Greiðslukortastarfsemi
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um þetta mál. Ég tel að það hafi ekki einungis verið tími til kominn að flytja frv. um greiðslukortastarfsemi. Það bar til þess brýna nauðsyn eins tíð og vaxandi sem notkun þeirra er orðin í samfélagi okkar og væri vissulega ástæða til að ræða hvers vegna hún er orðin svo algeng, en ég ætla að sleppa því núna.
    Þær meginbreytingar sem hér eru lagðar til, miðað við það sem áður hefur tíðkast, sýnast mér í fljótu bragði allar vera til bóta. Það eru þó ýmsar spurningar sem ég hefði viljað bera fram en geri ekki nú tímans vegna og eflaust er hægt að fá svör við þeim og betri vitneskju í nefndinni. Þær varða reyndar nánari útfærslu á notkun slíkra korta, t.d. hvað varðar kostnaðinn, hvort um er að ræða raunverulegan kostnað við notkun kortsins eða áætlaðan kostnað sem korthafa er ætlað að greiða hlutdeild af, síðan með greiðslufyrirkomulag og hvernig kortafyrirtækin geta gengið að notendum vegna greiðslu eða ef um einhverja töf á slíku er að ræða. Enn fremur þætti eins og þá hvernig hægt er að skuldbinda sig í gegnum síma. Hvort ekki sé gáleysislegt að ekki þurfi annað en að gefa upp kortanúmerið í síma en enga aðra staðfestingu. Síðan líður kannski mánuður þar til greiðsla fer fram og það getur náttúrlega hver sem er, í verslun t.d., aflað sér upplýsinga um hin og þessi númer og valið úr hvert hann kynni að vilja misnota. Það eru ýmsar svona upplýsingar sem ég held að þörf sé á en e.t.v. réttara að spyrjast fyrir um í nefndinni.
    En ég fagna því að þetta frv. hefur verið lagt fram því að það er löngu orðið tímabært að setja nánari reglur um notkun þessara korta.