Námslán og námsstyrkir
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. menntmrh. hefur hér mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um námslán og námsstyrki og er aðalbreytingin fólgin í því að stytta skipunartíma stjórnarmanna þannig að stjórnin verði öll skipuð til tveggja ára, þó þannig að fulltrúar sem ráðherra skipar fylgja ráðherranum, þ.e. umboð stjórnarmanns sem er fulltrúi ráðherra fellur niður ef sá ráðherra sem skipaði hann eða tilnefndi lætur af embætti.
    Þetta frv. á sér nokkurn aðdraganda eins og mönnum er kunnugt um af umræðum í fjölmiðlum. Núv. hæstv. ráðherra hefur nokkuð oft kvartað undan þeirri stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna sem nú situr og látið að því liggja að þar sé um að ræða eitthvert pólitískt stríð þeirra sem í stjórninni eru og þá einkum formanns stjórnarinnar, Sigurbjörns Magnússonar. Í rauninni mætti því kalla þetta frv. til laga um að Sigurbjörn Magnússon skuli láta af störfum sem formaður stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna. Hér er auðvitað um að ræða breytta stefnu Alþb. í þessum málum. Það er kunnara en frá þurfi að segja að einn af forustumönnum Alþb., Ragnar Árnason, sat í stjórn Lánasjóðsins árin 1982--1986, upphaflega tilnefndur af Ragnari Arnalds þáv. hæstv. fjmrh. en sat síðan bæði sem fulltrúi Alberts Guðmundssonar og Þorsteins Pálssonar og datt auðvitað ekki í hug að víkja þótt oft færu fram almennar umræður um það í þjóðfélaginu að þetta væri óeðlilegt. Alþb. sá þá ekki neina ástæðu til þess að framfylgja þeirri stefnu sem hæstv. ráðherra nú leggur til.
    Það er í raun og veru dálítið fróðlegt að huga að því hvað það er sem núv. stjórn, eða sérstaklega núv. formaður stjórnar Lánasjóðsins, hefur unnið sér til óhelgi hjá hæstv. ráðherra og vitna ég þá í margítrekuð ummæli hans í blöðum um það að stjórnin sé í einhvers konar stríði við ráðherrann um málefni Lánasjóðsins. Ef maður fer að skoða þau bréfaskipti sem fram hafa farið milli stjórnar Lánasjóðsins og hæstv. ráðherra kemur í ljós að stjórn Lánasjóðsins, og þá sérstaklega formaður hans, hefur unnið það eitt til saka að vilja hvetja til varfærni í fjármálum sjóðsins. Hann hefur ekki viljað að stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna tæki ákvarðanir sem augljóslega stefndu fjárhag sjóðsins í hættu og stjórnin hefur viljað setja ábyrgð á slíkum ákvörðunum yfir á ráðherra, sem er auðvitað eðlilegt, en undan þessu hefur hæstv. ráðherra mjög kveinkað sér, talað um pólitískt stríð í þessu sambandi sem er auðvitað fjarri öllu lagi.
    Það liggur t.d. fyrir nú að fjárhagur Lánasjóðs ísl. námsmanna á þessu ári er á þann veg að það lítur út fyrir að hann muni þurfa úr ríkissjóði allt að 280 millj. kr. umfram fjárlög. Á þetta hefur stjórn Lánasjóðsins bent ítrekað og það er þetta sem hæstv. ráðherra hefur kveinkað sér undan, að hafa fengið ábendingar af þessu tagi. Ég hef fengið afrit af þeim bréfum sem gengið hafa á milli Lánasjóðsins og hæstv. menntmrh. Það eru ítarleg og löng bréf, en í

rauninni er þetta kjarni málsins í deilum stjórnar sjóðsins við hæstv. ráðherra. Stjórn Lánasjóðsins hefur sem sagt ítrekað bent hæstv. menntmrh. á það að ákvarðanir sem hann hefur verið að taka rúmist ekki innan þeirra fjárveitinga sem Lánasjóðnum eru ætlaðar í fjárlögum.
    Nú er það reyndar svo að í fjáraukalögum, sem hefur verið útbýtt en hafa ekki komist til 1. umr. enn, er gert ráð fyrir í verðbreytingargrein frumvarpsins að Lánasjóðurinn fái 180 millj. kr. til viðbótar á árinu 1989, en allt bendir til þess að Lánasjóðurinn muni þurfa um 100 millj. í viðbót til að geta staðið undir þeim skuldbindingum sem hann hefur tekið á sig gagnvart námsmönnum.
    Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að þetta lagafrv. er í samræmi við hugmyndir sem núv. formaður stjórnar Lánasjóðsins hefur haft en hann neitaði hins vegar að verða við tilmælum hæstv. ráðherra, munnlegum tilmælum, um að hann viki sæti og benti hæstv. ráðherra á að það væri óeðlilegt að hann gerði það nema lögum yrði breytt og hæstv. menntmrh. hefur nú lagt fram frv. í þá veru, enda óeðlilegt að núv. formaður viki sæti að óbreyttum lögum. Þá mundi núv. hæstv. menntmrh. skipa mann sem sæti væntanlega í fjögur ár og enginn veit nema hann yrði fulltrúi annars ráðherra þegar liði á þann tíma.
    Hins vegar verð ég að segja að mér finnst mikið athugunarefni, og það finnst mér rétt að ræða í hv. menntmn. þessarar deildar, hvort þessi skipan mála varðandi stjórn sjóðsins sé rétt. Lánasjóður ísl. námsmanna er stofnun sem veltir miklu fjármagni og fær mikið fé úr ríkissjóði og tekur fé að láni og finnst mér fyllilega athugandi hvort ekki væri rétt að Alþingi kysi stjórn yfir Lánasjóð ísl. námsmanna svo mikilvæg sem þessi stofnun er. Það mætti auðvitað hugsa sér, til þess að halda tengslunum við námsmenn, að námsmannahreyfingarnar tilnefndu áfram beint í stjórnina en stjórnin yrði að öðru leyti, hvort sem það yrðu þrír eða fimm menn, kosin á Alþingi, þannig að þau sjónarmið sem ríkja á Alþingi hverju sinni endurspegluðust í stjórn Lánasjóðsins. Það eru svo mikilvæg mál sem þarna eru á ferðinni að það á auðvitað ekki að vera neitt pólitískt einkamál þess ráðherra sem er að völdum hverju sinni hverjir sitja í stjórn og það er auðvitað fráleitt að gera þá
kröfu, eins og hæstv. ráðherra virðist gera, að þar sitji menn sem hlýði honum í einu og öllu, séu persónulegir fulltrúar hans í stjórn Lánasjóðsins. Mér finnst það vera hugsunarháttur sem ég get ekki fellt mig við og ég tel þess vegna að hv. menntmn. þessarar deildar ætti að hugleiða það betur.
    Þegar fjárlög voru hér til 1. umr. varð allítarleg umræða um fjármál Lánasjóðs ísl. námsmanna, bæði á þessu ári og svo ekki síður á næsta ári, þ.e. því ári sem fjárlagafrv. nær yfir. Ég hef áður minnt á að það vantar enn verulegt fjármagn í Lánasjóðinn til að hann geti staðið undir þeim skuldbindingum, jafnvel þótt samþykktar yrðu þær tillögur sem nú liggja fyrir í fjáraukalögum. Það lítur afar illa út með fjármál

Lánasjóðs ísl. námsmanna fyrir næsta ár. Í frv. er áætlað að sjóðurinn þurfi 2,8 milljarða, þ.e. 2 milljarða 781 millj. 500 þús., á áætluðu meðalverðlagi ársins 1990 til að mæta lánveitingum til námsmanna á árinu 1990. Sem sagt, framfærslulán eru áætluð rúmlega 2 milljarðar 540 millj. kr., en önnur lán, t.d. vegna skólagjalda, 331 millj. kr.
    Nú hefur stjórn sjóðsins unnið að áætlunum um framfærslulán árið 1990 á meðaltalsverðlagi miðað við þær forsendur sem fyrir liggja. Þar á meðal liggur ljóst fyrir að fjöldi lánþega eykst um 7,3% eða úr 6319 nemendum í 6778. Þessar fjöldatölur eru miðaðar við skráðan fjölda umsókna þann 31. okt. 1989 og að lánshlutfall, þ.e. hlutfall á milli lánþega og umsókna, verði það sama og árið á undan.
    Mánaðarlegar lánsupphæðir eru reiknaðar sem raunveruleg framfærsla í október 1989 sem síðan hefur verið hækkuð, annars vegar fyrir Ísland með áætlaðri hækkun framfærsluvísitölu frá því í október 1989 til meðaltalsvísitölu 1990 og hins vegar fyrir lán erlendis með áætlaðri hækkun gengisvísitölu frá október 1989.
