Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Vegna þeirrar fsp. sem hv. 2. þm. Norðurl. e. beindi til mín vil ég taka fram að ég fagna því að hann skuli enn bjóða sig fram til samstarfs við mig og aðra sem að því vinna að samræma íslenska skattkerfið því sem best gerist í nágrannalöndunum. Það er alveg rétt að á árunum 1987 og 1988 hófust hér miklar breytingar sem hníga í þessa átt. Staðgreiðslukerfið var tekið upp, virðisaukaskattkerfið undirbúið. Það sem kannski skiptir mestu máli til að samræma íslenska skattkerfið því sem best gerist í nálægum löndum er að koma hér á vel sköpuðu virðisaukaskattskerfi. Við sem að þessari stjórn stöndum fögnum því að fá liðsmann í hv. 2. þm. Norðurl. e. ( EgJ: Ekki veitir af.) Ég vil taka fram vegna þess sem hér var sagt um till. þær sem ég kynni að hafa flutt innan ríkisstjórnarinnar og utan um þessi mál að það er alveg rétt munað hjá hv. þm. að ég hef gert tillögu um það að skattmeðferð hlutafjár greiði fyrir því formi sparnaðar og verði til þess að stuðla að bættri eiginfjárstöðu íslenskra atvinnuvega. Þetta er einn liðurinn í því starfi sem hér hefur verið rætt. Ég bendi líka á það að í kjölfar kjarasamninganna sem tókust um mánaðamótin apríl--maí í fyrra gaf ríkisstjórnin, með bréfum frá forsrh. til samningsaðilanna, nokkur fyrirheit um þetta mál. Það er að sjálfsögðu staðfastur ásetningur stjórnarinnar að standa við þau. M.a. að samræma skattlagningu fyrirtækja því sem gerist og er að verða í Evrópulöndum. Ég hef líka sagt hv. þm. frá því í annarri umræðu um annað efni að ég hafi, sem iðnrh., skipað sérstakan hóp manna í mars í fyrra til þess að gera tillögur um bætt starfsskilyrði íslensks iðnaðar, einkum með tilliti til þeirra breytinga sem nú eru að verða á viðskiptaháttum og viðskiptum milli landa í Evrópu. Allt eru þetta þræðir í stærri vef sem nú er verið að vefa. En það tekur tíma þótt búið sé að velja uppistöðurnar í hann nokkuð vel, ( Gripið fram í: En jöfnunargjaldið?) --- nú er það ívafið. Jöfnunargjaldið tel ég vera verjandi meðan enn eimir eftir af uppsöfnunaráhrifum söluskatts í ýmsum fastafjármunum iðnaðarins. Ég tel að með þeirri tillögugerð sem nú liggur fyrir í fjárlagafrv. sé þessa gætt. Eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh. þá munu verða um þetta fluttar till. á næsta ári. Reyndar vildi ég benda hv. þm. á að flestir talsmenn iðnaðar í landinu, og hann telur sig gjarnan einn af þeim, vilja halda þessu gjaldi og hafa það sem hæst. En um vörugjaldið gegnir að sjálfsögðu öðru máli. Það var lækkað mjög verulega, reyndar fellt niður af trjávöru og málmiðnaði í byrjun september. Um lántökugjaldið þarf ég ekki að tala því það féll niður í lok maí, eins og lofað hafði verið, og reyndar lækkaði þá skrifstofu- og verslunarhúsnæðisskatturinn einnig eins og lofað hafði verið. En í framhaldi af þeim breytingum sem verða við upptöku virðisaukaskattsins þurfum við að fínkemba vörugjaldsskrána, ekki síst þar sem hún leggst á sum aðföng íslensks iðnaðar, þegar hin fullunna vara sem er í samkeppni við hann er ekki

með vörugjaldi. Ég nefni til dæmis um þetta að lakk til húsgagnaiðnaðarins er með vörugjaldi, sem fæst að vísu endurgreitt, en það er nokkuð fyrirhafnarsamt. Lakk er mjög mikilvægt efni í innréttingasmíð. Hins vegar eru innréttingar sem fluttar eru inn ekki lengur með slíku gjaldi. Við þurfum að gæta þess að sníða agnúa af þessu tagi af kerfinu. Það var meiningin með þessu fyrirheiti og auðvitað þarf ég ekki að taka það fram að ýmsir sem bera vörugjaldið nú vilja það burt. Það er hins vegar stærra mál í fjárhagsstöðu landsins en svo að það sé hægt að afgreiða það eins og hendi sé veifað. En yfirlýsingar stjórnarinnar um framhald umbóta í skattamálum standa, að sjálfsögðu verður staðið við þær.