Námslán og námsstyrkir
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki. Breytingin samkvæmt frv. kemur fram í 1. gr. þess en þar er gert ráð fyrir að stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna verði skipuð til tveggja ára í senn, en auk þess skal skipunartími fulltrúa menntmrh. og fjmrh. takmarkaður við embættistíma þeirra ráðherra sem skipuðu þá eða tilnefndu. Í 2. gr. er gert ráð fyrir að um leið og lögin öðlist gildi, ef frv. yrði að lögum, eigi að skipa stjórn samkvæmt 1. gr.
    Frv. miðar að því að breyta gildandi ákvæðum um skipunartíma stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna, en stjórn sjóðsins er núna skipuð þannig að það er einn samkvæmt tilnefningu Stúdentaráðs Háskóla Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Bandalags ísl. sérskólanema, einn samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. námsmanna erlendis, einn samkvæmt tilnefningu fjmrn. og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður stjórnarinnar. Varamenn eru nú
skipaðir með sama hætti. Skipunartíma er þannig háttað að fulltrúar ráðuneytanna eru skipaðir til fjögurra ára en fulltrúar námsmanna til tveggja ára í senn.
    Sú breyting sem frv. gerir ráð fyrir felur í sér að stjórn sjóðsins verði öll skipuð til tveggja ára, en umboð stjórnarmanns, sem er fulltrúi ráðherra, falli þó niður ef sá ráðherra er skipaði hann eða tilnefndi lætur af embætti. Hefur þá nýr ráðherra frjálsar hendur ef hann kýs að skipta um fulltrúa.
    Stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna fer með verkefni sem miklu skipta fyrir framkvæmd stefnunnar í menntamálum og ríkisfjármálum. Lánasjóður ísl. námsmanna er einn stærsti liðurinn á fjárlögum íslenska ríkisins. Þar er nú um að ræða um 4000 millj. kr. samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1990, og er af þeim sökum nauðsynlegt að fullt trúnaðarsamband sé jafnan milli fulltrúa stjórnvalda í sjóðsstjórninni og hlutaðeigandi ráðherra. Lagabreytingu þeirri sem hér er gerð tillaga um er ætlað að tryggja þetta svo sem unnt er.
    Sú breyting sem hér er gert ráð fyrir var send til stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna. Stjórnin gerði tillögu um ákveðna skipan þessara mála. Ríkisstjórnin fellst á tillögu stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna og frv. er í raun og veru nákvæmlega eins og stjórn LÍN gerði tillögu um. Það er því gott samkomulag um þessa breytingu á stjórnskipan Lánasjóðs ísl. námsmanna og tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessa lagabreytingartillögu sem slíka og legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.