    Gert er ráð fyrir að úthlutunarreglur fyrir skólaárið 1990--1991 séu óbreyttar, sérstaklega tekjuskerðingaráhrifin verði 50% eins og á yfirstandandi ári og að sérstöku hækkanirnar, þ.e. 7,5% frá byrjun mars 1989 og 5% frá byrjun september 1989, komi að fullu til áhrifa fjárlagaárið 1990.
    Til grundvallar útreikningi á lánum námsmanna eru í þessum forsendum lagðar uppgefnar tekjur þeirra árið 1989 og reynist rauntekjur þeirra lægri á næsta ári þá þýðir það að áætlaðar lánveitingar á seinni hluta ársins 1990 eru vanáætlaðar.
    Ég skal ekki fara nánar út í þessa útreikninga hér en það er niðurstaða stjórnar sjóðsins að miðað við óbreyttar úthlutunarreglur vanti 517--518 millj. kr. til að tölurnar í fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir nægi til að mæta útlánum sjóðsins á næsta ári. Stjórnin telur að þessi tala sé naumt áætluð og verði um frekari fjölgun umsókna að ræða eða lækki tekjur námsmanna á árinu 1990 frá því sem áætlað hefur verið, þá hækki fjárvöntunin enn frekar.
    Þetta eru ábendingar sem koma frá stjórn Lánasjóðsins og af þessu er ljóst að þær tölur sem eru í því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir duga hvergi nærri til þess að uppfylla þær skuldbindingar sem sjóðurinn hefur tekið á sig miðað við núgildandi úthlutunarreglur og loforð ráðherra.
    Það er athyglisvert að hæstv. menntmrh. hefur ekki treyst sér til, og það kemur glögglega fram í fjárlagafrv. --- ég reikna með að það sé frá hæstv. menntmrh. en sé ekki neinn liður í innanflokksdeilum hæstv. menntmrh. og fjmrh. --- en það kemur í ljós að í fjárlagafrv. eins og það lítur út er ekki gert ráð fyrir því að sá samningur sem hæstv. menntmrh. gerði við námsmenn í byrjun þessa árs um hækkun 1. jan. komi til framkvæmda, það er ekki gert ráð fyrir þeirri hækkun í fjárlagafrv. Reyndar berum orðum fram tekið í fjárlagafrv., í forsendum fjárlagafrv. og grg., að

það sé ekki gert ráð fyrir að hækkunin komi til framkvæmda.
    Mér þótti nauðsynlegt, virðulegi forseti, að þetta kæmi fram hér við þessa umræðu, ekki síst þar sem hæstv. menntmrh. var ekki viðstaddur þegar umræðan um fjárlagafrv. fór fram en þá fór fram allítarleg umræða um fjármál sjóðsins. Mér sýnist því satt að segja að það sé meira áhyggjuefni sem hæstv. menntmrh. stendur frammi fyrir varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna, það séu alvarlegri áhyggjuefni sem hann stendur frammi fyrir en þau sem fram koma í þessu frv. um það hverjir eigi að sitja í stjórn, hvort það séu hans persónulegu fulltrúar eða einhverjir aðrir. Það liggur alveg ljóst fyrir að það þarf að taka mjög rækilega á málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Hæstv. ráðherra hefur skipað sérstaka nefnd í því skyni sem þingflokkur Sjálfstfl. og þingflokkur Kvennalistans óskuðu ekki eftir að taka sæti í, enda var verkefni nefndarinnar skilgreint á þann veg í skipunarbréfi hennar að þar var verið að óska eftir því að við tækjum á okkur þá ábyrgð að sveigja lánareglur undir þær forsendur sem búið er að gefa sér í fjárlögum, sem við höfum auðvitað ekki haft neitt með að gera. Og auðvitað teljum við eðlilegt að ákvarðanir af því tagi verði á ábyrgð ríkisstjórnarinnar en ekki á ábyrgð stjórnarandstöðuflokkanna.
    Mér þótti rétt, virðulegi forseti, að koma þessum athugasemdum að nú við 1. umr. þessa frv. og tel rétt eins og ég sagði að það verði kannað rækilega í nefndinni hvort ekki sé rétt að breyta alfarið um aðferð við að skipa
Lánasjóðnum stjórn, bæði frá því sem er í núgildandi lögum og frá því sem gert er ráð fyrir í þessu frv.