Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Mér finnst nú vert að vekja alveg sérstaklega athygli á þessum síðustu ummælum hæstv. fjmrh. þar sem hann sagði að það yrði við upptöku virðisaukaskattsins kerfisbreyting á skattlagningu matvæla. Sú kerfisbreyting leiðir til þess að verð á matvælum mun hækka verulega á næsta ári. Svo fremi sem fylgt er þeim markmiðum sem fram koma í fjárlagafrv., þá liggur það alveg fyrir að það sem þar er sagt um 10% verðlækkun á landbúnaðarvörum kemur alls ekki til með að eiga sér stað. Og miðað við forsendur fjárlaga er miklu nær að tala um 10% verðhækkun. Það er að vísu hægt að nota fjármagnið, beita því misjafnlega eða skipta því misjafnlega niður á árið þannig að með því að færa meiri hlutann af niðurgreiðslufénu yfir á fyrri hluta ársins er náttúrlega hægt að ná þessari verðlækkun og meira að segja meiru til. En það bara kemur niður á því að vöruverðið hækkar þeim mun meira sem lengra líður á árið þannig að þegar upp verður staðið og litið á málið á ársgrundvelli, þá er það algjörlega augljóst mál að búvöruverðið hækkar, matvælaverð hækkar á næsta ári. Enda hvernig á annað að geta skeð þegar niðurgreiðsluféð hækkar um 20% á sama tíma og verðlag á búvörunum hækkar um 25%? En það gefst nú gott tóm til að fara með nákvæmari hætti í gegnum þessi mál hér síðar á Alþingi.
    Tvennt var það, hæstv. fjmrh., sem mig langar sérstaklega að gera að umtalsefni og fram kom í ræðu ráðherrans hér áðan. Fjmrh. kemst þannig að orði að það séu ólíkt betri skil á fjárreiðum ríkisins gagnvart bændastéttinni heldur en hafi verið á þeim tímum sem ég studdi ríkisstjórn. Þetta skulum við nú athuga aðeins betur.
    Ég studdi ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem lauk sínum valdaferli á árinu 1987. --- Það er leiðinlegt athæfi hjá hæstv. fjmrh. að hann fer alltaf í felur þegar verið er að tala til hans af rökum, þá fer hann bak við hurð eða
í eitthvert hliðarherbergi. ( Fjmrh.: Nei, nei, hvorugt.) Hann fer alltaf í felur, þessi hæstv. ráðherra. ( Fjmrh.: Þú verður bara að snúa þér við.)
    Nú var það þannig að á árinu 1987 voru allar áfallnar greiðslur varðandi jarðræktar- og búfjárræktarlög og aðrar skuldbindingar ríkisins gagnvart bændastéttinni uppgerðar. Allar saman. Á árinu 1988 studdi ég ekki ríkisstjórn allt árið, eins og kunnugt er, þannig að það verður nú ekki metið á heils árs grundvelli, hæstv. landbrh., og þessi mál fóru öll úr böndunum við síðustu fjárlagagerð. Þá fóru þessi mál öll úr böndunum eins og dæmin sanna. Nú segir hæstv. fjmrh.: Það hefur ekki verið tekin upp nein stefnubreyting í þessum efnum. Að því er mér skilst, þá skýrir það ekkert breytta stefnu þó að annað komi fram í fjárlagafrv. eða lánsfjárlagafrv. Ég fæ þó ekki annað séð en að á þessu sé kannski alveg reginmunur vegna þess, hæstv. fjmrh., --- ráðherrann er enn kominn í felur --- vegna þess að þá hlýtur 28. gr. lánsfjárlaga þessa árs að vera í gildi. Í fjárlagafrv.

er gert ráð fyrir því að framlengja gildissvið þessarar greinar. Í lánsfjárlagafrv. er ekkert þess háttar ákvæði og í lánsfjárlögum fyrir þetta ár segir 28. gr. frá því að það eigi að gera upp við bændur á þessu ári.
    Þegar heimildarákvæði sama eðlis eru nú ekki sett inn í lánsfjárlög eins og sagt er fyrir um í grg. fjárlagafrv. að verða muni, þá er það augljóst mál að hér er um stefnubreytingu að ræða og að eins og lánsfjárlög fyrir þetta ár kveða á um, þá beri að gera upp við bændur á grundvelli jarðræktar- og búfjárræktarlaga á þessu ári. Þetta er alveg tvímælalaust.
    Og ég skora satt að segja á hæstv. fjmrh. að hætta nú að vera í felum í þessari deild, bæði í málflutningi og svo í sínu eigin atgervi, og tala alveg skýrt út um það hvort ekki beri að líta svo á að við afgreiðslu fjáraukalaga sem nú eru til meðferðar í Sþ. verði framkvæmdinni hagað með tilliti til þess sem m.a. 28. gr. lánsfjárlaga fyrir þetta ár, árið 1989, kveður á um með ótvíræðum hætti.