henni bar skylda til. Þess vegna var það tilkynnt að nú ætti að flýta fyrir og afgreiða lán fyrir allt að, ef ég man rétt, 800 millj. kr. fyrir áramót. Í þessu felst auðvitað staðfesting á því að þeir aðilar sem hafa fjallað um þessi mál á vegum Húsnæðisstofnunar, hvort sem það er hæstv. félmrh. eða framkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunar, það veit ég ekki um, en í þessu felst það að viðkomandi aðilar gera sér grein fyrir því að þeir voru búnir að brjóta gerða samninga og sektartilfinningin sagði til sín. Þess vegna gripu þeir til þess ráðs að gefa út tilkynningu um það að nú mundu verða afgreiddar 800 millj. kr. strax fyrir áramót.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að lengja mitt mál meira um þetta atriði, ég hefði getað vikið að mörgum af þeim atriðum sem hv. þm. Karvel Pálmason kom inn á í sambandi við svik núv. hæstv. ríkisstjórnar gagnvart íslenskri verkalýðshreyfingu.